07/08. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Öldungur í Toskana. Páll Ásmundsson

Þátttakendur voru 34 auk fararstjórans Kristins R. Ólafssonar. Flogið var til Písa og ekið þaðan beint til Lucca en þar gistum við fyrstu þrjár næturnar.

Lucca

Lucca er falleg borg og unun að ganga um og skoða fjölda miðaldabygginga. Etrúskar lögðu drög að borginni sem varð rómversk nýlenda 180 fyrir Krist. Á 12. öld varð hún sjálfstætt borgríki og græddi um tíma vel á silkiverslun. Napóleon lagði hana undir sig 1805 og fól systur sinni yfirráð yfir borginni næstu 10 árin. Hún var síðan innlimuð í ítalska konungsríkið. Myndarlegur virkisveggur kringum borgina mun vera frá endurreisnartímanum.


Hér hlýðir hópurinn á leiðsögukonu á hinu sporöskjulagaða Piazza Anfiteatro í Lucca sem áður var
hringleikatorg á rómverska tímanum.

Cinqueterre og Portovenere

Farið var í dagsferð til þessara staða sem í raun eru í héraðinu Liguriu og teljast til ítölsku Rivierunnar. Hið fyrrnefnda er brött klettaströnd með 5 þorpum sem „hanga“ utan í bröttum hlíðum. Eitt þorpanna er Vernazza og þaðan sigldum við í leiðindaveðri suður með ströndinni að sannkallaðri friðarhöfn, Portovenere. Allt þetta svæði er á heimsminjaskrá UNESCO.


Sankti Péturskirkjan er áberandi kennileiti í Portovenere.

Pisa, Bolgheri, Volterra

Frá Lucca var haldið áleiðis til næsta næturstaðar, Siena. Á leiðinni var höfð viðkoma á þremur stöðum.

Fyrst var gerður stuttur stans í Písa.

Öll munum árla rísa,
upp- því nú skulum -lýsa
hvort það er satt
að halli undir flatt
heimsfrægi turninn í Písa.

Að því staðfestu var haldið til Bolgheri, lítils þorps 60 km sunnan við Písa. Aðkeyrslan liggur um fögur göng ævagamalla kýprustrjáa. Þarna fórum við í vínsmökkun og skoðuðum þorpið.
Næst lá leiðin til borgarinnar Volterra sem stendur uppi á lágu fjalli. Þar var  mikilvægur etrúskabær. Rómverjar réðu þar lengi, síðar Flórensmenn og varð borgin hluti af Toskanahertogadæminu.




Rústir af rómversku leikhúsi í Volterra.

Siena

Þar var gist eina nótt og farin skoðunarferð um borgina. Siena varð tæpast borg fyrr en Rómverjar komu til sögunnar. Velgengi fór vaxandi á 12. öld og náði hámarki á 13. og 14. öld undir yfirráðum Flórens. Hnignun varð eftir að svarti dauði lagði meirihluta íbúanna að velli 1348. Meðal mannvirkja frá velmegunartímanum má nefna aðaltorgið Piazza del Campo og dómkirkjuna.


Dómkirkjan í Siena.

Via Chiantigiana

Frá Siena var haldið áleiðis til Flórens um svonefndan Chiantiveg sem hlykkjast um hæðir og dali hins mikla vínræktarhéraðs. Hvarvetna blöstu við vínekrur sem enn voru skammt á veg komnar. Stansað var í tveimur vinalegum smábæjum, Radda og Greve.

Flórens

Hér var gist í 4 nætur. Borgin er meðal helstu menningarfjársjóða heims. Hér er talin vagga renaissance tímabilsins er markaði endalok miðalda. Árið 59 fyrir Krist reistu Rómverjar herstöðina Florentia í mýrlendi á bökkum Arnofljóts. Hér var smábær fram á 10. öld er vegur hennar tók að vaxa. Þótt aðeins þriðjungur borgarbúa lifði af svarta dauða 1348 náði veldi og menning Flórens hvað hæstum hæðum fljótlega eftir pláguna og þá undir yfirráðum Mediciættarinnar sem ríkti í nærfellt 300 ár.


Sólsetur í Flórens. Dómkirkjan og klukkuturn hennar blöstu við af þaki hótels okkar.

 

Útsýni úr Uffizisafninu niður eftir Arno. Vecchiobrúin er næst 6 brúa sem sjást á myndinni. Efst  á Vecchiobrúnni og næst til hægri sjást glöggt göng þau sem liggja frá Palazzo Vecchio um Uffizi,  yfir Vecchiobrúna að Palazzo Pitti. Um þau fór fyrirfólkið milli hallanna tveggja.

Mílanó og heim

Frá Flórens fórum við um Appenínafjöllin til Mílanó þar sem við gistum síðustu nóttina. Lítill tími gafst til skoðunar en flestir náðu að skoða dómkirkjuna miklu og Teatro alla Scala. Heim var flogið með fyrsta flugi Icelandair þetta sumar.


Dómkirkjan í Mílanó.

Ingólfur Gíslason og Lapi

„Lapi er og Lapi verður listamannakrá” orti Davíð Stefánsson. Hann, ásamt þeim Ingólfi Gíslasyni lækni og Ríkarði Jónssyni myndhöggvara, kom til Flórens rétt fyrir jól 1920 og dvöldu þeir félagar um hríð í borginni. Í bók sinni Læknisævisegir Ingólfur frá téðri krá. Buca Lapi, eins og hún raunar heitir, fyrirfinnst enn og er nú matsölustaður í dýrari kantinum. Nokkrir í hópnum okkar snæddu þar og létu vel af, en söknuðu sjálfsagt fjörsins sem áður var. Er hópurinn gekk þar framhjá söng Sveinn Einarsson fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri eitt erindi ljóðsins staðnum og Davíð til heiðurs. En Ingólfi Gíslasyni segist svo frá:

Geta verður um veitingastað einn í Firenze, sem „Lapi“ nefnist. Virðist vera tízka meðal ferðamanna að koma þangað stöku sinnum á kvöldin. Þetta var kjallari, eigendur þrír bræður, sem sjálfir veittu gestum beina. Einn stóð í hvítum klæðum við eldstæði og sauð og steikti mat, en hinir báru veitingarnar út meðal gestanna. Voru þeir allir háværir mjög, ávörpuðu þá, sem inn komu, og buðu þá velkomna, og auðséð var á öllu, að þeir vildu, að gestirnir skemmtu sér vel. Báðu flestir um rauðvín og ávexti og neyttu þess með góðri lyst. Hljóðfærasveitin var þrír menn, spilaði einn á stóra harmóniku, en annar á guitar, sá þriðji hafði víst ekkert hljóðfæri, en þeir sungu allir undir ýms fjörug lög; sungu þá gestirnir oft með. Stundum söng einhver af gestunum einsöngva. Man ég einkum eftir einum góðum sænskum söngmanni, sem söng snilldarlega tvö eða þrjú sænsk lög, en hinir þögðu náttúrlega á meðan, en spiluðu bara undir. Ekki höfðu ítölsku söngmennirnir þarna neitt á móti því að fá rauðvínsglas hjá gestunum, þegar þeim hafði tekizt upp við eitthvert lagið. Þegar á kvöldið leið, ruddu veitingamennirnir stundum borðum frá í miðjum salnum, svo unga fólkið gæti fengið sér snúning, og lét það þá ekki standa á sér.


Ingólfur Gíslason



 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica