03. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Framtíð fortíðarminja og lifandi saga

Lækningaminjasafnið hefur oft verið til umfjöllunar hér í Læknablaðinu og yfirleitt til að fagna áföngum í sögu þess. Þann 12. desember síðastliðinn urðu nokkuð óvænt kaflaskipti í uppbyggingu safnsins er meirihluti bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar ákvað að endurnýja ekki samning um eign og rekstur safnsins en hann rann út þann 31. desember 2012. Í 1. tölublaði Læknablaðsins á þessu ári var frétt um málið undir fyrirsögninni: ,,Framtíð Lækningaminjasafnsins í uppnámi.” Þar kemur fram að meirihluti stjórnar Lækningaminjasafnsins hafi fundað ásamt formönnum Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur, þjóðminjaverði, framkvæmdastjóra LÍ og lögfræðingi þann 17. desember. Síðan hefur atburðarásin orðið hröð og í þessu blaði verður staðan tekin með viðtölum við nokkra málsaðila og reynt að ráða í framhaldið og velta upp hugmyndum um safnið.

Ljóst er hugmyndir fólks um framtíð Lækningaminjasafnsins eru misjafnar og margar. Umfjöllun Læknablaðsins um safnið gegnum tíðina sýnir að mörgum er annt um að þessum menningararfi verði sómi sýndur, en með hvaða hætti það getur orðið er engan veginn ljóst á þessari stundu.


Húsið sem teiknað var og reist yfir lækningaminjar yst á Seltjarnarnesi. Það er 400 fm að grunnfleti,
fokhelt en ansi munaðarlaust nú um stundir.

Kveikjan að safninu er margra ára söfnun Jóns Steffensen (1905-1991) prófessors og vísindamanns á lækningaminjum og arfur hans, sem hann fól Læknafélagi Íslands að fara með. Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar var stofnað árið 1964 að frumkvæði hans og hefur ásamt Læknafélögunum verið stefnumótandi um framgang lækningaminjasafns. Vilji Jóns var að safnið yrði byggt upp í Nesi við Seltjörn, sem er helsti sögustaður lækningasögu á Íslandi og aðsetur fyrsta landlæknisins, ljósmóður og lyfsölu. Þá tengist Nes einnig fjölskyldu konu Jóns, Kristínar Steffensen. Hreyfing komst á málið eftir aldamótin 2000 og á nýrri öld virtist sem safnið væri að verða að veruleika með enn veglegri hætti en Jón hafði séð fyrir sér, þar sem umhverfi Nesstofu var miðpunktur menningar- og safnasvæðis á Seltjarnarnesi.

Þann 16. ágúst árið 2000 fór fram formleg afhending á arfi Jóns Steffensen til ríkisins er Sigurbjörn Sveinsson, þáverandi formaður Læknafélags Íslands afhenti Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra og Geir H. Haarde fjármálaráðherra gjöfina. Stærsti hluti arfsins var hús safnsins við Bygggarða 7, sem keypt hafði verið fyrir erfðaféð. Við þetta tækifæri var Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði afhentur gjafagerningurinn til varðveislu. Mikil umræða var í framhaldi af þessu um hvernig safninu yrði best fyrir komið og hefur það verið rakið vel í Læknablaðinu. Niðurstaða þess máls var aðkoma Seltjarnarnesbæjar sem uppbyggingar- og rekstraraðila.


Fundur í Hlíðasmára á aðventunni 2012 um örlög safnsins. Við borðið sitja Steinn Jónsson formaður
LR, Þorbjörn Jónsson formaður LR, Óttar Guðmundsson í stjórn safnsins, Dögg Pálsdóttir lögfræðingur
LÍ, Birna Jónsdóttir fyrrum formaður LÍ, Sólveig Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri LÍ, Anna Lísa
Rúnarsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir í stjórn safnsins, Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður
og Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir safnstjóri.

Samstarfssamningur milli Seltjarnarnesbæjar, menntamálaráðuneytis, Þjóðminjasafns Íslands og Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur um byggingu og rekstur húsnæðis fyrir Lækningaminjasafn Íslands og aðra menningartengda starfsemi var undirritaður 27. september 2007. Hafin var bygging safnhúss á safnasvæði Seltirninga í Nesi eftir verðlaunateikningu Yrki arkitekta frá árinu 1997. Stofnskrá safnsins var samþykkt árið 2009. Læknafélag Íslands og Læknafélag Reykjavíkur lögðu safninu til 50 milljónir sem framlag af félagsgjöldum og ríkið gekkst undir skuldbindingar um fjárframlög til safnsins. Seltjarnarnes tók að sér að byggja safnið upp og reka það. Safnið hefur verið til húsa í Bygggörðum 7, sem ríkið á enn. Við hlið Nesstofu er nýja safnahúsið risið en aðeins fokhelt, svo ljóst er að til frekari uppbyggingar þess mun þurfa umtalsvert fjármagn, samkvæmt matsgerð frá því í júlí síðastliðnum líklega um 300-400 milljónir króna. Þegar Seltjarnarnesbær sagði sig frá þessu verkefni, frá og með 1. janúar 2013, tók mennta- og menningarmálaráðuneytið við ábyrgð á safninu að beiðni bæjarins. Þar sem yfirtöku ráðuneytisins bar brátt að taldi ráðuneytið að ekki væri hægt að móta hugmyndir um framtíð og rekstrarform starfseminnar fyrir áramót og greindi frá því í bréfi til bæjarins 14. desember síðastliðinn. Þó var látin í ljós sú framtíðarsýn að sýning lækningaminja yrði opnuð með einhverjum hætti síðar. Safnstjóri safnsins sagði upp störfum undir lok desembermánaðar en vinnur að frágangi á munum safnsins á uppsagnartímanum, stjórn safnsins var leyst frá störfum þann 31. janúar 2013 og munir þess látnir renna til Þjóðminjasafnsins.


Verður ekki gert metnaðar- eða ástríðulaust

Sigurbjörn Sveinsson læknir þekkir mál Lækningaminjasafns Íslands öðrum betur. Hann er fyrrverandi formaður Læknafélags Íslands og hefur setið í stjórn safnsins frá upphafi til ársins 2011 er hann sagði sig úr stjórninni.

,,Þetta var óvænt uppákoma og ekki auðvelt að lesa í framtíðina. Ég hef óttast það um skeið að ekki væri nógu mikill metnaður fyrir þessu máli af hálfu Seltjarnarnesbæjar en þrátt fyrir að efasemdir sæktu á mig grunaði mig ekki að bærinn myndi taka svona afdráttarlausa og afgerandi 180 gráðu beygju í málefnum safnsins. Pólitískt séð er þetta sama fólk og ákvað fyrir fáeinum misserum að fara í þessa uppbyggingu.

Nesstofa er á Seltjarnarnesi og því verður ekki breytt, rétt eins og síldin var hjá Siglfirðingum og Siglfirðingar hafa lagt mikinn metnað í varðveislu síldarminja og að gera þeim eins hátt undir höfði og þeim er unnt. Lækningaminjar eru ekki síðri þáttur í menningu okkar en síldarminjar. Ef litið er á sögulegan tíma hafa síldveiðar við Ísland aðeins verið stundaðar í um 150 ár en lækningaminjar eiga sér talsvert lengri sögu.

Það eru því vonbrigði, já sorgarefni, að þetta hafi orðið niðurstaðan. Ég vona að bæjarstjórnin, sú sem nú situr eða sú sem tekur við eftir næstu kosningar, muni sjá nýjan flöt á málunum og möguleika á að ljúka þessu máli og koma lækningaminjasafni á fót. Þetta er ekki bara spurning um að komast út úr efnahagshruninu heldur þarf líka til endurnýjaðan metnað af hálfu sveitarfélagsins.

Ég vona að bæjarstjórnin líti á þessa stöðu sem lykkju á leið Seltjarnarnesbæjar til að byggja upp veglegt Lækningaminjasafn eftir að endurnýjaður hefur verið breyttur samningur við ríkið. Það er eðlilegt að einhver töf verði á málum á meðan tómahljóð er í buddunni hjá ríkinu og ekki vitað hvaða menntamálaráðherra verður við völd í mósku framtíðarinnar.

Ef ég væri í þeirri stöðu að geta stýrt þessu máli til framtíðar myndi ég vilja finna metnað hjá íbúum og bæjarstjórn á Seltjarnarnesi til að komast með sæmandi hætti frá þessu máli þannig að það sem lagt var upp með yrði að veruleika. Ríki og Seltjarnarnesbær myndu endurnýja samning sinn með þetta í huga. Hægt væri að endurhugsa safnið og það mætti gera í nýjum samningi. Það er vel hægt að draga úr kostnaði við uppbyggingu og í rekstri, en það yrði hvorki gert metnaðar- né ástríðulaust.

Stofnað var til þessa safn af metnaði, ástríðu og eljusemi sem einkenndi Jón Steffensen bæði í rannsóknum hans og öðru. Rannsóknum sem við búum að og eru innlegg í Íslandssöguna og frumkvöðlaverk í líffærafræði, rannsóknum á Skeljastöðum í Þjórsárdal og miklu víðar. Þetta eru grunnrannsóknir bæði í læknisfræði, fornleifafræði og sagnfræði.

Nesstofa hefur verið byggð upp á mjög fallegan hátt á árunum 2006-2007, meðal annars fyrir danskt gjafafé, og þar þarf ekki mikið í viðbót til að gera hana fullbúna, ef til vill eitthvað af dönskum innanstokksmunum. Þessi menningarverðmæti eru hluti af sögu lækninga- og ljósmæðrasögunni, því þar var ekki bara Bjarni Pálsson fyrsti landlæknir okkar, heldur var þar einnig starfandi ljósmóðir í tengslum við embættið. Þar var einnig vagga lyfsölu á Íslandi. Það væri því óskiljanlegt ef Seltirningar vildu ekki varðveita þessa perlu með sæmd enda trúi ég því ekki að sú verði niðurstaðan.“


Heilbrigðisminjasafn yrði andlit heilbrigðiskerfisins


Anna Þorbjörg þegar tekin var fyrsta
skóflustunga að safninu árið 2008.

Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir hefur verið safnstjóri Lækningaminjasafns Íslands frá árinu 2008 en sagði upp starfi sínu nýverið og lýkur störfum í marslok. Þetta eru því erilsamir dagar. Hún gaf sér þó tíma til að ræða um safnið við Læknablaðið eina síðdegisstund. Skrifstofa hennar er í Bygggörðum 7 og þar er geymsla safnsins full af safngripum.

,,Gripirnir hér eru hluti af sögu heilbrigðisstéttanna og heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Innan um eru gersemar sem vakna til lífsins þegar fólkið sem þekkir notkun þeirra segir okkur frá því til hvers og hvernig þær voru notaðar. Án þeirrar þekkingar er ekki hægt að segja nema hálfa söguna og því er dýrmætt að fá upplýsingar um varðveislusögu lækninga og hjúkrunar. Læknar, hjúkrunarfræðingar, tannlæknar og fleiri hafa fært okkur marga gripi sem bæst hafa við upprunalegt safn Jóns Steffensen. Af sumu eigum við nóg og þurfum að grisja. Við höfum ekkert við margar eins tangir að gera, en þær geta nýst til margra annarra hluta, verið þáttur í kennslu og kennslusafni, lánaðar til leikstarfsemi og kvikmynda og þannig mætti lengi telja. Aðrir munir sem okkur áskotnast eru þeir fyrstu, jafnvel einu sinnar tegundar. Það er ekki sjálfgefið að fólk viti til hvers þessir hlutir eru notaðir, þess vegna þarf að safna þekkingu á notkun þeirra. Ég veit að margir læknar eru meðvitaðir um sína ábyrgð við að varðveita söguna og láta sér mjög annt um málaflokkinn. Þar má nefna Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar með Óttar Guðmundsson í fararbroddi. Hjúkrunarfræðingar hafa líka komið með mjög öflugum hætti að uppbyggingu safnsins.

Þegar ég kom að safninu var sátt meðal íbúanna um verndun svæðisins í kringum Nesstofu. Bærinn ákvað að byggja fallega umgerð um náttúru, sögu og menningu og voru Nesstofa, Lyfjafræðisafnið og fornleifarnar á svæðinu kjölfestan. Liður í þeirri sátt, og kannski punkturinn yfir i-ið, var uppbygging Lækningaminjasafns í Nesi og árið 2010 var Urtagarðurinn opnaður sem hluti af þessu. Í Nesstofu kemur saman saga lækninga og saga Seltjarnarness. Hér hefurngum verið fjölmenn byggð, fólk leitaði þangað sem fiskurinn var og sjórinn nálægur. Það er engin tilviljun að landlæknir settist hér að, hér var fólkið.

Núna stöndum við á ákveðnum tímamótum. Ákvörðun Seltjarnarnesbæjar liggur fyrir og hægt er að sjá málið þróast á ýmsa vegu. Áður hafði staðið til að árið 2013 yrði notað til að finna nýjan flöt á rekstrinum og ég býst við að heilbrigðisminjasafn í víðari skilningi hefði verið ein af álitlegustu hugmyndunum í þeirri umræðu. Starf Lækningaminjasafns Íslands hefur byggst á þeim skilningi að í sögu lækninga kæmi saman saga vísinda og tækni og almenn saga þjóðarinnar, bæði holdsveiki og hasspípa tengjast sögu heilbrigðis. Þetta er ekki saga einnar starfsstéttar heldur saga heillar þjóðar. Mitt mat er því að best væri að byggja upp öflugt heilbrigðisminjasafn og fá fleiri fagfélög, fyrirtæki og stofnanir í heilbrigðiskerfinu til að hafa samvinnu um reksturinn.

Safn af þessu tagi þyrfti eins og Lækningaminjasafn Íslands að vera hugsað á landsvísu þótt það væri staðsett á Seltjarnarnesi. Það útheimtir samvinnu, bæði milli landshluta, fagstétta og stofnana. Margir eru nú að safna munum, ekki aðeins á vegum Lækningaminjasafnsins. Fagstéttirnar þekkja sögu þessara muna en það er safnafólksins að kynna þá. Þetta er menningarpólitískt séð mjög merkilegt verkefni. Safn af þessu tagi þarf ekki sjálft að varðveita alla þá muni og þekkingu sem fyrir hendi er, en þyrfti hins vegar eins og Lækningaminjasafnið að vera ábyrgðarsafn fyrir heilbrigðisminjar. Síðan væri hægt að setja upp sýningar þar sem sagan hefur gerst, til dæmis er upplagt að sögu frönsku sjómannanna á Fáskrúðsfirði yrðu gerð skil þar, á Akureyri er merkileg spítalasaga og þannig mætti lengi telja. Með því að hafa ábyrgðarsafn um heilbrigðisminjar í landinu væri hægt að safna og sýna slíkar minjar með markvissum hætti. Það er alltaf jafnvægislist að kunna að varðveita, kunna að henda því safna-maður þarf alltaf að vera vakandi fyrir því að henda ekki dýrgripum sem kunna að virðast fánýtir í augum einhverra. Þetta á jafnt við um gamla muni sem aðeins fáeinir vita til hvers voru notaðir og það nýjasta sem hefur áhrif á sögu heilbrigðis á Íslandi. Okkur vantar til dæmis enn eintak af PIP-brjóstunum og við eigum ekki svefnmælitæki frá Flögu/Nexmedical. Hvort tveggja er hluti af okkar heilbrigðissögu og ætti að varðveita á safni. Við vitum ekki nákvæmlega hvað er saga framtíðarinnar, en þurfum að vera viðbúin að geta gert henni skil, eins og Jón Steffensen gerði með söfnun sinni. Margt sem áður þótti ekki í frásögur færandi er varðar heilbrigði landsmanna er fyrir löngu orðið viðurkennt, fætur frá Össuri, ljósmyndir, saga einstakra sjúklinga, skólar á sjúkrastofnunum.

Ég sé safn af þessu tagi sem andlit heilbrigðiskerfisins og því þarf það að vera hafið yfir alla gagnrýni í faglegum vinnubrögðum, þótt fjársterk fyrirtæki og öflugar stofnanir ættu aðild að því og hefðu hag af því að það liti dagsins ljós og myndu styrkja uppbyggingu og rekstur þess. Það er í þessu samhengi sem ég sé aðkomu Læknafélaganna. Fulltrúar LÍ í stjórn Lækningaminjasafnsins hafa stutt safnið á mjög faglegan hátt og með breiða sýn á sögu lækninga og hlutverk safnins, bæði á landsvísu og í nærsamfélaginu á Seltjarnarnesi.

Svona vil ég horfa fram á veginn núna þegar ég er að láta af störfum. Ég á þá draumsýn að þegar haldið verður upp á 150 ára afmæli Heilbrigðisminjasafnsins, rétt eins og við höldum nú upp á 150 ára afmæli Þjóðminjasafnsins, þyki þessi kafli sem er skrifaður nú, ekki einu sinni hluti af sögu safnsins.“


Boltinn er hjá ráðherra og þjóðminjaverði


Frá skrifstofu Ásgerðar bæjarstjóra á Seltjarnarnesi er
frábært útsýni og líka þessi gamla fallega mynd af Nesstofu.

Seltjarnarnesbær hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu Lækningaminjasafns frá upphafi enda var það ósk Jóns Steffensen að það risi þar. Nú er sýnt að breyting verður á og af því tilefni spjallaði blaðamaður við Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra.

,,Núverandi samningur um Lækningaminjasafnið rann út þann 31. desember 2012. Meirihluti bæjarstjórnar tók þá ákvörðun, sem helgast af þróun og stöðu málsins, að standa ekki að endurnýjun gildandi samnings um rekstur safnsins, og því mun bærinn ekki bera ábyrgð á rekstri þess frá framangreindum tíma. Þessi ákvörðun er ekki biðleikur af hálfu bæjarstjórnar heldur lokapunktur.

Fram að hruni horfði málið öðruvísi við fólki. Þá voru bjartir tímar á Íslandi er síðar reyndust tálsýn. Hrunið skapaði mikla erfiðleika í rekstri bæjarfélagsins og fjárhagsstaðan þrengdist svo um munaði. Meirihluti bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar telur rekstur safnsins eiga að vera á hendi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, enda er þetta ábyrgðarsafn í þágu þjóðarinnar allrar. Rekstrarframlag ráðuneytisins sem tilgreint er í samningnum mun aðeins duga fyrir litlum hluta þess heildarkostnaðar sem fyrirsjáanlegur er við rekstur jafn sérhæfðs safns og Lækningaminjasafn er og af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir. Kostnaður umfram þetta framlag myndi að öllu óbreyttu falla á Seltjarnarnesbæ.

Náðst hefur samkomulag um samráð og samstarf við mennta- og menningarmálaráðuneytið um að flytja ábyrgðina af rekstri safnsins yfir á ráðuneytið, og hefur bærinn óskað eftir fundi með ráðuneytinu til að kanna hvort finna megi byggingunni við Nesstofu verðugt hlutverk, áður en framkvæmdum er haldið áfram og lokið. Í framhaldi af þessum viðræðum verðurtekin ákvörðun um hvort gerður verður nýr samningur milli aðila um málið, til dæmis um skiptingu kostnaðar vegna framkvæmda sem taldar yrðu nauðsynlegar.

Húsið að Bygggörðum 7 er geymsluhúsnæði fyrir muni safnsins. Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir hefur unnið frábært starf við skráningu þeirra. Við höfum verið í viðræðum við ráðuneytið um málið frá því 2009 um breytt afnot af húsinu en við höfum óskað eftir fundi með ráðherra, sem enn hefur ekki verið hægt að verða við vegna annríkis í ráðuneytinu. Boltinn er nú hjá ráðherra og þjóðminjaverði.

Það hvílir þungt á fulltrúum í bæjarstjórn, nú þegar við sjáum fram á að ekkert verði af fyrri áformum um nýbyggingu safnsins, að vel takist til um lyktir málsins í heild. Munum við með hagsmuni bæjarbúa Seltjarnarness fyrst og fremst að leiðarljósi leggja okkur fram um að svo megi verða.“


Höfum sýnt skilning


Þorbjörn Jónsson er formaður Læknafélags Íslands.

Þorbjörn Jónsson er formaður Læknafélags Íslands og þar með jafnframt fulltrúi þeirra sem falið var að hafa umsjón með arfi Jóns Steffensen, sem var upphafið að uppbyggingu lækningaminjasafns á Íslandi. Félagið hefur frá upphafi átt tvo fulltrúa af 5 í stjórn safnsins.

„Við höfum haft mikinn skilning á því síðastliðin ár að þeir sem hafa staðið að uppbyggingu safnsins, það er Seltjarnarnesbær, hafa haft minna fé á milli handanna en í upphafi var búist við. Við sjáum fram á að ef bærinn dregur sig endanlega útúr samstarfinu og uppúr því slitnar muni bærinn greiða þeim aðilum sem lögðu fé til uppbyggingar safnsins, ríkinu og læknafélögunum, til baka sitt framlag. Læknafélögin lögðu á sínum tíma til 50 milljónir sem eru eflaust nær því að vera 80 milljónir á núvirði.

Það sem næst liggur fyrir er að fá fund með ráðherra og að heyra viðhorf hans til safnsins. Formlega séð er safnið ekki lengur til, stjórnin hefur verið leyst frá störfum, safnvörðurinn sagt upp og safngripirnir eru komnir í vörslu Þjóðminjasafnsins.

Læknafélagið er fagfélag og stéttarfélag og hefur ekki bolmagn til þess að leggja safninu til meira fé. Félagið er ekki heldur til þess fallið að standa í safnarekstri, það er ekki hlutverk þess. Hins vegar eru fjölmargir læknar sem hafa mikinn áhuga á sögu læknisfræðinnar á Íslandi og við höfum starfandi félag á því sviði. Það vantar ekki áhugann.

Ég lít svo á að Læknafélagið hafi í raun gert mjög mikið til að uppfylla óskir Jóns Steffensen og ekki sé rétt að leggja frekari fjárhagslegar álögur á félagið.

Ef Bygggarðar verða seldir og munirnir verða hluti af almennri safneign Þjóðminjasafnsins þarf að búa svo um hnúta að það fé sem fæst muni skila sér til þess að hlúa að lækningaminjum en renni ekki almennt inn í rekstur Þjóðminjasafnsins. Þarna er um umtalsverða fjármuni að ræða og við læknar viljum vera þess fullvissir að sá hluti arfs Jóns Steffensen sem rann til kaupa á húsnæðinu skili sér til þess sem honum var ætlað. Það má hugsa sér að nógu mikið fé fáist til þess að byggja upp lækningaminjasafn í einhverri mynd, en þá þurfa fleiri aðilar að koma að. Ef það verður ofan á getum við læknar beitt okkur sem áhugaaðilar um að sögu okkar og  minjum verði sýndur sómi.“
Þetta vefsvæði byggir á Eplica