04. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Órói á Landspítalanum - rætt við Ómar Sigurvin Gunnarsson, Odd Gunnarsson og Má Kristjánsson

Fjórðungur almennra lækna gengur út 1. apríl vegna óánægju með kjör sín og starfsaðstæður náist samningar ekki

 

Það hefur ríkt töluverður órói meðal starfsmanna á Landspítalanum þennan vetur. Í haust sögðu um 280 hjúkrunarfræðingar upp störfum vegna óánægju með kjör sín. Eftir langar samningaviðræður tókust samningar við þann hóp, en í kjölfar þess hafa ýmsir aðrir starfshópar farið fram á leiðréttingu kjara sinna. Og nú hafa 25 almennir læknar á Landspítalanum sagt upp störfum frá og með 1. apríl. Átta af þessum læknum starfa á kvennasviði spítalans en hinir á lyflækningasviði.

 


Oddur Gunnarsson, lögfræðingur Landspítala.

Að sögn Ómars Sigurvins Gunnarssonar formanns Félags almennra lækna hafa ekki átt sér stað neinar viðræður milli félagsins og stjórnenda spítalans, enda félagið ekki formlegur aðili að þessari deilu. „Stjórnendur spítalans hafa átt viðtöl við hvern og einn úr hópnum, en það hefur ekkert komið út úr þeim enn,“ segir hann. Þetta staðfestir Oddur Gunnarsson lögfræðingur og staðgengill Ernu Einarsdóttur mannauðsstjóra Landspítalans.

Starfsánægjan dregst saman

Óánægja almennra lækna snýst ekki frekar en annarra starfsmanna eingöngu um laun. Allir þekkja umræðuna um versnandi starfsaðstæður í gömlum húsum þar sem tækin eru sum hver að nálgast það að vera orðin lífshættulega úrelt, ef þau eru þá ekki stöðugt biluð. Þrengslin eru mikil og eigin skrifstofa óþekktur lúxus. Í könnun sem stjórnendur spítalans létu gera á ánægju starfsmanna árið 2010 kom meðal annars fram að einungis 7% almennra lækna gátu tekið undir þá fullyrðingu að þeir hugsuðu sjaldan eða aldrei um að hætta störfum og að ekki fleiri en 11% sögðust mæla með spítalanum sem góðum vinnustað.

Fyrir þessu eru ýmsar ástæður. Auk þess sem áður er nefnt má tína til mikið vinnuálag, meðal annars vegna manneklu, það hefur verið skorið niður í starfsmannahaldi sem bitnar á þeim sem eftir eru, þeir þurfa að leggja meira á sig. Almennir læknar eru ekki hvað síst óánægðir með að þeir hafi ekki tíma til að sinna skýrslugerð og upplýsingagjöf í vinnutímanum. En þessi störf verða að hafa sinn gang og flestir sinna þeim því í aukavinnu sem engin laun eru greidd fyrir.

Í áðurnefndri könnun fá starfsaðstæður almennra lækna ekki háar einkunnir. 17% geta tekið undir þá fullyrðingu að tækjakostur sé viðunandi á þeirra deild, 30% segjast hafa nægan tíma til að sinna starfi sínu þannig að þeir séu ánægðir með þau og sama hlutfall segist vera ánægt með starfsaðstöðu sína.


Már Kristjánsson, yfirlæknir á lyflækningasviði.

Launahækkanir ekki á dagskrá

Þetta er því ekki nýtt vandamál á Landspítalanum, jafnvel þótt stundum sé talað um almenna lækna sem hálfgerð vinnudýr spítalanna og það er ekki bundið við Ísland. Að vísu segir Már Kristjánsson yfirlæknir á lyflækningasviði að vaktir séu ekki lengri en 8-12 tímar en áður voru 16 tíma vaktir algengar. „Það er rétt að almennir lækna vinna mikið en það fylgir þessu æviskeiði, þeir eru ungir og þurfa að afla sér reynslu. Hún fæst einungis með vinnu.“

Oddur Gunnarsson segir að stjórnendur hafi brugðist við uppsögnum almennra lækna með svipuðum hætti og í öðrum sambærilegum málum. „Við ræddum við þessa 25 lækna sem sagt hafa upp og hlustuðum á athugasemdir þeirra. Þær eru því miður kunnuglegar, margar hverjar, og óánægja starfsmanna er alltaf alvarlegt mál. Það er hins vegar ljóst að ekki verður hægt að bregðast við öllum athugasemdum þeirra. Við verðum að horfa til heildarinnar.“

Með þessu síðastnefnda á Oddur við kröfur læknanna um sambærilegar launahækkanir og hjúkrunarfræðingar fengu í febrúar. Hjúkrunarfræðingar voru í þeirri stöðu að við þá hafði ekki verið gerður svonefndur stofnanasamningur eins og um hafði samist í síðustu kjarasamningum stéttarinnar. Hjúkrunarfræðingum tókst að notfæra sér þá stöðu til að knýja fram launahækkanir og flestir drógu uppsögn sína til baka.

Engu slíku er til að dreifa hjá almennum læknum. Læknar hafa ekki farið inn á þá braut að gera sérstaka stofnanasamninga svo þá leið er ekki hægt að fara. „Fjármálaráðuneytið hefur sent spítalanum og læknunum bréf þar sem minnt er á að friðarskylda ríki á vinnumarkaði meðan kjarasamningar eru í gildi. Kjarasamningar eru vettvangur launahækkana en þeir eru ekki lausir núna,“ sagði Oddur Gunnarsson en bætti því við að verið væri að skoða hvort hægt væri að koma til móts við aðrar athugasemdir læknanna en þær sem snúa að laununum.


Ómar Sigurvin Gunnarsson, formaður Félags almennra lækna.

Reynt að koma til móts við almenna lækna

Það yrði talsverð blóðtaka fyrir Landspítalann að missa þessa 25 lækna en þeir eru um það bil fjórðungur almennra lækna sem starfa á spítalanum. Á kvennasviði er hlutfallið hærra, eða um þriðjungur. Már Kristjánsson samsinnir því og segir að nú sé verið að setja upp neyðaráætlun sem gripið verður til, náist ekki samningar við læknana sem sagt hafa upp. „Það þarf að endurskipuleggja störfin hér til þess að bregðast við þessu. Við höfum kandídatana áfram en þegar við auglýstum eftir fleiri kandídötum til að fylla í skörð þeirra sem sögðu upp, barst engin umsókn,“ bætti hann við.

Ómar Sigurvin er ekki bjartsýnn á að það takist að brúa það bil sem verður til á kvennasviði þegar þriðjungur læknanna hverfur á braut. „Þetta hefur að sjálfsögðu mikil áhrif á starfsemina. Við erum nú þegar undirmönnuð og sérfræðilæknarnir geta tæpast bætt á sig meiri vinnu. Það hlýtur eitthvað að gerast áður en uppsagnirnar taka gildi,“ sagði Ómar.

Már og Oddur sögðu báðir að nú væri í skoðun hvort ekki væri hægt að koma til móts við þá sem sagt hafa upp. „Við erum að reyna að finna flöt á því að breyta vinnuskipulaginu,“ sagði Oddur og Már bætti því við að á lyflækningasviði væri verið að skoða hvort ekki væri til dæmis hægt að draga úr ólaunaðri vinnu almennra lækna. „En það er ljóst að hvað sem við gerum þá verðum við að halda okkur innan þess fjárramma sem spítalanum er settur. Það fæst enginn aukapeningur í þetta,“ sagði Már.

Fimmtán ára afturför

Í sjálfu sér ætti ekki að vefjast fyrir neinum hver er ástæða þessa óróa. Í kjölfar kreppunnar sem skall á haustið 2008 hafa stjórnvöld beitt niðurskurði og sparnaði í stöðugri viðleitni sinni við að fylla upp í þá stóru hít sem heitir vextir af erlendum lánum. Sú orrusta stendur þannig að vaxtakostnaðurinn var kominn „niður í“ 91 milljarð króna á síðasta ári en það er um 80% af framlagi hins opinbera til heilbrigðismála. Þau framlög voru 115,6 milljarðar í fyrra. Þau hafa farið lækkandi eftir hrun sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og er svo komið að þau hafa ekki verið lægri síðan 1998. Það þarf með öðrum orðum að fara 15 ár aftur í tímann til að finna sambærilega lág útgjöld.

Við gerð fjárlaga þessa árs kom í ljós að nú væri hægt að fara að snúa þessari þróun við. Það er heldur að rofa til í efnahagsmálunum og tekjur ríkisins að aukast, en þá blasir við að tækjakostur Landspítalans er orðinn svo úr sér genginn að þar þarf að taka verulega til hendinni ef ekki á illa að fara. Það er því lítið svigrúm til launahækkana eða til að bæta við mannaflann.

Þannig hljómar málflutningur ríkisstjórnarinnar og eflaust er ýmislegt til í honum. Það hefur þó lítið að segja í heimilisbókhaldinu hjá starfsmönnum spítalans. Fólk verður að lifa og það leitar allra leiða til að ná endum saman.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica