01. tbl. 99. árg. 2013
Umræða og fréttir
Veitir aðgang að lyfjasögu sjúklings – frá landlækni
„Þær rafrænu lausnir sem Embætti landlæknis er að leggja lokahönd á núna felast í því að læknar geta skoðað lyfjasögu einstakra sjúklinga í rauntíma, afgreitt vottorð og gengið frá ýmsum skráningum í gegnum tölvu með rafrænum skilríkjum,” segir Lilja Sigrún Jónsdóttir verkefnisstjóri á heilbrigðisupplýsingasviði.
Á myndinni er starfsfólk heilbrigðisupplýsingasviðs Embættis landlæknis sem vinnur að nýju rafrænu lausnunum. Frá vinstri, fremst: Hólmfríður G. Pálsdóttir tölvunarfræðingur, Sigríður Haraldsdóttir sviðsstjóri, Lilja Sigrún Jónsdóttir. Miðröð frá vinstri: Guðrún Auður Harðardóttir og Kristín Þorbjörnsdóttir hjúkrunarfræðingar. Aftast standa: Lilja Bjarklind Kjartansdóttir kerfisfræðingur og Ingi Steinar Ingason verkefnisstjóri rafrænnar sjúkraskrár.
Í desember og janúar hafa nokkrir tugir lækna tekið þátt í prufukeyrslu hins rafræna umhverfis en að sögn Lilju Sigrúnar er stefnt að því að um mánaðamótin janúar/febrúar verði kerfið tekið í notkun með þátttöku allra lækna sem þess óska.
Þetta verður tekið í notkun í ákveðnum þrepum en til að byrja með munu læknar geta skoðað lyfjasögu sjúklinga sinna rafrænt síðustu þrjú ár. „Ein meginbreytingin er fólgin í því að þetta er aðgengilegt með rauntímaupplýsingum, læknirinn getur séð hvaða lyfseðlar eru í lyfjagáttinni skráðir á viðkomandi sjúkling og hvort þeir hafa verið afgreiddir, þar með taldir fjölnota lyfseðlar. Þá getur læknirinn afturkallað eigin lyfseðla rafrænt í stað þess að hringja í apótekið eins og þurft hefur hingað til og ógilt lyfseðla frá öðrum læknum sem ekki falla að núverandi lyfjagjöf sjúklings. Þetta er eitt af mikilvægustu atriðunum sem auðveldar læknum mjög að sinna lyfjaávísunum markvisst. Önnur meginbreyting sem þetta hefur í för með sér er að þeir læknar sem ekki hafa aðgang að Sögukerfinu og hafa hingað til ekki haft aðgang að rafrænni lyfseðlagjöf, munu hafa fullan aðgang að nýja kerfinu með rafrænum skilríkjum.“
Rafræn skilríki eru forsendan
Rafrænu skilríkin eru forsenda alls aðgangs að hinu rafræna umhverfi. Það var niðurstaða áhættumats sem framkvæmt var að gera þyrfti þessar ítrustu kröfur um öryggi. Því fylgir sá kostur að þá verður í framtíðinni hægt að fullnusta þjónustuna rafrænt, með rafrænni undirskrift skjala. Lilja Sigrún segir að eftir áramótin verði farið í átak til að koma rafrænum skilríkjum í hendur sem flestra lækna. „Það verður hægt að sækja um þau rafrænt og nálgast þau í bönkum, þau verða afhent á Læknadögum 2013 nú í janúar og í kjölfarið heimsækjum við stærstu vinnustaðina. Þeir sem þegar hafa fengið rafræn skilríki í debetkort sitt geta að notað þau, en við munum gefa út sérstakt kort fyrir lækna, þar sem þeir vilja kannski síður vera með sitt persónulega debetkort á lofti í þessum tilgangi.”
