05. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Lögfræði 4. pistill. Um vottorð heilbrigðisstarfsmanna

Einstaklingar þurfa oft á vottorðum heilbrigðisstarfsmanna að halda. Iðulega tengjast þau einhverjum réttindum sem einstaklingurinn getur fengið, leggi hann fram vottorðið. Það skiptir því miklu að slík vottorð séu rétt að efni til og að heilbrigðisstarfsmaður votti ekki neitt annað en hann getur staðið við, veit sannast og réttast. Það er ábyrgðarhluti að gefa út vottorð. Um útgáfu þeirra gildir til dæmis 147. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar segir að ef maður lætur frá sér ranga skriflega yfirlýsingu eða gefur skriflegt vottorð um eitthvað sem honum er ekki kunnugt um og það er ætlað til notkunar í dómsmálum, öðrum málefnum sem varða hið opinbera eða gerðardómsmálum, skal hann sæta sektum eða fangelsi allt að 4 mánuðum.

Í lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 er í 19. gr. fjallað um þessi efni. Fyrirsögn 19. gr. laganna er: Vottorð, álitsgerðir, faglegar yfirlýsingar og skýrslur. Greinin er svohljóðandi:

„Heilbrigðisstarfsmönnum ber að gæta varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni við útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna og votta það eitt er þeir vita sönnur á og er nauðsynlegt í hverju tilviki.
Heilbrigðisstarfsmönnum er skylt að láta hinu opinbera í té vottorð um sjúklinga er þeir annast þegar slíkra vottorða er krafist vegna samskipta sjúklings við hið opinbera.
Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari reglur um útgáfu vottorða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna.“

Greinin er efnislega samhljóða 11. og 12. gr. læknalaganna frá 1988. Í frumvarpi því sem varð að lögum um heilbrigðisstarfsmenn kemur fátt fram um skýringu greinarinnar annað en það að ekki eigi að þurfa að hafa mörg orð um nauðsyn þess að hvers konar gögn á sviði heilbrigðisþjónustunnar séu skýr og greinargóð svo að ekki þurfi að velkjast í vafa um innihald þeirra og merkingu.*

Með stoð í 2. mgr. 11. gr. læknalaga voru settar reglur um gerð og útgáfu læknisvottorða nr. 586/1991. Læknafélag Íslands benti síðastliðið haust á nauðsyn þess að endurútgefa reglurnar. Það hefur ekki verið gert en almennt er litið svo á að stjórnvaldsreglur sem settar eru með stoð í eldri lögum haldi gildi sínu að því marki sem þær samrýmast nýjum lagaákvæðum. Þar sem 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn er efnislega samhljóða eldri ákvæðum sem reglurnar byggðu á, er rétt að telja þær í gildi og lagastoð þeirra í 3. mgr. 19. gr.

Í 1. mgr. 19. gr. felast þrenn fyrirmæli til heilbrigðisstarfsmanna varðandi útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna. Í fyrsta lagi að gæta ber varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni. Í öðru lagi að votta einungis það sem heilbrigðisstarfsmaður veit sönnur á og í þriðja lagi að votta einungis það sem nauðsynlegt er í hverju tilviki.

Skilyrðið um óhlutdrægni er nýmæli. Í 11. gr. læknalaga var eingöngu mælt fyrir um varkárni og nákvæmni. Í óhlutdrægnisskilyrðinu felst að heilbrigðisstarfsmaður þarf að gæta þess til dæmis að láta ekki stjórnast af samúð með sjúklingi. Þegar kemur að varkárni og nákvæmni segir í reglunum frá 1991 að ganga skuli tryggilega úr skugga um sönnur á persónu þeirri er vottorðið fjallar um og að geta skuli heimilda þegar það á við. Orðalag skal vera ljóst og ekki til þess fallið að valda mistúlkun. Það skal þannig úr garði gert að sá sem notar vottorðið skilji innihald þess og markmið. Sérstaklega þarf að gæta þess að óviðkomandi aðilum séu ekki afhent læknisvottorð nema fyrir liggi samþykki sjúklings eða lögráðamanns hans.

Lögin og reglurnar leggja áherslu á að það eitt skuli vottað sem sá sem vottorðið ritar veit sönnur á. Í því felst að í vottorði skal ekki staðhæfa annað en það sem vottorðsgjafinn hefur sjálfur sannreynt. Í vottorðinu ber að greina glögglega milli frásagnar annarra, eigin athugunar þess sem vottorðið ritar og álita hans. Forðast skal staðhæfingar um óorðna framvindu um ástand sjúklings er læknir lætur í ljós álit sitt.

Þriðja efnisatriðið er það að votta það eitt sem nauðsynlegt er í hverju tilviki. Í reglunum frá 1991 er bent á að við útgáfu vottorðs skuli læknir sérstaklega hafa í huga tilgang vottorðsins. Þá ber við gerð vottorð að hafa í huga að vottorð getur orðið gagn sem getur haft afgerandi þýðingu varðandi úrskurð opinberra aðila og í dómsmálum. Í dómsmálum getur vottorðsgjafi þurft að staðfesta vottorð fyrir dómi. 

Nokkrar formreglur eru í reglunum frá 1991, svo sem að vottorð skuli vélritað eða skrifað með læsilegri hendi (blokk-skrift). Geta skal nafns, heimilisfangs og kennitölu sjúklings. Það skal dagsett og undirritað með eigin hendi og greinilega koma fram nafn, vinnustaður og sími vottorðsgjafa. Vanda ber allan frágang vottorðs, notast skal við íslenskt orðaval og því aðeins erlend fræðiheiti að íslensk skorti.

Læknum er skylt að gefa hinu opinbera vottorð um samskipti sín og sjúklings í þeim tilvikum sem hið opinbera krefst slíkra vottorða, sbr. og 2. mgr. 19. gr. Með hinu opinbera er í þessu tilviki oftast vísað til opinberra stofnana eins og Tryggingastofnunar ríkisins, Sjúkratrygginga Íslands og félagsmálayfirvalda. Í öðrum tilvikum en 2. mgr. 19. gr. nær til, verða vottorð ekki gefin út nema með leyfi sjúklings.

*Frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn, skýringar við 19. gr. frumvarpsins, þskj. 147, 147. mál. 
Vefútgáfa Alþingistíðinda, althingi.is/altext/140/s/0147.html - apríl 2013.Þetta vefsvæði byggir á Eplica