Ágrip
Föstudagur 4. apríl kl. 12:00 – 13:00
Forrými AB – sýningarsvæði / Veggspjaldakynning
V01 Keiluskurðir á Landspítala árið 2022: mat á dýpt keiluskurða og viðvarandi forstigsbreytingum eftir keiluskurð
Telma Rós Jónsdóttir, Háskóli Íslands
Sigrún Perla Böðvarsdóttir, Landspítali,
Kolbrún Pálsdóttir, Landspítali
Inngangur: HPV getur valdið forstigbreytingum leghálskrabbameins sem hægt er að fjarlægja með keiluskurði. Mikilvægt er að skurðurinn sé viðeigandi djúpur og skurðbrúnir fríar. Mat á dýpt skurðar fer eftir staðsetingu TZ svæðis. Dýpt keiluskurðar með TZ svæði af tegund 1 að vera <10 mm, tegund 2 á að vera 10-15 mm og tegund 3 á að vera 15-25 mm. Eftirlit er eftir 6 mánuði. Fríar skurðbrúnir eru algengari með aukinni dýpt og verndandi fyrir forstigsbreytingum. Síðkomnir fylgikvillar keiluskurðar eru fyrirburafæðing og fósturlát. Algengi þeirra eykst með dýpri keiluskurðum.
Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn ferilrannsókn sem náði yfir 332 tilfelli. Upplýsingar voru sóttar úr sjúkraskrám. Tölfræðiforritið R var notað við hlutfallsreikning og niðurstöður settar upp í lýsandi tölfræði. Skoðaðir voru dýptarflokkar innan hverrar tegundar TZ svæðis fyrir sig, niðurstaða eftirlitssýna og skurðbrúnir. Skoðuð voru tengsl dýptarflokka og eftirlitssýna.
Niðurstöður: Algengasta dýpt allra keiluskurða var 10-15 mm. Keiluskurðir TZ svæðis af tegund 1 voru of djúpir í 80,1% tilfella og dýpt tegundar 3 var í 70% tilfella minni en mælt er með. Skoðuð voru tengsl eftirlitssýna við alla dýptarflokka en ekki fengust marktækar niðurstöður. Skurðbrúnir voru fríar í 67% tilfella og eftirlitssýni voru neikvæð í 67% tilfella.
Ályktun:Niðurstöður gefa til kynna að keiluskurðir voru of djúpir meðal TZ svæðis af tegund 1 og of grunnir meðal tegundar 3. Draga má þá ályktun að hægt sé að draga úr dýpt keiluskurða á Landspítala án þess að auka líkur á viðvarandi forstigsbreytingum. Frekari rannsóknir á stærra þýði eru mikilvægar.
V02 Göngudeild kviðarholsskurðdeildar á Landspítala fyrir góðkynja sjúkdóma í endaþarmi
Ólafur Ágúst Guðlaugsson, Landspítali
Elsa B. Valsdóttir, Landspítali
Inngangur: Ný göngudeild var opnuð þann 15. maí 2020, tileinkuð góðkynja sjúkdómum í endaþarmi. Tilgangur hennar er að veita betra aðgengi fyrir sjúklinga og markvissari kennslu sérnámslækna. Markmið rannsóknar var að fá yfirsýn yfir þau vandamál sem meðhöndluð voru og viðhorf sérnámslækna til kennslunnar.
Efniviður og aðferðir: Gögn komu frá hagdeild LSH og spurningakönnun meðal sérnámslækna sem höfðu verið á göngudeildinni.
Niðurstöður: Alls voru 397 komur á göngudeildina á rannsóknartímabilinu. 222 (55,9 %) voru karlar. Algengasta greiningin var gyllinæð (107 komur, 27%), eftir því voru endaþarmsprungur og krónsískar endaþarmsprungur (43 komur, 11%), sinus pil (40 komur, 10%), endaþarmssig (40 komur, 10%), eftirfylgd (40 komur, 10%), graftarkýli (34 komur, 9%), endaþarmsfistlar (29 komur, 7%). Aðrar komur voru án greiningar eða ekki eins algengar.
Spurningalisti var lagður fyrir sérnámslækna, 16 svöruðu þeim spurningum. Það sýndi að allir (100%) voru mjög eða frekar sammála að þau hefðu grætt mikið á að hafa tekið þátt í göngudeildinni, hefðu meira sjálfstraust í að framkvæma endaþarmsskoðun og höfðu aukna hvatningu til að lesa um sjúkdóma í endaþarmi.
93% voru mjög eða frekar sammála að þau hefðu meira sjálfstraust þegar kom að greiningu og meðhöndlun endaþarmsvandamála. 99% voru mjög eða frekar sammála á því að hafa fengið góðan stuðning. Þegar spurt var hvort þau hefðu fengið að vera nógu oft á göngudeildinni voru 68,8% mjög eða frekar ósammála.
Áyktun: Mikill fjöldi sjúklinga hefur komið á göngudeild, með alla helstu góðkynja sjúkdóma í endaþarmi. Sérnámslæknar hafa mjög jákvætt viðhorf gagnvart göngudeildinni, fengu góðan stuðning og aukið sjálfstraust.
V03 Svæsin graftrarmyndandi svitakirtlabólga meðhöndluð með fiskiroði
Auður Gunnarsdóttir, Landspítali
Elsa Valsdóttir, Landspítali
Bakgrunnur: Graftrarmyndandi svitakirtlabólga (hidradenitis suppurativa) er langvinnur sjúkdómur sem skerðir mjög lífsgæði vegna endurtekinna sýkinga, verkja og illa lyktandi vessa. Nú til dags eru erfiðari tilfelli oftast meðhöndluð með líftæknilyfjum. Þegar grípa þarf til skurðaðgerðar er oftast um að ræða umfangsmikið brottnám á húð og lokun með tilfærðri húð eða flipum.
Tilfelli: Í þessu tilfelli er fjallað um sjúkling með svæsinn sjúkdóm á báðum rasskinnum sem var fyrir á fullum skömmtum af líftæknilyfi og ekki góður kandidat í umfangsmikið inngrip. Ákveðið var að reyna tilraunameðferð með sárahreinsun og frumusnauðu fiskiroði. Meðferð var gerð í nokkrum stigum, fyrst hægra megin og svo vinstra megin. Vinstra megin þurfti enduraðgerð þar sem einn gangur fannst ekki. Eftir það hefur gengið vel, sjúklingur er í dag með minniháttar einkenni, mjög sáttur við sitt ástand og hefur verið útskrifaður úr eftirliti.
Ályktun: Frumusnautt fiskiroð getur verið meðferðarkostur fyrir sjúklinga með svæsna graftrarmyndandi svitakirtlabólgu, þegar aðrir, hefðbundnir, meðferðarmöguleikar eru ekki í boði.
V04 Frumusnautt fiskiroð fyrir gegnsmjúgandi sár á rasskinn
Elsa Valdsdóttir, Landspítali
Inngangur: Gegnsmjúgandi (e. penetrating) sár á endaþarmi geta valdið gríðarlegum vefjaskaða vegna dreps í vef vegna hægðamengunar. Hér er kynnt tilfelli 60 ára karlmanns með mikla geðsögu sem hlaut gegnsmjúgandi sár frá endaþarmi út í hægri rannskinn sem olli því að fjarlægja þurfti mikið af vef. Markmið meðferðar var að byggja aftur upp vef og tryggja góða virkni.
Tilfelli: Í upphafsaðgerð var lagt út ristilstóma og byrjað að fjarlægja dauðan vef. Sárasugumeðferð var beitt nær allan meðferðartímann. Það þurfti endurtekið að fjarlægja vef og að lokum var komið sár sem mældist 32x20 cm og náði niður í gegnum vöðvaslíður og að beini á sumum stöðum. Á degi 10 var byrjað að taka sárið saman með saumum og á degi 39 var reynt að leggja húðgraft yfir en hann tók ekki. Á degi 52 hófst meðferð með frumusnauðu fiskiroði og stóð hún fram á dag 161. Þá var sárið að fullu gróið.
Ályktun: Frumusnautt fiskiroð er meðferðarmöguleiki hjá sjúklingum með langvinn sár þar sem húðgraftur hefur ekki tekið, jafnvel þó ekki sé hægt að tryggja reykbindindi og aðra meðferðarheldni. Frumusnautt fiskiroð líkist mannshúð og hvetur til innvaxtar húðfrumna og inniheldur auk þess omega-3 fitusýrur sem eru bólgueyðandi.
V05 Snemmkomin meðgöngueitrun á Íslandi 2015 - 2020
Alexander Kristinn Smárason, Sjúkrahúsið á Akureyri,
Jóhanna Gunnarsdóttir, Landspítalinn ,
Lilja Óska Atladóttir, Háskóli Íslands,
Áslaug Haraldsdóttir, Háskóli Íslands,
Emma Marie Swift, Landspítalinn
Inngangur: Konum í áhættu að fá meðgöngueitrun er ráðlagt að nota hjartamagnýl til að fyrirbyggja snemmkomna meðgöngueitrun. Hættan á meðgöngueitrun er metin í mæðravernd út frá heilsufarsþáttum og er hver meðganga þannig áhættuflokkuð. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hversu oft snemmkomin meðgöngueitrun var greind meðal frumbyrja og fjölbyrja sem tilheyrðu ekki áhættuflokki og fengu þar af leiðandi ekki ráð um fyrirbyggjandi meðferð með hjartamagnýl.
Efni og aðferðir: Rannsóknin var ferilrannsókn byggð á gögnum úr Fæðingarskrá Íslands um allar fæðingar á tímabilinu 2015-2020 (N=25.384). Meðgöngueitrun var skilgreind út frá ICD-10 greiningarkóðum. Snemmkomin meðgöngueitrun var skilgreind sem meðgöngueitrun sem leiddi til fæðingar fyrir 37 vikna meðgöngu. Áhættuþættir voru skilgreindir út frá aldri mæðra, BMI og greiningarkóðum og skoðaðir eftir bæri. Við greiningu gagna var notast við lýsandi tölfræði.
Niðurstöður: Meðgöngueitrun var algengari meðal frumbyrja (5,5%) heldur en fjölbyrja (1,8%) og greiningum fjölgaði örlítið yfir rannsóknartímabilið vegna hækkandi hlutfalls frumbyrja. Alls voru 9,3% frumbyrja metnar í áhættu fyrir meðgöngueitrun og 11,6% fjölbyrja skv. núverandi áhættumati. Alls voru 120 frumbyrjur sem fengu snemmkomna meðgöngueitrun og voru 70,0% þeirra ekki flokkaðar í áhættu að fá meðgöngueitrun en meðal 70 fjölbyrja sem fengu snemmkomna meðgöngueitrun voru 48,6% ekki flokkaðar í áhættu.
Ályktun: Áhættuflokkunin aðgreindi sjaldnar frumbyrjur en fjölbyrjur sem síðar fengu snemmkomna meðgöngueitrun. Íhuga þarf hvort innleiða eigi nákvæmari skimunarleiðir til að flokka fleiri konur réttilega í áhættu eða hvort ráðleggja eigi öllum frumbyrjum að taka hjartamagnýl. Rétt er að rannsaka bæði meðferðarheldni kvenna og ágæti nýrra skimunarprófa áður en slíkar breytingar eiga sér stað.
V06 Árangur Whipple aðgerða á 20 ára tímabili á Landspítala Háskólasjúkrahúsi
Karin Johansen, Kviðarholsskurðdeild Linköping Háskólasjúkrahús Svíþjóð
Kristín Huld Haraldsdóttir, Kviðarholsskurðdeild, Landspítali Háskólasjúkrahús
Guðjón Birgisson, Kviðarholsskurðdeild, Landspítali Háskólasjúkrahús
Inngangur: Á Landspítala
eru framkvæmdar fáar brisaðgerðir vegna fámennis og flokkast því til þeirra
staða sem hafa takmarkaðan fjölda aðgerða (low
volume). Þessar aðgerðirtegundir hafa í alþjóðlegum rannsóknum háa tíðni
fylgikvilla. Í þessari afturskyggnu rannsókn er farið yfir árangur
Whipple-aðgerða á Íslandi á 20 ára tímabili.
Efniviður og aðferðir: Sjúklingar sem gengust undir Whipple aðgerð (pancreatoduodenectomy) á Íslandi á árunum 2003 til 2022 voru skoðaðir og tímabilinu skipt í fyrra (2003-2012) og seinna (2013-2022). Fylgikvillar voru skráðir og flokkaðir og bornir saman við erlendar niðurstöður. Tilskilin leyfi voru fengin áður en rannsókn hófst.
