Fylgirit 125 - Rannsóknarráðstefna sérnámslækna í lyflækningum 2025

Ágrip

Íslenska ofvaxtarhjartavöðvakvilla verkefnið: Rannsókn á arfberum MYBPC3 landnemastökkbreytingarinnar. Niðurstöður ómskoðunar og blóðrannsóknar.


Oddný Brattberg Gunnarsdóttir1,2, Garðar Sveinbjörnsson3, Gunnar Þór Gunnarsson1,4, Hilma Hólm3, Davíð O. Arnar1,2, Daníel F. Guðbjartsson3, Kári Stefánsson3,1, Berglind Adalsteinsdottir2

1Læknadeild, Háskóli Íslands, 2Hjartadeild, Landspítali Háskólasjúkrahús, 3deCODE genetics/Amgen, Inc., 4Lyflækningar, Sjúkrahúsið á Akureyri

Bakgrunnur
Landnemastökkbreytingin MYBPC3 c.927-2A>G skýrir >95% tilfella ofvaxtarhjartavöðvakvilla (OHK) á Íslandi og er algengi hennar áætlað 0,36% (1:280). Af ~1200 áætluðum arfberum hafa einungis ~200 verið greindir í fyrri rannsóknum sem þýðir að meirihluti arfbera sé með óþekkta svipgerð. Fyrsta birtingarmynd sjúkdómsins getur verið skyndidauði. Hægt er að hafa áhrif á sjúkdómsgang með viðeigandi meðferð, sem undirstrikar mikilvægi þess að bera kennsl á einstaklinga með OHK.

Markmið er að rannsaka MYBPC3 c.927-2A>G arfbera sem ekki eru með þekktan OHK sjúkdóm til að auka skilning á sambandi arfgerðar og svipgerðar. Þannig má veita skilvirkri meðferð sem dregið getur úr hættu á skyndidauða og alvarlegum veikindum.

Aðferðir
Rannsóknin byggir á gögnum frá 166.281 Íslendingum sem hafa tekið þátt í rannsóknum Íslenskrar Erfðagreiningar. Arfberarnir reyndust vera 561 og af þeim voru 343 sem ekki höfðu þekkta OHK greiningu. Þátttökuboð voru því send 343 arfberum (G+) og 350 í viðmiðunarhópi (G-). Sjúkraskrár arfbera voru yfirfarnar til staðfestingar á því að engin OHK greining væri til staðar. Í þessum fyrsta hluta rannsóknarinnar undirgengust þátttakendur hjartaómskoðun og pro-BNP mælingu.

Niðurstöður
Þátttaka var 68%. Niðurstöður ómskoðunar sýndu að þykkt hjartavöðvans (IVSd) var meiri í G+ en G- (p-gildi= 9.4x10-29, effect=3.0 mm). 53 G+ (23%) voru með þykkt yfir 15 mm en engin af G-. Einn arfberanna var með þykkt 30 mm. Strain var minnkað í nærhluta sleglaskilsvegg í G+ miðað við G- (p-gildi=1.4x10-10, effect=0.59 SD). G+ voru með minna þvermál vinstri slegils miðað við G- (p-gildi=2.9x10-9, effect=-2.9mm) og stærra þvermál vinstri gáttar (p-gildi=2.13x10-5, effect=2.1 mm).
Pro-BNP var hærra meðal G+ en G- (p-gildi=2.8x10-14, effect=0.58 SD).

Umræður
Arfberar landnemastökkbreytingarinnar MYBPC3 c.927-2A>G með áður ógreindan OHK höfðu þykkari hjartavöðva, minnkað strain í nærhluta sleglaskilsvegg, minnkað þvermál vinstri slegils og stærri vinstri gátt en G-. Arfberarnir höfðu einnig hærra pro-BNP en viðmiðunarhópurinn. Að minnsta kosti um fjórðungur arfberanna er með áður ógreindan OHK sem gæti haft klíníska þýðingu. Það undirstrikar gagnið sem getur hlotist af því að bera kennsl á og upplýsa arfbera stökkbreytinga sem valda sjúkdómum sem hægt er að hafa áhrif á með viðeigandi meðferð (actionable genes). Niðurstöður úr öðrum þáttum rannsóknarinnar munu skýra nánar svipgerð arfberanna.

_______________________________________________________________________________________________________

Óútskýrðir kviðverkir meðal sjúklinga á bráðamóttöku: hlutverk speglana og gervigreindar

 

Sigrún Harpa Stefánsdóttir1, Andrea Rún Einarsdóttir2, Sigrún Helga Lund3, Einar Stefán Björnsson1,2

1Lyflæknasvið Landspítala, 2Læknadeild, Háskóli Íslands, 3Raunvísindadeild, Háskóli Íslands

 

Bakgrunnur
Kviðverkir eru algeng ástæða fyrir komu á Bráðamóttöku Landspítala (BMT). Sjúklingum með kviðverki og meltingarónot (e. dyspepsia) er oft vísað í magaspeglun, þ.m.t. sjúklingum með óútskýrða kviðverki á BMT. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum er mælt með magaspeglun sem fyrstu uppvinnslu hjá sjúklingum 50 ára og eldri með nýtilkomna dyspepsiu eða sem hafa rauð flögg (e. alarm features) s.s. megrun án skýringar, merki um blæðingu frá meltingarvegi, kyngingartregðu eða langvarandi uppköst. Í nýlegri íslenskri rannsókn voru þessar klínísku leiðbeiningar sannreyndar hjá sjúklingum <50 ára. Hjá þeim sem fóru í sína fyrstu magaspeglun á Landspítalanum voru 69% með viðeigandi en 31% ekki með viðeigandi ábendingu. Hjá fyrrnefnda hópnum voru klínískt marktækar útkomur algengar, þ.m.t. krabbamein í maga og vélinda. Hjá þeim án rauðra flagga voru klínískt mikilvægar útkomur mjög sjaldgæfar og enginn með krabbamein

Notkun gervigreindar hefur farið hratt vaxandi síðustu ár og hafa rannsóknir sem tengjast notkun gervigreindar í læknisfræði aukist samhliða því. Gervigreindarlíkönum hefur verið beitt til að einkennastiga sjúklinga og draga úr sýklalyfjaávísunum og myndrannsóknum hjá sjúklingum með öndunarfæraeinkenni. Ekki hafa verið gerð slík líkön hjá sjúklingum sem leituðu á BMT með kviðverki sem ekki fannst skýring á við uppvinnslu og fóru í magaspeglun í kjölfarið.

Aðferðir

Fyrirhugað er að þjálfa gervigreindarlíkan (e. machine learning) með því að að nýta afturskyggn gögn frá þeim sjúklingum sem leituðu til læknis vegna ákveðinna einkenna út frá því hver niðurstaða rannsókna reyndist. Niðurstöður magaspeglana hjá sjúklingum <50 ára á árunum 2018-2022 hafa verið skoðaðar og er hægt að nýta þau gögn til að þjálfa slíkt líkan. Skoðuð verða einkenni, niðurstöður blóðprufa og speglana hjá sjúklingum sem leita á BMT vegna dyspepsiu.

Niðurstöður: ekki fyrirliggjandi

Umræður

Með því að hanna gervigreindarlíkan er það von rannsakenda að hægt yrði að aðstoða lækna við að áætla hvaða sjúklingar hefðu gagn af magaspeglun. Þar af leiðandi væri mögulega hægt að spara kostnað við speglanir og óþægindi fyrir sjúklinga í þeim tilfellum þar sem mjög litlar líkur eru á að speglanir séu gagnlegar við greiningu eða meðferð.

________________________________________________________________________________________________________

Hlutverk sýkinga í meingerð og þróun plasmafrumusjúkdóma

Marína Rós Levy1,2, Carsten Utoft Niemann3, Sigurður Yngvi Kristinsson1,2, Sigrún Þorsteinsdóttir1,3

1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 Lyflækningasvið, Landspítali Háskólasjúkrahús, 3 Ríkisspítalinn í Kaupmannahöfn

Bakgrunnur

Sýkingar hafa verið taldar spila hlutverk í meingerð mergæxlis (MM) og forstigs þess, góðkynja einstofna mótefnahækkunar (MGUS). Ekki er mikil þekking til um tengslin því að baki en kenningar hafa verið um að hugsanlega geti óstýrt ónæmissvar gegn ákveðnum sýkingarvöldum eða langvarandi mótefnavaka örvun spilað inn í. Markmið verkefnisins er að rannsaka tengsl sýkinga við plasmafrumusjúkdóma og framvindu þeirra.

Aðferðir

Verkefnið byggir á gögnum Blóðskimunar til bjargar sem er lýðgrunduð skimunarrannsókn fyrir MGUS á Íslandi og hófst árið 2016. Öllum Íslendingum ³40 ára var boðin þátttaka, nú hafa 75.422 einstaklingar skilað inn blóðsýni sem send voru í mælingar á M-próteini, fríum léttum keðjum og mótefnamagni. Gögnum um sýkingar greiningar (ICD-10 kóðar) var safnað frá Heilsugæslum, Landspítala og sérfræðistofum. Gögn um sýklalyfjanotkun (ATC kóðar) voru fengin frá Lyfjagagnagrunni landlæknis.Fyrri hluti verkefnisins snýr að sýkingum fyrir og eftir greiningu á MGUS samanborið við viðmið. Seinni tvær rannsóknirnar snúa að áhrifum sýkinga og bólusetninga á framvindu MGUS í virkan sjúkdóm.Hluti verkefnisins er unninn í samstarfi við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn og dönsku eitilfrumu krabbameinsskrána (DALY-CARE), en þar eru upplýsingar um 18.000 sjúklinga með MGUS og um 5.000 einstaklinga með MM.

Niðurstöður

Alls greindust 3.652 einstaklingar með MGUS (4,8%) og 338.486 sýkingar greiningum ásamt 917.564 lyfseðlum var safnað á Íslandi.

Þegar sýkingar fyrir jákvæða skimun á MGUS voru skoðaðar sást að sýkingartíðnin var svipuð milli einstaklinga sem síðar greindust með MGUS samanborið við viðmið. Lítil aukning sást í uppáskrift sýklalyfja hjá þeim sem skimuðust með MGUS. Þessi aukning hvarf ef leiðrétt var fyrir mótefnaskorti, í næmisgreiningu sást að aukningin var stuttu fyrir skimun og hvarf ef síðustu 5 árin voru tekin út.

Þegar sýkingar eftir MGUS greiningu voru skoðaðar sést örlítil aukning í fjölda uppáskrifaðra sýklalyfja hjá einstaklingum sem skimast með MGUS samanborið við viðmið, munurinn minnkaði þegar leiðrétt var fyrir mótefnaskorti.

Umræður

Við sjáum ekki aukna tíðni sýkinga fyrir jákvæða skimun á MGUS. Örlítil aukning sýklalyfja sést rétt fyrir jákvæða skimun og er hún áfram aukin eftir skimun. Þetta skýrist líklega af ógreindu MGUS og ónæmisbrest sem því getur fylgt. Í framhaldinu munu tengsli sýkinga og framvindu forstigsins vera könnuð.

_________________________________________________________________________________________________________

Hjálparhjörtu á Íslandi

Magnús Ari Brynleifsson1 , Ævar Örn Úlfarsson2, Martin Ingi Sigurðsson3

1Lyflækningadeildir Landspítala, 2Hjartadeild Landspítala, 3Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala

Inngangur

Hjálparhjörtu (ventricular assist device) eru notuð í auknum mæli sem meðferðarmöguleiki hjá sjúklingum með alvarlega hjartabilun en upplýsingar skortir um fjölda, ábendingar og afdrif þessa sjúklingahóps á Íslandi.

Efniviður og aðferðir

Afturskyggn rannsókn sem náði yfir tímabilið 01.01.2010 – 31.12.2024. Þýðið samanstóð af einstaklingum sem höfðu fengið ígrætt hjálparhjarta og verið í meðferð eða eftirliti á Íslandi fyrir eða eftir ígræðsluna. Klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrá og voru skráðar klínískar breytur fyrir ígræðslu og afdrif eftir ígræðslu.

Niðurstöður

Sex einstaklingar fengu ígrætt hjálparhjarta á árunum 2010-2024, allt karlmenn. Aldursbilið á tíma ígræðslu var 17- 66 ár. Ábendingarnar voru brú til hjartaígræðslu (50%) og brú til ígræðsluhæfis (50%). Orsakavaldar hjartabilunar voru ofþensluhjartavöðvakvilli (83%) og blóðþurrðar hjartavöðvakvilli (17%). Fjórir fengu vinstri hjálparhjarta og tveir fengu tvíslegla hjálparhjarta. Fjórir fóru í kjölfarið í hjartaígræðslu, einn lést með hjálparhjarta og einn var enn með hjálparhjarta þegar rannsókn lauk. Meðaltími frá ígræðslu hjálparhjarta til hjartaígræðslu voru 249 dagar. Á rannsóknartímabilinu voru 1704 dagar þar sem einn eða fleiri einstaklingar voru með hjálparhjarta á Íslandi og var það 31% af rannsóknartímanum. Fjórir fylgikvillar voru skráðir á rannsóknartímabilinu en það voru driflínusýking, sleglahraðtaktur, meltingarvegsblæðing og innanskúmsblæðing eftir yfirlið.

Ályktanir

Vel gekk að meðhöndla sjúklinga með hjálparhjarta á Íslandi og niðurstöður þessar benda til þess að ígræðsla og notkun á hjálparhjörtum sé mögulega vannýttur möguleiki sem meðferð við alvarlegri og langvinnri hjartabilun á Íslandi.

___________________________________________________________________

Samanburður á áhrifum allópúrinóls og febúxóstats á 2,8-díhydroxýadenín blóðvökva og þvagi

Hrafnhildur L. Runólfsdóttir1, Unnur A. Þorsteinsdóttir2,3, Inger M Sch. Agústsdóttir1, Margrét Þorsteinsdóttir2,3, Runólfur Pálsson1,2, Viðar Ö. Eðvarðsson1,2.

1Landspítali; 2Háskóli Íslands; 3ArcticMass, Reykjavík, Ísland.

 

Bakgrunnur: Meðferð með xanþínoxidóredúktasa (XOR)-hemlunum allópúrinóli og febúxóstati getur minnkað myndun á 2,8-díhydroxýadeníni (DHA) hjá sjúklingum með adenínfosfóríbósýltransferasa (APRT)-skort. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman áhrif allópúrinóls 400 mg/dag og 800 mg/dag við áhrif febúxóstats 40 mg/dag og 80 mg/dag á DHA í blóðvökva og þvagi.

Aðferðir: Tólf sjúklingar í „APRT Deficiency Registry“ við Landspítala tóku þátt í rannsókninni. Eftir 4 vikna hreinsunartímabil var þátttakendum ávísað allópúrinóli 400 mg/dag eða 40 febúxóstati mg/dag í 28 daga. Skammtarnir voru auknir í 800 mg af allópúrinóli og 80 mg af febuxóstati í aðra 28 daga. Eftir 28 daga hreinsunartímabil var meðferð með allópúrinóli og febúxóstati víxlað. DHA í blóði og þvagi var mælt með UPLC-MS/MS og þvagútskilnaður DHA tjáð sem DHA-kreatínín hlutfall (mg/mmól). Greiningarmörk voru < 20 ng/ml.

Niðurstöður: Sjö sjúklingar luku rannsókninni, miðgildi aldurs var 57,7 (37,3-65,1) ár. Miðgildi DHA í blóðvökva var 301 (178-679) ng/ml án meðferðar. Fimm sjúklingar mældust með 40 (25-95) ng/ml af DHA í blóðvökva á 400 mg af allópúrinóli meðan aðrir höfðu gildi neðan greiningarmarka. Tveir sjúklingar mældust með DHA yfir greiningarmörkum í blóðvökva á 800 mg af allópúrinóli, 28 og 92 ng/ml. Eftir meðferð með 40 mg af febúxóstat var DHA greinanlegt í blóðvökva hjá einum sjúklingi, 35 ng/ml, og hjá öðrum sjúklingi að lokinni meðferð með 80 mg af febúxóstati, 175 ng/ml. Miðgildi DHA í þvagi var 8,18 (6,21-18,69) mg/mmól án meðferðar, 1,90 (0,15-4,52) mg/mmól á 400 mg af allópúrinóli og 1,00 (0,13-4,32) mg/mmól á 800 mg af allópúrínóli. Að lokinni meðferð með 40 mg af febúxóstat var DHA útskilnaður 0,74 (0,28-1,33) mg/mmól hjá 7 sjúklingum og 0,55 og 0,64 hjá tveimur sjúklingum sem höfðu greinanlegt DHA í þvagi eftir meðferð með 80 mg af febúxóstat.

Umræður: Allópúrinól í skammtinum 800 mg/dag hafði meiri áhrif á magn DHA í blóðvökva og þvagi en 400 mg/dag. Þá virðist febúxóstat áhrifaríkara en allópúrinól við lækkun á DHA í bæði blóðvökva og þvagi.

_________________________________________________________________________________________________________

Sundurgreining einhliða og tvíhliða frumkomins aldósterónheilkennis – stöðupróf og nýrnahettubláæðaþræðing

Hrafnhildur Gunnarsdóttir1,2, Jón Guðmundsson3, Guðjón Birgisson4 og Helga Ágústa Sigurjónsdóttir1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Lyflækningar, Landspítala, 3Röntgenlækningar, Landspítala, 4Almennar skurðlækningar, Landspítala

 

Bakgrunnur

Frumkomið aldósterónheilkenni (FA) er algeng orsök háþrýstings. Mikilvægt er að greina hvort sjúkdómurinn er í annarri eða báðum nýrnahettum til að tryggja viðeigandi meðferð og draga úr áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Nýrnahettubláæðaþræðing (AVS) er „gullstandard“ í sundurgreiningunni en stöðuprófið (PT) getur reynst gagnlegt. Markmið rannsóknarinnar var að finna besta viðmið aldósterónhækkunar í PT í okkar þýði. Einnig að meta samhliðanotagildi (e. parallel evaluation) tölvusneiðmyndar af nýrrnahettum (TS) og PT til greiningar einhliða FA.

Aðferðir

Rannsóknin var lýðgrunduð ferilrannsókn og tók til allra sjúklinga sem greindust með FA á Landspítala 2007-2016. Fyrir uppvinnsluferli var lyfjum sem hafa áhrif á renín angíótensín aldósterón kerfið hætt. Skimun samanstóð af morgunmælingum reníns og aldósteróns í sermi auk mælinga á sólarhringsútskilnaði aldósteróns. PT benti til tvíhliða sjúkdóms ef aldósterón hækkaði >50% eftir fjögurra klukkustunda upprétta stöðu. Salthleðslupróf með dreypi var notað til staðfestingar FA; ef aldósterón mældist >140 pmól/l eftir innrennslið var prófið metið jákvætt. Allir sjúklingar fóru í TS og synacthen örvaða AVS til sundurgreiningar einhliða og tvíhliða sjúkdóms. Meðferð einhliða sjúkdóms var aðgerð en annars aldósterón viðtakahemlar. Tölfræðiúrvinnsla fór fram í STATA og JMP.

Niðurstöður

Fimmtíu sjúklingar fóru í PT, þar af fóru 49 einnig í AVS. Miðgildi aldurs voru 54 ár (IQR 13) og 49% voru konur. Miðgildi blóðþrýstings fyrir uppvinnslu var 161/96 mmHg (IQR 22/17). TS sýndi einhliða hnút hjá 45% sjúklinganna, 68% þeirra reyndust hafa einhliða sjúkdóm samkvæmt AVS. ROC kúrva (AUC=0,75, CI 0,61-0,89) sýndi að 50% hækkun aldósteróns í PT var 45% næm, 81% sértæk og greindi 65% sjúklinganna rétt. Besta viðmið aldósterónhækkunar í prófinu var 74% en þá reyndust 71% sjúklinganna rétt greindir, næmi 59% og sértæki 81%. Samþætt mat PT og TS til greininar einhliða PA var 32% næmt og 96% sértækt með 88% jákvætt forspárgildi og 63% neikvætt.

Umræður

Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að skilgreina viðmið aldósteróns fyrir það þýði sem um ræðir. Niðurstöðurnar benda einnig til þess að PT geti verið áreiðanlegt til sundurgreiningar FA undirhópa, sérstaklega þegar niðurstöðurnar eru túlkaðar í samhengi við TS niðurstöður. PT getur þar af leiðandi reynst vel á stöðum sem ekki hafa aðgang að AVS. 

_________________________________________________________________________________________________________

Trefjagollurshús sem sjaldgæf orsök skorpulifrar - sjúkratilfelli

Teitur Ari Theodórsson1, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir2,3

1Lyflækningasvið, Landspítali Háskólasjúkrahús, 2Hjartadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss

3Háskóli Íslands

Bakgrunnur:

Trefjagollurshús (e. Constrictive pericarditis) er sjaldgæfur sjúkdómur sem oftast er rakin til veirusýkinga í hinum þróaða heimi. Sjúkdómsgangurinn einkennist af vaxandi útlægri vökvasöfnun, slappleika og mæði. Hér verður lýst tilfelli af trefjagollurshúsi sem uppgötvast í kjölfar greiningar skorpulifrar. Tilfellið undirstrikar mikilvægi þess að hugsa um hjartabilun sem orsök skorpulifrar sem og að vinna upp orsök hjartabilunar.

Sjúkratilfelli:

46 ára kona með fyrri sögu um erfiðan eosinophil astma leitaði á heilsugæslu vegna epigastrial kviðverkja til tveggja mánaða, uppþembu, mæði og fótabjúgs. Tölvusneiðmynd af brjóst- og kviðarholi sýndi blandaða mynd af hjarta- og lifrarbilun með kviðarhols-, fleiðruvökva, skorpulifur og kölkunum í gollurshúsi. Við skoðun var sjúklingur með hálsvenustasa, því vaknaði grunur um trefjagollurshús. Hjartaþræðing með þrýstingsmælingum og sérómun bentu til sjúkdómsins. Gollurshúsbrottnám (e. pericardiectomy) var framkvæmt sem sýndi þykknað gollurshús sem umlók hjartað eins og hörð skel. Eftir aðgerð hefur lifrarstarfsemi haldist góð og mæði minnkað.

Umræða:

Fyrri tölvusneiðmyndir sýna kalkanir í gollurshúsi sjúklings alt frá 2006, því er ljóst að sjúkdómurinn hefur tekið langan tíma að þróast. Sjúklingur var unnin upp með tilliti til orsaka trefjagollurshúss með ónæmisfræðiprófum og frekari myndgreiningum án skýringa. Líklegast þykir því að gollurshúsbólga af völdum veirusýkingar hafi ýtt sjúkdómsferlinu úr vör. Þó hafa fyrri tilfelli lýst trefjagollurshúsi af völdum HES (Hypereosinophilic syndrome) en sjúklingur hafði þurft líftæknilyf til þess að halda styrk rauðkyrninga í blóði í skefjum. Því er ekki útilokað að þeir hafi spilað rullu í meinmynd sjúkdómsins.

___________________________________________________________________________________________________________

Brjóstakrabbamein á Íslandi 2004-2023, meðferðarheldni innkirtlameðferðar, erfðir og horfur hjá ungum sjúklingum

Stefanía Katrín Finnsdóttir1,2, Gerður Eva Halldórsdóttir2, Ólöf Kristjana Bjarnadóttir1, Sigurdís Haraldsdóttir1,2

1Landspítali, krabbameinslækningadeild, 2Heilbrigðisvísindasvið, Háskóli Íslands

Bakgrunnur: Í hormónajákvæðu brjóstakrabbameini er gefin innkirtlameðferð til viðbótar við aðra meðferð. Fimm ára innkirtlameðferð lækkar dánartíðni hormónajákvæðs brjóstakrabbameins um þriðjung. Meðferðarheldni innkirtlameðferðar hefur ekki verið skoðuð á Íslandi en erlendar rannsóknir hafa sýnt að henni sé oft ábótavant. Brjóstakrabbamein í ungum konum (< 40 ára) eru oft illvíg og hafa verri horfur samanborið við eldri konur, sem gæti að hluta til skýrst af meinvaldandi stökkbreytingum. Mælt er með að allar ungar konur sem greinast með brjóstakrabbamein fari í klíníska erfðarannsókn.

Aðferðir: Þetta er aftursæ lýsandi rannsókn. Gögn voru fengin frá Krabbameinsskrá, Lyfjagagnagrunni Landlæknis og úr sjúkraskrám. Fyrri hluti rannsóknarinnar inniheldur alla sem greindust með hormónajákvætt brjóstakrabbamein á stigi 1-3 á Íslandi árin 2004-2023 og fengu innkirtlameðferð. Meðferðarheldni innkirtlameðferðarinnar verður skoðuð ásamt því hvaða þættir hafa áhrif á meðferðarheldni og hver áhrif meðferðarheldni eru á horfur. Í öðrum hlutanum er fyrirhugað að skoða brjóstakrabbamein hjá konum sem greindust <40 ára á árunum 2004-2023. Hlutfall þeirra sem voru sendar í klíníska erfðarannsókn verður skráð. Fyrirhugað er að kortleggja tíðni meinvaldandi stökkbreytinga í þessum hópi með upplýsingum frá Erfðafræðideild Landspítala og Íslenskri erfðagreiningu. Horfur arfbera meinvaldandi stökkbreytinga í brjóstakrabbameinstengdum genum verða bornar saman við horfur þeirra sem fá stakstæð krabbamein.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður fyrir alla sjúklinga sem greindust með hormónajákvætt brjóstakrabbamein á árunum 2016-2018 (519 manns) sýndi að meðferðarheldni innkirtlameðferðar var 76,7%. Hún var 80,2% fyrir arómatasahemla en 70,5% fyrir Tamoxifen. Meðferðarheldni hafði ekki marktæk áhrif á lifun en eftirfylgdartíminn var stuttur.

Fyrstu niðurstöður fyrir konur sem greindust með brjóstakrabbamein <40 ára á tímabilinu 2010-2023 sýndu að 157 af 182 (86,3%) höfðu verið sendar í klíníska erfðarannsókn. Af þessum 157 voru 45 (28,7%) sem báru meinvaldandi stökkbreytingu, þar af var íslenska landnemastökkbreytingin í BRCA2 geninu algengust.

Umræður: Fyrstu niðurstöður benda til að meðferðarheldni innkirtlameðferðar sé ábótavant á Íslandi. Með vitundarvakningu má bæta meðferðarheldni og mögulega horfur í hormónajákvæðu brjóstakrabbameini. Með því að kortleggja brjóstakrabbamein í ungum konum og meinvaldandi stökkbreytingar í þeim hópi getum við betur skilið af hverju þessi hópur hefur verri horfur og þannig átt möguleika á að bæta meðferð og lifun. 

__________________________________________________________________________________________________________

Jaðaræxli í eggjastokkum á Íslandi 2005-2022 - lýðgrunduð rannsókn

 

Arna Rut Emilsdóttir1,2, Anna Margrét Jónsdóttir3 og Elísabet Arna Helgadóttir4

1Lyflækningasvið Landspítala, 2Erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 3Meinafræðideild Landspítala og 4Kvennadeild Landspítala

 

 

Inngangur: Jaðaræxli í eggjastokkum (e. borderline ovarian tumors) eru þau æxli sem finnast í eggjastokkum sem teljast á mörkum þess að vera góðkynja og illkynja. Þau eiga uppruna í þekjuvef og einkennast af aukinni frumuskiptingu með vægum afbrigðileika í frumukjarna (e. nuclei atypia) án íferðar í stoðvef. Þau greinast í flestum tilfellum á stigi I og er þá skurðaðgerð oftast læknandi. Jaðaræxli í eggjastokkum hafa lítið verið rannsökuð á Íslandi og var markmið þessarar rannsóknar að fá betri yfirsýn yfir sjúkdóminn hér á landi, kanna meðferð, endurkomulíkur og lifun.

Efni og aðferðir: Rannsóknin náði til allra sjúklinga sem greindust með jaðaræxli í eggjastokkum á Íslandi 2005-2022. Listi yfir sjúklinga var fenginn frá Krabbameinsskrá og Landspítala. Klínískra upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám. Sjúklingum var fylgt eftir til 1. janúar 2025.

Niðurstöður: Alls greindust 137 konur á rannsóknartímabilinu. Miðgildi aldurs við greiningu var 53 ár en aldursbilið spannaði 10-86 ár. Stærstur hluti sjúklinga var með sermiþekjuæxli (e. serous tumors) (53%) eða kvoðuæxli (e. mucinous tumors) (45%). Flestar konur greindust á stigi I (86%) og allar undirgengust skurðaðgerð. Allan æxlisvöxt tókst að fjarlægja í 96% tilfella. Alls fengu 11 konur lyfjameðferð eftir skurðaðgerð. Hjá öllum konum utan einnar fór sjúkdómur í sjúkdómsdvala eftir fyrstu meðferð. Átta konur (6%) fengu endurkomu á rannsóknartímabilinu og alls létust þrjár úr sjúkdómnum. Miðgildi tíma að endurkomu var 5,6 ár (spönn 19 mán - 9,6 ár). Heildarlifun við 5 ár var 93,6% (95%-ÖB: 89,3-98,0) og 86,3% (95%-ÖB: 79,7-93,5%) við 10 ár.

Ályktun: Birtingarmynd sjúkdómsins er sambærileg því sem fram kemur í erlendum rannsóknum og eru horfur almennt góðar. Hingað til hefur eftirlit verið ráðlagt í 5 ár frá greiningu. Í ljósi þess hve langt getur liðið frá greiningu að endurkomu og hve fátíðar þær eru mætti íhuga endurskoðun á því verklagi.

___________________________________________________________________________________________________________

Turner heilkenni á Íslandi frá upphafi greininga

 

Alexandra Ásgeirsdóttir1, Arndís Sigmarsdóttir2, Árni V Þórsson2,3, Ragnar Bjarnason2,3, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir1,3

1Landspítali Háskólasjúkrahús, 2Barnaspítali Hringsins, 3Læknadeild Háskóla Íslands

 

 

Bakgrunnur:

Turner heilkenni (TH) er litningagalli sem veldur truflun á eðlilegum þroska stúlkna. Heilkennið stafar af algerri eða hlutavöntun X litnings, oftast ritað sem 45X0. Algengi þess á heimsvísu er um 1 af hverjum 2500 lifandi fæddum stúlkum. Klínísk einkenni eru margskonar og sum alvarlegri en önnur. Ber þá helst að nefna lágvöxtur, ótímabær eggjastokkabilun í frumbernsku, ýmsar innkirtlaraskanir og líffæramissmíð. TH geta fylgt meðfæddir hjarta-og æðagallar og er algengasta orsök rofs á ósæð (aortic dissection) í ungum konum. Snemmbær greining og rétt eftirlit er því mjög mikilvægt. Litningarannsóknir komu fyrst fram á sjónarsviðið 1956 og fyrsta grein um karotýpu TH var gefin út í vísindariti 1959. Forsjáll íslenskur barnalæknir safnaði gögnum alla sína starfsævi, frá því hann kom úr framhaldsnámi erlendis frá, um þessar konur og því eru til íslensk gögn um greiningu og meðferð nærri frá upphafi litningagreiningar í heiminum. Lykilatriði í eftirliti og meðferð TH er að greina snemma svo hægt sé að gefa hormónauppbótarmeðferð til að stuðla að kynþroska og betri hæðarvexti auk þess sem náið eftirlit hjá hjartalækni getur verið nauðsynlegt. Nýlegar klínískar leiðbeiningar byggðar á alþjóðlegri samvinnu undirstrika mikilvægi snemmbærrar greiningar, réttrar meðferðar og góðs eftirlits til langframa. Rannsóknin miðar að því að skoða algengi TH á Íslandi á rannsóknartímabilinu samanborið við önnur lönd og meðferðarárangur þýðisins.

Efniviður og aðferðir:

Rannsóknin er afturskyggn sem mun lýsa algengi, fylgikvillum, greiningu og meðferð TH á Íslandi auk árangurs meðferða og breytinga sem hafi orðið frá upphafi greininga og út árið 2024. Undirbúningur er hafinn til að sækja um viðeigandi leyfi Vísindasiðanefndar og annarra viðeigandi stofnana. 

___________________________________________________________________________________________________________

Góðkynja einstofna mótefnahækkun – áhrif valbjögunar í fyrri rannsóknum

 

Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir1,2, Sæmundur Rögnvaldsson1,2, Þorvarður Jón Löve1,2, Sigurður Yngvi Kristinsson1,2

1Háskóli Íslands, Læknadeild, 2Landspítali

 

Bakgrunnur

Góðkynja einstofna mótefnahækkun (e. monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS) er einkennalaust forstig mergæxlis og skyldra sjúkdóma. Að auki hefur MGUS verið tengt fjölda annarra sjúkdóma og skertum lífslíkum. MGUS er til staðar hjá um 5% einstaklinga yfir fertugu en greinist venjulega fyrir tilviljun við uppvinnslu annarra heilsufarsvandamála þar sem almenn skimun er ekki ráðlögð. Flestar fyrri rannsóknir á MGUS byggja á tilviljanagreindum þýðum sem líklegt er að innihaldi einstaklinga með fleiri fylgisjúkdóma samanborið við heildarþýði einstaklinga með MGUS. Þetta gæti hafa valdið valbjögun í fyrri rannsóknum og ofmati á tengslum MGUS við aðra sjúkdóma og áhrifum þess á lifun. Markmið þessa rannsóknarverkefnis er að kortleggja mögulega valbjögun í fyrri rannsóknum á MGUS og auka skilning á klínískri þýðingu þess.

Aðferðir

Verkefnið er í þremur hlutum: 1) Kanna umfang valbjögunar í fyrri rannsóknum á MGUS með samanburði á tíðni fylgisjúkdóma milli einstaklinga með tilviljanagreint- og skimað MGUS. 2) Kanna klíníska þýðingu tilviljanagreinds MGUS með samanburði á fylgisjúkdómum og lifun einstaklinga sem hafa undirgengist próteinrafdrátt eða létt-keðjumælingar og ýmist greinst með MGUS eða ekki. 3) Kanna lifun og dánarorsakir einstaklinga með MGUS í skimuðu þýði. Fyrsti og þriðji hluti byggjast á gögnum Blóðskimunar til bjargar, stærstu skimunarrannsóknar á MGUS á heimsvísu, þar sem 75.422 einstaklingar hafa verið skimaðir fyrir MGUS. Í öðrum hluta verða sótt gögn um alla próteinrafdrætti og mælingar á fríum léttum keðjum á Landspítala frá 2003. Greiningar á fylgisjúkdómum, dánardagsetningar og dánarorsakir verða sótt úr gagnagrunnum Embættis landlæknis.

Niðurstöður

Fyrsta hluta verkefnisins er lokið. Einstaklingar með tilviljanagreint MGUS reyndust hafa marktækt fleiri fylgisjúkdóma en þeir sem greindust við skipulagða skimun (3,23 vs. 2,36; 95% öryggisbil 0,46-0,90, p <0,001). Þá voru þeir marktækt líklegri til að hafa sjálfsónæmissjúkdóma, taugasjúkdóma, langvinna nýrnasjúkdóma, lifrarsjúkdóma, hjartabilun og innkirtlasjúkdóma, eftir að búið var að leiðrétta fyrir aldri og kyni. Ekki var teljandi munur á lýðfræðilegum eiginleikum eða MGUS-tengdum þáttum milli hópa.

Umræður

Niðurstöður fyrsta hluta verkefnisins sýna umfangsmikinn þátt valbjögunar í fyrri rannsóknum á MGUS. Niðurstöður annars og þriðja hluta munu varpa enn frekara ljósi á klíníska þýðingu MGUS og gefa óbjagaða mynd af lífslíkum einstaklinga með MGUS í fyrsta sinn.

________________________________________________________________________________________________________

Magakrabbamein á Íslandi árin 2010-2023

Milica Maljkovic1, Ken Namikawa2, Sigurdís Haraldsdóttir1,2, Jón Gunnlaugur Jónasson1,2, Einar S. Björnsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Landspítali Háskólasjúkrahús

Bakgrunnur:

Síðasta rannsókn á magakrabbameini á Íslandi tók til tímabilsins 1990-2009 og beindist fyrst og fremst að meinafræðilegri tegund æxlanna.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna eðli og tegundir krabbameins í maga og horfur sjúklinganna á síðustu árum.

Aðferðir:

Þetta er aftursýn gagnarannsókn á sjúklingum sem greindir voru með magakrabbamein 2010-2023 hjá Krabbameinsskrá Íslands.

Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám um greiningaraldur, staðsetningu, vefjagerðir, horfur og dánarorsakir.

Niðurstöður:

Alls greindust 362 sjúklingar á rannsóknartímabilinu, nýgengi magakrabbameina hjá körlum er 7,26 og hjá konum 5,81 per 100 000 íbúa árlega.

Alls tókst að fara yfir 100 sjúklinga, meðalaldur við greiningu 71 ár (spönn 32-92 ára), 57 karlar (57%), miðgildi eftirfylgni var 8 mánuðir.

Adenocarcinoma var algengasta tegundin (71%), carcinoid æxli (12%), gastrointestinal stromal tumor, GIST (6%) og ótilgreindar tegundir (11%) (Mynd 1)

Svipaður hluti æxlanna var staðsettur í efsta hluta maga (n=30) og corpus (n=31), en 14 í antrum og upplýsinga skortir um 25 (Mynd 2).

Alls voru 45 með meinvörp við greiningu, 79 létust á rannsóknartímabilinu og 63 (80%) vegna krabbameinsins, 85% af völdum adenocarcinoma og 15% vegna annarra illkynja æxla í maga.

Umræður:

Illkynja mein í maga er um það bil 70% adenocarcinoma en meirihluti annarra meina er af völdum GIST og carcinoid æxla.

Magakrabbamein greinist yfirleitt eftir sjötugt, en getur stundum greinst á unga aldri.

Krabbameinið var dánarorsök hjá miklum meirihluta sjúklinganna sem sýnir brýna þörf á betri meðferðarmöguleikum við magakrabbamein.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica