05. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Fyrir 50 árum. Höskuldur Baldursson

Önnur grein: Hér segir áfram af héraðslæknisstörfum á Hólmavík 1962.

Engin skurð- eða aðgerðastofa var í sjúkraskýlinu né áhöld til skurðaðgerða, en í tækjaskáp leyndist þó sett af dilatatorum og sköfum til tæmingar á legi. Þetta kom sér raunar vel þar sem eina aðgerðin sem ég þurfti að gera í svæfingu var hreinsun á legi eftir fósturlát. Konunni blæddi mikið, engin aðstaða til blóðgjafa og því nauðsynlegt að stöðva blæðingu sem fyrst. Það tók mig hálfan dag að undirbúa aðgerðina, þar sem ég þurfti að ná í grisjustranga í geymsluna, klippa niður og útbúa túffur úr grisjum, taka til áhöld, lök og dúka og sótthreinsa þetta allt í autoclave. Autoclave var á staðnum en þrýstingsskynjarinn bilaður þannig að standa þurfti yfir honum og hleypa þrýstingi af kútnum þegar hann nálgaðist hættumörk. Sjúklingurinn var svæfður með evipan í æð, maður þvoði sér og skrúbbaði frammi í eldhúsvaskinum og gerði síðan D&C. Svo vel vildi til að hjúkrunarfræðingur var staddur í bænum í heimsókn hjá foreldrum og fékk ég hana til að aðstoða mig við svæfinguna. Blæðing hætti eftir aðgerðina og heilsaðist sjúklingi vel.


Hólmavík - Ljósm. André Seifert

Stundum virtist manni heilladísir vaka yfir manni. Svo var dag nokkurn þegar hringt var að morgni og beðið um vitjun að bæ út með Steingrímsfirðinum. Þar var um að ræða dreng með kviðverki. Mikið hríðarveður hafði verið um nóttina og voru allir vegir ófærir. Jafnframt var vitað að eina jarðýtan í bænum var biluð og því engin tök á að ryðja flugbrautina til sjúkraflugs. Ég fékk einn fiskibátanna á Hólmavík til að flytja mig út Steingrímsfjörðinn á móts við bæinn en síðan var komið á árabát frá bænum út að fiskibátnum og ég fluttur þannig í land. Á leiðinni forvitnaðist ég um það hjá skipstjóra fiskibátsins hvort einhver tök væru að flytja drenginn til Hvammstanga ef manni sýndist þess þörf, en ég vissi að þessa dagana var læknir með skurðlæknismenntun að leysa af á Hvammstanga. Þessi vitjun var farin síðari hluta dags og tjáði skipstjórinn mér að óveður með miklu hvassviðri væri að skella á og yrði því illmögulegt að komast til Hvammstanga og yrði ég í rauninni að reyna að vera fljótur í vitjuninni þannig að við kæmumst til baka til Hólmavíkur áður en veðrið brysti á. Við skoðun kom í ljós að drengurinn hafði öll einkenni bráðrar botnlangabólgu og þurfti því aðgerðar við. Ég sá hins vegar ekki hvernig slíkt mátti verða þar sem algjörlega var ófært til flutninga, hvort sem var á landi, sjó eða lofti. Hið eina sem ég gat því gert var að gefa drengnum eitthvað verkjastillandi og sprauta hann síðan með viðeigandi sýklalyfjum til varnar lífhimnubólgu. Var ég síðan fluttur í árabátnum út í fiskibátinn og þannig aftur til Hólmavíkur.

Morguninn eftir ræddi ég við föður drengsins í síma. Óveðrið hafði skollið á skömmu eftir komu mína til Hólmavíkur með miklu roki og slyddurigningu og hafði veðrið gengið yfir síðdegis og um nóttina. Faðirinn tjáði mér að snjó hefði töluvert tekið upp og taldi að hann gæti nú komist á jeppa sínum inn til Hólmavíkur með drenginn. Ég hvatti hann eindregið til að koma, þar sem ég taldi æskilegt að hafa drenginn til eftirlits í sjúkraskýlinu, þótt ég vissi raunar ekki hvernig ég gæti brugðist við að öðru leyti. Faðirinn kom síðan með drenginn skömmu fyrir hádegi í sjúkraskýlið. Meðan ég var að skoða drenginn frétti ég nánast fyrir tilviljun að eitt Sambandsskipanna væri statt í höfninni á Hólmavík að lesta. Það fylgdi sögunni að skipið hefði legið í höfninni á Hvammstanga um eftirmiðdaginn daginn áður meðan ég var í vitjuninni. Jafnframt að þegar óveðrið skall á hefðu landfestar slitnað eða losnað og skipstjóri tekið þann kostinn að sigla skipinu út úr höfninni með verkamennina frá Hvammstanga um borð. Skipið hefði síðan komið inn til Hólmavíkur um morguninn þegar veðri slotaði, væri að lesta þar en mundi síðan sigla aftur til Hvammstanga til að skila mönnunum til síns heima. Voru nú höfð snör handtök, drengnum og föður hans komið um borð í Sambandsskipið og þannig komust þeir til Hvammstanga. Ég fékk síðan þær upplýsingar frá lækninum á Hvammstanga að botnlanginn hefði verið sprunginn en aðgerð gekk vel og skildist mér að drengnum heilsaðist ágætlega. Þetta vefsvæði byggir á Eplica