Til að byrja með verður hægt að gefa út dánarvottorð og ökuleyfisvottorð með rafrænum hætti. „Um áramótin ganga í gildi nýjar reglur um endurnýjun ökuleyfa en gildistími þeirra styttist svo að álag á lækna mun aukast vegna útgáfu ökuleyfisvottorða. Rafræn vottorðagjöf mun gera læknum kleift að sjá hvort aðrir læknar hafa þegar gefið út samskonar vottorð en það hefur borið við að einstaklingar hafa gengið á milli lækna og ekki hætt fyrr en þeir hafa fengið það vottorð sem þeir sóttust eftir. Nú mun læknirinn strax geta séð hvort annar læknir hefur hafnað slíkri umsókn. Þá geta komið upp tilfelli þar sem fleiri en einn læknir þarf að koma að einu og sama vottorðinu og rafræn samtenging mun einfalda vinnuumhverfi læknisins og er einnig mjög tímasparandi. Fleiri vottorð munu bætast við jafnt og þétt eftir að kerfið er komið í gagnið.“
Miklar öryggiskröfur um aðgang
Lilja Sigrún segir að eðli málsins samkvæmt færist sífellt í vöxt að stofnanir og einstaklingar innan heilbrigðisgeirans skrái alls kyns upplýsingar rafrænt sem síðan berast Embætti landlæknis til úrvinnslu og varðveislu. „Rafræn skráning slíkra gagna gerir okkur kleift að vinna mun meira í rauntíma með allar upplýsingar, sem er gríðarleg framför, og einnig að veita viðkomandi stofnunum endurgjöf um gæði upplýsinga. Samanburður á milli stofnana varðandi alls kyns gæðaeftirlit verður einnig mun auðveldari og hraðvirkari og mun koma öllum til góða. Þetta er í rauninni sjálfvirknivæðing á ýmsum hlutum sem hafa verið hér í vinnslu en tekið sinn tíma í úrvinnslu. Sumt af þessum upplýsingum verður eðli málsins samkvæmt á aðgangsstýrðum vef og aðeins aðgengilegt okkur og viðkomandi stofnun. Við sjáum einnig fyrir okkur endurgjöf til lækna með svipuðum hætti, til dæmis vegna lyfjaávísana.”
Lilja Sigrún segir að mikil vinna hafi verið lögð í tryggja allan aðgang að hinum rafræna vef. „Aðgangsstýringarnar sem við höfum talið nauðsynlegar eru svo öruggar að þær eru talsvert strangari en til dæmis aðgangur einstaklinga að heimabanka sínum. Það segir kannski eitthvað. En þetta er nauðsynlegt til að tryggja að enginn geti farið þarna inn á fölskum forsendum og hin rafrænu skilríki eru þannig útbúin að enginn getur notað þau nema hann sé sá sem hann segist að vera. Þá er einnig mjög skilvirkt kerfi sem skráir allar uppflettingar svo strax er hægt að sjá hver hefur skoðað hvað. Þegar opnað verður fyrir aðgang einstaklinga að sinni lyfjasögu verður listi yfir þá sem hafa flett honum upp birtur með lyfjasögunni. Við munum líka fara í vinnu við að leiðbeina stofnunum um hvernig þær eigi að innleiða sínar eigin öryggiskröfur. Þarna verður að gera ítrustu kröfur enda málið þess eðlis.“
Vinnu- og tímasparnaður er mesta hvatningin
Markmiðið er að aðeins þurfi einn aðgang til að komast í allar upplýsingar sem læknirinn þarf á að halda. „Við stefnum auðvitað að því að einfalda kerfið og að ekki þurfi að logga sig inn í tvö til þrjú kerfi til að sækja allar upplýsingar um einstakan sjúkling. Það verður þó ekki þannig strax í byrjun, en með því að tengja sig inn á vef Embættis landlæknis kemst læknirinn í samband við fleiri upplýsingaveitur, til dæmis Sjúkratryggingar Íslands. Þá er líka markmiðið að læknir sem fer inn í Sögukerfið komist þaðan inn í öll önnur kerfi sem því tengjast með rafrænum skilríkjum. Læknar sem starfa utan stóru sjúkraskrárkerfanna munu samt hafa meiri aðgang að rafrænum lausnum í framtíðinni en áður, með rafrænum skilríkjum.“
Lilja Sigrún kveðst þess fullviss að læknar muni taka þessu fagnandi. „Þetta krefst þess að allir taki þátt og hafi nokkra þolinmæði meðan kerfið er að komast í gagnið alls staðar þar sem læknar eru að vinna. Stofnanirnar sem eru margar og misstórar þurfa að laga sig að þessu, og einyrkjar í læknastétt þurfa að koma sér upp rafrænum skilríkjum sem er reyndar lítil fyrirhöfn. Vinnu- og tímasparnaðurinn sem þessu fylgir er mesta hvatningin fyrir læknastéttina að taka þetta upp. Góð þátttaka og undirtektir lækna eru forsenda þess að hægt sé að halda áfram uppbyggingu slíkrar þjónustu. Við verðum auðvitað boðin og búin til að aðstoða við þessa breytingu en flestir læknar eru ágætlega tölvufærir og munu tileinka sér þessa nýjung án teljandi vandkvæða.”