04. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Heilbrigðisþjónusta í ógöngum? Magdalena Ásgeirsdóttir

Undanfarin misseri hafa svo til daglega dunið á okkur fréttir af heilbrigðisþjónustunni. Endalaus niðurskurður, samdráttur, lokanir deilda, uppsagnir og flótti starfsfólks, slæmur aðbúnaður, langir biðlistar, úrelt og biluð tæki og svo mætti lengi telja. Fjölmennur fundur lækna Landspítalans þann 15. febrúar 2013 skorar á stjórnvöld að hætta við áform sín um að taka af lífi Landspítala og heilbrigðiskerfi Íslands á hægan og kvalafullan hátt.

Ég hef áhyggjur af heilbrigðisþjónustunni, bæði með tilliti til sjúklinga og starfsfólks. Ég hef áhyggjur af flótta unga fagfólksins í upphafi starfsævinnar vegna álags, slæmrar vinnuaðstöðu og lélegra kjara. Ég hef áhyggjur af sjúklingunum þar sem fyrirsjáanlegt er að það muni vanta eina kynslóð fagfólks til að halda heilbrigðisþjónustunni gangandi.

Hvað hefur gerst undanfarin ár? Á landsbyggðinni hefur þjónusta dregist saman. Erfiðlega gengur að manna bæði stöður heilsugæslu- og sérfræðilækna á héraðssjúkrahúsunum. Íbúum er vísað á stærri sjúkrahús, án þess þó að sjúkraflutningar eða samgöngur séu tryggðar. Heilsugæslan nær ekki að sinna hlutverki sínu, enda hefur hún ekki fengið að þróast með samfélaginu árum saman. Þar getur bið eftir læknisviðtali verið mun lengri en hjá sérfræðilæknum á stofum, sem margir hverjir fá á sitt borð verkefni sem ættu í raun heima í heilsugæslunni. Heimahjúkrunin hefur líka þurft að draga saman seglin, þrátt fyrir að stöðugt veikara fólk þurfi á þjónustu hennar að halda. Tiltölulega fáir njóta endurhæfingar innan heilbrigðiskerfisins í dag, en endurhæfing hefur lengi verið olnbogabarn sjúkrahúsþjónustunnar. VIRK starfsendurhæfingarsjóður hefur nú með höndum svokallaða starfsendurhæfingu en tengslin við heilbrigðiskerfið eru óljós og veikburða, þrátt fyrir þá staðreynd að bakgrunnur skjólstæðinganna séu veikindi. Vegna þessara óljósu marka milli endurhæfingar innan heilbrigðiskerfisins og starfsendurhæfingar á vegum VIRK, er hætta á að enn muni halla á heilbrigðiskerfið.

Hvernig heilbrigðisþjónustu viljum við?

Þegar þetta er ritað þann 10. mars, 47 dögum fyrir Alþingiskosningar, hafa 13 framboð tilkynnt um möguleg framboð en endanlegur fjöldi mun ekki liggja fyrir fyrr en 12. apríl. Sama dag gerði undirrituð netkönnun á heimasíðum framboðanna sem takmarkaðist að hámarki við 5 innslætti (klikk) í leit að stefnu flokkanna í heilbrigðismálum. Sjö framboð uppfylltu þessi skilyrði. Öll sjö framboðin virtust vera sammála um að efla heilsugæsluna og hún ætti að vera fyrsti viðkomustaður hins veika. Öll framboðin nefna rekstur eða rekstrarform heilbrigðisþjónustu og þrjú nefna einnig greiðslur eða þak á greiðslur almennings fyrir þjónustuna. Eitt framboð minntist ekki á Landspítala, annað framboð nefnir að nýr Landspítali sé velferðarmál þjóðarinnar. Hin fimm framboðin vilja annaðhvort endurskoða áform um nýbyggingu Landspítala eða stöðva fyrirhugaða byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Fjögur framboð vildu að tannlækningar væru gjaldfrjálsar fyrir 18 ára og yngri eða hluti af  grunnheilbrigðisþjónustunni. Til að fræðast nánar um stefnu stjórnmálaflokkanna um heilbrigðismál bendi ég á heimasíður þeirra. 

Eftir lesturinn er ég litlu nær um framtíðarsýn flokkanna í heilbrigðismálum. Stefnan fannst mér vera almennt orðuð, klisjukennd og hvergi er bent á leiðir til framkvæmda eða lausnar. Innihald þjónustunnar er hvergi nefnt eða árangur. Eitt er þó augljóst eftir lesturinn að heilbrigðismálin eru ekki eitt af stóru kosningamálunum fyrir þessar Alþingiskosningar.

Heilbrigðisstarfsfólk er auður heilbrigðiskerfisins og án þekkingar og reynslu fagfólksins verður ekki haldið úti heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðismál eru mjög mikilvægur málaflokkur sem snertir landsmenn alla, hvað varðar þjónustu og kostnað bæði þegnanna og ríkisins. Að mínu mati eru ógöngur heilbrigðiskerfisins ekki einvörðungu vegna fjársveltis, heldur líka vegna stefnuleysis. Ekki er hægt að ná settu marki ef ekkert er markmiðið. Í ráðuneytunum eru til nokkrir hillumetrar af skýrslum sem unnar hafa verið í því augnamiði að setja stefnu og þar með forgangsraða innan heilbrigðiskerfisins. En þar við situr. Framkvæmdaáætlanir hafa ekki fylgt í kjölfarið og því til lítils unnið. 

Heilbrigðis-, velferðar- og menntamál eru tengd órjúfanlegum böndum og eru grunnurinn að heilbrigðu lýðræðissamfélagi. Til að endurreisa þessar grunnstoðir er nauðsynlegt að horfa lengra fram í tímann en sem nemur einu kjörtímabili. Það er í raun eðlileg krafa skattgreiðenda að stefnumótun og markmiðssetning sé skýr og afmörkuð. Ég skora því á heilbrigðisstarfsfólk og almenning að leggja framboðunum lið við mótun heilbrigðisstefnu til framtíðar og mæta á sameiginlegan fund læknafélaganna með fulltrúum stjórnmálaflokkanna á Grand Hótel 3. apríl næstkomandi.Þetta vefsvæði byggir á Eplica