06. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Á fjallaskíðum á Eyjafjallajökli


Horft til austur af hábungu Eyjafjallajökuls á sumardaginn fyrsta. Hámundur fyrir miðju (1666 m)
og Guðnasteinn til hægri.

Áhugi á útivist fer áfram vaxandi meðal landsmanna. Fátt hleður betur batteríin eftir langan vetur en góður dagur á fjöllum. Félag Íslenskra FjallaLækna (FÍFL) er nú að komast í sumarskap eftir kaldan en fallegan vetur. Um miðjan maí var farin ógleymanleg ferð frá Kvískerjum á Sveinstind í Öræfajökli (2044 m) í fótspor Sveins Pálssonar læknis og náttúrufræðings. Greint verður nánar frá þeirri ferð síðar í tengslum við 100 ára afmæli útgáfu Læknablaðsins á næsta ári. Veður hefur gert FÍFLum lífið leitt s.l. haust og aftur í vor. Fyrir vikið hefur ítrekað þurft að fresta ferðum, m.a. vorferðinni, og ekkert varð af göngu á Hrútfell á Kili síðastliðið haust vegna slæms veðurs þrjár helgar í röð. Hrútfell er þó enn á sínum stað og verður lagt að velli næst haust. Verður sú ferð auglýst nánar síðar. Annars eru sumir félagsmenn komnir á fjallaskíði og hafa ýmsir jöklar sunnanlands verið lagðir að velli í vetur og vor. Eins og fram kemur á heimasíðu félagsins www.fifl.is var aðalfundur haldinn á hæsta tindi Eyjafjallajökuls, Hámundi (1666 m), á sumardaginn fyrsta. Fámennt var á fundinum og gengu aðalfundarstörf því óvenjuvel. Eftir stjórnarkjör var skíðað að Seljavöllum í púðursnjó með stórbrotið útsýni til sjávar.


Fundarmenn að loknum aðalfundi,frá vinstri. Tómas Guðbjartsson, Ólafur Már Björnsson og
Magnús Gottfreðsson. Myndin er tekin í vesturátt af Hámundi og það sést grilla í gíginn frá síðasta
gosi og í Goðastein.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica