06. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Aðbúnaði víða ábótavant og meðferð vanvirðandi

Á ráðstefnu Háskólans í Reykjavík og Rauða krossins um flóttamenn og pyndingar sagði Pétur Hauksson geðlæknir frá reynslu sinni af starfi í nefnd á vegum Evrópuráðsins sem hefur það hlutverk að fylgjast með hvort ómannúðleg meðferð og/eða pyndingar eigi sér stað í aðildarlöndum.

Pétur átti sæti í nefndinni fyrir Íslands hönd í tólf ár en einn nefndarmaður á sæti í nefndinni frá hverju hinna 47 aðildarríkja sem hafa lögfest Sáttmála um varnir gegn pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, eins og hann heitir fullu nafni. Það er því réttara að tala um stofnun á vegum Evrópuráðsins fremur en nefnd, en nefndin hefur aðsetur í Strassborg og hefur á að skipa fjölmennu starfsliði. Á hverju ári fara sendinefndir á vegum nefndarinnar í skoðunarferðir til nokkurra aðildarlanda, kynna sér aðbúnað á lögreglustöðvum, geðsjúkrahúsum, vistheimilum, fangelsum, unglingaheimilum og flóttamannabúðum, ræða við fólk sem þar dvelur og skilar síðan skýrslu til stjórnvalda um ástand og hvort reglur um mannúðlega meðferð og aðbúnað séu brotnar.


Íslensk stjórnvöld hétu því að byggja nýtt fangelsi árið 1998. „Það er pínlegt að nefndin þurfi nú aftur að ítreka mikilvægi þess að standa við loforðið,”  segir Pétur Hauksson geðlæknir.

Pyndingar, ómannúðleg og vanvirðandi meðferð

„Tilgangurinn er að komast að því hvort ómannúðleg meðferð eða pyndingar eiga sér stað og nefndin hefur leyfi til að ræða við fólk sem svipt hefur verið frelsi sínu án viðveru eða afskipta starfsmanna  viðkomandi stofnunar. Skýrslur nefndarinnar til viðkomandi stjórnvalda eru trúnaðarmál þar til stjórnvöld ákveða að birta þessar upplýsingar. Öll ríkin hafa birt a.m.k. eina skýrslu og sum leggja metnað sinn í að birta skýrslurnar sem allra fyrst, en þó eru nokkur sem þráast við og og vilja ekki að sannleikurinn komi í ljós, birta helst ekki skýrslur nefndarinnar og fara ekki að ráðleggingum um bættan aðbúnað og betri meðferð.”

Pétur segir að ómannúðleg meðferð og pyndingar í Evrópulöndum séu sjaldnast af þeim miðaldakennda toga sem fólk sér gjarnan  fyrir sér. „Oftar er um að ræða slæma og ómannúðlega meðferð á fólki sem svipt er frelsi sínu af ýmsum ástæðum. Þriðja grein mannréttindasáttmála Evrópu bannar ekki einungis pyndingar heldur alla ómannúðlega og vanvirðandi meðferð á fólki. Hlutverk nefndarinnar er að gæta þess að aðildarlöndin fari eftir þessari grein sáttmálans. Frá þessari grein sáttmálans eru engar undanþágur eða undantekningar. Bannið er því algjört en því miður verður að segjast að sendinefndir nefndarinnar hafa nánast alls staðar fundið eitthvað sem stangast á við þessa grein, hvað varðar slæman aðbúnað og vanvirðandi meðferð á fólki. Ég nefni sem dæmi að á Norðurlöndunum tíðkast enn að fjötra geðsjúkt fólk niður í rúmum sínum dögum saman, jafnvel svo vikum eða mánuðum skiptir. Þetta er klárt brot á þriðju greininni og nefndin hefur ítrekað gert mjög alvarlegar athugasemdir við þessa valdbeitingu gagnvart sjúklingum á geðdeildum. Í Danmörku er nýlega búið að samþykkja nýja geðheilbrigðislöggjöf sem hefur það meginmarkmið að draga úr nauðung á geðdeildum, en þrátt fyrir það eru skýrar upplýsingar um að þetta viðgangist enn í verulegum mæli og hefur ekkert dregið úr því.

Þetta á reyndar ekki við um Ísland þar sem slíkt er bannað og hefur ekki tíðkast en hluti skýringarinnar er fólginn í því að hér eru geðsjúkir ekki sviptir sjálfræði sínu jafn ótæpilega og á hinum Norðurlöndunum. Nauðungarinnlögn fylgir gjarnan frekari nauðung. Reyndar eru sjálfviljugir sjúklingar einnig fjötraðir, og eru því í raun nauðugir viljugir. ”

Getum horft til baka án þess að hneykslast

Annað dæmi frá fyrirmyndarríkinu Noregi er að sögn Péturs aðbúnaður gæsluvarðhaldsfanga. „Þeir eru vistaðir dögum saman í klefum á lögreglustöðvum sem gerðir eru fyrir 12 tíma hámarksvistun og það er klárt brot á reglum um aðbúnað og mannúðlega meðferð. “ 

Sendinefnd hefur nýlega gert úttekt á ástandi þessara mála á Íslandi og skilað skýrslu sinni til íslenskra stjórnvalda. „Ég tók ekki þátt í þeirri vinnu þar sem sú regla gildir að nefndarmenn  taka ekki þátt í rannsókn á ástandi í sínu heimalandi. Íslensk stjórnvöld hafa ekki opinberað skýrsluna ennþá en ég geri ráð fyrir að í henni séu athugasemdir um sitthvað sem betur megi fara þó ástandið hér sé allgott miðað við ýmis önnur Evrópulönd. Ástandið er þó sýnu verst eftir því sem austar í álfuna dregur og þar eru yfirvöld líka tregust til úrbóta.“

Hingað til Íslands hefur sendinefnd komið þrisvar sinnum á undanförnum tveimur áratugum og segir Pétur að langur tími milli heimsókna sé til marks um að ástandið sé almennt talið tiltölulega gott hérlendis. Sum lönd eru undir árlegu eftirliti en Pétur nefnir að í fyrstu heimsókn nefndarinnar hingað árið 1993 hafi aðbúnaður fanga og meðferð þeirra í Síðumúlafangelsinu og Hegningarhúsinu verið harðlega gagnrýnd. „Hið fyrrnefnda var rifið í kjölfarið og nefndinni var lofað nýju fangelsi sem átti að taka í notkun 1998. Það er pínlegt að nefndin þurfi nú aftur að ítreka mikilvægi þess að standa við loforðið.”

Pétur segir nýlega umræðu um meðferð og aðbúnað sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu vera þarfa áminningu til íslenskra yfirvalda um að stöðugt þurfi að fylgjast með hvernig í pottinn sé búið. „Hugsanlega eru atriði í nýjustu skýrslu nefndarinnar til íslenskra stjórnvalda  þess eðlis að eftir 10-20 ár verður hneykslast á því hvernig þetta var látið viðgangast. Fáir hneyksluðust á meðferð sakborninganna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu meðan á því stóð á 8. áratug síðustu aldar. Af því má draga nokkurn lærdóm.”

Þrátt fyrir athugasemdir nefndarinnar til stjórnvalda á Norðurlöndunum og í Vestur-Evrópu hefur meginþungi starfsins beinst að löndum þar sem vitað er að pyndingar hafa viðgengist athugasemdalaust um árabil. „Það hefur náðst mjög mikill árangur í landi eins og Tyrklandi þar sem pyndingar og mjög slæm meðferð í fangelsum þótti ekki tiltökumál fyrir nokkrum árum. Á geðspítölum voru raflækningar veittar þar án svæfinga eða vöðvaslakandi lyfja þar til fyrir fáum árum. Þetta hefur gerbreyst og yfirvöld hafa bókstaflega snúið við blaðinu og tekið athugasemdir nefndarinnar mjög alvarlega. Rússland er aftur á móti dæmi um land þar sem yfirvöld hafa lítið gert með athugasemdir nefndarinnar og virðast telja sig yfir þær hafin, á sama tíma og vitað er að í fangelsum þar í landi  er  meðferð fanga mjög ómannúðleg. Aðbúnaði geðsjúkra í Rússlandi og öðrum Austur-Evrópuríkjum er einnig mjög ábótavant víða og stenst engan veginn kröfur um mannúðlega meðferð.”

Móttökur magna upp fyrra áfall

Þegar talið berst að meðferð flóttamanna í ríkjum Evrópu segir Pétur dæmið snúast að nokkru leyti við. „Þar er oft um að ræða einstaklinga sem beittir hafa verið ofsóknum, pyndingum og öðru harðræði í heimalandi sínu og flúið til annars lands. Þeir eru fangelsaðir, og ef  móttökurnar eru  slæmar er það vel þekkt að þeir upplifa það sem meira áfall en ofsóknirnar heima fyrir. Til að átta sig á þessu þarf  að skilja hvað felst í áfallaröskun þar sem svona síðbúið áfall getur kallað fram og  magnað áhrifin af fyrra áfalli. Það þarf því að taka á móti flóttamönnum með vel undirbúnum og sértækum hætti. Oft eru þessir einstaklingar kallaðir ólöglegir innflytjendur og meðhöndlaðir sem lögbrjótar en hvorttveggja er í rauninni rangt þar sem þeir eru yfirleitt hvorki ólöglegir né innflytjendur.”

Pétur segir að almennt þurfi að gæta vel að því hvernig rætt er við hælisleitendur. „Hælisleitendur verða stundum  margsaga um einstök atriði í flótta sínum en  þetta er iðulega notað gegn þeim, og þeir sagðir ótrúverðugir. Þetta er hinsvegar mjög vel þekkt einkenni áfallaröskunar, þar sem minningar eru brotakenndar og einstaklingurinn á erfitt með að muna atburðarás og segja skipulega frá. Til að átta sig á sannleiksgildi frásagnarinnar þarf því bæði fagmennsku og skilning áður en viðkomandi er hafnað á grundvelli ótrúverðugleika.”Þetta vefsvæði byggir á Eplica