07/08. tbl. 99.árg. 2013

Umræða og fréttir

Hrafn Sveinbjarnarson - höfðingi, pílagrímur og læknir


Ráðstefna á Hrafnseyri við Arnarfjörð 24. ágúst 2013

Hrafn Sveinbjarnarson er talinn fyrstur lærðra íslenskra lækna. Hann fæddist að öllum líkindum 1166 og var af læknum kominn. Hann var miklum mannkostum búinn, bjó stórbúi á Eyri við Arnarfjörð og var þar goðorðsmaður. Af lækningum hans fór miklum sögum. Hann nam þær í fyrstu af föður sínum, en síðan fór hann suðurveg til St. Gilles eða Ílansborgar á Spáni þar sem Jóhannesarriddarar kenndir við Jóhannes skírara helguðu líf sitt aðhlynningu sjúkra og særðra. Þaðan fór Hrafn til Rómar og er líkum að því leitt að hann hafi numið við læknaskólann í Salerno skammt sunnan Rómar, en þar var líklega fyrsti læknaskóli heims, stofnaður á 9. öld. Hrafn átti í deilum við Þorvald Vatnsfirðing Snorrason árum saman, og varð hann Hrafni að bana í mars 1213, fyrir réttum 800 árum. Synir Hrafns hefndu föðurmorðins 12 árum síðar með því að brenna inni Þorvald Vatnsfirðing.

Ráðstefna um Hrafn verður haldin á Hrafnseyri 24. ágúst n.k. og eru hér að neðan ágrip erinda sem þar verða flutt. Annar leiðari þessa tölublaðs Læknablaðsins er jafnframt helgaður Hrafni.


Lækningar og sáluhjálp. Um viðhorf til lækninga í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar

Ásdís Egilsdóttir

Ásamt jarteinum íslensku dýrlinganna er Hrafns saga Sveinbjarnarsonar mikilvægasta heimildin um sjúkdóma, lækningar og viðhorf til lækninga á miðöldum á Íslandi. Í upphafi þeirrar gerðar Hrafns sögu sem varðveitt er sérstök segir frá því hvernig hæfileikinn til lækninga kom inn í ætt Hrafns. Það gerðist „af guðs miskunn“ fyrir tilstilli Ólafs helga. Sá munur er einkum á frásögnum Hrafns sögu og jarteinum að Hrafn er læknir að störfum í lifanda lífi en ekki dýrlingur sem ákallaður er með bænum. Í öllum tilvikum er þó ljóst að læknirinn eða dýrlingurinn vinnur verk sín ekki af eigin rammleik. Hinn eiginlegi læknir er Guð og veraldlegur læknir getur veitt mönnum líkn fyrir hans náð. Þetta kemur skýrt fram í lengstu lækningasögunni í Hrafns sögu þar sem Hrafn læknar mann af steinsótt. Áður en Hrafn gerir aðgerð á sjúklingnum leitar hann til presta og pater noster (faðir vor) er sungið fimm sinnum meðan sjálf aðgerðin er framkvæmd. Þannig er annar læknir að störfum ásamt Hrafni. Sá munur er einnig á jarteinum og Hrafns sögu að meiri áhersla er á hinum veraldlega lækni og hlutdeild hans í Hrafns sögu. Í jarteinum beinist athyglin meira að þeim sem þurfa á hjálp að halda. Dýrlingurinn er þá oftast látinn og orðinn meðalgöngumaður milli Guðs og manna. Mikilvægustu jarteinir dýrlinga eru endurómur af Spádómsbók Jesaja 35, 5 – 6 og sögum af lækningum Krists í guðspjöllunum. Þannig er frá því greint í Jarteinabók Þorláks helga frá 1199 að blindur maður hafi fengið sýn og daufur heyrn fyrir meðalgöngu dýrlingsins. Athyglisvert er að ekki er frá því greint að Hrafn hafi læknað blinda eða heyrnarlausa. Eina lækningin í Hrafns sögu sem gæti átt sér samsvörun í biblíulegum undirstöðujarteinum er sagan um Þorgils nokkurn „er tók vitfirring“. Lýsingin á Hrafni í Hrafns sögu minnir um margt á heilagra manna sögur en dýrlingur varð hann þó ekki. Ef svo hefði verið er líklegt að bætt hefði verið við biblíulegum jarteinum og lýsingar á lækningum Hrafns hefðu tekið á sig blæ jarteina. Jarteinir voru ekki einungis skráning á sjúkdómum og lækningum við þeim heldur voru þær vitnisburður um mátt Guðs og áttu að minna á upprisuna á dómsdegi. Þannig voru þær um leið sífelld áminning um mikilvægi sáluhjálpar. Höfundi Hrafns sögu er umhugað um sáluhjálp eins og títt er um miðaldahöfunda. Sagt er um Hrafn Sveinbjarnarson að hann hafi ekki metið lækningar sínar til fjár og að hann hafi alið önn fyrir fátækum sjúklingum þar til þeir höfðu náð heilsu. Sagan gefur þó til kynna að Hrafn hafi ekki verið launalaus.  Laun hans voru í formi sáluhjálpar, því Kristur veitti honum „andliga lækning á dauðadegi hans“.  Honum er lýst sem örlátum og hjálpsömum manni sem gaf öllum þeim sem komu á heimili hans mat og húsaskjól. Þá er sagt að hann hafi látið flytja alla yfir Arnarfjörð sem á þurftu að halda, einnig átti hann skip á Barðaströnd og lét flytja menn á því yfir Breiðafjörð: „Ok af slíkri rausn Hrafns var sem brú væri á hvárum tveggjum firðinum fyrir hverjum er fara vildi“. Brúarsmíði taldist til kristilegra dyggða á miðöldum. Fégjafir til brúarsmíði jafngiltu því að gefa fé til kirkju. Brúin kom ferðalöngum milli staða og yfir torfærur. Í táknheimi miðaldakristninnar vísaði brúin sálum hinna látnu á hinn rétta veg til Guðs. Hrafns saga dregur fram að hæfileikinn til að lækna sé þeginn af Guði og lækningarnar eru þannig liður í guðrækni Hrafns. Hann kemur sjúkum til hjálpar og getur vænst sáluhjálpar fyrir góðverk sín.

Þvagfæraskurðlæknirinn Hrafn Sveinbjarnarson

Eiríkur Jónsson

Í sögu Hrafns segir af læknislist hans. Hann læknar meðal annars sjúka með aðferðum sem kuklarar allra alda gætu verið stoltir af. Þá stekkur allt í einu fram, eins og skrattinn úr sauðarleggnum, fullsköpuð aðgerðarlýsing. Hún er einstök í íslenskum fornbókmenntum og þótt víðar væri leitað. Hrafn sker til þvagblöðru-steins sem hann hefur áður fært niður og skorðað af í þvagrás karlmanns sem þjáðist af steinsótt. Aðgerðarlýsingin er nákvæm og fylgir bestu þekkingu þess tíma. Steinsótt hefur fylgt mannkyninu og ráð við henni verið kunn meðal elstu siðmenninga. Hippókrates tekur það til að mynda sérstaklega fram, að engir nema þeir sem hafa þar til bæra þekkingu skeri til steins. Fram eftir öldum var skorið eftir steinum um þvagrás eða með spangarskurði sem verður að teljast mjög torfarin leið til þvagblöðrunnar enda lágu margir sjúklinganna í valnum eftir slíka meðferð. Steinskurðarmenn voru því sérhæfðir farandlæknar í evrópskum borgum á miðöldum og hurfu gjarnan af vettvangi í skjóli nætur af augljósum ástæðum. Um síðir hugkvæmdist læknum að skera ofan lífbeins (sectio alta) til þess að ná í blöðrusteina enda er sú leið greiðari til þvagblöðrunnar. Í samanburði við spangarskurð er þvagrásarskurður mun auðveldari og hættuminni. Það varð þó að tryggja að steinninn færðist ekki upp til þvagblöðrunnar eftir að hann var skorðaður af og því ráð að hnýta fyrir ofan hann. Einnig var húð limsins áður dregin niður með því að toga forhúðina fram og hnýta þar einnig. Sú hnýting var gerð til þess að húðin á skurðsvæðinu drægist til baka eftir skurðinn sem tryggði betri lokun skurðsársins. Hjá umskornum karlmönnum varð hins vegar að hnýta framan við steininn á sjálfum limnum. Hvaðan kom Hrafni eða söguritara hans þessi þekking? Smáatriði í aðgerðarlýsingunni, svo sem niðurfærsla á steininum frá blöðru til þvagrásar, aðgerðarlýsing sem virðist eiga við aðgerð á umskornum karlmanni, og vera Hrafns á Norður-Spáni leiða hugann til hins mikla Albucasis af Cordóba. Sá var uppi þremur öldum fyrr og skrifaði þrjátíu binda verk um læknisfræði. Verkið var þýtt á latínu um miðja tólftu öld og hafði mikil áhrif á evrópska læknisfræði næstu aldirnar. Í einu binda þess, um skurðlæknisfræði og skurðáhöld, er nær samhljóða aðgerðarlýsing og Hrafn er sagður hafa framkvæmt. Jafnframt því að lýsa fyrstur niðurfærslu þvagblöðru-steins til þvagrásar fann Albucasis upp áhald og aðferð til þess að bora í steininn um þvagrásina og brjóta sundur án skurðar en sú aðferð barst til Íslands tæpum 800 árum eftir daga Hrafns.

Skurðlæknisfræði er farsælust í réttum hlutföllum fræða og færni. Fór hvort tveggja saman forðum daga á Eyri og þá undir áhrifum márans Albucasis? Hafi svo verið þá var Arnfirðingurinn Samúel í Selárdal ekki fyrstur þeirra héraðsbúa að leita í smiðju Andalúsíumanna.

Höfðingi nýrra tíma. Hrafn Sveinbjarnarson í samtíð sinni

Torfi H. Tulinius

Hrafn Sveinbjarnarson var höfðingi á sunnanverðum Vestfjörðum á áratugunum kringum 1200. Þá urðu miklar breytingar á skipan valds í íslensku samfélagi. Héraðsríki höfðu smám saman orðið til á Suðurlandi, þar sem Haukdælir réðu vestan Þjórsár en Oddaverjar fyrir austan. Svínfellingar virtust hafa öll völd á Austurlandi. Ásbirningar stýrðu Skagafirði, um leið og þeir seildust til áhrifa í Eyjafirði. Þórður Sturluson skapaði sér veldi á Snæfellsnesi og Snorri bróðir hans í Borgarfirði, en komst líka yfir staði og goðorð annars staðar. Þriðji bróðirinn, Sighvatur, hafði farið með erfðaveldi þeirra bræðra í Dölunum en lét Sturlu syni sínum það eftir þegar hann flutti norður í Eyjafjörð til að hasla sér völl á nýtilkomnu valdasvæði mága sinna af Ásbirningaætt. Þessar breytingar í átt að héraðsríkjum höfðu áhrif á stöðu rótgróinna goðaætta á Vestfjörðum, þeirra Vatnsfirðinga með Þorvald Snorrason í broddi fylkingar, og Seldæla sem lutu forystu Hrafns. Þessa nýju tíma ber að hafa í huga til að skilja átökin sem leiddu til dauða Hrafns fyrir átta hundruð árum. Margt bendir til þess að Hrafn hafi ætlað að feta svipaða slóð og reyna að breyta erfðagoðorði sínu í héraðsríki. Eins og margir höfðingjar, fær hann annað goðorð að gjöf og líkt og þeir reynir hann að fyrirbyggja að líklegir keppinautar komist til áhrifa á því svæði sem hann hefur helgað sér. Vaxandi spenna milli þeirra Þorvalds skýrist vafalítið af því að sá síðarnefndi taldi veldi sínu ógnað af uppgangi Hrafns. Sennilega gerir Hrafns saga minna úr ágengni Seldælsins í frásögninni af deilum þeirra Þorvalds. Að minnsta kosti er ekki ólíklegt að Hrafn hafi gerst nærgöngulli við þingmenn Vatnsfirðingsins en sagan greinir frá  til að sýna hver væri valdamestur á Vestfjörðum.

Hrafn var líka höfðingi nýrra tíma í samskiptum sínum við kirkju og kristni. Hann vingaðist við biskupinn í Orkneyjum og þá af honum verðmæta gripi. Hrafns saga segir einnig frá ferðum hans til helgra staða í Evrópu. Síðast en ekki síst er mikið gert úr vináttu Hrafns og Guðmundar Hólabiskups. Hrafn var því af þeirri tegund leikra höfðingja sem unnu náið með kirkjunni. Höfundur sögunnar dregur jafnframt fram að Hrafni var í mun að þjóna vel þeim sem undir hann voru settir. Hann sá þurfamönnum fyrir mat, greiddi fyrir samgöngum á valdasvæði sínu og stundaði lækningar án endurgjalds. Um leið og hann aflaði sér vinsælda styrkti það ímynd hans sem trúrækinn höfðingi sem lifði í góðri sátt við guð og fulltrúa hans á jörðinni, heilaga kirkju.

Þótt sókn Hrafns til valda virðist í mótsögn við þessa ímynd, var það varla svo í hugum samtímamanna hans, þegar kirkjan og leikir höfðingjar hvarvetna í Evrópu tömdu sér nýja samskiptahætti.

Barátta góðs og ills á Vestfjörðum

Óttar Guðmundsson

Sturlunga er merkileg bók sem dregur upp fremur dapurlega mynd af íslenskum höfðingjum á 12. og 13. öld. Sagan einkennist af endalausum bræðra- og frændvígum þar sem fjölskyldur og vinir berast á banaspjótum og drepa hver annan miskunnarlaust. Í lok 13. aldar er búið að vængstýfa helstu fjölskyldur landsins með því að drepa fegurstu ættarlaukana. Kristileg lífsgildi voru sjaldnast höfð í hávegum þótt finna megi undantekningar frá þeirri reglu. Fremstan í þeim hópi verður að telja Hrafn Sveinbjarnarson höfðingja að Eyri við Arnarfjörð á Vestfjörðum. Sagan fer um hann fögrum orðum og lýsir dýrlingi fremur en dauðlegum manni. Hann var læknir góður eins og hann átti kyn til og tók ekkert fyrir læknisstörf sín. Hrafn var bóngóður og hjálpsamur og stuðlaði meira að segja að bættum samgöngum á Vestfjörðum. Hann var miskunnsamur gagnvart fjandmönnum  sínum og kunni að fyrirgefa í anda Krists. Það er erfitt fyrir geðlækni að geðgreina slíkt valmenni.

Helsti fjandmaður Hrafns, Þorvaldur Snorrason Vatnsfirðingur er algjör andstæða hans. Þorvaldur leitar ásjár hjá Hrafni í fyrstu en fljótlega vex með þeim ágreiningur sem runninn er undan rifjum Þorvaldar. Hann eflir ófrið við Hrafn og reynir að ráða hann af dögum sem mistekst. Eftir eina slíka tilraun á Hrafn alls kostar við Þorvald en kýs að gefa honum grið, fyrirgefa honum og leysa hann út með gjöfum. Þetta magnaði að sjálfsögðu aðeins hatur Þorvaldar á lækninum og fer svo að Þorvaldi tekst að koma Hrafni á óvart og handtekur hann. Hrafn biður sér griða og lofar öllu fögru en Þorvaldur lætur taka hann af lífi.

Enginn vafi er á því að Þorvaldur Snorrason Vatnsfirðingur er persónuleikaraskaður siðblindur og ákaflega sjálfmiðaður maður. Sagan segir að einhverju sinni hafi hann legið með tveimur frillum sínum í lokrekkju þegar fjandmenn hans reyndu að brenna hann inni. Hann er narsissískur og hégómlegur, öfundsjúkur, afbrýðisamur, viðkvæmur og barnalegur eins og reyndar er títt um höfðingja á öllum tímum. Sennilega hefðu nútímageðlæknar greint hann með fjölmargar aðrar persónuleikaraskanir auk siðblindunnar.

Sagan af Hrafni og Þorvaldi er frásögn af viðureign tveggja ólíkra manna þar sem Þorvaldur er jafn illur og Hrafn er góður. Kannski má segja að illmennska Þorvaldar dragi góðmennsku og göfuglyndi Hrafns fram og fyrir vikið verði hann enn betri og heilagri enda eru þeir á sitt hvorum jaðri mannkostalitrófsins. Sýkópatinn tekst á við heiðarlegt göfugmenni.

Í þessari glímu fer svo að hið illa sigrar. Hrafn hefði getað leyst öll sín vandamál gagnvart Þorvaldi og þeim Vatnsfirðingum með því að drepa hann þegar hann átti þess kost. Hann valdi að hafa kristna siðfræði að leiðarljósi og galt fyrir þá yfirsjón með lífi sínu. Píslarsaga og dauðdagi Hrafns minnir á endalok Frelsarans sem dó á kvalafullan hátt með fyrirgefningarboðskap sinn á vörunum. Fleiri höfðingjar Sturlungaaldar deila þessari beisku reynslu með Hrafni. Sturla Sighvatsson kaus að þyrma lífi Gissurar Þorvaldssonar og glataði fyrir vikið öllu ríki sínu og lífinu.

Boðskapur sögunnar er því býsna einfaldur. Treystu engum og síst óvinum þínum. Dreptu fjandmenn þína án nokkurrar miskunnar ef þú hefur færi á því. Kristin siðfræði er góðra gjalda verð en hún leiðir þig einungis í dauðann meðan fjandmenn þínir njóta lífsins með frillum sínum í hlýju lokrekkjunnar.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica