06. tbl. 99. árg. 2013
Umræða og fréttir
Lækningaminjasafnið verði áfram í Nesi
Læknafélögin og Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar á Íslandi efna til vorfagnaðar í húsi Lækningaminjasafns að Nesi á Seltjarnarnesi þann 7. júní. Framtíð safnsins er í uppnámi eftir að Seltjarnarnesbær sagði sig frá samkomulagi við menntamálaráðuneytið og læknafélögin um uppbyggingu Lækningaminjasafns um síðustu áramót.
Það lá mikil eftirvænting í loftinu þegar fyrsta skóflustungan var tekin að
Lækningaminjasafninu þann 5. september 2008. Sameiginleg skóflustungan
var tekin af þeim Önnu Kr. Jóhannsdóttur ritara Læknafélags Reykjavíkur,
Jónmundi Guðmarssyni þáverandi bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar, Þorgerði
Katrínu Gunnarsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, Margréti
Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði og Birnu Jónsdóttur þáverandi formanni
Læknafélags Íslands.
Safnbyggingin er um 1600 fermetrar að stærð á tveimur hæðum. Samkvæmt teikningum er gert ráð fyrir sýningar- og fundarsölum, kaffistofu og safnbúð auk skrifstofurýmis og bókasafns á fyrstu hæð hússins. Kjallarinn verður nýttur undir geymslur og tæknirými.
Óttar Guðmundsson formaður FÁSL segir að vorfagnaðurinn sé haldinn í nýbyggingu Lækningaminjasafnsins til að vekja athygli lækna á framtíðarmöguleikum við notkun hússins.
„Húsið er munaðarlaust og framtíð þess er óráðin. Við viljum afla þeirri hugmynd brautargengis að þarna verði miðstöð læknafélaganna auk Lækningaminjasafns. Húsið er nærri 1600 fermetrar að stærð og með nauðsynlegum breytingum á teikningum innra skipulags mætti koma þessari starfsemi fyrir með haganlegum hætti.
Við vonumst til þess að læknar fjölmenni á vorfagnaðinn og sjái með eigin augum hversu stórkostlegt hús þetta er og staðsetning þess einstök, bæði í sögulegu og umhverfislegu samhengi,” segir Óttar Guðmundsson.
Formaður Læknafélags Reykjavíkur Steinn Jónsson er einn forgöngumanna um þessa hugmynd en segir að kanna verði vandlega fjárhagslegan grundvöll áður en haldið verður lengra. „Læknafélögin ættu að hafa forgöngu um að nýta húsið í upphaflegum tilgangi og leita samstarfs við mennta- og menningarmálaráðuneytið um nýtingu hússins. Lækningaminjasafnið er upphaflega gjöf Jóns Steffensens og meðan ekki er ljóst hvað verður um húsið er framtíð safnsins í uppnámi. Við vildum gjarnan sjá þarna miðstöð læknafélaganna ásamt lækningaminjasafni enda er húsið nægilega stórt til að hýsa alla þessa starfsemi.“
Deildarfundur Læknadeildar HÍ samþykkti þann 15. maí ályktun þar sem „hvatt er til þess að allra leiða verði leitað við að ljúka uppbyggingu lækningaminjasafnsins og hleypa rekstri þess af stokkunum.”
Húsið er hið glæsilegasta á einum fallegasta stað á höfuðborgarsvæðinu.
Ennfremur segir í ályktuninni:
„Í sögu íslenskrar læknisþjónustu er Nes merkasti staður landsins og þar hófst formleg læknakennsla á Íslandi fyrir um 250 árum.
Jón Steffensen, prófessor í Læknadeild í áratugi, vann ötult starf við að koma á fót lækningaminjasafni og gaf allar eigur sínar til safnsins eftir sinn dag.
Það yrði óbætanlegt menningarslys fyrir íslenska lækningasögu og læknamenntunarsögu ef sú uppbygging lækningaminjasafns sem hafin er í Nesi rynni út í sandinn.”
Þorbjörn Jónsson formaður Læknafélags Íslands segir að Stjórn Læknafélags Íslands hafi heilshugar stutt uppbyggingu lækningaminjasafns í Nesi og sú afstaða félagsins sé óbreytt. „Hún endurspeglast líka vel í þeirri staðreynd að félagið hefur í áranna rás lagt umtalsverðar fjárhæðir til þess að safnið yrði að veruleika. Stjórn Læknafélagsins hefur hins vegar efasemdir um að skynsamlegt sé að tengja eða blanda saman rekstri félagsins til framtíðar og uppbyggingu eða rekstri safnsins. Uppbygging lækningaminjasafnsins var sett í uppnám þegar Seltjarnarnesbær ákvað að draga sig út úr verkefninu. Það er ljóst að Læknafélagið hefur ekki burði til að standa að rekstri safns á borð við lækningaminjasafn. Það er hins vegar ekki útilokað að hægt sé að leysa málið með aukinni aðkomu ríkisins að verkefninu og höfum við óskað eftir viðræðum við menntamálaráðuneytið vegna þess.“