Niðurstöður: Á tímabilinu gengust 244 sjúklingar undir aðgerð á brisi á Íslandi, þar af 122 Whippleaðgerð. Fleiri gengust undir aðgerð á seinna tímabilinu miðað við það fyrra, færri fengu brisfistil, alvarlega blæðingu, færri þurftu enduraðgerð, legutími styttist sem og 30 daga dánartíðni. Hlutfall þeirra sem ekki greindust með alvarlegan fylgikvilla (Clavien-Dindo <3) (54%) og 90-daga dánartíðni (3%) á seinna tímabilinu eru sambærileg við alþjóðlegar tölur. Hins vegar er fjöldi aðgerða lægri miðað við höfðatölu og hlutfall lægri stiga á æxlum er hærra miðað við meinafræðilegar niðurstöður.
Ályktun: Rannsóknin sýnir sambærilegar niðurstöður hvað varðar fylgikvilla samanborið við erlendar rannsóknir. Með aukinni áherslu á umræður á samráðsfundum ætti fjöldi aðgerða að aukast miðað við höfðatölu.
V07 Árangur kviðsjáraðgerða á æxlum í brisskotti á Landspítala Háskólasjúkrahúsi á 20 ára tímabili.
Karin Johansen, Kviðarholsskurðdeild Linköping Háskólasjúkrahús Svíþjóð
Kristín Huld Haraldsdóttir, Kviðarholsskurðdeild, Landspítali Háskólasjúkrahús
Guðjón Birgisson, Kviðarholsskurðdeild, Landspítali Háskólasjúkrahús
Inngangur: Í núverandi alþjóðlegum leiðbeiningum er mælt með að sjúkrahús framkvæmi að minnsta kosti 20 brisaðgerðir í kviðsjá á ári til að hægt sé að bjóða upp á kviðsjáraðgerð sem valmöguleika við opna aðgerð. Á Íslandi eru gerðar fáar brisaðgerðir sökum fámennis en skurðlæknar sem starfa á Íslandi hafa öðlast víðtæka reynslu erlendis. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða árangur kviðsjáraðgerða á brisskotti á 20 ára tímabili á Íslandi.
Efniviður og aðferðir: Sjúklingar sem gengust undir aðgerð á brisskotti á Íslandi á árunum 2003 til 2022 voru skoðaðir. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskýrslum. Tilskilin leyfi voru fengin áður en rannsókn hófst.
Niðurstöður: Í heildina fóru 244 sjúklingar í aðgerð á brisi á tímabilinu, þar af 80 sem fóru í aðgerð á brisskotti. Af þeim fór rúmlega helmingur (n=41) í aðgerð í kviðsjá. Fjöldi aðgerða jókst á tímabilinu og marktækt fleiri gengust undir aðgerð í kviðsjá á seinni helmingi rannsóknarinnar. Þeir sem gengust undir aðgerð í kviðsjá fóru frekar í miltissparandi aðgerð en þeir sem fóru í opna aðgerð og blæðing var minni. Tíðni alvarlegra fylgikvilla (Clavien Dindo ≥3) var 23% og 65% sjúklinga sem gengust undir kviðsjáraðgerð voru með æskilega útkomu (ideal outcome), en munurinn var ekki marktækur. Andlát á sjúkrahúsi reyndist vera 1% og andlát innan 90 daga 4%.
Ályktun: Niðurstöður sýna sambærilegar niðurstöður og birtar hafa verið á Vesturlöndum. Skýring á hárri tíðni andláta innan 90 daga var vegna snemmkominnar endurkomu á sjúkdómi. Mikilvægt er að ræða sjúklinga á samráðsfundi fyrir aðgerðir og greina og meðhöndla fylgikvilla snemma.
V08 Tíðni sýkinga og upprifnun sára eftir 2. gráðu spangarrifu eða spangarskurð árin 2012-2021
Karítas Björg Ívarsdóttir, Háskóli Íslands
Heiðdís Valgeirsdóttir, Landspítali háskóla sjúkrahús
Jóhanna Gunnarsdóttir, Landspítali háskóla sjúkrahús
Erna Halldórsdóttir, Landspítali háskóla sjúkrahús
Inngangur: Annarrar gráðu spangarrifur og spangarskurðir eru algengir áverkar við fæðingar. Þeim geta fylgt fylgikvillar á borð við verki, upprifnun og sýkingar. Markmið rannsóknarinnar var að skoða tíðni upprifnunar, sýkingar og enduraðgerðar hjá konum sem fengu 2. gráðu spangarrifu eða spangarskurð á Landspítala. Ásamt því að bera saman undirliggjandi þætti hjá konum sem fengu fylgikvilla við þær sem fengu ekki fylgikvilla.
Efni og aðferðir: Þýðið var konur sem fæddu einbura á Landspítala 2012-2021 og fengu 2. gráðu spangarrifu eða spangarskurð. Safnað var upplýsingum um konurnar, fæðinguna og hvort þær hefðu fengið upprifnun sárs, sýkingu eða þurft enduraðgerð. Notuð var lýsandi tölfræði, kí-kvaðrat og t-próf við samanburð á hópum. Tölfræðileg marktækni miðaðist við P-gildi <0,05.
Niðurstöður: Meðal kvenna með 2. gráðu spangarrifu (N=9441) fengu 70 konur (0,7%) einn eða fleiri fylgikvilla. Konur með fylgikvilla voru oftar frumbyrjur (P=0.025) og höfðu að meðaltali lengra 2. stig fæðingar (P=0.003) en þær sem ekki fengu fylgikvilla. Meðal kvenna með spangarskurð (N=2829) fengu 109 konur (3,9%) einn eða fleiri fylgikvilla. Þær konur sem fengu fylgikvilla voru oftar frumbyrjur (P=0.029) og höfðu oftar sykursýki (P=0.003) en þær sem fengu ekki fylgikvilla. Aldur, líkamsþyngdarstuðull, hiti í fæðingu og áhaldafæðing voru sambærileg milli þeirra sem fengu fylgikvilla og þeirra sem fengu ekki.
Ályktanir: Fylgikvillar voru algengari hjá þeim sem fengu spangarskurð en hjá konum sem fengu 2. gráðu spangarrifu. Frumbyrjur voru líklegri en fjölbyrjur til að fá fylgikvilla í báðum hópum. Þetta má hafa til hliðsjónar við mögulegan spangarskurð í fæðingu og við fræðslu kvenna.
V09 Lendarkviðslit – Petit kviðslit. Sjúkratilfelli og umfjöllun um sjúkdóminn
Ellen María Gunnarsdóttir, Kviðarholsskurðdeild Landspítala
Ásgeir Þór Másson, Kviðarholsskurðdeild Landspítala
Páll Helgi Möller, Kviðarholsskurðdeild Landspítala
Inngangur: Nára- og naflakviðslit eru algeng kviðslit sem flestir læknar þekkja til. Lendarkviðslit (lumbar hernia) eru hins vegar sjaldgæf og því mikilvægt að þekkja til þeirra. Lendarkviðslitum er skipt í efra og neðra lendarkviðslit. Landamerki neðra kviðslits sem hér er til umfjöllunar eru mjaðmakambur (iliac crest) að neðan, ytri skávöðvi kviðar (m. obliqus externus) hliðlægt og bakbreiðarvöðvi (m. latissimus dorsi) miðlægt, en saman mynda þau Petit þríhyrninginn sem var fyrst lýst af Jean Louis Petit árið 1783.
Tilfelli: Um var að ræða 48 ára áður hrausta konu með tveggja ára sögu um óþægindi í hægri síðu. Hún hafði fyrri sögu um skurðaðgerðir vegna nárakviðslits beggja vegna og þrívegis farið í keisaraskurð. Þá hafði hún fengið stóra blæðingu hægra megin í aftanskinu (retroperitoneum), í kjölfar keisaraskurðs. Við komu var gerð ómun af kviðvegg og tölvusneiðmynd af kvið sem sýndi neðra lendarkviðslit hægra megin. Henni var vísað á kviðarholsskurðdeild Landspítala til meðferðar. Í kviðsjáraðgerð var 12 cm hringlaga SymbotexTM neti komið fyrir utan lífhimnunnar (pre peritoneal) og það fest með smáum sjálfeyðandi skrúfum (Vicryl®).
Umræða: Í þessu tilfelli hafði konan fyrri sögu um meðgöngur sem áhættuþátt fyrir myndun á kviðsliti. Þá er ekki hægt að útiloka að þrýstingur frá aftanskinublæðingunni hafi veikt bakhluta kviðveggjarins og þannig stuðlað að kviðslitinu. Ekki var að finna aðra þekkta áhættuþætti fyrir myndun kviðslitsins. Kviðslitið var minna en 5 cm og því ákveðið að gera við það með neti í kviðsjá í samræmi við það sem mælt er með.
V10 Notkun leisers á Landspítala við aðgerðir á endaþarmi
Björn Vilhelm Ólafsson, Landspítali Háskólasjúkrahús
Elsa Björk Valsdóttir,Landspítali Háskólasjúkrahús
Inngangur: Árið 2017 var á Landspítala byrjað að meðhöndla ýmsa góðkynja sjúkdóma í endaþarmi með leisermeðferð. Gagnsemi þessara meðferða er enn umdeild innan fræðasviðsins því var markmið rannsóknarinnar að meta tíðni, fylgikvilla og árangur inngripsins.
Efniviður og Aðferðir: Þýði rannsóknarinnar voru allir sem undirgengust aðgerð á gyllinæð, tvíburabróður eða fistli og fóru í leiseraðgerð. Sjúkraskrár voru yfirfarnar til að finna nánari lýsingar á aðdraganda og afdrifum sjúklinga.
Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu fundust 75 aðgerðir, við 3 aðgerðir var ekki notaður leiser og 8 aðgerðir fundust þar sem réttan kóða hafði vantað. Því alls 80 aðgerðir á 62 einstaklingum, þar af 42 (68%) karlar og 20 (32%) konur. Aldursbilið var frá 17 til 80 ára. Algengast var að gera leiseraðgerð á fistlum 52 (65%), næst tvíburabróður 25 (31%) og svo gyllinæð þrjár (4%). Flestar aðgerðir voru gerðar á einum fistli eða tvíburabróður alls 47 aðgerðir. Gróandi var 37% í fyrstu komu eftir fistilaðgerð og eftir aðgerð á tvíburabróður 44% og alls 50 (63%) án fylgikvilla. Eftir fistilaðgerð voru gerðar 13 (25%) enduraðgerðir og 5 (20%) eftir aðgerð á tvíburabróður. Alls fóru 8 (13%) í fistiluppskurð (e. fistulotomy) eftir leiseraðgerð.
Ályktanir: Rannsóknin bendir til þess að notkun leisers við meðhöndlun góðkynja sjúkdóma í endaþarmi á LSH sé áhættulítið inngrip sem ýtir undir gróanda. Aðgerðirnar voru algengari á fyrri hluta ævinnar og nokkuð er um endurkomur og enduraðgerðir. Þörf er á lengra eftirliti til að meta langtíma árangur eftir fistilaðgerðir.
V11 Ósértækir kviðverkir hjá áður hraustri, ungri konu - Sjúkratilfelli
Tryggvi Ófeigsson, Þvagfæraskurðdeild Landspítala
Rafn Hilmarsson, Þvagfæraskurðdeild Landspítala
Inngangur: Hnoðtaugaæxli (e. ganglioneuroma) eru sjaldgæf æxli sem vaxa frá taugahnoðum. Þau greinast helst í miðmæti og aftanskinubili. Nýgengi hnoðtaugaæxla er um 1/1.000.000 íbúa. Vegna staðsetningar eru þau alla jafna einkennalaus þar til þau fara að valda massaáhrifum
Tilfellið: 21 árs gömul áður hraust kona leitar á heilsugæslu vegna kviðverkja síðastliðin þrjú árin. Verkir höfðu farið vaxandi nýverið og ákvað hún þá að fá skoðun læknis. Gerð var ómskoðun af kvið sem sýndi óljósa fyrirferð og var þá fengin segulómskoðun og tölvusneiðmynd af kvið sem sýndi stórt æxli aftan skinu. Mældist það 11x6 cm á þessum myndrannsóknum. Æxlið lá þétt upp að vinstri Lundarvöðva og lendhrygg en virtist ekki vaxa inn í aðlæg líffæri. Stigunarrannsóknir reyndust neikvæðar en vegna gruns um sarkmein var ráðlagt að fjarlægja æxlið með skurðaðgerð. Æxlið var tekið í opinni aðgerð og sýndi meinafræðirannsóknin fram á hnoðtaugaæxli.
Umræður: Ósértækir kviðverkir geta verið tormetnir. Tilfellið að ofan sýnir fram á mikilvægi kviðskoðunar hjá þeim með ósértæka kviðverki. Rétt er að hafa æxli innan- eða aftan skinu í huga við uppvinnslu þeirra með þreifanlega fyrirferð. Við greiningu frumkomins æxlis í aftanskinubili eru mismunagreiningarnar margar, taugaslíðursæxli, hnoðtaugaæxli, fituæxli og fitusarkmein svo að eitthvað sé nefnt. Um helmingur frumkominna æxla í aftaskinubili eru mjúkvefjaæaxli og því mikilvægt að hafa sarkmein ofarlega í huga þegar hugað er að frekari uppvinnslu. Hnoðtaugaæxli eru góðkynja fyrirferðir og horfur eftir brottnám góðar. Mikilvægt er að þessum sjúklingum sé fylgt eftir klínískt vegna möguleika á endurkomu.
V12 Fiskfótur, traumatiskur áverki ganglims , sárameðferð – hlutverk fiskroðs. Sjúkratilfelli.
Alfa Eir Jónsdóttir Axfjörð, Sjúkrahúsið Á Akureyri
Bjarki S. Karlsson, Sjúkrahúsið Á Akureyri
Ólafur Ingimarsson, Sjúkrahúsið Á Akureyri
Helgi H. Sigurðsson, Sjúkrahúsið Á Akureyri
Inngangur: Degloving áverki á sér stað þegar snúningskrafti er beitt á mjúkvef svo húð og húðbeð rifnar upp af undirliggjandi vef. Fylgikvillar slíks áverka eru m.a. sýking, drep og vefræn skreppa. Hér er greint frá tilfelli þar sem sáraroð frá Kerecis var notað sem vefjastoðgrind til þess að græða slíkan áverka.
Sjúkratilfelli: 64 ára gömul kona sem varð fyrir því óhappi að rúta keyrði yfir báða ganglimi hennar. Hlaut hún við þetta stabíl ökklabrot á báðum ökklum og alvarlegan mjúkvefsskaða (degloving áverka) og þrjá 25-30 cm langa skurði á vinstri fótlegg. Til þess að græða áverkan undirgekkst konan alls 8 aðgerðir og ótal sáraskipti. Í fyrstu tveimur aðgerðunum voru sárin hreinsuð upp og dauður vefur fjarlægður. Eftir stóð stórt og djúpt sár, var ákveðið að nota sáraroð frá Kerecis til þess að græða upp sárið. Tvennskonar roð var notað á áverkasvæði og eitt á húðgjafarsvæði, í þremur aðgerðum. Reyndist roðið vel og í síðustu aðgerðinni hafði roðið nær fullkomlega aðlagað sig vefnum og veitt töluverða holdfyllingu. Þá var ályktað að sár væri tilbúið til þess að láta reyna á hlutþykktar húðágræðslu. Húðágræðslan var grædd á sárið og sáraroði komið fyrir á húðgjafarsvæði. 180 dögum eftir slys er húðin yfir áverkasvæði mjúk og teygjanleg en minniháttar vefræn skreppa er til staðar og hamlar konunni ekki í daglegu lífi.
Ályktun: Í þessu tilfelli var sáraroð frá Kerecis notað sem vefjastoðgrind til þess að græða upp sár, ná upp holdfyllingu og brúa bil fram að húðágræðslu með góðum árangri.
V13 Fituhnútamyndun í botnlanga
Birna Brynjarsdóttir, Landspítali Íslands
Gígja Erlingsdóttir, Landspítali Íslands
Páll Helgi Möller, Landspítali Íslands
Rósamunda Þórarinsdóttir, Landspítali Íslands
Inngangur Botnlangabólga er algengasta orsök bráðra skurðaðgerða hjá sjúklingum sem leita á bráðamóttöku vegna kviðverkja. Fituhnútamyndun í meltingavegi (intestinal lipomatosis) er aukin myndun fitu í undirslímhúð (submucosa) meltingavegar. Frábrugðið fituæxli (lipoma) þá vantar umlykjandi hylki (capsule). Algengasta staðsetning fituhnúðamyndunar er í ristli, síðan smágirni en hún er afar sjaldgæf í botnlanga. Við kynnum tilfelli hjá 54 ára konu með botnlangabólgu orsakaða af fituhnútamyndun sem þrengdi að holrými botnlangans.
Tilfelli Um er að ræða 54 ára hrausta konu með tveggja mánaða sögu um óljósa kviðverki og síðan versnun þremur dögum fyrir komu á heilsugæsluna. Tölvusneiðmynd (TS) af kviðarholi sýndi saurstein (fecolith) á mótum botnristils og vökvafyllts botnlanga (16mm í þvermál) eða botnlangabólgu án rofs. Vegna langrar sjúkrasögu, mikillar bólgu á TS og verulegrar hækkunar á CRP (253) var ákveðin íhaldsöm meðferð. Tveimur vikum síðar leitaði hún á bráðamóttökuna með sólarhringssögu um kviðverki og hita (37,9°C). Við kviðskoðun var kviður mjúkur og eymsli yfir McBurney.TS af kviðarholi sem sýndi fitu íferð í botnlangavegg líkt og áður sem gat samrýmst fituhnútamyndun. Ekki var hægt að útiloka byrjandi botnlangabólgu og var því í framhaldinu framkvæmd botnlangataka (Mynd 1). Gangur eftir aðgerð var fylgikvillalaus. Vefjagreining sýndi dreifða fituhnútamyndun (diffuse lipomatosis) í botnlanganum og ástand eftir fyrri botnlangabólgu.
Ályktun Þetta er óvenjulegt tilfelli botnlangabólgu og það hafa ekki mörg slík tilfelli verið birt í heiminum. Það er líklegt að fituhnúðamyndunin hafi verið orsök upphaflegu kviðverkjanna og sem síðan hafi átt þátt í að konan fékk botnlangabólgu með því að takmarka holrými botnlangans.
V14 Notkun fiskroðs (Kerecis) til að flýta sáragróanda-Lýsing tveggja tilfella
Þorvaldur Ingvarsson, Landspítalin
Gísli Jens Snorrason, Landspítalinn
Róbert Rúnar Jack, Landspítalinn
Tómas Viðar Sverrisson, Landspítalin
Inngangur: Vandamál tengd sáragróanda eru algeng í bæklunarlækningum. Hér eru kynnt tvö tilfelli þar sem fiskroð (Kerecis) var notað til að flýta gróanda og stytta meðferðartíma.
Efniviður og aðferðir: Fyrra tilfellið fjallar um 55 ára karlmann sem aflimast um miðja fjarkjúku vísfingurs eftir klemmuslys. Hann hafði val um að leyfa sárinu að gróa með annars stigs gróanda eða fá húðígræðslu, sem hefði gert svæðið tilfinningalaust. Sárið var hreinsað og beinið stytt, en sjúklingur sinnti illa sáraeftirliti og þegar hann kom í eftirlit eftir þrjár vikur var sárið illa útlítandi og hann verkjaður. Hann óskaði eftir að nota fiskroð, sem var sett á og endurnýjað fjórum sinnum á þriggja daga fresti, samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda (Kerecis) Sárið gréri á 10 dögum og sjúklingur var verkjalaus frá því að meðferðin hófst.
Seinna tilfellið fjallar um 53 ára karlmanni sem sleit hásin, gekkst undir aðgerð en fékk síðbúna sýkingu sem olli vefjadrepi. Eftir hreinsun sársins var hásinin ekki lengur þakin mjúkvefjum. Ákveðið var að nota fiskroð í meðferð ásamt hefðbundinni sárasugu, gréri sárið á sex vikum. Sjúklingur er nú verkjalaus og gengur óhaltur.
Umræða /ályktun: Það er erfitt að draga ályktun af sárameðferð tveggja einstaklinga, en fiskroð hefur verið notað til að þekja brunasár með góðum árangri og svo virðist að við meðhöndlun þessara sjúklinga að fiskroð (Kerecis). Hafi flýtt gróanda og stytt meðferðartíma svo og komið í stað stærri aðgerða, svo sem húðágræðslu og tilfærslu flipa.
V15 Þróun frumubreytinga hjá einstaklingum með Barrett‘s vélinda
Ken Namikawa, Landspítali
Magnús Konráðsson, Landspítali
Einar Stefán Björnsson, Landspítali
Melkorka Sverrisdóttir, Háskóli Íslands
Bakgrunnur: Barrett's vélinda (BV) er eini þekkti vefjauppruni kirtilþekjukrabbameins í vélinda. Óljóst er hversu hátt hlutfall fólks þróar frumubreytingar út frá BV. Markmið þessarar rannsóknar var að meta eiginleika BV, þróun frumubreytinga og áhrif eftirfylgdar á horfur sjúklinga.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á einstaklingum með vefjafræðilega staðfest BV samkvæmt meinafræðigagnagrunnum tveggja vefjarannsóknarstofa á Íslandi 2003-2022. Viðeigandi klínískum upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám. Eftirfylgd var skilgreind í samræmi við gildandi leiðbeiningar ESGE.
Niðurstöður: Alls höfðu 1388 einstaklingar staðfest BV: 68% voru karlkyns (948), miðgildi aldurs við greiningu var 62 ár(IQR 53-72). Hlutfall þeirra sem voru með langt BV miðað við stutt var marktækt hærra hjá einstaklingum ≥60 ára(1,15, 284/248) en einstaklingum <60 ára(0,77, 205/265)(p<0.005). Við greiningu á BV voru 130 (9,4%) einnig með frumubreytingar; 65 með lág-gráðu frumubreytingar(LGD), 16 há-gráðu(HGD) en 49 með kirtilþekjukrabbamein. Meðal þeirra 1258 sem greindust með BV án frumubreytinga voru 58 (4,6%) sem greindust síðar með LGD (n=35), HGD (n=8) eða kirtilþekjukrabbamein(n=15) en miðgildi eftirfylgnitíma var 5 ár(IQR 3-7). Af þeim sem fengu eftirfylgd í samræmi við leiðbeiningar fengu 76% (31/41) læknandi meðferð samanborið við 35% (6/17) ef eftirfylgd hafði verið lakari(p<0.05).
Ályktun: Hlutfall þeirra sem voru með langt BV var marktækt hærra hjá einstaklingum ≥60 ára. Hugsanlega hafa þeir fengið lakari sýruhamlandi meðferð fyrr á lífsleiðinni og því þróað lengra BV. Frumubreytingar greindust hjá 9% einstaklinga samhliða BV greiningu en hjá um 5% við eftirfylgd. Einstaklingar sem fengu eftirfylgd í samræmi við leiðbeiningar voru líklegri til að greinast með frumubreytingar á læknanlegu stigi.
V16 Faraldsfræði stoðleggja og þvagveitu aðgerða vegna sýktra nýrnasteina á íslandi 2013-2023.
Edward Rumba, Háskóli Íslands
Jóhann Páll Ingimarsson, Landspítali
Inngangur: Tíðni nýrnasteina er að aukast í vestrænum heimi, en ekki hefur verið rannsakað hvort stoðleggja (JJ-leggja) og þvagveitu ísetningar (Nephrostomy) vegna nýrnasteina hafi aukist á Íslandi. Enn fremur hefur ekki verið skoðað hversu margar aðgerðir eru framkvæmdar vegna sýktra nýrnasteina og afdrif þeirra sjúklinga.
Efniviður og aðferðir: Gögn voru fengin frá Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri um allar stoðleggja- og þvagveitu ísetningar á tímabilinu 01.01.2013–31.12.2023. Handvirkt var farið yfir aðgerðir gerðar vegna nýrnasteina útfrá ICD-10 skráningu á aðgerðarlýsingu. Sjúklingar sem uppfylltu SIRS-skilmerki fyrir aðgerð voru skilgreindir með sýkta nýrnasteina og skoðaðir sérstaklega. Rannsóknin er langt komin en beðið er eftir gögnum til að gera nánari tölfræðilega greiningu.
Niðurstöður: 2.412 aðgerðir voru gerðar á rannsóknartímabilinu, þar af 1.706 vegna nýrnasteina. Af þeim uppfylltu 251 (14,7%) SIRS-skilmerki fyrir aðgerð (174 stoðleggir og 77 þvagveitur). Fjöldi aðgerða vegna nýrnasteina jókst um 181% frá 2013 til 2023 (81 í 228 á ári), en aðgerðir vegna sýktra nýrnasteina jókst um 288% (9 í 35 á ári). Hlutfallslega voru flestar aðgerðir vegna nýrnasteina í maí (11,1%), en vegna sýktra nýrnasteina í desember (12,5%). Meðalaldur sjúklinga með ósýkta og sýkta nýrnasteina var sambærilegur (55,9 ára á móti 57,4 ára). Allir sjúklingar með sýkta nýrnasteina (251 tilfelli) þurftu innlögn á sjúkrahús. Meðallegutími var 4,42 dagar, 33 tilfelli kröfðust gjörgæsluinnlagnar og 1 andlát varð.
Ályktanir: Aðgerðum vegna nýrnasteina, sérstaklega sýktra, hefur margaldast á skömmum tíma, sem bendir til verulegrar aukningar á sjúkdómnum á Íslandi. 1 af hverjum 8 sjúklingum með sýktan nýrnastein sem krefst aðgerðar þarf gjörgæslumeðferð.
