02. tbl. 99. árg. 2013

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Læknar – hvað eigum við sameiginlegt? Guðrún Jóhanna Georgsdóttir

Mér varð það ljóst í læknanáminu í Kaupmannahöfn að læknir er alls ekki alltaf það sama og læknir. En þrátt fyrir það hafa mér fundist læknar úr alls kyns sérgreinum eða ýmsum þjóðum eiga margt sameiginlegt.

Strax í læknanáminu og einnig síðar fannst mér skína í gegn að þeir sem sækja í þetta starf hefðu almennt áhuga á að stuðla að bættu heilbrigði, hver á sinn hátt. Flestir læknar eru miklir áhugamenn um starf sitt og tileinka allstóran hluta frítíma síns læknisfræðinni á einn eða annan hátt.

Ég verð þó að viðurkenna að ég hef stundum þurft að rifja upp hvað mér hefur fundist stéttin eiga sameiginlegt. Sérstaklega þegar ég hef unnið að félagsstörfum og kjaramálum lækna, þar sem það kemur fram að við störfum að mörgu leyti við mjög ólíkar aðstæður og það eru ólíkir þættir sem hafa áhrif á kjör okkar og starfsaðstæður.

Niðurstöður könnunarinnar sem Davíð Þórisson gerði á facebook-vefnum nú í janúarbyrjun um það hvort læknar ætluðu sér að flytja heim staðfesta enn og aftur að þessi hópur á margt sameiginlegt. Könnuninni svöruðu 147 íslenskir læknar búsettir erlendis. Svör flestra sem völdu að skrifa athugasemdir við niðurlag setningarinnar: „Ég mun flytja til Íslands vegna þess að ....“ voru hjá nánast öllum að það væri vegna fjölskyldunnar. Aðeins einn læknir nefnir þar að hann muni flytja heim vegna þess að hann vilji sérstaklega starfa við íslenska heilbrigðisstofnun. Þannig gæti maður dregið þá ályktun að læknar ættu það sameiginlegt að setja fjölskylduna ofarlega á lista. Mér þótti líka athyglisvert að margir kollegar deila því með mér að sakna íslenskrar náttúru þegar þeir dveljast langdvölum erlendis.

Það var áhugavert í könnuninni að þar svöruðu ekki einungis nýútskrifaðir læknar sem voru nýfluttir út, heldur voru sérfræðingar 39% svarenda. Þá kom í ljós að aðeins þriðjungur svarenda voru nokkuð vissir um að þeir myndu flytja heim á næstu 10 árum. 

Tillögur manna að niðurlagi setningarinnar „Það sem ég vil sjá breytast á Íslandi til að ég íhugi heimflutning er ...“ sýna að kjörin skipta mestu máli. Einnig nefndu margir bætta starfsaðstöðu, betri mönnun lækna á stofnunum og meiri virðingu yfirmanna fyrir starfi lækna. Reyndar nefndu nokkrir nýja ríkisstjórn og nýjan Landspítala, það er því aldrei að vita nema þessar tölur breytist eftir kosningarnar í vor. Ofangreindar niðurstöður hljóta að teljast frábærar fyrir fjölskyldur okkar lækna en á sama tíma geta þær vart talist góðar fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi.

Það vakti nýlega athygli mína að upplýsingar um niðurstöður starfsánægjukönnunar Landspítala á síðasta ári voru ekki birtar í heild. Því fór ég þess á leit við spítalann að fá nánari upplýsingar um niðurstöðurnar og langar mig að deila með ykkur þeim niðurstöðum sem mér þóttu athyglisverðar. Það skal tekið fram að þær niðurstöður sem ég fékk frá Landspítala eru meðaltal félagsmanna LÍ. Það má því leiða líkur að því að niðurstöður fyrir yfirlækna hafi almennt híft upp meðaltalsniðurstöðurnar.

Þar kom meðal annars fram að einungis 33% félagsmanna töldu að þeir hefðu tíma til að ljúka verkefnum sínum þannig að þeir væru sáttir við þau. Þá töldu aðeins 22% að tækjakostur á þeirra deild væri viðunandi.

Það virtist einnig vera sameiginlegt með þeim læknum sem svöruðu könnuninni að þeim finnst vera of mikið eða allt of mikið álag í vinnunni en 72% félagsmanna svöruðu á þá lund. Þá voru niðurstöðurnar sambærilegar þegar spurt var um það hvort að streita væri of mikil eða allt of mikil í vinnunni en 67% félagsmanna töldu svo vera.

Í niðurstöðum kom fram að 41% töldu að á undanförnu ári hefðu þættir í starfi þeirra og/eða starfsumhverfi stuðlað að langvarandi þreytu. Um þriðjungur taldi að ofangreindir þættir hefðu stuðlað að líkamlegum álagseinkennum. Jafnframt kom fram að 36% töldu að á undanförnu ári hefðu þættir í starfi þeirra og/eða starfsumhverfi stuðlað að starfsleiða.

Vert er að nefna að svörun meðal lækna í könnuninni var því miður frekar dræm, en þetta eru engu að síður sláandi niðurstöður. Það skal talið stjórnendum Landspítala til tekna að hafa framkvæmt slíka starfsumhverfiskönnun, ólíkt mörgum öðrum heilbrigðisstofnunum. 

Þegar niðurstöður félagsmanna LÍ eru skoðaðar sérstaklega kemur í ljós að þær eru nær undantekningarlaust lægri en fyrir spítalann í heild. Þá er sérstaklega athyglisvert, í ljósi óánægju hjúkrunarfræðinga, að niðurstöður þeirra félagsmanna eru mun betri en félagsmanna LÍ.

Eftir að hafa skoðað þessar niðurstöður vona ég bara að ef ég þarf að rifja upp hvað við læknar eigum sameiginlegt eftir 10 ár, að það verði ekki það að læknum finnist þeir vera undir allt of miklu álagi og starfi við slök starfsskilyrði.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica