Lyflæknaþing

XVI. þing Félags íslenskra lyflækna

á Sauðárkróki 4-6 júni 2004

Þing Félags íslenskra lyflækna sem nú fer í hönd er hið sextánda í röðinni og að þessu sinni haldið á Sauðárkróki. Þing félagsins eru helsti vettvangur fyrir lyflækna hér á landi til að kynna vísinda­rannsóknir og fjalla um mikilvæg málefni sem lúta að starfi þeirra. Einnig gefa þing þessi kost á skemmtilegum samverustundum með starfsfélögum og vinum í heillandi íslenskri náttúru, enda hafa þau ævinlega verið haldin úti á landsbyggðinni.

Samþykkt hafa verið 79 ágrip til kynningar á þinginu. Endurspeglar sá fjöldi verulega grósku í vísindastarfi lyflækna og er ekki að sjá að þeir erfiðleikar sem steðja að Landspítala hafi dregið úr virkni lækna á þessum vettvangi. Haldið verður áfram á þeirri braut sem mörkuð var á síðasta þingi, að leggja aukna áherslu á kynningu vísinda­rannsókna með veggspjöldum og verða þau alls 55. Samhliða fækkar munnlegum kynningum og verða þær nú 24. Að venju verða veitt verðlaun fyrir framúrskarandi rannsókn ungs læknis og fyrir besta framlag læknanema.

Á þessu þingi verður sú nýbreytni að ungir vísindamenn úr röðum lyflækna verða kynntir og mun Sigurður Guðmundsson landlæknir stjórna þeirri dagskrá. Að þessu sinni verður fjall­að um tvo lækna sem unnu til verðlauna fyrir rannsóknir sínar á þingi Félags íslenskra lyflækna fyrir 10 árum og munu þeir greina frá vísindastörfum sínum. Læknarnir sem hér um ræðir eru Helga Ágústa Sigurjónsdóttir sem undan­farin ár hefur stundað sérfræðinám í inn­kirtla- og efnaskiptasjúkdómum á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg og Magnús Karl Magnússon, sérfræð­ing­ur í blóðmeinafræði, sem stundaði nám í Banda­ríkj­unum og er nú kominn til starfa á Land­spítala.

Tveir gestafyrirlestrar verða á þinginu. Vil­­mund­ur Guðnason, forstöðulæknir Hjarta­vernd­ar, mun fjalla um hugmyndafræði og fram­kvæmd öldrunarrannsóknar Hjartaverndar og fyrstu niðurstöðum hennar. Þá mun Yog­en Saun­thararajah, sérfræðingur í blóð- og krabba­meins­lækningum við University of Illi­nois í Chi­cago, flytja fyrirlestur er nefnist New insights into the pathophysiology of myelodysplastic syndrome.

Á þinginu verður málþing um lyflækningar í Evrópu þar sem m.a. verður greint frá starfsemi European Federation of Internal Medicine (EFIM) en Félag íslenskra lyflækna hlaut form­lega aðild að þessum samtökum í september 2003. Undirritaður mun fjalla um hlutverk og stefnu Félags íslenskra lyflækna og síðan mun Christopher Davidson, ritari EFIM, fjalla um meginviðfangsefni og stefnu EFIM auk þess að varpa ljósi á stöðu lyflækninga í Evrópu. Einnig verður haldið málþing sem ber yfirskriftina Heil­­brigðiskerfi í uppnámi – hvernig geta lækn­­ar sparað? Á undanförnum árum hefur sí­vax­andi kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu verið ofarlega á baugi hér á landi eins og annars staðar á Vesturlöndum. Í okkar samfélagi hef­ur spjótunum verið beint að læknum og því jafnvel verið haldið fram að mikla aukn­­ingu í lyfjakostnaði megi að hluta rekja til óskynsamlegra lyfjaávísana þeirra. Vaxandi útgjöld til heilbrigðismála eru að sjálfsögðu við­kvæmt málefni því hafa verður í huga að læknar eru skuldbundir til að veita sjúklingum sínum bestu meðferð sem völ er á. Jafnframt er það skylda lækna að stuðla að því að fjármunum sem varið er til heilbrigðismála sé ráðstafað á hagkvæman hátt. Á málþinginu munu valinkunnir íslenskir lyflæknar fjalla um ýmsar hliðar þessa máls, s.s. hvort klínískar leiðbeiningar geti leitt til aukinnar hagkvæmni, skynsamlega notkun lyfja, markvissa notkun greiningarrannsókna og stöðu læknisins sem kjölfestu í heilbrigðiskerfinu.

Vísindaþing eins og það sem hér er fjallað um yrði vart haldið ef ekki kæmi til rausnarlegur stuðningur lyfjafyrirtækja og eru þeim færðar þakkir fyrir. Að venju munu lyfjafyrirtæki standa fyrir kynningu á lyfjum sínum í tengslum við þingið.

Samhliða þinghaldi verður efnt til vandaðar skemmtidagskrár á síðkvöldum. Er það von mín að þátttakendur þessa XVI. þings Félags ís­lenskra lyflækna muni eiga góðar stundir í Skagafirði þar sem saman fer mikil náttúrufegurð og stórbrotin saga sem nær all aftur til daga landnámsmanna.

Sjáumst á Sauðárkróki!

Runólfur Pálsson
formaður Félags íslenskra lyflækna
Þetta vefsvæði byggir á Eplica