Föstudagur 4. apríl kl. 13:00 – 14:30 / VÍSINDAERINDI
SALUR A
Hvert erindi fær 10 min, 7 min í flutning og 3 mín fyrir spurningar
Á01 Sjúkraflutningar með þyrlu á Íslandi, 2018 til 2022 – afturskyggn rannsókn.
Martin Sigurðsson, Landspítali
Viðar Magnússon, Landspítali
Ágrip: Sjúkraflutningar með þyrlum er aðferð sem víða er notuð til að koma sérhæfðri læknisaðstoð til sjúklinga sem ekki er hægt að ná til með öðrum hætti eða eru talin í lífshættu t.d. vegna kransæðastíflu, heilablóðfalls eða eftir alvarleg slys. Þessi þjónusta er dýr og notkun hennar og mikilvægi fer mjög eftir staðbundnum aðstæðum. Markmið þessarar rannsóknar var að lýsa öllum sjúkraflugum með þyrlum á Íslandi yfir fimm ára tímabil.
Aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem voru fluttir með sjúkraþyrlu á Íslandi á tímabilinu 2018–2022. Rafrænn gagnagrunnur Landhelgisgæslu Íslands var notaður til að bera kennsl á einstaklingana og skrá flugupplýsingar. Klínísk gögn voru sótt úr rafrænum sjúkraskrám Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. Notuð var lýsandi tölfræði.
Niðurstöður: Meðalfjöldi sjúkraflutninga með þyrlu var 3,5 á hverja 10.000 íbúa/ári. Miðgildi [IQR] virkjunartíma (frá útkalli stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands þar til sjúkraþyrla leggur af stað) var 30 mínútur [20–42] og miðgildi flugtíma var 40 mínútur [26–62]. Langflestir sjúklingar voru fluttir á Landspítala í Reykjavík. Meira en helmingur flutninga var vegna áverka, en algengustu sjúkdómar sem ollu flutningi voru brjóstverkur og hjartastopp. 157 (24%) einstaklingar voru lagðir inn á gjörgæslu, 188 (28%) þurftu á skurðaðgerð að halda og 53 (7,9%) fóru í kransæðamyndatöku í beinu framhaldi af flutningi.
Ályktun: Á Íslandi er tíðni sjúkraflutninga með þyrlu lægri en í öðrum Norðurlöndum. Virkjunar- og flugtímar eru töluvert lengri, líklega vegna landfræðilegra aðstæðna og þjónustufyrirkomulags, þar sem sömu þyrlur eru einnig notaðar í leitar- og björgunaraðgerðir. Flutningstími fyrir ákveðnar gerðir bráðatilfella eru ekki innan alþjóðlegra viðmiða.
Á02 Faraldsfræði og útkomur einstaklinga sem byrja nýja langvarandi notkun opioíða eftir kviðarholsaðgerðir
Arnar Ingason, University of Vermont
Freyja Jónsdóttir, Landspítali
Martin Sigurðsson, Landspítali
Bakgrunnur: Talið er að 3% til 12% af sjúklingum sem ekki höfðu notað ópíóíða áður þrói með sér langvarandi ópíóíðanotkun eftir skurðaðgerð. Enn er óljóst hvort langvarandi ópíóíðanotkun eftir kviðarholsaðgerðir tengist verri útkomum. Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort ný langvarandi ópíóíðanotkun eftir kviðarholsaðgerðir tengist aukinni dánartíðni og tíðni endurinnlagna.
Efni og aðferðir: Þátttakendur voru allir sjúklingar 18 ára og eldri sem undirgengust kviðarholsaðgerðir á Landspítala á árunum 2006 til 2018. Langvarandi ópíóíðanotkun var skilgreind sem ópíóíðanotkun meira en 3 mánuðum eftir aðgerð. Andhverf líkindapörun (inverse probability weighting) var notuð til að leiðrétta fyrir mun milli hópa. Langtímadánartíðni (með miðgildi eftirfylgnis 5,2 ár) var borin saman með Cox aðhvarfsgreiningu og tengsl breyta við endurinnlagnir 3 til 6 mánuðum eftir aðgerð voru metnar með tvíkosta aðhvarfsgreiningu.
Niðurstöður: Rannsóknarþýðið samanstóð af 3.923 sjúklingum (2.680 eftir kviðsjáraðgerð og 1.243 eftir opna kviðarholsaðgerð). Hlutfall nýrrar langvarandi ópíóíðanotkunar eftir aðgerð var 13%. Hlutfallið var hærra eftir opnar aðgerðir en kviðsjáraðgerðir í óleiðréttum gögnum en ekki eftir leiðréttingu fyrir bakgrunnsþáttum. Ný langvarandi ópíóíðanotkun tengdist aukinni langtímadánartíðni (áhættuhlutfall 1,84, 95% öryggisbil 1,41 til 2,40) og endurinnlagnartíðni (líkindahlutfall 3,24, 95% öryggisbil 2,25 til 4,76). Þetta samband sást bæði fyrir sjúklinga sem undirgengust kviðsjáraðgerðir og opnar aðgerðir. Merki sáust um skammtaháð samband þar sem sjúklingar sem leystu út meira af ópíoíðum höfðu hærri dánar- og endurinnlagnatíðni.
Ályktanir: Ný langvarandi ópíóíðanotkun eftir kviðarholsaðgerðir tengdist hærri tíðni dauðsfalla og endurinnlagna. Þetta undirstrikar þörfina fyrir aukinn stuðning eftir aðgerð fyrir áhættuhópa og aukinn stuðning við flutning milli þjónustustiga í heilbrigðiskerfinu.
Á03 Samspil stærðardreifni og meðalrúmmáls rauðra blóðkorna í bráðum og langtíma fylgikvillum eftir skurðaðgerðir
Halldór Ólafsson, Landspítali
Martin Sigurðsson, Landspítali
Sigurbergur Kárason, Landspítali
Inngangur: Stærðardreifni (RDW, red cell distribution width) og meðalrúmmál rauðra blóðkorna (MCV, mean corpuscle volume) er mæld fyrir margar skurðaðgerðir. Hækkað RDW fyrir aðgerð hefur verið tengt aukinni dánartíðnii. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna samband RDW og MCV við dánartíðni innan árs eftir skurðaðgerðir á Íslandi.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var aftursýn þýðisrannsókn 55,997 skurðaðgerða á Landspítala 2005-2018. Einstaklingum með hækkað RDW var skipt upp í 3 hópa eftir því hvort MCV var lækkað, eðlilegt eða hækkað. Skammtíma- og langtíma lifun ásamt endurinnlagnartíðni, dvalarlengd á spítala og tíðni bráðs nýrnaskaða var borin saman milli hópa með einþáttagreiningu og eftir áhættuskorspörun.
Niðurstöður: Einstaklingar með hækkað RDW voru fjölveikari, aldraðri og tóku fleiri lyf, sem jókst með hækkandi MCV. Aukin dánartíðni var hjá einstaklingum með hækkað RDW og lágt MCV (HR 1.35; 95% CI: 1.07-1.7; p = 0.012) og hjá þeim með hækkað RDW og eðlilegt MCV (HR 1.53; 95% CI: 1.37-1.71; p <0.001). Einstaklingar með hækkað RDW og hækkað MCV höfðu aukna dánartíðni, þó án tölfræðilegrar marktækni (HR 1.39; 95% CI: 0.87-2.2; p = 0.165). Einstaklingar með hækkað RDW og eðlilegt MCV voru í aukinni hættu á bráðum nýrnaskaða, höfðu verri skammtíma- og 1 árs lifun.
Ályktanir: Hækkað RDW gildi fyrir skurðaðgerðir tengist marktækt verri langtímalifun, sér í lagi hjá einstaklingum með lækkað MCV og eðlilegt MCV. Hækkað RDW með eðlilegu MCV tengist verri skammtímalifun og fylgikvillum eftir aðgerðir líkt og bráðum nýrnaskaða. Niðurstöður benda til að samband hækkaðs RDW við aukna dánartíðni eftir aðgerð sé mismunandi eftir gildi MCV.
Á04 Hjálparhjörtu á Íslandi 2010-2024
Magnús Brynleifsson, Landspítali
Martin Sigurðsson, Landspítali
Ævar Úlfarsson, Landspítali
Inngangur: Hjálparhjörtu (ventricular assist device) eru notuð í auknum mæli sem meðferðarmöguleiki hjá sjúklingum með alvarlega hjartabilun en upplýsingar skortir um fjölda, ábendingar og afdrif þessa sjúklingahóps á Íslandi.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði yfir tímabilið 01.01.2010 – 31.12.2024. Þýðið samanstóð af einstaklingum sem höfðu fengið hjálparhjarta og verið í meðferð eða eftirliti á Íslandi fyrir eða eftir ígræðsluna. Klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrá og voru skráðar breytur fyrir ígræðslu og afdrif eftir ígræðslu.
Niðurstöður: Sex einstaklingar fengu ígrætt hjálparhjarta á árunum 2010-2024, allt karlmenn. Aldursbilið á tíma ígræðslu var 17- 66 ár. Ábendingarnar voru brú til hjartaígræðslu (50%) og brú til ígræðsluhæfis (50%). Orsakavaldur hjartabilunar voru ofþensluhjartavöðvakvilli (83%) og blóðþurrðar hjartavöðvakvilli (17%). Fjórir fengu vinstri hjálparhjarta og tveir fengu tvíslegla hjálparhjarta. Fjórir fóru í kjölfarið í hjartaígræðslu, einn lést með hjálparhjarta og einn var enn með hjálparhjarta þegar rannsókn lauk. Meðaltími frá ígræðslu hjálparhjarta til hjartaígræðslu voru 249 dagar. Á rannsóknartímabilinu voru 1704 dagar þar sem einn eða fleiri einstaklingar voru með hjálparhjarta á Íslandi og er það 31% af rannsóknartímanum. Fjórir fylgikvillar voru skráðir á rannsóknartímabilinu en það voru driflínusýking, sleglahraðtaktur, meltingarvegsblæðing og innanskúmsblæðing eftir yfirlið.
Ályktanir: Vel gekk að meðhöndla sjúklinga með hjálparhjarta á Íslandi og niðurstöður þessar benda til þess að ígræðsla og notkun á hjálparhjörtum sé mögulega vannýttur möguleiki sem meðferð við alvarlegri og langvinnri hjartabilun á Íslandi.
Á05 Blóðhlutagjafir í tengslum við kransæðahjáveituaðgerðir á Íslandi
Alexandra Aldís Heimisdóttir, Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala
Luis Gísli Rabelo, Læknadeild Háskóla Íslands
Daníel Thor Myer, Læknadeild Háskóla Íslands
Anders Jeppsson, Hjarta- og lungnaskurðdeild Sahlgrenska háskólasjúkrahúss
Tómas Guðbjartsson, Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala
Matthildur María Magnúsdóttir, Læknadeild Háskóla Íslands
Inngangur: Kransæðahjáveituaðgerð fylgir áhætta á alvarlegri blæðingu og blóðhlutagjöfum. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna forspárþætti og tíðni blóðhlutagjafa í tengslum við kransæðahjáveituaðgerðir á Íslandi.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn ferilrannsókn á 1850 kransæðahjáveitusjúklingum á Landspítala 2005-2022. Klínísk gögn fengust úr sjúkraskrám og upplýsingakerfi Blóðbankans. Rannsóknartímabilinu var skipt í þrjú 6 ára tímabil og blóðhlutagjafir bornar saman og forspárþættir blóðhlutagjafa fundnir með fjölþáttagreiningu.
Niðurstöður: Alls fengu 63,8% sjúklinga blóðhluta af einhverju tagi; 59,2% rauð blóðkorn, 29,6% blóðvökva og 21,4% blóðflögur. Hlutfall sjúklinga sem fengu blóðhluta lækkaði frá fyrsta (2005-2010) til síðasta (2017-2022) tímabils (74,9% sbr. 48,0%; p<0,001), á meðan hlutfall sjúklinga sem fengu fíbrínógen hækkaði (2,8% sbr. 28,5%; p<0,001) og brjóstholskerablæðing minnkaði (790 mL/24klst. sbr. 470 mL/24 klst.; p<0,001). Aðeins sást ómarktæk tilhneiging til fækkunar enduraðgerða (6,0% sbr. 3,3%; p=0,13), en á sömu tímabilum jókst notkun hjartamagnýls (38,4% sbr. 81,1%; p<0,001) og klópídógrels fyrir aðgerð (2,8% vs. 11,4%; p<0,001). Mynd 1 sýnir helstu úrræði til að minnka blæðingu og fækka blóðhlutagjöfum. Helstu áhættuþættir blóðhlutagjafa voru hækkandi aldur, kvenkyn, lægri líkamsþyngdarstuðull og notkun klópídógrels fyrir aðgerð, en ekki hjartamagnýls. Í fjölþáttagreiningu lækkuðu gagnlíkindi á blóðhlutagjöfum um 73% frá fyrsta til síðasta tímabils (gagnlíkindahlutfall=0,27; 95% öryggisbil=0,18-0,39; p<0,001).
Ályktanir: Næstum 2/3 sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveitu á Landspítala fengu blóðhluta. Þetta hlutfall telst í hærra lagi en þó í samræmi við sambærilegar erlendar rannsóknir. Jákvætt er að hlutfall blóðhlutagjafa fór lækkandi og má sennilega þakka betri fylgni við leiðbeiningar um blóðhlutagjafir á Landspítala, auk rútínunotkunar á storkumælingum í aðgerð, nákvæmari heparín-/prótamínmælinga og blóðsparandi soga.
Á06 Endurtekið lungnakrabbamein eftir lungnaskurðaðgerð
Daníel Myer, Háskóli Íslands
Viktor Ásbjörnsson, Háskóli Íslands
Matthildur María Magnúsdóttir, Háskóli Íslands
Luis Gísli Rabelo, Háskóli Íslands
Leon Arnar Heitmann, Háskóli Íslands
Hrönn Harðardóttir, Lungnadeild Landspítala
Örvar Gunnarsson, Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala
Guðrún Nína Óskarsdóttir, Lungnasvið Reykjalundar endurhæfingar ehf.
Tómas Guðbjartsson, Háskóli Íslands
Inngangur: Lungnakrabbamein af ekki-smáfrumugerð greinist á læknanlegu stigi hjá um þriðjungi sjúklinga. Þrátt fyrir skurðmeðferð í læknandi tilgangi fær hluti þeirra endurkomu sem dregur úr lifun. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni, forspárþætti og tímasetningu endurtekins lungnakrabbameins eftir lungnaskurðaðgerð á Íslandi með áherslu á afdrif sjúklinganna.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn ferilrannsókn á 993 sjúklingum sem gengust undir skurðaðgerð við lungnakrabbameini af ekki-smáfrumgerð á Landspítala 1991-2022. Sjúklingar með endurtekið lungnakrabbamein voru bornir saman við sjúklinga án endurkomu, yfir fjögur 8-ára tímabil, m.a. eftir TNM-stigun og Kaplan-Meier-heildarlifun. Tímasetning endurkomu var skráð og forspárþættir metnir með Cox-fjölbreytugreiningu.
Niðurstöður: Af 993 sjúklingum voru 40% á stigi IA, 18% á stigi IB, 15% og 13% á stigi IIA og IIB og 15% á stigi IIIA. Endurkoma greindist hjá 404 (41%) sjúklingum; 25% og 33% á stigum IA og IB, 60% og 54% á stigum IIA og IIB og 62% á stigi IIIA, og fengu 36% sjúklinga á stigum IIA-IIIA hefðbundna viðbótarkrabbameinslyfjameðferð. Miðgildi frá aðgerð til greiningar endurkomu var 14 mánuðir og 5-ára lifun þeirra 24% sbr. 71% hjá sjúklingum án endurkomu (p<0.001). Fimm-ára uppsafnað nýgengi endurtekins krabbameins fór lækkandi eftir tímabilum (49% 1991-1998 sbr. 33% 2015-2022, p<0,001) og var hátt TNM-stig langsterkasti forspárþáttur endurkomu (IIIA: HR=4,34, p<0,001).
Ályktanir:Endurtekið lungnakrabbamein greindist hjá 41% sjúklinga eftir læknandi lungnaskurðaðgerð, þar af hjá fjórðungi á stigi IA. Nýgengi endurkomu hefur farið lækkandi, líklega vegna fleiri greininga á lægri TNM-stigum. Engu að síður er endurkomið krabbamein eitt stærsta vandamálið eftir þessar aðgerðir og því þörf á enn öflugri viðbótarmeðferð.
Á07 Ábendingar fyrir framköllun fæðinga
Berglind Hálfdánsdóttir, Háskóli Íslands
Kristjana Einarsdóttir, Háskóli Íslands
Jóhanna Gunnarsdóttir, Háskóli Íslands
Viktoría Ýr Sveinsdóttir, Háskóli Íslands
Inngangur: Tíðni framköllunar fæðinga hefur aukist töluvert á síðustu árum hérlendis sem og erlendis og því er mikilvægt að hafa eftirlit með því hvaða læknisfræðilegu ábendingar liggja að baki inngripinu. Meginmarkmið þessarar rannsóknar voru að kanna hvaða ábendingar voru skráðar á beiðnum um framköllun fæðingar, hverjar þeirra voru algengastar og hve stór hluti fæddu sjálfkrafa áður en til gangsetningar kom.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn þversniðsrannsókn sem náði til 12.148 fæðinga á tímabilinu 2016-2018. Gögn frá beiðnum um framköllun fæðinga voru fengin úr sjúkraskrá og samkeyrð hjá Embætti landlæknis við upplýsingar frá Fæðingarskrá. Úrvinnslan afmarkaðist að mestu við fæðingar þar sem beiðni um framköllun var til staðar (n=3847), óháð því hvort fæðingin hófst síðan með framköllun eða ekki.
Niðurstöður: Samkvæmt beiðnum um gangsetningu voru 147 mismunandi ábendingar skráðar sem ástæða fyrir framköllun fæðinga. Lengd þungun var algengasta skráða ábendingin og kom fyrir á nær helmingi beiðna. Því næst var meðgöngusykursýki ástæða 14,9% beiðna, háþrýstingur 9,1% og meðgöngueitrun 4,8%. Nærri helmingur þeirra sem áttu beiðni fæddu sjálfkrafa áður en til gangsetningar kom, en það var sérstaklega algengt þegar lengd þungun var ástæða beiðni (61,9%).
Ályktun: Ástæður fyrir framköllun fæðingar voru margar en lengd þungunar var langalgengasta ábendingin. Nær helmingur þeirra sem áttu beiðni fæddu sjálfkrafa áður en til gangsetningar kom, sem gefur tilefni til að kanna hvort í sumum tilvikum mætti senda beiðnina nær áætluðum gangsetningardegi. Niðurstöður þessarar rannsóknar undirstrika mikilvægi þess að staldra við og skoða hvaða ábendingar fyrir gangsetningu bæta útkomu bæði móður og barns.
Á08 Öryggi hjartamagnýls á meðgöngu
Margrét Olsen, Landspítali
Jóhanna Gunnarsdóttir, Landspítali
Hulda Hjartardóttir , Landspítali
Kristjana H. Ásbjörnsdóttir , Háskóli Íslands
Lárus Steinþór Guðmundsson , Háskóli Íslands
Helga Helgadóttir , Háskóli Íslands
Inngangur: Hjartamagnýl hefur lengi verið notað til að fyrirbyggja meðgöngueitrun í áhættuhópi en það er óljóst hvort öryggið er nægjanlegt til að ráðleggja notkun í stærri hópi. Markmið rannsóknarinnar var að meta öryggi hjartamagnýls á meðgöngu.
Efniviður og aðferðir: PICO aðferð Cochrane var notuð til að leita kerfisbundið að slembiröðuðum samanburðarrannsóknum í MEDLINE, Web of Science og Cochrane Central. Inntökuskilyrðu voru að annar hópurinn fengi hjartamagnýl á meðgöngu og hinn lyfleysu, upplýsingar um skammt, upphaf meðferðar, lok meðferðar og fylgikvilla þurftu að vera skráðar. Útkomur voru blæðingarfylgikvillar hjá móður eða barni. Gæði rannsókna var metin og hlutfallsleg áhætta reiknuð með 95% öryggisbili (ÖB) á blæðingu eftir fæðingu með safngreiningu (PPH:e.post-partum hemorrhage).
Niðurstöður: Af 846 greinum uppfylltu 16 rannsóknir (N=47,478 konur) inntökuskilyrði. Hætta á bjögun var almennt metin lítil, en skráningu og skilgreiningum á blæðingarfylgikvillum var heilt yfir ábótavant. Breytileiki var á milli rannsókna á tegund þýðis, skammti og útilokunarskilyrðum tengdum hjartamagnýl. PPH var skýrt skilgreind sem >500ml eða 1000ml í sex rannsóknum. Safngreining sýndi heildarhættuhlutfall 1,09 (95%ÖB: 0,99 - 1,20) og því munurinn á milli hópa ekki marktækur. Spábilið reyndist vera 0,86 – 1,39 (I2=53%) sem gefur til kynna töluverða óvissu um niðurstöðurnar og miðlungs breytileika.
Ályktun: Þessi kerfisbundna yfirferð á slembiröðuðum hjartamagnýlrannsóknum á meðgöngu benti til að blæðingarfylgikvillar hafi verið illa skilgreindir og skráðir. Tilhneiging til aukinnar blæðingarhættu og misleitni rannsókna bendir til þess að þörf sé á frekari rannsóknum til að hægt sé að staðfesta með óyggjandi hætti að notkun hjartamagnýls á meðgöngu sé með öllu hættulaus.
Á09 Notkun fyrirbyggjandi hjartamagnýls á meðgöngu – er meðferðarheldni háð því hve mikil hættan er á meðgöngueitrun?
Jóhanna Gunnarsdóttir, Háskóli Íslands
Eygló Helga Haraldsdóttir, Háskóli Íslands (nemi)
Sigurbjörg A. Guðnadóttir, Emma M. Swift, Hulda Hjartardóttir, Lilja Ó. Hjartardóttir, Háskóli Íslands (nemi), Helga Helgadóttir, Lárus S. Guðmundsson, Rannveig S. Sigurvinsdóttir, Kristjana H. Ásbjörnsdóttir
1 Háskóli Íslands (nemi)
2 Háskóli Íslands
Inngangur: Hjartamagnýl ber
að ráðleggja þegar hættan á meðgöngueitrun er miðlungs til mikil. Lyfið varnar
snemmkominni meðgöngueitrun, en virknin er háð fullnægjandi meðferðarheldni.
Markmið rannsóknar var að meta skilvirkni áhættumats meðgönguverndar og
fyrirbyggjandi hjartamagnýlnotkunar á Íslandi, sem er óþekkt. Kannað var hvort
algengi ófullnægjandi meðferðarheldni tengdist undirliggjandi áhættuþáttum.
Efniviður og aðferðir: Þversnið barnshafandi kvenna svaraði netkönnun á íslensku 01.09.2023 til 31.03.2024 (N=1066). Hætta á meðgöngueitrun var flokkuð út frá heilsufarsþáttum (lág-, miðlungs- og há-áhætta) í samræmi við gildandi verklag. Matstækið Morisky Medicine Adherence Scale (MMAS-8) var notað til að meta meðferðarheldni og flokkuð sem góð (8 stig), talsverð (6-8 stig) eða ófullnægjandi (<6 stig). Algengi ófullnægjandi meðferðarheldni var reiknuð eftir áhættuflokkum og einstökum áhættuþáttum fyrir lág-miðlungs áhættuhóp. Algengihlutföll (PR) með 95% vikmörkum (CI) voru reiknuð, miðað við há-áhættuhóp.
Niðurstöður: Fjöldi þátttakenda sem var ráðlagt hjartamagnýl voru 229 og af þeim voru 87 í há-áhættu, 86 í miðlungsáhættu og 56 á lág-áhættu. Tæplega 30% kvenna í há- og miðlungsáhættu sögðust ekki hafa fengið ráð um að nota hjartamagnýl. Enginn munur var á algengi ófullnægjandi meðferðarheldni milli áhættuhópa: 25% há-áhættu, 23% miðlungs- og 22% lág-áhættuhóp. Algengi ófullnægjandi meðferðarheldni var 14% meðal kvenna sem höfðu fengið frjósemismeðferð eða fætt fyrirbura áður, en munurinn var ekki marktækur í samanburði við há-áhættuhóp, PR 0,56 (95%CI:0,241,30) og PR 0.51 (95%CI: 0,171,53).
Ályktun: Stór hluti áhættuhóps taldi sig ekki hafa fengið ráð um hjartamagnýlnotkun. Skilvirkni fyrirbyggjandi meðferðar má ef til vill bæta með áminningum bæði til starfsfólks og skjólstæðinga. Niðurstöðurnar benda til að meðferðarheldni sé óháð áhættustigi.
Föstudagur 4. apríl kl. 13:00 – 14:30 / VÍSINDAERINDI
SALUR B
Hvert erindi fær 10 min, 7 min í flutning og 3 mín fyrir spurningar
Á10 Meðferð og fylgikvillar garnaflækju á botnristli á Landspítala 2009-2023
Birgitta Ólafsdóttir, Landspítali Háskólasjúkrahús
Anna Sigurðardóttir, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
Theódór Ásgeirsson, Landspítali Háskólasjúkrahús
Elsa Björk Valsdóttir, Landspítali Háskólasjúkrahús
Páll Helgi Möller, Landspítali Háskólasjúkrahús
Inngangur: Garnaflækja á
botnristli (cecal volvulus) er næst
algengasta tegund slíkra meina. Meðferð er skurðaðgerð þar sem fjarlægður er
hluti af görn. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta meðferð og fylgikvilla
aðgerðar vegna garnaflækju á botnristli.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og náði til allra einstaklinga sem lögðust inn á Landspítala með garnaflækju á botnristli og fóru í aðgerð á árunum 2009-2023. Farið var í gegnum rafrænar sjúkraskrár og upplýsinga var meðal annars aflað um kyn, aldur, meðferð, legutíma, fylgikvilla aðgerða og vefjagreiningarsvar.
Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu fóru 75 einstaklingar í bráðaaðgerð vegna garnaflækju á botnristli, 60 konur (80%) og 15 karlar (20%). Meðalaldur var 60 ár (21-95). Hægra helftarristilsnám með opinni tækni (70,6%) var algengasta aðgerðin sem var framkvæmd. Miðgildi legu eftir aðgerð var 6 dagar. Fjörtíu og átta (64%) einstaklingar fengu fylgikvilla eftir aðgerð, þrír þurftu á enduraðgerð að halda og tveir (2,6%) létust innan 30 daga frá aðgerð. Í 7 (9,3%) tilfellum þurftu sjúklingar að leggjast aftur inn innan við 30 dögum frá útskrift. Drep eða rof á ristli leiddi ekki til hærri tíðni fylgikvilla eða sýkinga.
Ályktun:Sjúklingar sem greinast með garnarflækju á botnristli og fara í bráðaaðgerð á Landspítala vegnar almennt vel. Brugðist er hratt við en nánast allir eru teknir til aðgerðar innan tveggja sólarhringa. Rof eða drep á botnristli við aðgerð virðist ekki auka tíðni fylgikvilla . Dánartíðni og leki á samtenginu er lág.
Á11 Greining, meðferð og horfur sjúklinga með kirtilkrabbamein í mjógirni á Landspítala 2002-2021
Karin Johansen, Landspítali/ Háskóli Íslands
Kristín Huld Haraldsdóttir, Landspítali/ Háskóli Íslands
Silja Dögg Helgadóttir, Landspítali/Háskóli Íslands
Inngangur: Kirtilkrabbamein í mjógirni er sjaldgæft krabbamein með slæmar horfur. Eina læknandi meðferðin er skurðaðgerð þar sem meinið er fjarlægt. Þegar æxli er staðsett í skeifugörn er mælt með briskirtils- og skeifugarnarnármi en hlutabrottnámi á mjógirni ef það er staðsett neðar.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að framkvæma afturskyggna rannsókn, yfir< 20 ára tímabil, og skoða tíðni kirtilkrabbameins í mjógirni, tíðni og tegund aðgerða, fylgikvilla og lifun sjúklinga eftir aðgerð.
Aðferðir: Upplýsingar um einstaklinga sem greindust voru fengnar úr sjúkraskrárkerfum Landspítala. Breytur voru skráðar í excel og unnin var lýsandi tölfræði ásamt útreikningum um lifun. Unnið var í tölfræðiforritinu R.
Niðurstöður: 47 sjúklingar greindust með kirtilkrabbamein í mjógirni, 32 í skeifugörn og 15 í mjógirni. 25 fóru í læknandi aðgerð. Alvarlegir fylgikvillar, ≥3 samkvæmt Clavien-Dindo, voru 28%. Endurkomutíðni var 24%. Eins árs lifun sjúklinga sem fóru í aðgerð var 80% en fimm ára lifun 44%. Fimm ára lifun var hærri fyrir æxli upprunnin í skeifugörn, 52,9% miðað við 25,0% fyrir æxli upprunnin annars staðar í mjógirni (p>0,05). 14 (56%) sem fóru í aðgerð voru á lífi í lok rannsóknartímabilsins en hjá þremur þeirra hafði eftirfylgd ekki náð fimm árum.
Umræður: Kirtilkrabbamein í mjógirni er sjaldgæft mein og fáir sjúklingar greindust á tímabilinu. Hátt hlutfall sjúklinga fór í skurðaðgerð en einn af hverjum fjórum var greindur með endurkomu í eftirliti. Engar niðurstöður hafa verið birtar hingað til fyrir Ísland um krabbamein í mjógirni og samanburður við aðrar þjóðir er erfiður vegna lágrar tíðni krabbameinsins.
Á12 Staðbundin endaþarmskrabbamein og útkoma sjúklinga sem fara í „watch and wait“ ferli 2016-2022
Jórunn Atladóttir, Landspítali
Halla Viðarsdóttir, Landspítali
Sigurdís Haraldsdóttir, Landspítali
Jakob Jóhannsson, Landspítali
Sylvía Sara Ólafsdóttir, Háskóli Íslands
Inngangur: Meðferð við
endaþarmskrabbameini byggir á skurðaðgerðum með eða án undirbúningsmeðferðar í
formi geisla- og/eða lyfjameðferðar. Val meðferðar fer stigi sjúkdómsins og
ástandi sjúklings. Skurðaðgerðir geta leitt af sér ævilangar aukaverkanir. Á
síðustu árum hefur færst í aukana að gera ekki skurðaðgerð hjá þeim sem svara
undirbúningsmeðferð heldur hafa virkt eftirlit, svokallað „watch and wait”
ferlikmið þessarar rannsóknar var að kanna hvaða sjúklingar fara í þetta ferli
á Íslandi, hver útkoma þessa sjúklingahóps er, þ.e. hversu stór hluti fer í
skurðaðgerð, fær endurkomu, lést og hversu stór hluti var án krabbameins í lok
rannsóknartímans.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn ferilrannsókn sem náði til allra þeirra einstaklinga sem greindust með endaþarmskrabbamein á árunum 2016-2022. Gögnin voru fengin frá Krabbameinsskrá Íslands og sjúkraskrá sjúklinga.
Niðurstöður: Alls fóru 28 sjúklingar í „watch and wait“ ferlið á rannsóknartímabilinu, þar af 17 karlar og 11 konur, með meðalaldur 64,5 ár. Algengasta klíníska stigunin var cT2 (n=14) og cT3 (n=10). Meðaleftirfylgd var 35 mánuðir (bil, 6-91 mánuður). Allir fengu geislameðferð, 18 fengu lyfjameðferð og 18 fóru í TEM aðgerð. Tveir einstaklingar greindust með fjarmeinvörp og lést annar þeirra. Einn fékk staðbundna endurkomu, fór í skurðaðgerð og er án krabbameins. Í lok rannsóknartímabilsins voru 89,3% af sjúklingunum á lífi og án krabbameins en sú tala hækkar í 93% ef talinn er með einstaklingurinn sem er horfinn úr eftirliti.
Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að “watch and wait” ferli sé góður og raunhæfur kostur fyrir sjúklinga sem fá algjöra svörun eftir undirbúningsmeðferð við endaþarmskrabbameini.
Á13 Róttækt þvagblöðrubrottnám í þjarka á LSH
Sigurður Guðjónsson, Landspítali - Háskólasjúkrahús
Ólafur Sánhez, Landspítali - Háskólasjúkrahús
Oddur Björnsson, Sahlgrenska Universitetssjukhuset
Eiríkur Jónsson, Landspítali - Háskólasjúkrahús
Inngangur: Róttækt þvagblöðrubrottnám er staðalmeðferð við vöðvaífarandi þvagblöðrukrabbameini. Samkvæmt íslenskri rannsókn á opnum aðgerðum frá 2003-2012 eru fylgikvillar algengir (57%), legutími langur (miðgildi 15 dagar) og blóðgjafir tíðar (38% í aðgerð). Árið 2015 var aðgerðarþjarkinn innleiddur til róttæks þvagblöðrubrottnáms á Íslandi í stað opinna aðgerða með það að marki að flýta bata og stytta legutíma. Markmið þessarar rannsóknar var að athuga fylgikvilla og lifun sjúklinga með þvagblöðrukrabbamein sem undirgengust þvagblöðrubrottnám í aðgerðarþjarka (RARC) á LSH.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra sjúklinga með þvagblöðrukrabbamein sem undirgengust RARC á tímabilinu 2015-2023. Upplýsingum var aflað afturvirkt úr rafrænum sjúkraskrám. Fylgikvillar voru flokkaðir samkvæmt Clavien-Dindo (CD) flokkunarkerfinu. Kaplan-Meier aðferðin var notuð við lifunargreiningu.
Niðurstöður: 67 sjúklingar undirgengust RARC á rannsóknartímabilinu og voru allar aðgerðirnar framkvæmdar af sama skurðlækni. Aðgerðartími var 375 mínútur (miðgildi) og blóðtap í aðgerð var 100mL (miðgildi). Enginn þurfti á blóðgjöf að halda í aðgerð. 2 fengu blóðgjöf eftir aðgerð. Legutími var 6 dagar (miðgildi). 57% sjúklinga upplifðu fylgikvilla; 34% einungis væga (CD1-2) en 22% alvarlega (CD3-5). 13% þurftu á endurinnlögn að halda innan 90 daga. 12% þurftu að undirgangast enduraðgerð á eftirfylgdartímanum. 30 daga, 90 daga, og 5-ára lifun var 100%, 99% og 59%. Eftirfylgdartími var 981 dagur (miðgildi).
Ályktun: Tíðni fylgikvilla og lifun í kjölfar RARC á Íslandi er sambærileg niðurstöðum erlendra rannsókna. Aðgerðartími er lengri en legutími er mun styttri en eftir opna aðgerð. Aðgerðarblæðing er takmörkuð og blóðgjöf eftir aðgerð undantekning. Endurinnlagnir og enduraðgerðir eru færri. Niðurstöður rannsóknarinnar takmarkast af smáu þýði og afturvirkri gagnasöfnun.
Á14 Fitbone mergnagli ný aðferð við lengingar
Þorvaldur Ingarsson, Landspítalinn
Dagur Sveinsson , Landspítalinn
Sigurveig Pétursdóttir, Landspítalinn
Inngangur: Lengingar á útlimum hafa þróast mikið á síðustu hundrað árum, en Ilizarov lagði grunninn að nútímaaðferðum með hringlaga ytri festingu. Á Íslandi hófust þessar aðgerðir árið 1996 og hafa að jafnaði verið framkvæmdar tvær árlega, aðallega vegna mislengdar ganglima. Þrátt fyrir góðan árangur eru minni háttar fylgikvillar algengir við ytri festingu og verkir eru vandamál. Á síðustu árum hefur notkun vélknúinna mergnagla, eins og Fitbone, aukist vegna færri fylgikvilla, minni verkja og minni truflunar á daglegu lífi. Rannsóknin er lýsandi afturskyggn gagnarannsókn á þeim sjúklingum sem gengust undir lengingaraðgerð með nýrri tækni (mergnagla) haustið 2023.
Aðferðir og efniviður: Haustið 2023 gaf Kvenfélagið Hringurinn Landspítala Fitbone-búnað, sem gerði kleift að framkvæma fyrstu þrjár aðgerðirnar með þessari tækni í nóvember 2023. Gagna var aflað úr sjúkraskrám Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri.
Niðurstöður: Þátttakendur voru þrír sjúklingar með meðfædda mislengd ganglima. Tveir gengust undir lærleggslengingu og einn sköflungslengingu, með meðallengingu upp á 35 mm. Meðaltími að fullu ástigi var skráður ásamt fylgikvillum.
Umræða: Aðgerðirnar gengu vel. Tveir sjúklingar fundu fyrir minniháttar óþægindum tengdum innri festingum, en þau leystust þegar búnaðurinn var fjarlægður. Engir alvarlegir fylgikvillar komu fram. Að mati aðgerðarlækna er Fitbone-aðferðin mikil framför, þar sem verkir eru minni, endurhæfing gengur hraðar og ytri sýkingar í ytri festingum heyrir sögunni til svo og er meðhöndlun sjúklinga einfaldari. Niðurstöðurnar benda til þess að þessi tækni geti orðið kjörin lausn við lengingaraðgerðir á Íslandi.
Á15 Árangur, útkomur og fylgikvillar efnaskiptaaðgerða hjá einstaklingum með líkamsþyngdarstuðul ≥ 50 kg/m2
Katrín Hólmgrímsdóttir, Læknadeild, Háskóli Íslands
Kristín Huld Haraldsdóttir, Læknadeild, Háskóli Íslands
Bjarni Geir Viðarsson, Læknadeild, Háskóli Íslands
Kviðarholsskurðlækningadeild, Landspítali háskólasjúkrahús
Inngangur: Efnaskiptaaðgerðir eru áhrifaríkt meðferðarúrræði alvarlegrar offitu og stuðla að langtíma þyngdartapi og minnkaðri tíðni fylgisjúkdóma. Markmið rannsóknarinnar var að meta árangur og fylgikvilla efnaskiptaaðgerða á Landspítala hjá einstaklingum með líkamsþyngdarstuðul ≥ 50 kg/m2.
Efniviður og aðferðir: Við framkvæmdum einsetra, afturskyggna ferilrannsókn á 112 einstaklingum með líkamsþyngdarstuðul ≥ 50 kg/m2 sem undirgengust efnaskiptaaðgerð á Landspítala frá 2014-2023. Upplýsingum var safnað úr framskyggnum gagnagrunni efnaskiptaaðgerða á Landspítala og afturvirkt úr sjúkraskrám. Árangur aðgerða var metinn sem prósenta af þyngdartapi á yfirþyngd (%EBMIL). Langtímaeftirfylgd var skilgreind sem þyngdarmæling ≥ 3 árum frá aðgerð. Fylgikvillar skiptust í snemm- og síðkomna, innan 30 daga og árs frá aðgerð.
Niðurstöður: Meðalaldur einstaklinga var 43 ára (±12) og voru 70% konur. Meðalþyngd var 166 kg (±28) og meðallíkamsþyngdarstuðull 56,9 kg/m2 (±6,6) á aðgerðardegi. Ári eftir aðgerð var meðaltal %EBMIL 51,2% (± 15,9%) og náðu 51,0% einstaklinga >50% EBMIL. Meðallangtímaeftirfylgd var 5,2 ár (±1,5). Meðaltal %EBMIL í langtímaeftirfylgd var 50,7% (±27,4) og náðu 45,0% einstaklinga >50% EBMIL. Af einstaklingum með fylgisjúkdóma fóru 78,4% í fullt sjúkdómshlé af sykursýki af týpu 2, 47,2% hættu á háþrýstingslyfjameðferð og 34,5% hættu notkun kæfisvefnsvélar eftir aðgerð. Tíðni snemmkominna fylgikvilla sem uppfylltu Clavien-Dindo flokkun ≥3 var 2,7%, þar af lést einn einstaklingur vegna anastómósuleka, og síðkominna fylgikvilla 3,6%. Algengasti fylgikvillinn var vítamín- og næringarskortur, 29,0%.
Ályktun: Efnaskiptaaðgerðir eru áhrifaríkt meðferðarúrræði fyrir einstaklinga með BMI >50 kg/m2 og skila >50% EBMIL hjá um helmingi einstaklinga. Meirihluti einstaklinga fór í sjúkdómshlé af sykursýki af týpu 2 eftir aðgerð og tíðni alvarlegra fylgikvilla var lág.
Á16 Sjúklingar með rof á maga- og skeifugörn á Landspítala Háskólasjúkrahúsi 2014-2023
Bjarni Geir Viðarsson, Landspítali Háskólasjúkrahús
Ingi Pétursson, Læknadeild Háskóla Íslands
Kristín Huld Haraldsdóttir, Landspítali Háskólasjúkrahús
Inngangur: Rof á maga- og
skeifugörn er ein orsaka bráðaaðgerða í kviðarholsskurðlækningum og getur leitt
til dauða. Eðli sjúkdómsins vegna eru rannsóknir krefjandi og hafa fáar
slembiraðaðar rannsóknir verið birtar. Markmið þessarar rannsóknar var að
leggja mat á árangur bráðra aðgerða og íhaldssamrar meðferðar á rofnum maga- og
skeifugarnarsárum á Landspítala Háskólasjúkrahúsi (LSH).
Efniviður og aðferðir: Þetta var einsetra, afturskyggn áhorfsrannsókn sem innihélt 176 einstaklinga sem hlutu greininguna K25.1 (brátt magasár með rofi) og K26.1 (brátt skeifugarnarsár með rofi) og voru meðhöndlaðir á LSH á árunum 2014-2023. Fylgikvillar í kjölfar aðgerðar voru flokkaðir samkvæmt Clavien-Dindo flokkunarkerfinu og voru fylgikvillar sem kröfðust ekki inngrips undanskildir.
Niðurstöður: Meðalaldur var 60,6 ár (±17,9) og voru karlmenn í meirihluta (52,8%). Skurðaðgerð var beitt í 83,5% tilvika og voru opnar aðgerðir algengari (43,8%) en kviðsjáraðgerðir (39,2%). Dánartíðni við 30 daga var marktækt hærri við rof á magasári en skeifugarnarsári (16,5% vs. 5,5%, p=0,036) sem og við 90 daga (21,2% vs. 6,6%, p=<0,001). 56,8% hlutu fylgikvilla í kjölfar aðgerðar, en tíðni minni háttar (flokkur I-II) og alvarlegra fylgikvilla (flokkur IIIa-V), samkvæmt Clavien-Dindo flokkunarkerfinu, var 28,4% hvort um sig. Einstaklingar með rof á magasári höfðu hærri tíðni alvarlegra fylgikvilla en einstaklingar með rof á skeifugarnarsári (30,6% vs. 26,4), sér í lagi Clavien-Dindo stig 5 (16,5% vs. 4,4%) (p=0,031).
Ályktun: Rof á magasári er marktækt líklegra til að valda alvarlegum fylgikvillum eða dauða en rof á skeifugörn samkvæmt Clavien-Dindo flokkunarkerfinu. Frekari rannsókna er þörf til að bera kennsl á forspárþætti fyrir alvarlega fylgikvilla og dauða og bæta útkomur.
Á17 Framskyggn, rafræn skráning á axlarskiptum á Íslandi 2018-2024 – fyrstu niðurstöður.
Katrín Þóra Hermannsdóttir, Landspítali
Hafþór Sigurðarson, Landspítali
Ólafur Ingimarsson, Sjúkrahúsið á Akureyri
Þorkell Snæbjörnsson, Landspítali
Ólafur Sigmundsson, Landspítali
Eyþór Örn Jónsson, Landspítali
Inngangur: Axlarskipti bæta axlarfærni einstaklinga með langt gengna slitsjúkdóma og flókin beinbrot. Á Íslandi hafa gögn um axlarskipti ekki verið tekin saman. Markmið rannsóknarinnar er að lýsa meðferð með axlarskiptum og þróun yfir tíma.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á framskyggnri, rafrænni skráningu aðgerðarlæknis í Heilsugátt á frumaxlarskiptum á árunum 2018-2024. Nýgengi miðast við 100.000 persónuár, byggt á gögnum frá Hagstofu Íslands. Mat á þróun yfir tíma fólst í skiptingu rannsóknarhópsins í upphaf (2018-2019) og lok (2023-2024) tímabilsins og hóparnir bornir saman með kí-kvaðrat, Fischer og t-prófum.
Niðurstöður: Gerð voru 337 axlarskipti, beggja vegna hjá 22 einstaklingum. Þar af voru 227 konur (67%), meðalaldur 70,0 ár (26-91), 80% aðgerða framkvæmdar á Landspítala og 20% á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Algengustu ábendingar voru: slitgigt 36%, brot í nærenda upphandleggs (<2 vikur) 26%, eldra brot (≥2 vikur) 20% og rof á axlarhettu 14%. Viðsnúnir gerviliðir voru algengastir (n=179, 53%), en líffærafræðilegir gerviliðir 81 (24%) og hálfgerviliðir 77 (23%). Meðalaldur var 67 ár í upphafi en 72 ár í lok tímabilsins (p=0,004). Hlutfall slitgigtartilfella jókst frá 24% í 45% en heildarhlutfall brota minnkaði frá 52% í 33% (p=0,024). Hlutfall viðsnúinna gerviliða jókst frá 24% í 72% en hálfgerviliðum fækkaði úr 47% í 7% (p<0,001). Nýgengi var 7,9 árið 2018 og 20,1 árið 2024.
Ályktun: Breytingar hafa orðið á meðferð með axlarskiptum. Notkun viðsnúinna gerviliða hefur aukist og hlutfallslega hefur slitgigtartilfellum fjölgað en brotum fækkað. Meðferðin er orðin líkari því sem er á alþjóðavísu. Nýgengi hefur færst nær því sem er á Norðurlöndunum.
Á18 Árangur aðgerða á langvinnum innanbastsmargúl á Íslandi á árunum 2012-2022
Ágúst Kolbeinn Sigurlaugsson, Landspítali
Steen Magnús Friðriksson, Landspítali
Inngangur: Langvinnur innanbastmargúll verður til vegna röskunar á innsta frumulagi heilabasts sem hefur blætt í t.d. vegna höfuðáverka eða innankúpulágþrýstings. Ábending fyrir skurðaðgerð er þegar margúllinn veldur taugaeinkennum. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tíðni enduraðgerða á langvinnum innanbastsmargúl vegna endurblæðinga.
Aðferðir: Afturskyggn rannsókn á einstaklingum sem hafa undirgengist aðgerð á Landspítala til að tæma út langvinnan innanbastsmargúl á tímabilinu 2012 - 2022. Klínísk gögn voru sótt úr rafrænum sjúkraskrárkerfum Landspítala.
Niðurstöður: Á árunum 2012 til 2022 voru gerðar 200 aðgerðir til að tæma út langvinnan innanbastsmargúl á Íslandi. Enduraðgerðartíðnin var 11,2%. Tíðni fylgikvilla var mjög lág.
Umræður: Árangur aðgerða á langvinnum innanbastsmargúl á Íslandi er sambærilegur við þær norðurlandaþjóðir sem við berum okkur saman við.
Föstudagur 4. apríl kl. 15:00 – 16:00 / VERÐLAUNAERINDI
SALUR A
Hvert erindi fær 10 min, 7 min í flutning og 3 mín fyrir spurningar
Á19 Lifrarmeinvörp hjá sjúklingum með ristil- og endaþarmskrabbamein 2014-2017 Með 5 ára eftirfylgd
Kristín Huld Haraldsdóttir, Landspítali
Jón Gunnlaugur Jónasson, Landspítali
Helgi Birgisson, Krabbameinsskrá Íslands
Rakel Hekla Sigurðardóttir, Landspítali
Inngangur: Krabbamein í ristli og endaþarmi (KRE) er þriðja algengasta tegund krabbameins á Íslandi. Algengast er að KRE myndi meinvörp í lifur sem eru stór áskorun í meðferð KRE. Talið er að helmingur sjúklinga með KRE greinist með lifrarmeinvörp í sínu sjúkdómsferli. Meðferð KRE felur í sér þverfaglega nálgun en skurðaðgerð gefur von um lækningu í ákveðnum tilfellum. Markmið rannsóknarinnar var að skoða fjölda þeirra sem greindust með lifrarmeinvörp og ákvarðanatöku um meðferð þeirra.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tók til allra sjúklinga sem greindust með KRE 2014-2017. Listi yfir sjúklinga fékkst frá Krabbameinskrá en nánari upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrárkerfum LSH. Tölfræðileg úrvinnsla var gerð með R studios og Excel.
Niðurstöður: Alls greindust 722 sjúklingar með KRE á tímabilinu sem gerir aldursstaðlað nýgengi 57,9 á hverja 100.000 einstaklinga, 25% þeirra fengu lifrarmeinvörp á 5 ára eftirfylgdartíma. Alls fóru 518 (72%) í skurðaðgerð í læknandi tilgangi á frumæxli og af þeim fengu 69 (13%) lifrarmeinvörp. Alls fóru 26 (38%) í skurðaðgerð á liframeinvörpum. Af þeim sem fóru ekki í aðgerð voru 72% metnir með of útbreiddan eða ekki skurðtækan sjúkdóm, 14% ekki taldir þola aðgerð, 4,6% afþökkuðu aðgerð og ástæða ekki skráð hjá 9,3%. Af öllum sem greindust með KRE voru aðeins 29% tilfella tekin fyrir á samráðsfundi við greiningu.
Ályktun: Nýgengi KRE hefur aukist á síðastliðnum áratugum. Færri greindust með lifrarmeinvörp en í sambærilegum rannsóknum erlendis. Flestir sem fóru ekki í aðgerð á lifrarmeinvarpi voru með óskurðtækan sjúkdóm. Fáir voru teknir fyrir á samráðsfundi við greiningu á KRE og lifrarmeinvörpum.
Á20 Samtenging garnar innan eða utan kviðarhols við hægra ristilbrottnám í kviðsjá
Hjalti Dagur Hjaltason, Háskóli Íslands
Theódór Ásgeirsson, Landspítali
Páll Helgi Möller, Landspítali
Inngangur: Á Íslandi hafa samtengingar við hægra ristilbrottnám (e. right hemicolectomy) í kviðsjá lengst af verið gerðar utan kviðarhols. Innan kviðarhols samtenging (e. intracorporal anastomosis) er ný aðferð við hægra ristilbrottnám í kviðsjá. Undanfarin þrjú ár hafa samtengingar innan kviðarhols verið teknar upp í auknum mæli á Landspítalanum með því leiðarljósi að draga úr tíðni fylgikvilla. Markmið þessarar rannsóknar er því að kortleggja innan og utan kviðarhols samtengingar við hægra ristilbrottnám í kviðsjá og bera saman klínískar niðurstöður milli þessara tveggja hópa.
Efniviður og aðferðir: Framkvæmd var afturskyggn ferilrannsókn. Upplýsingar um sjúklinga sem fóru í hægra ristilbrottnám í kviðsjá voru fengnar úr sjúkraskrárkerfi Landspítala. Breytur voru skráðar í Excel og unnin var lýsandi tölfræðivinna í tölfræðiforritinu R.
Niðurstöður: Alls fóru 145 sjúklingar í hægra ristilbrottnám í kviðsjá, 78 í utan kviðarhols samtengingu og 67 í innan kviðarhols samtengingu. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að enginn marktækur munur væri á tíðni garnastíflu (e. ileus) (p>0,05) né lengd spítaladvalar (p>0,05) milli beggja hópanna. Marktækur munur var á aðgerðartíma þar sem innan kviðarhols samtengingar tóku að meðaltali 18 mínútum lengri tíma en utan kviðarhols samtengingar (p<0,05).
Ályktun: Sjúklingar sem undirgangast hægri ristilbrottnám með samtengingu innan kviðarhols vegnar vel og svipar tíðni aukaverkana til tengingar gerðar utan kviðarhols. Mismunur á lengd aðgerðartíma skýrist líklega af tækni við gerð samtengingar. Sá tími styttist er fjöldi aðgerða eykst.
Á21 Ífarandi streptókokkasýkingar á gjörgæsludeildum Landspítalans 2018-2023: nýgengi, alvarleiki, meingerð og meðferðarárangur
Hanna María Geirdal, Háskóli Íslands
Martin Ingi Sigurðsson, Landspítali
Ólafur Guðlaugsson, Landspítali
Sigurbergur Kárason, Landspítali
Inngangur:
Streptókokkasýking hefur fjölbreytta birtingarmynd, allt frá hálsbólgum
upp í drepmyndandi fellsbólgu og sýklasóttarlost. Eftir Covid-19
faraldurinn 2020-2022 virtist hefjast faraldur streptókokkasýkinga á
Íslandi og í nágrannalöndum en markmið rannsóknarinnar var að kanna
nýgengi ífarandi afbrigði sjúkdómsins, alvarleika hans, meingerð og
meðferðarárangur.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn ferilrannsókn. Í rannsóknarþýðinu voru allir sjúklingar sem lögðust inn á gjörgæsludeildir Landspítalans á árunum 2018-2023 vegna ífarandi streptókokkasýkingar. Upplýsingum var safnað um undirliggjandi sjúkdómsbyrði hópsins, alvarleikastigun veikinda á gjörgæslu, veitta meðferð og lifun auk afbrigða bakteríunnar.
Niðurstöður: Nýgengi jókst úr 1,17 tilfellum á hverja 100.000 íbúa upp í 6,40 tilfelli á hverja 100.000 íbúa á rannsóknartímabilinu. Alls voru 45 tilfelli í þýðinu, þar af átta börn. Algengast var að sýkingin birtist sem mjúkvefjasýking, en þrjú tilfelli drepmyndandi fellsbólgu komu fyrir á tímabilinu. Algengasta líffærabilun sem kom fram var blóðrásarbilun (82%) og 93% sjúklinga þróuðu sýklasótt eða sýklasóttarlost. Skurðaðgerðir voru algengastar ef sjúklingar fengu mjúkvefjasýkingar og dren voru algengust í neðri öndunarvegs- og brjóstholssýkingum. Algengasta afbrigði bakteríunnar var ST28/emm-1 (56%). Fimm sjúklingar létust úr ífarandi streptókokkasýkingum í sjúkrahúslegunni á tímabilinu og einn sjúklingur innan þriggja mánaða frá útskrift, en ekkert barn lést.
Ályktun: Veturinn 2022-2023 varð faraldur ífarandi streptókokkasýkinga á Íslandi, sambærilegur við faraldra í Danmörku og Englandi á sama tíma, en 76% tilfellanna greindust frá júní 2022 - júní 2023. Ekki er að fullu ljóst hvað veldur þessari aukningu, en hugsanlega tengist það auknu samfélagsnæmi í kjölfar samkomutakmarkana á tímum Covid-19 faraldursins.
Á22 Útkoma axlarskipta á Íslandi metin með Oxford Shoulder Score. Fyrstu niðurstöður úr framskyggnri, rafrænni skráningu
Hafþór Sigurðarson, Landspítali
Katrín Þóra Hermannsdóttir, Landspítali
Ólafur Ingimarsson, Sjúkrahúsið á Akureyri
Kári Árnason, Háskóli Íslands, Námsbraut í sjúkraþjálfun
Þorkell Snæbjörnsson, Landspítali
Ólafur Sigmundsson, Landspítali
Eyþór Örn Jónsson, Landspítali
Inngangur: Almennt minnka axlarskipti verki og bæta færni einstaklinga með langt gengna slitsjúkdóma í öxl. Markmið rannsóknarinnar er að meta árangur axlarskipta á Íslandi með Oxford Shoulder Score (OSS).
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á gögnum frá 2019-2024 úr framskyggnri skráningu á frumaxlarskiptum í Heilsugátt. OSS er 12 spurninga axlarsértækt mælitæki, svokallað Patient-reported outcome measure, PROM. Niðurstaða OSS er frá 0-100, hærri tala endurspeglar betri færni. Sjúklingar svöruðu OSS fyrir aðgerð og 1-2 árum síðar. Tölfræðileg marktækni milli hópa var metin með kí-kvaðrat og t-prófi.
Niðurstöður: Af 172 axlarskiptum lá fyrir OSS í 114 (66%) tilvikum fyrir aðgerð og 69 (40%) eftir aðgerð. Meðalaldur var 71,9 ár (34-91,9) og fjöldi kvenna var 106 (62%). Algengustu greiningarnar voru slitgigt (67%) og rof á axlarhettu (22%). Meðaltal stiga (SD) á OSS var 40,2 (17,3) fyrir aðgerð og 82,9 (17,2) eftir aðgerð. Fyrir 54 (31,4%) aðgerðir var OSS svarað við báða tímapunkta, meðalfjöldi stiga var 39,2 (17,9) fyrir aðgerð og 82,3 (18,1) eftir aðgerð (p<0,001). Miðað við þá sem svöruðu OSS við annan eða hvorugan tímapunkt voru þeir sem svöruðu við báða tímapunkta yngri (meðalaldur 70 miðað við 73 ár, p=0,004) og með lægri ASA flokkun (p=0,043). Svarhlutfallið fyrir aðgerð jókst úr 44% árið 2019 í 85% árið 2024 (p=0,001) og eftir aðgerð úr 50% árið 2020 í 87% árið 2023 (p=0,013).
Ályktanir: Axlarfærni batnar verulega eftir axlarskipti á Íslandi og framfarir eru sambærilegar við mat með OSS í erlendum rannsóknum. Lágt svarhlutfall gæti takmarkað réttmæti niðurstaðnanna en svarhlutfallið hefur farið hækkandi.
Á23 Endurinnlagnartíðni og fylgikvillar eftir blöðruhálskirtilsbrottnám við samdægursútskriftir
Hjalti Reykdal Snorrason, Háskóli Íslands
Jóhann Páll Ingimarsson, Landspítali
Edward Rumba , Háskóli íslands
Rafn Hilmarsson , Landspítali
Helgi Karl Engilbert, Landspítali
Inngangur: Af viðtekinni venju hafa sjúklingar í gegnum tíðina legið á sjúkrahúsi í að minnsta kosti eina nótt eftir blöðruhálskirtilsbrottnám. Vegna framfara í skurðtækni og með tilkomu samfélagslegra áskorana hafa samdægursútskriftir (SÚ) tekið við sem hluti afhefðbundnu meðferðarferli eftir slíkar aðgerðir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi (LSH). Markmið rannsóknarinnar er að kanna öryggi SÚ eftir blöðruhálskirtilsbrottnám meðaðgerðarþjarka og kortleggja endurinnlagnartíðni og fylgikvilla.
Efni og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn gagnarannsókn sem nær til þeirra 316 sjúklinga sem fóru í blöðruhálskirtilsbrottnám með aðgerðarþjarka á LSH frá 1. september 2019 til 31. desember 2023. Gagnaöflun fer fram í gegnum sjúkraskrárkerfi LSH, þar sem afdrif hvers sjúklings eru athuguð með tilliti til SÚ, endurinnlagna og fylgikvilla.
Niðurstöður: Af öllum 316 sjúklingum rannsóknarþýðis, útskrifuðust 261 sjúklingur (82,6%) heim samdægurs eftir aðgerð. 19 sjúklingar (6,01%) lögðust inn í kjölfar aðgerðar vegna læknisfræðilegra vandamála (Clavien-Dindo I-IIIb) í að meðaltali 1,16 nótt. 17 sjúklingar (5,38%) þurftu endurinnlögn innan 30 daga frá aðgerð (Clavien-Dindo I-IV). Þar af 12 sjúklingar sem höfðu útskrifast samdægurs, sem gerir 4,60% endurinnlagnartíðni meðal SÚ. 4 sjúklingar þurftu endurinnlögn eftir að hafa legið inni á sjúkrahúsi yfir nótt í kjölfar aðgerðar vegna læknisfræðilegra ástæðna, það gerir 21,1% þess hóps. Það reyndist marktækur munur á milli þessara hópa með tilliti til endurinnlagna (p= 0,016).
Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að mikill meirihluti sjúklinga útskrifast samdægurs eftir blöðruhálskirtilsbrottnám með aðgerðarþjarka á LSH. Klínísk reynsla af SÚ er góð og rannsóknin sýnir að fáir sjúklingar þurfa á endurinnlögn að halda.
Á24 Breytingar í skammtímabreytileika fósturhjartsláttar til greiningar á líknarbelgssýkingu: afturskyggn ferilrannsókn
Brynhildur Tinna Birgisdóttir, Landspítali
Ingela Hulthén Varli, Karolinska Universitetssjukhuset
Malin Holzmann, Karolinska Universitetssjukhuset
Sissel Saltvedt, Karolinska Universitetssjukhuset
Tomas Andersson, Karolinska Institutet
Farhad Abtahi, Karolinska Institutet
Ulrika Ådén, Karolinska Institutet
Inngangur: Sýking í líknarbelg (intraamniotic infection) er einn af mögulegum fylgikvillum fyrirmálsrifnunar himna fyrir tímann (e. preterm prelabor rupture of membranes, PPROM), og getur meðal annars leitt til snemmkominnar bakteríusóttar nýbura (e. early onset neonatal sepsis). Þær greiningaraðferðir á líknarbelgssýkingu sem notaðar eru hafa sýnt ófullnægjandi greiningargetu (e. diagnostic performance) og getur það leitt til bæði of- og vangreininga. Í leit að betri greiningaðferðum höfum við rannsakað tengsl skammtímabreytileika fósturhjartsláttar við líknarbelgssýkingu.
Efniviður og aðferðir: Við framkvæmdum afturskyggna ferilrannsókn á 628 einburameðgöngum með PPROM og fæðingu við 24+0 – 33+6 vikna meðgöngulengd. Útsetjandi þáttur var líknarbelgssýking, en sökum þess að ekki er til góð greiningaraðferð fyrir líknarbelgssýkingu var notast við snemmkomna bakteríusótt nýbura sem nálgun (e. proxy) á líknarbelgssýkingu, en þessar tvær sýkingar hafa sterk tengsl. Meginútkoman var skammtímabreytileiki í fósturhjartslætti en alls voru skoðuð 9.690 fósturhjartsláttarrit.
Niðurstöður: Fóstur sem útsett voru fyrir líknarbelgssýkingu sýndu 26,5% meiri minnkun í skammtímabreytileika síðustu 24 klukkutímana fyrir upphaf fæðingar, borið saman við fóstur sem ekki voru útsett (95% CI -32,9% til -19,4%; P <0,001). Minnkunin varð minna áberandi en áfram marktæk þegar leiðrétt var fyrir hjartsláttartíðni (-12,7% [95% CI -19,3% til -5,5%], P <0,001). Síðustu 12 klukkutímana fyrir fæðingu hækkaði hjartsláttartíðni útsettra fóstra um 11,1 slög/mín umfram þau fóstur sem ekki voru útsett (95% CI 8,3 slög/mín til 13,8 slög/mín; P <0,001).
Ályktanir: Við líknarbelgssýkingu eftir PPROM minnkaði skammtímabreytileiki í fósturhjartsláttartíðni hraðar síðasta sólarhringinn fyrir fæðingu, miðað við þegar sýking var ekki til staðar. Frekari rannsókna er þörf til að þróa notkun skammtímabreytileika við greiningar á líknarbelgssýkingum.