Ágrip erinda/veggspjalda vísindaþings skurð-, svæfinga- og kvensjúkdómalækna - apríl 2024
E-01 Sjúklingar með bráða ósæðarflysjun af gerð A ná oftar lifandi í skurðaðgerð á Íslandi
Bjarki Leó Snorrason1, Tómas Guðbjartsson2, Hafþór Ingi Ragnarsson2, Inga H. Melvinsdóttir3, Arnar Geirsson4
1Háskóli Íslands
2Landspítali
3Yale University
4Columbia University Irving Medical Center
Inngangur: Mikilvægt er að sjúklingar með bráða A-ósæðarflysjun nái sem fyrst á sjúkrahús og ekki verði töf á greiningu og lífsbjargandi skurðaðgerð. Hingað til hafa flestar rannsóknir aðeins litið á afdrif sjúklinga eftir skurðaðgerð og er því markmiðið að kanna afdrif allra þessara sjúklinga hjá heillri þjóð á 28 ára tímabili.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 124 sjúklingum sem greindust með bráða A-ósæðarflysjun 1992-2019. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám og réttarkrufningum og borin saman fjögur 7 ára tímabil, m.a. hvar sjúklingarnir létust, dánarhlutfall fyrir aðgerð en einnig 30-daga dánarhlutfall og 5 ára heildarlifun eftir aðgerð.
Niðurstöður: Meðalaldur var 65 ár og breyttist ekki milli tímabila frekar en kynjahlutfall (62% karlar) eða háþrýstingssaga (57%). Helmingi fleiri tilfelli greindust á síðustu tveimur tímabilunum en því fyrsta, og hélst hlutfall sjúklinga sem lést í heimahúsi og í flutningi svipað á tímabilunum en frá 1999-2005 til 2013-2019 lækkaði dánarhlutfall fyrir aðgerð úr 62% í 29% (p=0,019). Fleiri sjúklingar voru því teknir í aðgerð á sömu tímabilum (61 á móti 27%, p=0,014) og hlutfall þeirra sem létust á spítala fyrir aðgerð lækkaði marktækt (6,5 á móti 29%, p=0,019). Hins vegar hélst hlutfall sjúklinga sem létust á sjúkrahúsi eftir aðgerð svipað milli tímabila líkt og 30 daga dánartíðni (14-40%) og 5-ára lifun.
Ályktanir: Fleiri sjúklingar með A-ósæðarflysjun ná nú lifandi inn á sjúkrahús en áður og hlutfallslega fleiri eru teknir í lífsbjargandi skurðaðgerð. Niðurstöðurnar benda til þess að afdrif A-ósæðarflysjunarsjúklinga á Íslandi hafi vænkast án þess að skýringin sé augljós, og því frekari rannsókna þörf.
_______________________________________
E-02 Tilviljanagreining lungnakrabbameins á Íslandi og áhrif Covid-19-heimsfaraldursins
Daníel Myer1, Viktor Ásbjörnsson1, Leon Arnar Heitmann1, Guðrún Nína Óskarsdóttir2, Hrönn Harðarsdóttir2, Sif Hansdóttir3, Örvar Gunnarsson4, Tómas Guðbjartsson1,4
1Læknadeild Háskóla Íslands
2lungnadeild Landspítala
3krabbameinsdeild Landspítala
4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala
Inngangur: Á Íslandi greinast sífellt fleiri krabbamein fyrir tilviljun vegna myndrannsókna sem gerðar eru vegna óskyldra sjúkdóma. Í þessari rannsókn var kannað hvort tilviljanagreining lungnakrabbameina hefði aukist, ekki síst í nýafstöðnum heimsfaraldri Covid-19 árin 2020-2022, þegar margir þurftu að gangast undir myndrannsóknir á lungum.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn ferilrannsókn sem náði til allra 998 sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð á stigi I-IIIA vegna lungnakrabbameins 1991-2022. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og borin voru saman fjögur 8-ára tímabil, meðal annars með tilliti til tilviljanagreiningar, TNM-stigunar og heildarlifunar (Kaplan-Meier). Fjölbreytugreining Cox var síðan notuð til að meta forspárþætti lifunar. Meðaleftirfylgd var 67,2 mánuðir og miðast við 22. febrúar 2024.
Niðurstöður: Fjöldi tilfella jókst úr 155 1991-1998 í 354 tilfelli 2015-2022, en á sömu tímabilum jókst hlutfall tilviljanagreindra tilfella úr 40,0% í 49,7% (p=0,012), en Covid-19 árin þrjú voru þau 58,6% tilfella. Tiilviljanagreining var oftast gerð á lungnamynd á fyrstu tveimur tímabilum (45,2%) en á síðasta tímabilinu voru 84,7% tilfella greind á tölvusneiðmynd, og 91,6% á Covid19-árunum. Tilviljanagreindir voru 1,4 árum eldri en einkennagreindir (p=0,017), og marktækt oftar á stigum IA (45% á móti 30,5%), á meðan hlutfall sjúklinga á stigi IB og IIA voru svipuð og marktækt sjaldnar á stigi IIB og IIIA. Fimm ára heildarlifun var hins vegar sambærileg milli hópanna og tilviljanagreining ekki sjálfstæður forspárþáttur lifunar, líkt og TNM-stigun og aldur.
Ályktanir: Tilviljanagreiningum lungnakrabbameins hefur fjölgað síðastliðinn áratug og eru nú helmingur greindra tilfella. Í dag greinast langflest tilviljanagreindu tilfellin við tölvusneiðmyndatöku og sást greinilega fjölgun þeirra í Covid19-heimsfaraldrinum.
_________________________________________________
E-03 Samtíma útkomur í sjúklingum sem undirgangast aðgerð við ósæðarflysjun af Debakey-gerð 1 með áherslu á ummyndun í fjarhluta ósæðar
Bjarki Leó Snorrason1, Katrín Hólmgrímsdóttir1, Birta Rakel Óskarsdóttir1, Syed Usman Bin Mahmood2, Roland Assi2, Arnar Geirsson3
1Háskóli Íslands
2Yale University
3Columbia University Irving Medical Center
Inngangur: Ósæðarflysjun er bráðaatburður sem einkennist af rofi innhjúps ósæðar með myndun falsks holrýmis í ósæðarveggnum. Í þessari rannsókn skoðuðum við hvort ágengari aðgerðartækni við bráðri ósæðarflysjun af Debakey-gerð 1 leiddi til betri ummyndunar í fjarhluta ósæðar.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tók til einstaklinga sem fóru í aðgerð vegna bráðrar ósæðarflysjunar af Debakey-gerð 1 á Yale New Haven spítalanum á árunum 2013 til 2022. Gögnum var safnað úr sjúkraskrám og mælingar gerðar á þremur stöðum í ósæðinni á tölvusneiðmynd. Sjúklingum var skipt í hefðbundinn aðgerðarhóp og hybrid hóp. Ósæðarummyndun var metin með tilliti til vaxtarhraða og raunholrýmisþvermáls ósæðar fyrir aðgerð og við endurkomu.
Niðurstöður: Rannsóknin tók til 58 sjúklinga. Hlutfall sjúklinga sem voru meðhöndlaðir með ágengari aðgerð var 33% (19/58). Tölfræðiúrvinnsla sýndi fram á minni vaxtarhraða í fallhluta ósæðar í hæð lungnastofnskró í hybrid aðgerðarhópi með meðalvaxtarhraða upp á -0,15 mm/mánuð samanborið við +0,12 mm/mánuð í hefðbundnum aðgerðarhópi (P=0,047). Marktækur munur reyndist á raunholrýmisþvermáli hybrid aðgerðarhóps á ósæðarsvæði 3 sem óx úr 19,4 mm fyrir aðgerð í 27,1 mm við seinustu endurkomu (P<0,001) en hefðbundinn aðgerðarhópur sýndi ekki merki um vöxt raunholrýmisþvermáls frá 18 mm fyrir aðgerð (P>0,9). Við lungnastofnkró óx raunholrýmisþvermál úr 17 mm fyrir aðgerð í 28 mm við seinustu endurkomu (P<0,001) samanborið við hefðbundinn aðgerðarhóp sem sýndi ekki neina breytingu frá 14 mm fyrir aðgerð (P>0,9)
Ályktun: Rannsóknin okkar sýndi að ágengari aðgerðar með hybrid tækni leiddi til minni vaxtarhraða ósæðar og aukins þvermáls raunholrýmis sem gefur til kynna hagstæðari ummyndun í fjarhluta ósæðar.
______________________________________
E-04 Árangur ósæðarrótarskipta með lífrænni ósæðarloku án grindar (Freestyle®) á Íslandi
Hörður Ingi Gunnarsson1, Kristján Orri Víðisson2, Per Martin Silverborn2, Tómas Þór Kristjánsson2, Tómas Guðbjartsson2
1Læknadeild Háskóla Íslands
2Landspítali
Inngangur: Ósæðarrótarskipti eru umfangsmiklar aðgerðir þar sem nærhluta ósæðar og ósæðaloku er skipt út og kransæðar saumaðar við ígræðið. Bæði er hægt að notast við ofna Dacron®-æð ásamt ólífrænni eða lífrænni loku með grind, eða rótinni og lokunni skipt út fyrir ósæð með grindarlausri loku úr svíni (Freestyle®). Markmið rannsóknarinnar var að meta árangur þessara aðgerða á Íslandi.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og náði til allra (n=44) sem fengu ígrædda Freestyle®-loku við ósæðarrótarskipti á Íslandi 1999-2018. Úr sjúkraskrám fengust upplýsingar um ábendingar en einnig fylgikvilla aðgerðar, 30-daga dánartíðni og síðan reiknuð heildarlifun (Kaplan-Meier) eftir aðgerð. Meðaleftirfylgdartími var 98 mánuðir (0-248 mánuðir) og miðast eftirlit við 2. nóv. 2023.
Niðurstöður: Meðalaldur var 61,8 ár og karlar 65%. Aðgerðirnar dreifðust jafnt á rannsóknartímabilið og voru helstu ábendingar víkkuð ósæð (69,8%) með eða án lokuleka, ósæðarflysjun (9,3%), þröng ósæðarrót (9,3%), enduraðgerð á ósæðarloku (7,0%) og hjartaþelsbólga (4,7%). Meðal EuroSCORE-II gildi sjúklinganna var 11,9%, vélar- og tangartími 234 og 157 mín og legutími 32 dagar (miðgildi: 12 dagar, bil: 6-415). Helstu fylgikvillar voru nýtilkomið gáttatif (51,2%) og lost (18,6%), en 5 sjúklingar (11,6%) kröfðust enduraðgerðar vegna blæðingar. Sex sjúklingar (14,0%) létust <30 daga og 8 <90 daga, þar af 3 af 4 sem höfðu bráða A-ósæðarflysjun. Fimm-ára heildarlifun var 74% og aðeins einn (2,3%) sjúklingur hefur þurft enduraðgerð sem var vegna sýkingar 11 árum frá ósæðarrótarskiptum.
Ályktanir: Ósæðarrótarskipti eru umfangsmiklar aðgerðir þar sem tíðni fylgikvilla og <30 dánartíðni er umtalsvert hærri en eftir kranæða- og/eða lokuskiptaaðgerðir, sérstaklega hjá sjúklingum með ósæðarflysjun.
_____________________________________________
E-05 Lífshorfur sjúklinga með nýrnafrumukrabbamein hafa vænkast umtalsvert á Íslandi
Þorri Geir Rúnarsson1, Vigdís Pétursdóttir2, Sverrir Harðarson2, Viktor Ásbjörnsson1, Andri Wilberg Orrason3, Sigurður Guðjónsson4, Árni Sæmundsson4, Rafn Hilmarsson4, Tómas Guðbjartsson1,5
1Læknadeild Háskóla Íslands
2meinafræðideild Landspítala
3þvagfæraskuðrdeild, háskólasjúkrahúss Uppsala
4þvagfæraskurðdeild Landspítala
5hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala
Inngangur: Nýrnafrumukrabbamein (NFK) er 85% nýrnakrabbameina sem í vaxandi mæli greinast fyrir tilviljun við myndgreiningu óskyldra sjúkdóma. Markmiðið var að kanna hvort tilviljanagreining hafi leitt til breytinga á nýgengi en sömuleiðis þróun dánartíðni NFK-sjúklinga á 50-ára tímabili.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn ferilrannsókn sem náði til allra 1725 NFK-sjúklinga á Íslandi 1971-2020. Klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og æxlin TNM8-stiguð. Aldursstaðlað nýgengi, dánartíðni og lifun (Kaplan-Meier) voru borin saman á 10 ára tímabilum. Forspárþættir lifunar voru metnir með Cox-fjölbreytugreiningu.
Niðurstöður: Aldursstaðlað nýgengi jókst úr 11/100.000 1971-75 í 17/100.000 2015-2020 og tilviljanagreiningum úr 11% í 49% (tölvusneiðmyndir 61%, ómskoðun 12%). Á sömu tímabilun jókst hlutfall æxla á stigi-I úr 21% í 56% en fækkaði á stigi IV úr 43% í 18% (p<0,001). Nýgengi stigs-IV og II æxla hélst óbreytt á meðan nýgengi stigs-I jókst en stigs-III lækkaði. NFK-dánartíðni lækkaði að meðaltali um 1,4%/ári yfir tímabilið (p<0.001). Alls gengust 78% sjúklinga undir nýrnaskurðaðgerð, þar af 16% á stigi IV, oftast nýrna- og hlutabrottnám (57%, 7%), en frá 2015 með þjarka í 58% tilfella. Tólf sjúklingar (0.9%) létust innan 30-daga frá aðgerð, enginn eftir 2010. Fimm-ára krabbameinssértæk-lifun jókst úr 41% 1971-1980 í 78% 2011-2020, og á sömu tímabilum úr 82% í 97% fyrir stig-I, 47% í 80% fyrir stig-III (p<0.001) og 1,5% í 15% fyrir stig-IV (p<0.001). Gráðun og sérstaklega stigun reyndust sjálfstæðir forspárþættir lifunar, en einnig aldur og tilviljanagreining (HH 1,26).
Ályktanir: Nýrnafrumukrabbamein greinast á fyrri stigum í kjölfar aukningar á tilviljanagreiningum. Samtímis hefur dánartíðni lækkað og lífshorfur sjúklinga vænkast umtalsvert á síðastliðnum 50-árum.
__________________________________
E-06 Sýklasótt í kjölfar valaðgerða sem krefst innlagnar á gjörgæsludeildir Landspítala – algengi, meingerð, gæði reynslu-sýklalyfjameðferðar og meðferðarárangur 2017-2022
Katrín Þóra Hermannsdóttir1, Martin Ingi Sigurðsson1,2, Edda Vésteinsdóttir2, Sigurbergur Kárason1,2
1Læknadeild Háskóla Íslands
2svæfinga og gjörgæsludeild Landspítala
Inngangur: Sýklasótt er fátíð eftir valaðgerðir en ófullnægjandi reynslu-sýklalyfjameðferð algeng og dánartíðni há. Markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi, meingerð, meðferðarárangur og áhættuþætti andláts vegna sýklasóttar sem krefst innlagnar á gjörgæsludeild eftir valaðgerð.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn ferilrannsókn á öllum sjúklingum (≥18 ára) sem uppfylltu klínísk greiningarskilyrði sýklasóttar og lögðust inn á gjörgæsludeildir Landspítala innan 30 daga frá valaðgerð milli 2017-2022. Safnað var upplýsingum um lýðfræðilega þætti, meðferð og lifun.
Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn samanstóð af 90 einstaklingum (konur 53%, meðalaldur 67,5 ár, miðgildi legutíma á gjörgæslu 4 dagar [fjórðungsbil 2-12], SOFA stigun 8 [fjórðungsbil 6-11,8]). Algengustu líffærabilanir voru: öndunar- 89 (99%), blóðrásar- 80 (89%) og nýrnabilun 52 (58%). Öndunarvélarmeðferð þurftu 52 (58%) og sískilun 9 (10%). Miðgildi daga í öndunarvél var 4 [fjórðungsbil 2-17]. Tíðni sýklasóttar eftir valaðgerð reyndist 0,14% (95% CI: 0,12-0,18) og var hæst eftir hjarta- og lungnaskurðaðgerðir (0,69%). Dánarhlutfall eftir 30 daga var 17% og eftir eitt ár 39%. Algengustu bakteríur voru Escherichia coli (23%) og Enterococcus faecalis (18%) en gersveppir ræktuðust í 21% tilfella. Algengustu sýkingarstaðir voru lungu (36%) og kviðarhol (29%). Reynslu-sýklalyfjameðferð var ófullnægjandi í 42% tilfella (ónæmar bakteríur 36%, sveppasýking 19%). Í fjölbreytuaðhvarfsgreiningu reyndust aldur, kyn, APACHE-stigun, ófullnægjandi reynslu-sýklalyfjameðferð, æðaherpandi lyf og bráð nýrnabilun ekki áhættuþættir andláts innan 30 daga.
Ályktanir: Niðurstöðurnar eru sambærilegar fyrri rannsóknum og sýna lága tíðni sýklasóttar í kjölfar valaðgerða en háa dánartíðni. Hlutfall ófullnægjandi reynslu-sýklalyfjameðferðar var hátt og stafaði af sýkingu með ónæmum bakteríum og/eða sveppum. Mögulega er ástæða til að endurskoða hefðbundna reynslu-sýklalyfjameðferð við sýklasótt eftir valaðgerðir.
__________________________________
E-07 Ofþyngd og sykursýki/röskuð sykurstjórn tengjast aukinni hættu á skurðsýkingu eftir liðskiptaaðgerðir - framskyggn rannsókn á tíðni mótanlegra áhættuþátta fyrir tilurð skurðsýkinga
María Sigurðardóttir1,2, Martin Ingi Sigurðsson1, Sólveig H. Sverrisdóttir3, Ingibjörg Gunnarsdóttir4, Emil Lárus Sigurðsson5, Yngvi Ólafsson6, Sigurbergur Kárason1,2
1Læknadeild Háskóla Íslands
2svæfinga og gjörgæsludeild Landspítala
3skurðlækningasvið Landspítala
4Næringarstofa Landspítala
5Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu
6bæklunarlækningadeild Landspítala
Inngangur: Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tíðni mótanlegra áhættuþátta fyrir skurðsýkingum hjá sjúklingum sem gangast undir líðskiptaaðgerð eftir hefðbundinn undirbúning og tengsl þeirra við tilurð slíkra sýkinga.
Efniviður og aðferðir: Upplýsingum um mótanlega áhættuþætti (ofþyngd, sykursýki, blóðleysi, næringarástand, reykingar og hreyfingu) var safnað með framsýnum hætti einni viku fyrir aðgerð hjá sjúklingum sem gengust liðskiptaaðgerð í fyrsta sinn. Aðgerðar- og sýkingartengdum fylgikvillum innan sex vikna frá aðgerð var fylgt eftir.
Niðurstöður: Í rannsókninni tóku þátt 738 sjúklingar (miðgildi aldurs 68 ár [IQR 61-73], konur 57%) sem gengust undir liðskiptaaðgerð (hné 64%, mjaðmir 36%). Ofþyngd (BMI ≥30) greindist hjá 52%. Sykursýki var þekkt hjá 9%, 2% voru með ógreinda sykursýki (HbA1c >47 mmol/mol) og 8% með truflun á sykurstjórnun (HbA1c 42-47 mmol/mol). Blóðleysi fannst hjá 8%. Við mat næringarástands voru gildi fyrir neðan eðlileg mörk hjá 0,1% í serum albúmín, hvítum blóðkornum 18% og vítamín D 16%. Reykingum játtu 7%. Tíðni skurðsýkinga var 8% og þróaðist í alvarlega liðsýkingu umhverfis gerviliðinn í 1% tilfella. Einbreytuaðhvarfsgreining sýndi tengsl milli skurðsýkingar og BMI ≥30 (OR 2.1, 95%CI 1.2-3.8) og HbA1c ≥ 42 mmol/mol (OR 2.2, CI 1.1-4.2).
Ályktun: Í almennu þýði sjúklinga sem gengust undir liðskiptaaðgerð eftir hefðbundinn undirbúning fundust tengsl milli ofþyngdar og sykursýki/röskunar á sykurstjórnun og tilkomu skurðsýkinga. Bæting þessara mótanlegra áhættuþátta fyrir liðskiptaaðgerð gæti dregið úr tíðni skurðsýkinga. Niðurstöðurnar má nota til samanburðar og gefa tækifæri til mats á árangri íhlutandi inngripa til að bæta mótanlega áhættuþætti fyrir aðgerð.
___________________________________
E-08 Skipulagt heilsueflandi ferli til að bæta mótanlega áhættuþætti fyrir liðskiptaaðgerð dregur úr hættu á skurðsýkingum. Framskyggn, íhlutandi rannsókn í samvinnu Landspítala og Heilsugæslunnar
María Sigurðardóttir1, Martin Ingi Sigurðsson1, Rafael Daníel Vistas2, Ingibjörg Gunnarsdóttir3, Emil Lárus Sigurðsson4, Yngvi Ólafsson5, Sigurbergur Kárason1,6
1Læknadeild Háskóla Íslands
2Raunvísindastofnun Háskóla Íslands
3Næringarstofa Landspítala
4Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu
5bæklunarlækningadeild Landspítala
6svæfinga og gjörgæsludeild Landspítala
Inngangur: Sýking við gervilið veldur miklum þjáningum og aukakostnaði. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort hægt væri að draga úr tíðni skurðsýkinga við liðskiptaðgerðir með því að bæta þekkta áhættuþætti fyrir tilurð þeirra.
Efniviður og aðferðir: Beitt var framskyggnri óslembiraðaðri rannsókn til að meta áhrif innleiðingar heilsueflandi ferlis í samvinnu Landspítala og Heilsugæslunnar hjá sjúklingum í bið eftir liðskiptaaðgerð. Upplýsingum um rannsóknarhópinn var safnað við ákvörðun um aðgerð, næringarráðgjöf fengin ef nauðsynleg, svo vísað til heilsugæslunnar til uppvinnslu og meðferðar áhættuþátta og upplýsingar aftur teknar einni viku fyrir aðgerð. Viðmiðunarhópurinn fékk hefðbundinn undirbúning fyrir aðgerð og upplýsingum safnað einni viku fyrir aðgerð. Báðum hópum var fylgt eftir 6 vikum frá aðgerð.
Niðurstöður: Heilsueflandi ferlið hjá rannsóknarhópnum (fjöldi 746) framkallaði marktækt meiri vitund um áhættuþætti og vilja fyrir lífsstílsbreytingum og almenna/marktæka bætingu á áhættuþáttum í bið eftir aðgerð, (miðgildi 307 [IQR 206-447] dagar). Einni viku fyrir aðgerð voru hóparnir sambærilegir, nema að mun hærra hlutfall var af undirliggjandi sjúkdómum í rannsóknarhópnum. Ekkert samband fannst milli áhættuþátta og tíðni skurðsýkinga í rannsóknarhópnum en var til staðar í viðmiðunarhópnum (fjöldi 738) við BMI ≥30 og HbA1c ≥42 mmol/mol. Þegar leiðrétt var fyrir mun í ASA-flokkun (endurspeglar undirliggjandi sjúkdóma), aldri og kyni þá voru sjúklingar í rannsóknarhópnum í minni hættu á að greinast með skurðsýkingu samanborið við viðmiðunarhópinn (OR 0,64, CI 0,42-0,97).
Ályktun: Með vel skipulögðu heilsueflandi ferli í samstarfi sjúkrahúss og heilsugæslu má nýta tímann í bið eftir liðskiptaaðgerð til að bæta ástand sjúklinga og draga úr skurðsýkingum.
_______________________________________
E-09 Ristil- og endaþarmskrabbamein: 20 ára samanburðarrannsókn á einstaklingum yngri og eldri en 50 ára
Arnar Ágústsson1, Einar Stefán Björnsson1, Sigurdís Haraldsdóttir1, Jóhann Páll Hreinsson2, Helgi Birgisson3, Sigrún Lund4
Landspítali
2Sahlgrenska
3Krabbameinsskrá
4Háskóli Íslands
Bakgrunnur: Nýgengi ristil- og endaþarmskrabbameina hjá einstaklingum yngri en 50 ára hefur aukist á Vesturlöndunum en lýðgrundaðar rannsóknir þó fátíðar. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman greiningu, meðferð og horfur yngri og eldri einstaklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein á Íslandi.
Aðferðir: Upplýsingar um alla einstaklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein á árunum 2000-2019 komu frá Krabbameinsskrá Íslands en klínískar svipgerðarbreytur fengust úr sjúkraskrám. Eingöngu einstaklingar með kirtilmyndandi æxli voru með í rannsókninni. Charlson-fylgisjúkdómastuðullinn var nýttur. Endapunktur var samanburður heildarlifunar milli yngri og eldri hópsins, að lok eftirfylgdar 1. október 2022.
Niðurstöður: Samtals 2771 einstaklingur greindust með krabbamein, þar af 235 (8,5%) yngri en 50 ára. Í yngri hópnum voru fleiri konur, stig III sjúkdómur algengari og fengu yngri einstaklingar oftar lyfjameðferð. Enginn munur var á einkennum, greiningaraðferð eða skurðaðgerðum. Miðgildi eftirfylgdartíma yngri einstaklinga var 71 mánuður ([FS] 123) á móti 47 mánuðum (FS 92). Yngri hópurinn var ólíklegri til að deyja af öllum orsökum. Í Cox-lifunargreiningu var aldur yfir 50 ára tengdur verri lifun (áhættuhlutfall [ÁH]: 2,42 95% [ÖB] (1,92-3,04), p<0,0001) þegar leiðrétt var fyrir kyni, fylgisjúkdómum, stigi og lyfjameðferð.
Ályktun: Þrátt fyrir sambærilega fjölgun krabbameinstilfella milli eldri og yngri en 50 ára, greindust konur oftar og krabbamein í vinstri ristli var algengara í yngri hópnum. Yngri hópurinn greindist oftar með krabbamein á hærra stigi sem bendir til tafa á greiningu hjá yngri einstaklingum en sá hópur hafði þó betri lifun.
______________________________
E-10 Krabbamein í endaþarmsopi á Íslandi 2010-2022
Silja Ægisdóttir1, Helgi Birgisson2, Jakob Jóhannsson1, Jón Gunnlaugur Jónasson1, Jórunn Atladóttir1
1Landspítali
2Krabbameinsfélagið
Inngangur: Krabbamein í endaþarmsopi er sjaldgæfur sjúkdómur. Árið 2006 var aldurstaðlað nýgengi fyrir Ísland 0,3 af hverjum 100.000 körlum og 0,9 af hverjum 100.000 konum (Halla Viðarsdóttir. Carcinoma ani á Íslandi 1987-2003, Læknablaðið). Markmið rannsóknarinnar nú var sýna fram á hvernig greiningu, meðferð og horfum er háttað í dag.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og lýðgrunduð. Hún nær til allra sem greindust með krabbamein í endaþarmsopi á Íslandi á árunum 2010-2022. Upplýsingar um greiningu voru fengnar frá Krabbameinsskrá.
Niðurstöður: Alls greindist 51 sjúklingur með krabbamein í endaþarmsopi á tímabilinu, 36 konur og 15 karlar, meðalaldur þeirra var 64 ár (bil 30-94). Aldursstaðlað nýgengi fyrir Ísland á rannsóknartímabilinu er 0,5 af hverjum 100.000 körlum og 1,1 af hverjum 100.000 konum. 80% (n=41) sjúklinga voru með flöguþekjukrabbamein og 20% (n=10) voru með basaloid-gerð. 29% sjúklinga voru með T1 sjúkdóm (n=15), 27% með T2 (n=14), 20% með T3 (n=10) og 14% með T4 (n=7). 43% (n=22) voru ekki með eitlaíferðir (N0), 18% voru með N1 stig (n=9), 22% voru með N2 stig (n=11) og 4% með N3 stig (n=2). Upplýsingar vantaði fyrir 7 sjúklinga. Aðeins tveir sjúklingar voru með fjarmeinvörp við greiningu.
Algengasta meðferðin var samsetning af krabbameinslyfja- og geislameðferð, 53% (n=27) og 22% (n=11) fengu skurð-, krabbameinslyfja- og geislameðferð. Átta sjúklingar (16%) fengu staðbundna endurkomu. 15 sjúklingar eru látnir, þar af 7 með endaþarmskrabbamein.
Ályktun: Nýgengi krabbameins í endaþarmsopi hefur aukist, samanborið við fyrri rannsókn. Meðalaldur við greiningu og kynjaskipting er óbreytt. Dánartíðni er lægri nú.
_________________________________
E-11 Skimun fyrir Lynch-heilkenni með alhliða litun fyrir mispörunarpróteinum í ristil-, endaþarms-, maga- og legbolskrabbameinum
Katla Rut Robertsdóttir Kluvers1, Sigurdís Haraldsdóttir1,2, Þórður Tryggvason2, Agnes Smáradóttir2, Jón Gunnlaugur Jónasson1,2, Pétur Snæbjörnsson1,3, Vigdís Stefánsdóttir2, Ásgeir Thoroddsen2
1Læknadeild Háskóla Íslands
2Landspítali
3Netherlands Cancer Institute
Inngangur: Skimun fyrir Lynch-heilkenni (LS) með ónæmislitunum fyrir mispörunarviðgerðarpróteinum (mismatch repair; MMR) hófst á meinafræðideild Landspítala árið 2017 í greindum ristil-, endaþarms- (REKM) og legbolskrabbameinum (LBKM) og árið 2021 í magakrabbameinum (MKM). Markmið rannsóknarinnar er að kanna árangur skimunar fyrir LS árin 2020-2022 þar með talið litunarhlutfall æxla, hlutfall æxla með vöntun á MMR-próteinum (MMR deficiency; dMMR), hlutfall LS og hvort réttum uppvinnsluferlum var fylgt.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn. Fenginn var listi frá Krabbameinsskrá yfir öll greind REKM og LBKM árin 2020-2022 og MKM árin 2021-2022. Farið var inn í sjúkraskrár og upplýsinga aflað um meinafræðiþætti, niðurstöður litana og hvort réttum litunar- og meðferðarferlum var fylgt. Arfgerðir sjúklinga í raðgreiningargagnagrunni deCODE voru síðan samkeyrðar við niðurstöður verklags til að reikna næmi og sértæki vefjalitunar.
Niðurstöður: Af 522 REKM voru 429 (82,2%) lituð og af þeim voru 63 (14,7%) dMMR. Af 102 LBKM voru 88 (86,3%) lituð og af þeim voru 19 (21,6%) dMMR. Af 26 MKM voru 18 (69,2%) lituð en engin voru dMMR. Réttu verkferli var fylgt í 90,5% tilvika hjá REKM og 94,7% tilvika hjá LBKM og vísanir í erfðaráðgjöf gerðar í öllum tilvikum nema einu. Næmi vefjalitunar reyndist 80% og sértæki 85,4%.
Ályktun: Skimun fyrir LS með ónæmislitun fyrir MMR-próteinum greindi réttilega einstaklinga með LS í 80% tilvika. Réttu verkferli var fylgt oftar og eftirfylgd með tilvísunum í erfðaráðgjöf var hærri en á fyrstu þremur árum skimunar. Rannsóknin bætir við vaxandi grunn upplýsinga um gæði skimunar fyrir LS á Íslandi.
____________________________
E-12 Útkomur meðgangna og fæðinga á Íslandi hjá konum sem hafa orðið þungaðar eftir glasafrjóvgun á árunum 2019-2021. Samanburður á konum sem fengu meðferð hérlendis og erlendis
Elísabet Mjöll Guðjónsdóttir1,2,3, Snorri Einarsson1,3, Jóhanna Gunnarsdóttir1,2, Hildur Harðardóttir3
1Háskóli Íslands
2Landspítali
3Livio Reykjavík
Inngangur: Útkomur meðgangna og fæðinga á Íslandi eftir glasafrjóvgunarmeðferðir hafa aldrei verið kannaðar. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt. Í fyrsta lagi að gera samanburð á konum sem fengu meðferð hérlendis og erlendis með tilliti til undirliggjandi áhættuþátta, sjúkdómsgreininga á meðgöngu, útkomu fæðingar og heilsu barnsins. Í öðru lagi að kanna hvort meðgöngulengd var áætluð út frá glasafrjóvgunarmeðferð eða ómskoðun, og hvort það hafði áhrif á klíníska ákvarðanatöku um inngrip á meðgöngu og í fæðingu.
Efni og aðferðir: Afturskyggn ferilrannsókn. Rannsóknarþýðið (n=427) var konur sem fæddu barn eftir glasafrjóvgun á árunum 2019-2021. Tveir hópar voru skilgreindir; erlendis (n=46) og Ísland (n=381). Notuð var lýsandi tölfræði og p<0,05.
Niðurstöður: Við samanburð á hópunum erlendis og Ísland var: meðalaldur 38,3 ár og 34,2 ár (p<0,001), erlent ríkisfang 13 (28,3%) og 28 (7,3%) (p=0,002), gjafaegg 18 (39,1%) og 23 (6,0%) (p<0,001), greining á háþrýstingssjúkdómi og/eða meðgöngusykursýki 31 (67%) og 154 (40,4%) (p<0,001). Ómarktækur munur var á öðrum áhættuþáttum og útkomum. Í hópnum Ísland var meðgöngulengd áætluð út frá glasafrjóvgun hjá 247/381, ómskoðun hjá 97/381 og hjá 37/381 var það óvíst. Í sex tilvikum gat skipt máli fyrir ákvarðanatöku hvort meðgöngulengd var áætluð út frá glasafrjóvgun eða annarri aðferð.
Ályktanir: Konur sem leita meðferðar erlendis eru að meðaltali eldri og hærra hlutfall þeirra þarfnast gjafaeggja eða hefur erlent ríkisfang. Hærra hlutfall sjúkdómsgreininga á meðgöngu gæti skýrst af hærri aldri eða gjafaeggjameðferðum, sem hvoru tveggja eru þekktir áhættuþættir. Ekki er hægt að útiloka að val á aðferð við áætlun meðgöngulengdar hafi áhrif á klíníska ákvarðanatöku.
_____________________________
E-13 Þróun líkamsþyngdar barnshafandi kvenna við upphaf meðgöngu á Norðurlandi 2004-2022
Kamilla Dóra Jónsdóttir1, Laufey Hrólfsdóttir1,2, Björn Gunnarsson2, Ingibjörg Jónsdóttir1, Þórhallur Ingi Halldórsson3,4, Alexander Kr. Smárason1,2
1Sjúkrahúsið á Akureyri
2Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri
3matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands
4rannsóknarstofa í næringarfræði á Landspítala
Inngangur: Ofþyngd og offita barnshafandi kvenna er ört vaxandi lýðheilsuvandamál um allan heim, að Íslandi meðtöldu. Meðgöngukvillar og frávik í fæðingu eru algengari meðal þessara kvenna. Markmið rannsóknarinnar var að skoða þróun líkamsþyngdar við upphaf meðgöngu meðal kvenna á Norðurlandi 2004-2022, og hvort marktæk breyting hafi orðið á algengi ofþyngdar og offitu í þessum hópi.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn þversniðsrannsókn gerð á konum búsettum á Norðurlandi sem fæddu á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) 2004-2022 (n=7410). Upplýsingar um aldur, fjölda fyrri fæðinga, hæð og þyngd móður fyrir meðgöngu voru fengnar úr fagrýnisgrunni fæðingardeildar SAk. Líkamsþyngdarstuðull (LÞS) kvennanna var reiknaður út frá uppgefinni hæð og þyngd, og miðgildi LÞS ásamt hlutfalli kvenna í hverjum LÞS flokki var reiknað fyrir fjögur árabil.
Niðurstöður: Miðgildi LÞS var 24,5 kg/m2 árið 2004 og hækkaði jafnt og þétt á rannsóknartímabilinu í 26,2 kg/m2. Að jafnaði hækkaði LÞS um 0,15 kg/m2 með hverju ári sem leið (p<0,001). Algengi kjörþyngdar lækkaði úr 53% í 40%. Samsvarandi hliðraðist dreifingin milli LÞS flokka öll í átt að hærri LÞS, en hlutfall kvenna í offituflokki 1 (LÞS 30,0-34,9) fór úr 12,8% í 17,3%. Hlutfall kvenna tvöfaldaðist (3,7% í 8,1%) í offituflokki 2 (LÞS 35,0-39,9) og þrefaldaðist (1,6% í 4,8%) í offituflokki 3 (LÞS≥40,0).
Ályktun: Líkamsþyngd barnshafandi kvenna á Norðurlandi hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin 19 ár og eru nú 30% þeirra með offitu við upphaf meðgöngu. Mikilvægt er að skoða nánar áhrif þessa á meðgöngu og fæðingu, og hvernig minnka megi þau áhrif og snúa þessari þróun við.
_____________________________________
E-14 Breytt skurðmeðferð lungnakrabbameins á Íslandi
Viktor Ásbjörnsson1, Daníel Myer1, Leon Arnar Heitmann1, Gyða Jóhannesdóttir1, Guðrún Nína Óskarsdóttir2, Hrönn Harðardóttir2, Sif Hansdóttir2, Örvar Gunnarsson3, Tómas Guðbjartsson4
1Læknadeild Háskóla Íslands
2lungnadeild Landspítala
3krabbameinsdeild Landspítala
4hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala
Inngangur: Undanfarin ár hafa orðið miklar framfarir í greiningu og meðferð lungnakrabbameins, meðal annars með tilkomu VATS-blaðnámsaðgerða sem teknar voru upp á Íslandi 2018. Markmið rannsóknarinnar var að meta heildarárangur skurðmeðferðar við lungnakrabbameini á Íslandi síðastliðin 32 ár.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum (n=996) sem gengust undir lungnakrabbameinsaðgerð á Íslandi 1991-2022. Gögnin fengust úr sjúkraskrám og skurðhlutfall reiknað með gögnum frá Krabbameinsskrá. Rannsóknartímabilinu var skipt í fjögur 8-ára tímabil og þau borin saman. Meðaleftirfylgd var 63,2 mánuðir og miðast við 31. mars 2023.
Niðurstöður: Skurðaðgerðum fjölgaði úr 157 á fyrsta tímabilinu í 345 það síðasta. Á sömu tímabilum hækkaði skurðhlutfall úr 21% í 28%, en árið 2022 náði það 41%. Helmingur sjúklinga var tilviljanagreindur á síðasta tímabilinu og tilfellum á stigi IA fjölgaði á sama tíma í 47% úr 29% á því fyrsta. Blaðnám var framkvæmt hjá 77%, fleyg- og geiraskurðir hjá 14% og lungnabrottnám hjá 9% sjúklinga. Frá 2018 voru 73% aðgerðanna framkvæmdar með VATS-tækni og jókst marktækt milli ára, hæst 90% árið 2022. Tíðni alvarlegra og minniháttar fylgikvilla var 6% og 31% en lækkaði marktækt milli tímabila og 30-daga dánartíðni var 1%. Miðgildi heildarlegutíma lækkaði úr 10 dögum fyrstu tvö tímabilin í 6 daga það síðasta og síðustu þrjú árin var það fjórir dagar.
Ályktanir: Skurðhlutfall lungnakrabbameins á Íslandi er hátt í alþjóðlegum samanburði. Árangur lungnakrabbameinsaðgerða hérlendis er góður sem endurspeglast í lágri tíðni alvarlegra fylgikvilla og einungis 1% 30-daga dánartíðni. Með tilkomu VATS-aðgerða hefur fylgikvillum fækkað enn frekar og legutími styst um rúmlega helming.
_____________________________
E-15 Lifrarígræðslur á Íslandi: afturskyggn þýðisrannsókn á ábendingum árin 2013 til 2023
Bjarki Leó Snorrason1, Sigurður Ólafsson2, Einar Stefán Björnsson2
1Háskóli Íslands
2Landspítali
Inngangur: Nýgengi skorpulifrar á Íslandi hefur sögulega verið lágt en þó verið að aukast síðustu tvo áratugi. Frá því að fyrsta lifrarígræðslan var gerð árið 1984 til 2012 var helsta undirliggjandi orsök lifrarígræðslu frumkomin gallrásarbólga, sem var undirliggjandi ástæða í um 20% tilfella. Markmið rannsóknarinnar var að skoða þróun ábendinga fyrir lifrarígræðslu á síðasta áratuginn.
Efniviður og aðferðir: Í þessari afturskyggnu heilþýðisrannsókn, söfnuðum við gögnum um ábendingar fyrir lifrarígræslum í fullorðnum einstaklingum á árunum 2013-2023. Upplýsingum úr sjúkraskrám var safnað og niðurstöður bornar saman við gögn úr eldri rannsókn á sama viðfangsefni.
Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu voru 52 lifrarígræðslur (4 endurígræðslur) framkvæmdar á 48 sjúklingum, þar af 30 (63%) karlmönnum. Meðalaldur þýðisins var 54 ár. Meðalnýgengi lifrarígræðslna á tímabilinu var 13.1/1.000.000/ár, sem markaði aukningu frá tímabilinu 2007-2012 (8.9/1.000.000/ár). Aðal ábendingar lifrarígræðslu voru skorpulifur (60,4%), skorpulifur með lifrarfrumukrabbameini (23%), bráð lifrarbilun (4,2%) ásamt samansafni annarra ábendinga (12,5%). Leiðandi orsök lifrarígræðslu reyndist vera fitulifur tengdur efnaskiptavillu (23%), með nýgengi 3.03/1.000.000/ár samanborið við tímabilið 1984-2012 (0.12/1.000.000/ár) og markar 25-falda aukningu. Önnur algengasta orsökin reyndist áfengistengd skorpulifur (21%) og aðrar orsakir samanstóðu af PBC (8,3%), frumkominni trefjunargallgangabólga (8,3%), lifrarbólga C (8,3%), lifrarskaða af völdum lyfja (4,2%) og samansafni annarra orsaka (27%).
Ályktanir: Marktæk aukning hefur orðið á fjölda lifrarígræðsla á síðasta áratug, drifið áfram af aukningu í ígræðslum tengdum efnaskiptavillu og áfengi. Niðurstöður okkar kalla á nánara eftirlit með þeim sem eiga í hættu á að þurfa ígræðslu og hvetja til þróunar á lýðheilsuvísum til þess að stemma stigum við vaxandi þörf lifrarígræðslna á Íslandi.
__________________________________
E-16 Stærð brjóstakrabbameinsæxla við greiningu - Samanburður á stærð skimunargreindra og klínískt greindra æxla og milli Íslands og Svíþjóðar
Hildur Grétarsdóttir1, Ólöf Kristjana Bjarnadóttir2, Helgi Birgisson3, Sylvía Oddný Einarsdóttir2, Svanheiður Lóa Rafnsdóttir2
1Læknadeild Háskóla Íslands
2Landspítali
3rannsóknarsetur - Krabbameinsskrá
Inngangur: Æxlisstærð hefur áhrif á horfur og meðferðarval sjúklinga með brjóstakrabbamein. Hægt er greina brjóstakrabbamein fyrr á sjúkdómsferli með skimun. Þátttaka í brjóstaskimun á Íslandi hefur verið lág en í Svíþjóð er mætingahlutfallið yfir evrópskum gæðaviðmiðum. Markmið verkefnisins er að bera saman stærð skimunar og klínískt greindra brjóstakrabbameinsæxla. Ennfremur að bera saman klíníska og meinafræðilega stærð og hvort munur sé á stærð brjóstakrabbameinsæxla við greiningu á Íslandi og í Svíþjóð.
Aðferðir: Rannsóknarþýðið voru allar konur sem greindust með ífarandi brjóstakrabbamein á Íslandi tímabilið 2016-júlí 2022. Gögn úr gæðaskráningargrunni krabbameina voru fengin frá Krabbameinsskrá og borin saman við sambærileg gögn frá Svíþjóð.
Niðurstöður: Klínískt metin æxlisstærð var marktækt stærri en meinafræðileg æxlisstærð þegar öll æxli voru metin (20mm og 17mm, p<0,01), en ekki var marktækur munur á klínískri og meinafræðilegri æxlisstærð ef æxli meðhöndluð með formeðferð voru tekin frá (21mm og 21mm, p=0,63). Æxli greind í skimun voru marktækt minni en klínískt greind æxli, bæði út frá klínískri stærð (17mm og 29mm, p<0,01) og meinafræðilegri stærð (formeðhöndluð æxli undanskilin) (16mm og 28mm, p<0,01). Hjá konum á skimunaraldri voru 47,7% æxla greind við brjóstaskimun á Íslandi en 59,1% í Svíþjóð (p<0,01). Á Íslandi voru 51,8% æxla með klíníska stærð <20mm en í Svíþjóð 56,1% (p<0,01).
Umræður: Klínískt mat á æxlisstærð gaf góða mynd á raunverulegri æxlisstærð metin af meinafræðingum. Stærð brjóstakrabbameinsæxla greind í skimun voru marktækt minni en þau sem greinast klínískt. Brjóstakrabbameinsæxli sem greinast á Íslandi voru stærri en í Svíþjóð sem skýrist líklega af lægri þátttöku í brjóstaskimun á Íslandi.
__________________________________
E-17 Áhrif gollurshússkera á nýtilkomið gáttatif í kjölfar opinna hjartaaðgerða
Luis Gísli Rabelo1,2, Igor Zindovic3, Daniel Oudin Astrom4, Egill Gauti Þorsteinsson2, Kristjana Lind Ólafsdóttir2, Matthildur María Magnúsdóttir2, Johan Sjögren3, Anders Jeppsson1,2,5, Tómas Guðbjartsson1,2
1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala
2læknadeild Háskóla Íslands
3Háskólasjúkrahús í Lundi
4Háskólinn í Lundi
5Háskólasjúkrahús í Gautaborg
Inngangur: Nýtilkomið gáttatif er algengasti fylgikvilli opinna hjartaskurðaðgerða og greinist hjá 30-50% sjúklinga. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt lægri tíðni gáttatifs með því að minnka vökva í gollurshúsi með 5 cm skurði í afturhluta þess. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort gollurshúskeri, sem komið er fyrir auk hefðbundinna brjóstholskera, lækki tíðni gáttatifs eftir hjartaaðgerðir.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn ferilrannsókn á 1172 sjúklingum sem gengust undir valkvæða kransæðahjáveituaðgerð og/eða ósæðarlokuskipti á Landspítala árin 2002-2020. Allir sjúklingar fengu eitt 32Fr brjóstholskera í framanvert miðmæti og oftast annað í vinstra fleiðruhol, en 218 (19%) sjúklingar fengu að auki 20Fr gollurhússkera í afturhluta gollurshúss. Nýtilkomið gáttatif í hópunum var borin saman eftir pörun með líkindaskori og í fjölbreytugreiningu.
Niðurstöður: Af 1172 sjúklingum tókst að para 434 þeirra, 217 í hvorum hópi. Fyrir pörun voru sjúklingar í gollurshúskerahópnum yngri, oftar með sögu um hjartadrep, með hærra útfallsbrot vinstri slegils og gengust oftar undir ósæðarlokuskipti og kransæðahjáveituaðgerð með hjarta- og lungnavél með lengri vélar- og tangartíma. Eftir pörun var einungis munur á vélartíma milli hópanna. Tíðni gáttatifs reyndist lægri í gollurshúskerahópnum samanborið við viðmiðunarhóp, bæði eftir pörun (36% á móti 47%, p=0,041) og í fjölbreytigreiningu á paraða þýðinu (gagnlíkindahlutfall=0,58; 95% öryggisbil=0,38-0,87; p=0,010). Sjúklingar með gollurshúskera höfðu einnig styttri legutíma (8 daga á móti 9 daga). Tíðni annarra fylgikvilla eins og heilablóðfalls, sýkinga og blæðinga var sambærileg í hópunum.
Ályktun: Kera sem komið var fyrir í afturhluta gollurshúss, til viðbótar við hefðbundinna brjóstholskera, tengdist lægri tíðni nýtilkomins gáttatifs eftir hjartaaðgerðir. Þörf er á slembuðum samanburðarrannsóknum til að staðfesta niðurstöðurnar.
__________________________________
E-18 Langtímaáhrif hjartamagnýls á lifun einstaklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein
Arnar Ágústsson1, Einar Stefán Björnsson1, Sigurdís Haraldsdóttir1, Jóhann Páll Hreinsson2, Helgi Birgisson3, Sigrún Lund4
1Landspítali
2Sahlgrenska
3Krabbameinsskrá
4Háskóli Íslands
Bakgrunnur: Mikill áhugi hefur verið á mögulega verndandi áhrifum hjartamagnýls á tilvist ristil- og endaþarmskrabbameina. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort hjartamagnýl hafi áhrif á lifun eða sjúkdómsfría lifun hjá sjúklingum í lýðgrundaðri rannsókn.
Aðferðir: Upplýsingar um alla einstaklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein á árunum 2000-2019 fengust frá Krabbameinsskrá Íslands. Eingöngu einstaklingar með kirtilmyndandi æxli (adenocarcinoma) voru með í rannsókninni. Viðeigandi klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og Charlson-fylgisjúkdómastuðull var reiknaður. Endapunktar voru andlát af öllum orsökum (all-cause mortality) og endurkomufrí lifun.
Niðurstöður: Samtals greindust 2595 sjúklingar með ristil- og endaþarmskrabbamein á tímabilinu, 568 (22%) voru á hjartamagnýli fyrir greiningu. Hjartamagnýl-hópurinn var eldri og hafði hærra hlutfall karla. Blæðing frá neðri hluta meltingarvegs var algengari hjá hjartamagnýl hópnum og fengu þeir sjaldnar lyfjameðferð. Meðal eftirfylgdartíminn var 67 mánuðir (95% [ÖB] 57-83) hjá hjartamagnýl-hópnum miðað við 99 mánuði (95% ÖB 90-114). Hjartamagnýl-hópurinn var hins vegar sjaldnar greindur með stig IV sjúkdóm. Í Cox-lifunargreiningu þar sem leiðrétt var fyrir aldri, kyni, stigi, lyfjameðferð og fylgisjúkdómum, var hjartamagnýl hins vegar ekki tengt betri lifun ( [ÁH]: 1,04 95% CI (0,92-1,18), p=0,52). Þegar endurkomufrí lifun var borin saman milli hjartamagnýl-hóps og samanburðarhóps fyrir sjúklinga með stig I-III var hjartamagnýl ekki tengt betri lifun (ÁH: 1,05 95% ÖB (0,94-1,16), p=0,41).
Ályktun: Lifun sjúklinga sem voru meðhöndlaður með hjartamagnýl fyrir greiningu ristil- og endaþarmskrabbameins var ekki betri en þeirra án hjartamagnýls þrátt fyrir að sjúklingar á hjartamagnýl greindust sjaldnar með dreifðan sjúkdóm.
________________________________
E-19 Undirflokkar totufrumuvefjagerðar eru ekki sjálfstæðir forspárþættir lifunar nýrnafrumukrabbameins
Þorri Geir Rúnarsson1, Andreas Bergmann2, Vigdís Pétursdóttir3, Gígja Erlingsdóttir3, Ævar Ingi Jóhannesson4, Viktor Ásbjörnsson1, Tómas Andri Axelsson5, Rafn Hilmarsson2, Tómas Guðbjartsson1,6
1Læknadeild Háskóla Íslands
2þvagfæraskurðdeild Landspítala
3meinafræðideild Landspítala
4tölfræðideild Háskóla Íslands
5þvagfæraskurðdeild Danderyd-sjúkrahúss
6hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala
Inngangur: Totufrumu-nýrnafrumukrabbamein (tNFK,pRCC) er næstalgengasta vefjagerð NFK. Frá 1997 hefur tNFK verið skipt í tegund 1 og 2, en umdeilt er hvort vefjagerðin og undirgerðir hennar séu sjálfstæðir forspárþættir lifunar. Markmið okkar var að kanna faraldsfræði, lifun og forspárþætti lifunar tNFK hjá heilli þjóð.
Efni og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 1725 NFKsjúklingum á Íslandi 1971-2020; 9,2% voru tNKF, 74,4% tærfrumukrabbamein (tfNFK) og 2,1% litfæluNFK. Alls voru 103 af gerð-1 (72,0%) og 40 (28.0%) af gerð-2, og voru hóparnir bornir saman, en líka við tfNFK og litfæluNFK þar sem tíu 5-ára tímabil voru borin saman. Reiknað var aldursstaðlað nýgengi, krabbameinssértæk dánartíðni áætluð (Kaplan-Meier) og forspárþættir hennar fundnir með Cox-fjölbreytugreiningu.
Niðurstöður: Hlutfall tNFK jókst úr 3,7% árin 1971-1980 í 11,5% árin 2011-2020 (p<0,001). Aldursstaðlað nýgengi (ASI) mældist 1,97/100.000 fyrir karla og 0,5/100.000 fyrir konur og krabbameinsdánartíðni (ASCSM) 0,6/100.000 og 0,19/100.000. ASI hækkaði um 3,6%/ári fyrir tNFK-1(p=0,001), en bæði ASI og ACSMS fyrir tNFK-2 héldust óbreytt. Rúmlega 4x fleiri karlar greindust með tNFK-1 en fyrir tNFK-2 og aðrar NFK-vefjagerðir. Meðalstærð tNFK-1 æxla var 5,9 cm og 7,4 cm fyrir tNFK-2, og 8,7% og 32,5% sjúklinga í sömu hópum á stigi IV(p<0,001). TNFK-1 hafði lægri 5-ára dánartíðni en tNFK-2 en litfælu-NFK höfðu bestar horfur. Þegar leiðrétt var fyrir gráðun og sérstaklega TNM-stigi reyndust undirtegundir totufrumuvefjagerðar ekki sjálfstæðir áhættuþættir dánartíðni.
Ályktanir: Totufrumuvefjagerð er sjaldgæfari hérlendis (9,2%) en nágrannalöndum (10-15%) og karlar hlutfallslega fleiri en fyrir aðrar vefjagerðir. TNM-stigun og gráðun eru langmikilvægustu forspárþættirnir, og þegar leiðrétt er fyrir þeim reyndust undirgerðir totufrumuvefjagerðar ekki sjálfstæðir forspárþættir NFK-dánartíðni, sem samrýmist nýjustu WHO-leiðbeiningum.
____________________________
E-20 Ógleði eftir svæfingar og skurðaðgerðir á Landspítala - framskyggn rannsókn
Hilma Jakobsdóttir1, Andri Már Tómasson1, Sigurbergur Kárason1,2, Martin Ingi Sigurðsson1,2
1Háskóli Íslands
2Landspítali
Inngangur: Síðastliðinn áratug hafa svæfingaraðferðir á Landspítala breyst verulega. Nær allir sjúklingar fá ógleðiforvörn og svæfingu er oftast viðhaldið með svæfingarlyfjum í æð eingöngu. Markmið rannsóknarinnar voru að kanna algengi og alvarleika ógleði og uppkasta á framskyggnan hátt, kortleggja hvaða ógleðimeðferð er beitt í fyrirbyggjandi skyni og hvaða forspárþættir tengdust slæmri ógleði.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var framskyggn ferilrannsókn sem samanstóð af þægindaúrtaki 438 sjúklinga ≥18 ára sem lögðust inn á vöknunardeildir Landspítala eftir val- og bráðaaðgerðir í maí-júlí 2022. Þátttakendur svöruðu spurningalista á vöknunardeild og sólarhring eftir útskrift af vöknunardeild.
Niðurstöður: Tíðni meðal-svæsinnar og svæsinnar ógleði (≥5/10 á NRS) reyndist 4% á vöknunardeild og 3% daginn eftir. Langflestum svæfingum (91%) var viðhaldið eingöngu með svæfingarlyfjum í æð og meirihluti sjúklinga (82%) fékk að minnsta kosti eitt lyf í ógleðiforvörn. Stigun verstu ógleði 5/10 eða hærri reyndist 7% á vöknunardeild og 17% daginn eftir. Þættir sem tengdust auknum líkum á ógleði sem metin var 5/10 eða hærri daginn eftir aðgerð voru kvenkyn (gagnlíkindahlutfall 1,90, 95% ÖB 1,04-3,53) og fyrri saga um hreyfiveiki eða ógleði eftir aðgerð (2,74, 1,51-4,94) en hækkandi aldur reyndist verndandi þáttur (0,83, 0,71-0,98). Þrátt fyrir almenna gjöf ógleðilyfja reyndust þátttakendur með fleiri stig samkvæmt áhættumati Apfels hafa hærri tíðni ógleði og uppkasta eftir svæfingu.
Ályktun: Tíðni ógleði og uppkasta er almennt lág í almennu þýði sjúklinga þar sem langflestum svæfingum er viðhaldið með svæfingarlyfjum í æð og fyrirbyggjandi ógleðilyfjagjöf er almenn. Breytur sem tengjast verri ógleði daginn eftir aðgerð eru í samræmi við erlendar rannsóknir.
_______________________________________
E-21 Greining og meðferð sjúklinga með krabbamein í legbol
Oddný Rósa Ásgeirsdóttir1, Ásgeir Thoroddsen2, Elísabet Arna Helgadóttir2, Helgi Birgisson3
1Háskóli Íslands
2Landspítali
3rannsóknasetur - Krabbameinsskrá, Krabbameinsfélags Íslands
Inngangur: Árlega greinast að meðaltali 33 einstaklingar með legbolskrabbamein á Íslandi. Algengust eru þekjukrabbamein sem upprunnin eru í slímhúð legsins. Meðferð er iðulega fólgin í skurðaðgerð; legnámi og brottnámi eggjastokka og eggjaleiðara. Viðbótarmeðferð getur verið geislameðferð, lyfjameðferð eða hormónameðferð. Markmið rannsóknarinnar var að skrá greiningu og meðferð sjúklinga með legbolskrabbamein á Íslandi og bera niðurstöður saman við gögn frá Svíþjóð.
Efniviður og aðferðir: Þýði rannsóknarinnar voru 111 einstaklingar sem greindust með legbolskrabbamein á tímabilinu 1. janúar 2020 – 31. desember 2022. Krabbameinsskrá Íslands veitti kennitölur einstaklinganna. Upplýsingar um greiningu og meðferð fengust í sjúkraskrárkerfi Sögu og Heilsugátt. Gögnin voru skráð í stöðluð skráningarform í Heilsugátt að fyrirmynd sænsku gæðaskráningarinnar.
Niðurstöður: Legslímukrabbamein voru um 92% legbolsmeina og var ekki marktækur munur á hlutföllum vefjagerða né aldursdreifingu sjúklinga milli Íslands og Svíþjóðar. Um 92% tilfella voru meðhöndluð með skurðaðgerð og var aðgerðaþjarka beitt í 57% tilfella, en 68% í Svíþjóð. Ekki var frekari munur á aðgerðatækni milli landanna. 64% sjúklinga voru meðhöndlaðir með skurðaðgerð eingöngu, 14,4% með skurðaðgerð og geislameðferð og 7,2% með skurðaðgerð og lyfjameðferð. Í Svíþjóð var lyfjameðferð aftur á móti algengari viðbótararmeðferð og var beitt í 14,2% tilfella, en geislameðferð í 1,4% tilfella.
Ályktun: Greining sjúklinga með legbolskrabbamein er sambærileg greiningu í Svíþjóð með tilliti til aldurs sjúklinga og vefjagerða meinanna. Meðferð sjúklinga hvað varðar aðgerðatækni var svipuð í löndunum tveimur, en viðbótarmeðferðir í kjölfar skurðaðgerða voru ólíkar milli landanna. Á Íslandi var algengast að viðbótarmeðferð væri í formi geislameðferðar, meðan lyfjameðferð var algengari viðbótarmeðferð í Svíþjóð.
_________________________________
E-22 Bráðir verkir aðgerðarsjúklinga á Landspítala – framskyggn rannsókn
Andri Már Tómasson1, Hilma Jakobsdóttir1, Haraldur Már Guðnason2, Sigurbergur Kárason1,2, Martin Ingi Sigurðsson1,2
1Háskóli Íslands
2Landspítali
Inngangur: Verkur eftir skurðaðgerðir er algengur þrátt fyrir miklar framfarir í verkjastillingu. Aðalmarkmið þessarar rannsóknar var að kortleggja algengi og stigun verkja eftir skurðaðgerðir á Landspítala. Aukamarkmið var að finna áhættuþætti fyrir auknum verk.
Efniviður og aðferðir: Öllum ≥18 ára sem undirgengust skurðaðgerð á dagvinnutíma á Landspítala sumarið 2022 og lögðust inn á vöknunardeild í kjölfarið var boðin þátttaka. Upplýsingum um verkjastigun var safnað á aðgerðardag. Sjúklingum var fylgt eftir degi eftir aðgerð með viðtali þar sem verkjastigun var fengin. Frekari upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám.
Niðurstöður: Af 438 sjúklingum tjáðu 29% meðalmikla/mikla verki á aðgerðardag (NRS≥5). 70% sjúklinga tjáðu meðalmikla/mikla verstu verki degi eftir aðgerð. Sjúklingar sem gengust undir æða-, bæklunar- og kviðarholsskurðaðgerðir stiguðu verki sína hæst degi eftir aðgerð. Líkan sem reiknaði gagnlíkindi ýmissa þátta við meðalmikla/mikla verk degi eftir aðgerð sýndi að jákvæð tengsl höfðu kvenkyn (OR=2,15 (95% Cl 1,21-3,88), p=0,010), að hafa langvinna verki fyrir aðgerð (OR=4,20 (95% Cl 2,41-7,51), p<0,001), að gangast undir meiriháttar aðgerð (OR=2,07 (95% Cl 1,15-3,80), p=0,017) og að fá remifentanil í aðgerð (OR=2,16 (95% Cl 1,20-3,94), p=0,01). Þeir þættir sem sýndu neikvæð tengsl í þessu líkani voru hækkandi aldur (OR=0,66 per 10 ár (95% Cl 0,55-0,78), p<0,001) og að gangast undir brjósta-, háls/nef/eyrna, heila- og tauga- eða kvensjúkdómaaðgerð (OR=0,15-0,34 (95% Cl 00,6-0,83), p=0,038).
Ályktun: Aðgerðarsjúklingar á Landspítala höfðu sambærilega verki á aðgerðardag miðað við erlendar rannsóknir, en verri verki degi eftir aðgerð. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að ákveðnir undirhópar sjúklinga þurfa betri utanumhald um verkjastillingu sína og frekari eftirfylgd eftir aðgerð.
_______________________________________
E-23 Aflimanir ofan ökkla 2010-2019 vegna útæðasjúkdóms og/eða sykursýki. Aðdragandi og áhættuþættir
Sólrún Dögg Árnadóttir1, Guðbjörg Pálsdóttir1, Karl Logason1,2, Ragnheiður Harpa Arnardóttir3,4
1Landspítali
2læknadeild Háskóla Íslands
3Háskólinn á Akureyri
4Sjúkrahúsið á Akureyri
Inngangur: Ekki eru til nýlegar rannsóknir um tíðni aflimana hérlendis. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga fjölda og aðdraganda aflimana ofan ökkla á grunni útæðasjúkdóms og/eða sykursýki á Íslandi 2010-2019.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn, byggð á sjúkraskrárgögnum allra aflimaðra ofan ökkla á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og Sjúkrahúsi Akureyrar á rannsóknartímanum. Fullorðnir aflimaðir vegna annars en ofangreindra sjúkdóma og börn voru útilokaðir. Tveir tímapunktar voru skoðaðir í aðdraganda aflimunar varðandi einkenni, mat á blóðflæði og lyfjanotkun. Annars vegar við fyrstu komu á sjúkrahús vegna blóðþurrðareinkenna og/eða sáramyndunar og hins vegar fyrir síðustu aflimun. Einnig voru skráðar áður framkvæmdar æðaaðgerðir og aflimanir.
Niðurstöður: 167 einstaklingar voru aflimaðir á rannsóknartímanum, þar af 134 (meðalaldur 77 ± 11 ár, 93 karlmenn) á grunni sykursýki og/eða útæðasjúkdóms. Aflimunum vegna sjúkdómanna fjölgaði úr að meðaltali 4,1/100.000 íbúa 2010-2013 í 6,7/100.000 2016-2019 (p=0,04). Algengustu áhættuþættir voru háþrýstingur 84% og reykingasaga 69%. Langvinn tvísýn blóðþurrð var í 71% tilfella ástæða fyrstu komu á sjúkrahús. Æðaaðgerðir voru framkvæmdar hjá 101 einstaklingi (66% innæðaaðgerðir). Með útæðasjúkdóm án sykursýki voru 52% en þeir voru sjaldnar skráðir á blóðfitulækkandi lyf en þeir sem voru með sykursýki (45:26, p<0,001).
Ályktun: Sykursýki og/eða útæðasjúkdómur eru helstu ástæður aflimana neðri útlima ofan ökkla á Íslandi. Aflimunum fjölgaði á tímabilinu, en tíðnin er lág í alþjóðlegum samanburði. Í flestum tilfellum eru æðaaðgerðir gerðar áður en til aflimunar kemur. Sykursýki er undirliggjandi í tæpum helmingi tilfella sem er svipað eða lægra en í öðrum löndum. Möguleg sóknarfæri varðandi greiningu og forvarnir eru hjá einstaklingum með útæðasjúkdóm án sykursýki.
_____________________________________________________________________
VEGGSPJALDAKYNNING
V-01 Burðarmálskrampar á Íslandi. Klínísk, tölfræðileg lýsing á tímabilinu 1982-2022 á Landspítala
Sunneva Roinesdóttir1, Þóra Steingrímsdóttir1, Haukur Hjaltason1, Jóhanna Gunnarsdóttir1
1Landspítali
Inngangur: Burðarmálskrampi er alvarlegur fylgikvilli meðgöngu og fæðingar. Meðgöngueitrun er talin vera forstig hans og meðgöngueftirlit því mikilvægur þáttur í forvörnum. Markmið rannsóknarverkefnisins voru að kanna tíðni burðarmálskrampa á Landspítala, tímasetningu krampans útfrá fæðingu, merki meðgöngueitrunar fyrir krampann, greiningu taugasjúkdóma síðar meir og tíðni mæðradauða innan 42 daga frá krampa.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknarþýðið samanstóð af konum greindum með eclampsiu á árunum 1982-2022 á Landspítala. Fjörutíu kennitölur fundust og var upplýsingum safnað úr sjúkraskrám þeirra kvenna. Sjö kennitölur voru útilokaðar vegna ranggreiningar.
Niðurstöður: Tíðni eclampsiu á Landspítalanum var ~1:5000 fæðingum, það er 33 tilfelli af 172.153 fæðingum og jöfn á rannsóknartímanum (bil: 0-3 á ári). Hlutfall krampa við burðarmál var 52% fyrir fæðingu, 27% í fæðingu og 21% eftir fæðingu. Greindar með meðgöngueitrun voru 25 konur. Níu konur höfðu engin einkenni eða merki háþrýstings á meðgöngunni og af þeim voru flestar (4) sem féllu undir síðasta fjórðung rannsóknartímabilsins, 2013-2022. Fimm konur greindust með taugasjúkdóm eða fengu einkenni frá taugakerfi síðar meir. Allar konur (n=32) sem upplýsingar fundust um voru lifandi 42 dögum eftir krampann.
Ályktun: Tíðni eclampsiu var jöfn á rannsóknartímabilinu. Flestar konur krampa fyrir fæðingu sem samræmist niðurstöðum eldri rannsókna. Hlutfall þeirra kvenna sem krampa án einkenna/merkja háþrýstings á meðgöngu fellur að tilgátum rannsakenda fyrir upphaf rannsóknar, það er að hlutfall þeirra hafi hækkað með árunum. Það er mögulega til vitnis um árangursríkar forvarnir. Fáar konur greinast með taugasjúkdóm eða fá einkenni frá taugakerfi síðar á ævinni og allar konur sem upplýsingar fengust um eru enn lifandi.
___________________________________
V-02 Tengsl TGF-β vaxtarþátta við meðgöngueitrun
Íris Brynja Helgadóttir1, Guðrún Valdimarsdóttir2, Jóhanna Gunnarsdóttir3, Viktoría Mjöll Snorradóttir3, Þóra Steingrímsdóttir3
1Læknadeild Háskóla Íslands
2Lífvísindasetur Háskóla Íslands
3Landspítali
Inngangur: Meðgöngueitrun er fylgjusjúkdómur sem leggst á 2-8% þungaðra kvenna. Í eðlilegri fylgjumyndun undirgangast næriþekjufrumur bandvefsumbreytingu (EMT) og ferðast inn í skrúfslagæð móður þar sem þær undirgangast æðaþelsumbreytingu (MEndT) og verða að sýndaræðaþelsfrumum, sem koma í stað æðaþelsfrumna móðurinnar. Þetta ferli veldur umbreytingu skrúfslagæða og eykur blóðflæði til fósturs. Í meðgöngueitrun virðast þessir ferlar ekki eiga sér stað þar sem skrúfslagæðar móður haldast þröngar og blóðflæði til fósturs verður takmarkað. Rannsóknir benda til þess að ójafnvægi sé í þáttum sem stjórna æðamyndun í fylgjunni, en TGF-β fjölskyldan inniheldur ýmsa þætti sem koma að stjórnun æðamyndunar. Sýnt hefur verið fram á að TSP-1 hindri æðamyndun og að æðaþelspróteinið EGFL7 leiði til aukins frumuskriðs í fylgjumyndun.
Efniviður og aðferðir: Framkvæmd var mótefnaflúrljómun á HTR-8/SVneo næri-þekjufrumum til að rannsaka tjáningu á EGFL7 og TSP-1, mótefnalitun fylgjusýna til að rannsaka tjáningarmynstur úr TGF-β fjölskyldunni í fylgjum kvenna bæði með og án meðgöngueitrunar, og ELISA próf svo hægt væri að skoða framleiðslu og seytingu EGFL7 í sermi kvenna með meðgöngueitrun.
Niðurstöður: EGFL7 er markgen af ALK1 og ALK2 í næriþekjufrumum og ID1 er virkur þáttur í þeim boðferlum, og TGF-β/ALK5 ýtir undir tjáningu á TSP-1. EGFL7 er meira tjáð í heilbrigðum fylgjum miðað við fylgjur kvenna með meðgöngueitrun og TSP-1 er meira tjáð í fylgjum kvenna með meðgöngueitrun miðað við heilbrigðar fylgjur.
Ályktanir: Þessar niðurstöður varpa ljósi á þá flóknu ferla sem eiga sér stað í fylgjumyndun kvenna með meðgöngueitrun og munu vonandi ýta undir betri meðferðarmöguleika og fyrirbyggjandi aðgerðir fyrir þungaðar konur í framtíðinni.
____________________________________
V-03 Mikil ofþyngd og hætta á keisaraskurði
Þóra Lucrezia Bettaglio1
1Landspítali
Inngangur: Þegar umfram fituvefur er til staðar getur það haft truflandi áhrif á efnaskipta- og bólguferla í mörgum líffærakerfum á meðgöngu og þar með haft áhrif á fæðingarútkomu. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tengsl milli mikillar ofþyngdar og hættu á keisaraskurði. Einnig að athuga tíðni fylgikvilla á meðgöngu meðal kvenna í mikilli ofþyngd sem jafnframt geta verið ábendingar fyrir framköllun fæðingar.
Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn ferilrannsókn. Í rannsóknarhópnum voru allar einburafæðingar á Íslandi á árunum 2013-2020, alls 33.004. Notast var við kíkvaðrat-próf við samanburð á flokkabreytum og tvíkosta aðhvarfsgreiningu til að reikna gagnlíkindahlutfall.
Niðurstöður: Keisaratíðni meðal kvenna með LÞS (líkamsþyngdarstuðul) (n=28.199) var 15,9% og með LÞS≥40 (n=1.258) var 26,3%. Gagnlíkindahlutfall á að fæða með keisaraskurði ef kona var með LÞS≥40 var OR=1,89 (CI: 1,66-2,15, p<0,001) samanborið við konur með LÞS<40. Meðal kvenna í mikilli ofþyngd, höfðu 52% þeirra einhvern þeirra algengustu fylgikvilla sem einnig geta verið ábending fyrir framköllun fæðingar. Meðal kvenna með LÞS<40 fæddu 13,8% (n=1012) með bráðkeisara þar sem fæðing var framkölluð samanborið við 22,1% (n=109) meðal kvenna með LÞS≥40 (p<0,001).
Ályktun: Konur í mikilli ofþyngd voru í aukinni hættu á að fæða með keisaraskurði og líklegri til að fæða með bráðakeisara ef fæðing var framkölluð samanborið við konur með LÞS<40. Meirihluti kvenna í mikilli ofþyngd var með að minnsta kosti einn af algengustu fylgikvillum sem einnig geta verið ábending fyrir framköllun fæðingar. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að stuðla að heilbrigðum lífsstíl meðal kvenna á barneignaraldri, til að draga úr hættu á offitutengdum fylgikvillum á meðgöngu.
________________________________________
V-04 Viðhorf til notkunar hjartamagnýls á meðgöngu og meðferðarheldni. Forprófun spurningalista
Eygló Helga Haraldsdóttir1, Emma Marie Swift1, Helga Helgadóttir1, Jóhanna Gunnarsdóttir1,2
1Háskóli Íslands
2Landspítali
Inngangur: Hjartamagnýl er notað til að fyrirbyggja snemmkomna meðgöngueitrun hjá konum í áhættuhópi. Spurningalisti sem metur meðferðarheldni á meðgöngu er ekki til á íslensku. Markmið rannsóknarinnar er að þróa og forprófa spurningalista þar sem notkun hjartamagnýls á meðgöngu er könnuð ásamt gæðum ráðgjafar. Með forprófun er kannað hvort listinn sé notendavænn og skiljanlegur ásamt því að meta notagildi spurninga.
Aðferðafræði: Þátttakendur voru þungaðar konur gengnar 12-34 vikur sem komu í meðgönguvernd á Landspítala 14. febrúar-16. mars 2023, höfðu fengið ráðleggingu um hjartamagnýlnotkun og gátu svarað á íslensku. 26 konur fengu sendan spurningalista og veittu allar endurgjöf.
Niðurstöður: Flestar konurnar svöruðu spurningalistanum á 4-6 mínútum sem þótti of stutt eða hæfileg lengd. Öllum fannst spurningarnar skiljanlegar og viðeigandi. 14 af 26 skiluðu ábendingum varðandi spurningalistann. Einni konu fannst óþægilegt að svara tiltekinni spurningu og ein skildi ekki öll fyrirmælin. Flestar athugasemdir við spurningalistann tengdust því að þátttakendum fannst vanta valmöguleika við spurninguna „Þegar þér var ráðlagt að taka hjartamagnýl, varst þú þá spurð hvort þú hefðir sögu um eitthvað/einhver af eftirfarandi heilsufarsvandamálum?“ Alls 23 konur höfðu tekið hjartamagnýl daglega síðustu sjö dagana áður en þær svöruðu spurningalistanum.
Ályktanir: Forprófun bendir til að betrumbæta megi spurningalistann með því að endurorða eina spurningu. Niðurstöður benda til betri meðferðarheldni en búist var við og því virðist skynsamlegt að bæta við spurningu sem metur meðferðarheldni lengra aftur í tímann en í eina viku.
____________________________________
V-05 Lifun eftir hlutabrottnám á vélinda vegna vélindakrabbameins á Íslandi árin 2015-2020
Katrín Hrund Pálsdóttir1, Einar Daði Lárusson2, Kristín Huld Haraldsdóttir1,2, Bjarni Geir Viðarsson1,2
1Landspítali
2Háskóli Íslands
Inngangur: Vélindakrabbamein er sjötta algengasta dánarorsök af völdum krabbameina í heiminum og eru horfur slæmar þar sem sjúkdómurinn greinist oft seint. Læknanlega meðferð er aðeins hægt að veita sjúklingum með staðbundinn sjúkdóm og getur hún til dæmis verið hlutabrottnám á vélinda. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða lifun eftir vélindabrottnám á Íslandi á tímabilinu 2015-2020.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn hóprannsókn á öllum sjúklingum sem greindust með vélindakrabbamein á Íslandi frá 2015 til 2020. Sjúklingalisti greindra sjúklinga var fenginn frá Krabbameinsskrá Íslands og var hann svo borinn saman við sjúkraskrá allra þeirra sjúklinga. Tölfræðiniðurstöður voru fengnar með tölfræðiforritinu R. Samanburðartölur voru fengnar úr sænsku gæðaskránni. Rannsóknin var gerð með leyfi Vísindasiðanefndar.
Niðurstöður: Alls greindust 137 sjúklingar með vélindakrabbamein á tímabilinu og gengust 33 (24,1%) af þeim undir hlutabrottnám á vélinda. Meirihluti, eða 23 (69,7%) reyndust vera með kirtilmyndandi krabbamein (adenocarcinoma) og voru 27 (81,8%) með krabbameinið staðsett í neðsta hluta vélinda. Í þessum hópi voru 25 karlar (75,8%) og var meðalaldur við aðgerð 65 ár. Áætluð lifun 1 ári frá aðgerð var 70% og 49% eftir 5 ár (miðgildi 4,5 ár). Það var ekki marktækur munur á milli kynja (p=0,92). Eftirfylgd var að meðaltali 41 mánuðir og tapaðist enginn sjúklingur úr eftirfylgd. Niðurstöður í samanburði við Svíþjóð eru svipaðar en þar er 1 árs lifun aðeins hærri eða um 78% og 5 ára lifun aðeins lægri eða um 42%.
Ályktun: Fimm ára lifun íslenskra sjúklinga eftir læknanlegt hlutabrottnám á vélinda er 49% og virðist það vera í samræmi við sænsku gæðaskráninguna.
____________________________________
V-06 Æxli djúpt í miðmæti fjarlægt með brjóstholsskurði og aðstoð hjarta- og lungnavélar
Luis Gísli Rabelo1,2, Martin Silverborn1, Vigdís Pétursdottir3, Brynja Jónsdottir4, Christine Tolman5, Tómas Guðbjartsson1,2
1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala
2læknadeild Háskóla Íslands
3meinafræðideild Landspítala
4lungnadeild Landspítala
5röntgendeild Landspítala
Inngangur: Angiomatoid fibrous histiocytoma (AFH) er sjaldgæft mjúkvefjaæxli sem oftast greinist í útlimum barna. Það telst góðkynja en vex oft ífarandi og getur valdið almennum einkennum eins og hita, þróttleysi og þyngdartapi. Meðferð AFH-æxla er róttæk skurðaðgerð því hætta á staðbundinni endurkomu er 15%. Hér er lýst afar sjaldgæfu tilfelli af AFH sem greindist djúpt í miðmæti og var fjarlægt í gegnum bringubeinsskurð og hjartað stöðvað með aðstoð hjarta- og lungnavélar.
Tilfelli: Tæplega fertug kona með þriggja ára sögu um hitatoppa, nætursvita og vaxandi slappleika sem leiddi til óvinnufærni. Blóðprufur sýndu hækkað sökk (72 mm/klst) og á tölvusneiðmyndum sást 2,7 x 2,4 cm vel afmörkuð fyrirferð aftan við ósæðarrótina, við ofanverða vinstri gátt og aðlægt höfuðstofni vinstri kransæðar. Ákveðið var að fjarlægja æxlið með skurðaðgerð sem reyndist vaxið inn í hægri lungnaslagæð. Sjúklingurinn var því tengdur við hjarta-og lungnavél, sett ósæðaklemma og hjartað stöðvað með kalíumríkri lausn. Ósæðin var síðan tekin alveg í sundur og æxlið fjarlægt í heild sinni, og þurfti að sauma 3 x 2 cm bót úr gollurshúsi kálfs á lungnaslagæðina. Sjúklingurinn náði fljótum bata í legunni og útskrifaðist viku eftir aðgerðina. Niðurstaða vefjagreiningar eftir aðgerð leiddi í ljós angiomatoid fibrous histiocytoma æxli. Hálfu ári frá aðgerðinni höfðu einkenni eins og slappleiki, hiti og nætursviti gengið til baka og sökk mældist innan eðlilegra marka.
Ályktun: Hér er lýst afar sjaldgæfu einkennagefandi ífarandi æxli í miðmæti sem tókst að fjarlægja með róttæku brottnámi þar sem beita þurfti hjarta- og lungnavél til að komast að æxlinu.
____________________________________
V-07 Alvarleg öndunarbilun vegna COVID-19 meðhöndluð með lungnadælu (VV-ECMO) - Tvö sjúkratilfelli
Luis Gísli Rabelo1,2, Sigurður Ingi Magnússon3, Carlos Magnús Rabelo2, Bryndís Sigurðardóttir4, Inga Lára Ingvarsdóttir3, Tómas Guðbjartsson1,2
1Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala
2læknadeild Háskóla Íslands
3svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala
4smitsjúkdómadeild Landspítala
Inngangur: Í alvarlegri öndunarbilun sem svarar ekki hefðbundinni meðferð með öndunarvél er í sumum tilfellum hægt að annast loftskipti sjúklings utan líkama með lungnadælu (VV-ECMO). Meðferðin er þó kostnaðarsöm og getur verið flókin í framkvæmd í heimsfaraldri eins og COVID-19. Hér er lýst tveimur tilfellum af Landspítala í nýafstöðnum heimsfaraldri.
Tilfelli 1: Áður hraustur óbólusettur karlmaður á miðjum aldri fannst öndunarbilaður og meðvitundarlítill í heimahúsi og var færður beint á gjörgæsludeild Landspítala. Hann var greindur með COVID-19 lungnabólgu og meðhöndlaður með tocilizumab, barksterum, grúfulegu og 100% súrefni í öndunarvél. Blóðgös sýndu þó áfram öndunarsýringu með pH 7,22 og pCO2 75 mmHg og því hafin meðferð með lungnadælu í 9 daga. Þremur vikum síðar var hann útskrifaður heim og var kominn í fulla vinnu 14 mánuðum síðar.
Tilfelli 2: Óbólusettur karlmaður á miðjum aldri var lagður inn á Landspítala vegna bráðrar öndunarbilunar í kjölfar COVID-19 sýkingar. Hann var meðhöndlaður í 12 daga á gjörgæslu í öndunarvél og útskrifaðist síðan á legudeild. Sex dögum síðar lagðist hann aftur inn á gjörgæslu í öndunarvél með 100% súrefni og mikinn innöndunarstuðning vegna bakteríulungnabólgu ofan í COVID-19 sýkingu. Þrátt fyrir grúfulegu sýndu blóðgös pH 7,01 og pCO2 127 mmHg og því hafin meðferð með lungnadælu sem hann hafði í 19 daga. Tæpum tveimur vikum síðar útkskrifaðist hann í endurhæfingu og níu mánuðum síðar var hann kominn í fulla vinnu og við ágæta heilsu.
Ályktanir: Meðferð með lungnadælu getur verið lífsbjargandi við alvarlegri öndunarbilun, þar með talið af völdum COVID-19.
_______________________________________
V-08 Áhrif fiskiroðs á gróanda húðtökusvæða: Forrannsókn
Berglind Ólöf Sigurvinsdóttir1, Lovísa Baldursdóttir1, Hafdís Skúladóttir2, Gunnar Auðólfsson1
1Landspítali
2Háskólinn á Akureyri
Tilgangur: Kanna áhrif fiskiroðs á gróanda húðtökusvæða hvað varðar hraða gróanda, sýkingar, verki og kláða.
Aðferð: Framskyggn slembuð íhlutunar forrannsókn. Þýðið voru allir á Íslandi 18 ára og eldri sem fóru í húðágræðslu frá september 2022 til maí 2023 og var hverjum þátttakanda fylgt eftir í 14 daga. Útilokandi þættir: brunaáverki meiri en 10% af líkamsyfirborði, ónæmisbælandi lyf, meira en 10 mg af sterum á sólarhring og fiskofnæmi.
Niðurstöður: Alls tóku 16 einstaklingar þátt í forrannsókninni. Þeim var slembiskipt í tvo hópa, íhlutunarhópur fékk fiskiroð (n=8) og samanburðarhópur fékk gataða Tegaderm® filmu (n= 8). Meðalaldur var 70 ár. Ástæður fyrir húðflutningi voru krabbamein (n=8), slys (n=7) og sýking í kjölfar aðgerðar (n=1). Sex þátttakendur af 16 gréru á tveimur vikum. Allir voru með einn eða fleiri þætti sem geta haft letjandi áhrif á gróanda. Algengustu áhrifaþættir voru: aldur og krabbamein. Af þeim sem gréru voru fjórir með fiskiroð og voru þeir með fleiri letjandi þætti en þeir sem gréru með filmu. Einn þátttakandi með filmu fékk sýkingu. Meðaltal verkja þeirra sem voru með filmu var hærra (M=1,7) en þeirra sem voru með fiskiroð (M=0,6). Ekki var hægt að greina mun á kláða eftir umbúðum.
Ályktun: Mikilvægt að þeir sjúklingar sem þurfa húðflutning fái einstaklingsbundna þjónustu og fái þannig réttar umbúðir sem henta þeim. Umbúðir úr fiskiroði virðast vera góður meðferðarkostur fyrir viðkvæma hópa. Huga verður að þeim þáttum sem geta haft letjandi áhrif á gróanda húðtökusvæða. Framkvæma þarf stærri rannsókn til að meta betur áhrif fiskiroðs á gróanda húðtökusvæða.
_______________________________________
V-09 Fastandi blóðsykur barna við innleiðslu svæfingar – algengi lágs blóðsykurs og samband við tímalengd föstu
Steinunn Snæbjörnsdóttir1, Theódór Skúli Sigurðsson1, Martin Ingi Sigurðsson1
1Landspítali
Inngangur: Rannsóknir á tíðni lágs blóðsykurs hjá börnum við innleiðslu svæfingar eru af skornum skammti en greint hefur verið frá tíðni á bilinu 0,7-28%. Rannsóknir sýna endurtekið að börn fasta oft óþarflega lengi fyrir svæfingu. Mikilvægt er að stytta tímalengd föstu hjá börnum Þar sem löng fasta getur leitt til lágs blóðsykurs sem erfitt getur reynst að greina hjá barni í svæfingu.
Efniviður: Þægindaúrtak barna <18 ára (n=300) svæfð fyrir valkvæð inngrip á Landspítala.
Aðferðir: Afturvirk gagnarannsókn sem unnin var úr gögnum gæðaverkefnis frá árinu 2021. Blóðsykur var mældur með stixi eftir innleiðslu svæfingar, áður en vökvagjöf í æð hófst. Skilgreining á of lágum blóðsykri miðaðist við 3,3 mmol l-1. Upplýsingar um tímalengd föstu voru fengnar frá foreldri/forsjáraðila á móttöku svæfingadeildar. Framkvæmd var lýsandi og greinandi tölfræði.
Niðurstöður: Börn á aldrinum 2. mánaða – 17 ára (miðgildi 5,5 ára) og meðalþyngd 26,2 kg (3,7-103 kg). Tímalengd föstu á fasta fæðu var að meðaltali 13 klst. (4-24 klst.) og 8,5 klst. á tæran vökva (1-18 klst.). Fastandi blóðsykur var að meðaltali 4,6 mmol l-1 (1,6-8,4 mmol l-1). Algengi lágs blóðsykurs hjá fastandi börnum var 12,3% og var ekki tengt aldri. Ekkert barnanna í rannsókninni sýndi greinileg klínísk merki um lágan blóðsykur fyrir innleiðslu svæfingar.
Ályktun: Algengi lágs blóðsykurs hjá börnum eftir innleiðslu svæfingar var hærri en búist var við og tengsl voru milli tímalengdar föstu á fasta fæðu og lágs blóðsykurs. Mikilvægt er að stytta föstu barna fyrir svæfingu og huga að mælingu blóðsykurs hjá börnum eftir innleiðslu svæfingar.
____________________________________
V-10 Meckels-sarpbólga með rofi – sjúkratilfelli
Guðrún Margrét Viðarsdóttir1, Páll Helgi Möller1,2, Jón Gunnlaugur Jónasson1,2, Hulda María Einarsdóttir1
1Landspítali
2Háskóli Íslands
Inngangur: Meckels-sarpur er meðfætt frávik í fósturþroska dausgarnar. Meckels-sarpur er yfirleitt einkennalaust fyrirbæri en fylgikvillar á borð við blæðingar, teppu í meltingarvegi (obstruction) og sarpbólgu geta komið fyrir. Hér er lýst tilfelli af Meckels-sarpbólgu með rofi.
Tilfelli: Rúmlega fertugur maður var fluttur á bráðamóttöku Landspítala vegna tveggja daga sögu um krampakennda kviðverki auk blóðugs niðurgangs og yfirliðs. Við skoðun var hann fölur og við kviðskoðun voru þreifieymsli í neðri vinstri fjórðungi. Endaþarmsskoðun var ómarkverð og ekki sáust teikn um blæðingu. Hemóglóbín var vægt lækkað, 125 g/l. Við ristilspeglun sást blóð í ristli og dausgörn en ekki blæðingarstaður. Magaspeglun var eðlileg. Líðan varð betri og maðurinn var útskrifaður heim. Í framhaldinu var framkvæmd myndhylkisrannsókn sem sýndi bólgu ofarlega í smágirni en ekki sár eða blæðingarstað.
Ári síðar leitaði maðurinn aftur til læknis vegna krampakenndra kviðverkja. Þreifieymsli voru í neðri vinstri fjórðungi kviðar. Tölvusneiðmynd af kvið vakti grun um Meckels-sarpbólgu. Blóðprufur voru eðlilegar. Maðurinn fékk sýklalyf og magasýruhemjandi lyf í æð og lagðist inn á kviðarholsskurðdeild. Grunur vaknaði um rof á görn. Á öðrum degi innlagnar var framkvæmd aðgerð í kviðsjá. Sást þá Meckels-sarpbólga með rofi nálægt görninni. Gert var brottnám á þeim hluta smágirnis sem innihélt Meckels-sarpinn. Maðurinn útskrifaðist fjórum dögum síðar við góða líðan og við eftirlit lét hann vel af sér. Vefjagreining sýndi Meckels-sarpbólgu sem innihélt magaslímhúð ásamt ætisári (peptic ulcer) með rofi.
Ályktun: Sjaldgæft er að Meckels-sarpur valdi einkennum í fullorðnum einstaklingum. Mikilvægt er að íhuga Meckels-sarpbólgu sem mismunagreiningu við bráðum kviðverkjum og öðrum einkennum frá meltingarvegi.