Fylgirit 119 - Sérnámslæknaþing 2024

Rannsóknarráðstefna sérnámslækna 2024 - Ávarp

Kæru sérnámslæknar í lyflækningum, aðrir vísindamenn og gestir ráðstefnunnar

 

Rannsóknarráðstefna sérnámslækna í lyflækningum á sér langa sögu, þar sem hún hefur verið haldin árlega í að minnsta kosti tvo áratugi. Ráðstefnan miðar að því að kynna rannsóknarverkefni sérnámslækna í lyflækningum á Landspítala sem unnin eru samhliða sérnáminu. Ráðstefnan er sannkölluð uppskeruhátíð þar sem þátttakendur og gestir njóta þess að hlýða á kynningar á vísindaverkefnunum og taka svo þátt í umræðum um þau. Sérnámslæknarnir fá þannig uppbyggilegar athugasemdir og hugmyndir frá aðilum ótengdum verkefnunum sem geta nýst þeim til umhugsunar jafnvel bætingar á verkefnunum. Á ráðstefnuna mæta virtir vísindamenn innan læknisfræðinnar sem virkja og glæða umræðu um vísindaverkefnin auk þess að halda erindi um mikilvægi vísindavinnu sem er undirstaða góðs heilbrigðiskerfis.

Á ráðstefnunni eru sumir að kynna sín verkefni í fyrsta sinn og aðrir að kynna viðbætur á verkefnunum frá fyrra ári. Sumir eru jafnvel í doktorsnámi við læknadeild Háskóla Íslands samhliða sínu sérnámi. Á ráðstefnunni eru því kynnt metnaðarfull vísindavinna sem allir geta verið stoltir af.

Rannsóknarráðstefna sérnámslækna í lyflækningum er mikilvægur viðburður í sérnámi lyflækna á Íslandi og án stuðnings utanaðkomandi styrktaraðila hefði hún ekki getað verið haldin á eins metnaðarfullan hátt. Þar hefur Vistor hf verið stuðningsaðili til fjölda ára og nú einnig AZ Medica ehf og eru þeim sendar kærar þakkir fyrir stuðninginn.

Ráðstefnan hefur verulegt kennslugildi þar sem kynningin fer fram með tilheyrandi tímamörkum og skipulagðri framsetningu. Ágripin sem eru kynnt á ráðstefnunni hafa verið birt sem fylgirit við Læknablaðið frá árinu 2023. Þannig verða ágripin stærri hluti af ferilskrá hvers sérnámslæknis og stuðningur fyrir umsóknir um styrki og störf til framtíðar.

Um árabil hafa vísindaverkefni sérnámslæknanna verið unnin í tengslum við Landspítala og mikilvægar vísindastofnanir, svo sem Hjartavernd, Íslenska erfðagreiningu, Háskóla Íslands auk erlendra háskólastofnana. Þessir samstarfsaðilar hafa aukið vægi verkefnanna og eru afar mikilvægir fyrir framtíðar vísindavinnu. Leiðbeinendur verkefnanna, bæði innan sem utan Landspítala, skila fórnfúsri vinnu í gegn um hvert verkefni og eiga miklar þakkir skildar fyrir jákvæðar móttökur þegar til þeirra er leitað varðandi vísindaverkefni.

Vísindavinna verður ekki unnin án fjárhagslegs stuðnings. Auka þarf fé til vísindarannsókna innan Landspítala. Sjúkrahús án vísindarannsókna er ekki háskólasjúkrahús og Rannsóknarráðstefnan er skýrt merki um góða vísindavinnu sem skilar sér inn í verkefni framtíðarvinnu heilbrigðiskerfisins.

Við bjóðum ykkur öll velkomin á Rannsóknarráðstefnuna, full af stolti yfir vísindavinnu sérnámslæknanna og óskum ykkur til hamingju með daginn.

Kæru sérnámslæknar - gleðilega hátíð!

Með vísindakveðju,

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, klínískur prófessor

umsjónarlæknir rannsóknarráðstefnu og vísindaverkefna

sérnámslækna í lyflækningum

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica