06. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Hvað ætlar nýja ríkisstjórnin að gera?

Fyrir tíu árum var kosið til Alþingis og þá var varla minnst á heilbrigðismál. Eftir þær kosningar játaði einn flokksformaðurinn að frambjóðendur allra flokka hefðu verið því afskaplega fegnir því þeir treystu sér einfaldlega ekki til að ræða þau mál af einhverju viti. Hvort vitið var meira í frambjóðendum fyrir nýafstaðnar kosningar skal ósagt látið en þó komust heilbrigðismál á dagskrá, sennilega vegna þess hve mikið fjárveitingar til þeirra hafa verið skornar niður. Og nú er komin ný ríkisstjórn með nýjan loforðalista í formi stjórnarsáttmála.

Fréttir af heilbrigðismálum hafa verið óvenjumiklar undanfarna mánuði og sjaldnast jákvæðar. Niðurskurður á þjónustu og vaxandi óánægja heilbrigðisstarfsfólks með kaup og kjör hafa verið leiðarstefið í þeirri umræðu allri. Landspítalinn hefur verið að drabbast niður og biluð og úrelt tæki hrannast þar upp. Heilsugæslan hefur heldur ekki farið varhluta af niðurskurðinum og víða standa þúsundir manna uppi án heimilislæknis.

Fyrir þessu eru að sjálfsögðu ýmsar ástæður, svo sem sú augljósasta að hér varð efnahagslegt hrun. Í auglýsingu sem Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur og Læknaráð Landspítalans birtu rétt fyrir kosningar segir að nú vanti „15-20 milljarða króna á ári til reksturs heilbrigðiskerfisins miðað við fjárveitingar ársins 2009. Framlög til heilbrigðismála hafa lækkað um 14% síðustu fjögur ár.“

Og nú er komin ný ríkisstjórn með ný áform. Hver skyldu þau vera og hversu vel ríma þau við áhyggjur heilbrigðisstarfsmanna af kerfinu sem þeir starfa í? Víst er um að væntingar til nýrra stjórnvalda eru miklar um úrbætur en eins víst að seint verði menn sammála um hvar á að byrja, hvað er brýnast.


Kristján Þór Júlíusson er stýrimaður
og kennari að 
mennt. Hann hefur verið
bæjarstjóri á Dalvík, Ísafirði og 
Akureyri
og setið á þingi frá 2007.

Bætt lýðheilsa og viðhald Landspítala

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er rétt liðlega 11 blaðsíður að lengd og þar er víða rætt um að kanna, endurskoða og gera úttekt á hinu og þessu. Fátt er fast í hendi, en viljinn merkjanlegur. Í inngangi plaggsins segir til dæmis: „Bætt lýðheilsa og forvarnarstarf verður meðal forgangsverkefna ríkisstjórnarinnar“. Aftar í plagginu er kafli um velferðarmál og þar eru heilbrigðismálin reifuð nánar. Sá kafli er svohljóðandi:

„Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að landsmenn njóti aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.

Unnið verður að því að auka almenn lífsgæði landsmanna með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Þannig má einnig draga úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt til framtíðar. Jafnframt verður lögð áhersla á slysavarnir og fræðslu sem þeim tengist.

Mikilvægt er að efla heilsugæsluna og tryggja stöðu hennar sem fyrsta viðkomustaðar sjúklinga.

Kanna þarf til hlítar kosti þess að beita forskrift í auknum mæli sem aðferð til að úthluta fjármagni og leita allra leiða til að auka framleiðni um leið og hugað er að samfélagslegum þáttum. Haldið verður áfram að þróa og tengja saman rafræn sjúkragögn á landsvísu með hagsmuni, öryggi og gæði þjónustu við sjúklinga að leiðarljósi.

Ný lög um greiðsluþátttöku vegna lyfjakostnaðar þarf að taka til athugunar og virkja til fulls lög um sjúkratryggingar nr. 112/2008.

Húsakostur Landspítala er óviðunandi. Leggja þarf áherslu á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti stofnunarinnar þar til varanleg lausn fæst.“

Hér er sleppt kafla um félagsþjónustu og almannatryggingar, en lokaorðin eru:

„Brýnt er að unnið verði að langtímastefnumótun heilbrigðiskerfisins svo tryggja megi betur hagkvæmni og stöðugleika innan kerfisins með eðlilegu samráði við fagfélög heilbrigðisstarfsfólks og aðra hagsmunaaðila. Þjónustustýring verður innleidd í áföngum.“



Nýi heilbrigðisráðherrann segir að honum sé efst í huga að ná sátt í þjóðfélaginu um að nýta þá 
fjárfestingu sem lögð hefur verið í heilbrigðiskerfið í formi menntunar starfsfólksins. „Hættan er sú að
við förum að framleiða fólk til sérhæfðra starfa fyrir aðrar þjóðir,“ sagði hann í útvarpsviðtali og bætti
því við að hver einstaklingur sem flytti úr landi væri mikið tap fyrir samfélagið. Þess vegna þyrfti að fara
í saumana á starfsaðstæðum heilbrigðisstarfsfólks og reyna að draga úr því álagi sem á þeim er. 


Skiptar skoðanir

Svo mörg voru þau orð og koma kannski ekki mikið á óvart. Það sem helst hefur verið til umræðu eftir að stefnuyfirlýsingin var birt er hvað málsgreinin um húsnæðismál Landspítalans þýðir í raun. Eins og allir vita eru afar skiptar skoðanir um byggingu spítalans við Hringbraut og þær skoðanir ganga þvert á flokka. 

Í kosningabaráttunni leitaði Læknafélag Íslands eftir afstöðu flokkanna sem buðu fram til ákveðinna þátta í íslenskum heilbrigðismálum og svöruðu þeir vel og greiðlega. Í svörum núverandi stjórnarflokka má greina nokkurn áherslumun í afstöðunni til nýbyggingar Landspítalans. „Framsókn vill endurskoða áform um nýbyggingu“ en Sjálfstæðsflokkurinn talar um „skort á pólitískri forystu í málefnum nýs Landspítala og mikilvægt að fara vel yfir málið og kynna það almenningi.“

Í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar er raunar ekkert sagt um byggingaráformin, aðeins að rétt sé að sinna viðhaldi húsa og tækja „þar til varanleg lausn fæst“. Þess vegna hafa menn lagt við eyrun þegar fjölmiðlar hafa spurst fyrir um hvað þetta þýði í raun.

Nýja stjórnin gerði nokkrar breytingar á skipan ráðuneyta og meðal þeirra var sú að skipta velferðarráðuneytinu í tvennt: félags- og tryggingaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti. Nýr ráðherra heilbrigðismála er Dalvíkingurinn Kristján Þór Júlíusson efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Breytt forgangsröð

Kristján Þór var iðinn við fjölmiðlakolann fyrstu daga ráðherraferilsins og var ítrekað spurður út í það hver yrðu fyrstu verk hans sem ráðherra og að sjálfsögðu hvort haldið verði áfram undirbúningi að byggingu nýs Landspítala. Hann varðist fimlega þegar Helgi Seljan spurði hann í Vikulokunum á Rás 1 á laugardagsmorgni og svaraði svona:

„Það er alveg ljóst að Landspítalinn er ekki í því standi að starfsfólk og sjúklingar meti hann samkeppnishæfan. Þar verður að koma til úrbóta. En ég get ekki sagt núna að við ætlum að hefja strax verk sem kostar tugi milljarða. Við verðum að yfirfara og endurskoða áætlanir um byggingu hins nýja Landspítala.“

Tveim dögum síðar var hann aftur mættur í Efstaleitið, að þessu sinni á Rás 2. Þar lýsti hann stöðu byggingaráforma á þá leið að stjórn hlutafélagsins sem stendur að byggingunni héldi sínu striki. „Hún auglýsti forval (vegna útboðs á hönnun nýrrar byggingar) hálfum mánuði fyrir kosningar og það verður í gangi út sumarið. Þarna eru á ferðinni mikil og stór áform sem stjórnin verður að skoða og setja í samhengi við önnur áform og aðrar fjárfestingar sem ætlunin er að ráðast í,“ sagði ráðherrann.

Hann sagði einnig í viðtalinu að það þyrfti að huga að forgangsröðinni í heilbrigðismálum. Þau orð féllu eftir að hann hafði lýst ástandinu í heilsugæslunni í heimabæ sínum, Akureyri, þar sem um 6.000 manns, um það bil fjórðungur íbúa svæðisins, hafa ekki heimilislækni.

En rétt eins og vaninn er við stjórnarmyndun tala ráðherrar í véfréttastíl meðan þeir eru að máta stólinn og læra á símkerfið. Tíminn leiðir í ljós hvað verður en eins og Kristján Þór sagði eru væntingar þjóðarinnar miklar. Það er því ekki víst hversu langir hveitibrauðsdagarnir verða hjá nýrri stjórn.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica