Fylgirit 123 - Geðdagurinn 2024

Ágripin - Geðdagur 2024

Nýjungar í úrvinnslu áfalla og meðferð áfallastreitu - hvar getum við gert betur?

Berglind Guðmundsdóttir

Geðþjónusta Landspítala

bergudm@landspitali.is

Opinber umræða um áföll eins og kynferðislegt ofbeldi, náttúruhamfarir, sjálfsvíg, þungbær veikindi og stríðsátök, hefur sjaldan verið sýnilegri í íslensku samfélagi. Áætlað er að a.m.k. 70% einstaklinga upplifi eitt eða fleiri alvarleg áföll á lífsleiðinni. Þá sýna rannsóknir að tíðnin sé hærri meðal einstaklinga sem leita eftir geðþjónustu. Skilningur á alvarlegum afleiðingar áfalla hefur aukist undanfarin ár og er áfallastreituröskun oft nefnd í því samhengi en einnig aukin hætta á þunglyndi, kvíða, fíknivanda og margvíslegum líkamlegum veikindum. Það kemur því ekki á óvart að eftirspurn eftir áfallameðferð hefur aukist innan heilbrigðiskerfisins.

Í dag hafa umfangsmiklar leiðbeiningar byggðar á nýjustu vísindarannsóknum verið settar fram um hvaða meðferð á að veita til að ná sem bestum árangri. Samkvæmt þeim er mælt er með að meðferð sé markviss og beinistmest að úrvinnslu áfalls, og sérstaklega er mælt með áfallamiðaðri hugrænni atferlismeðferð og EMDR. Ekki er mælt með lyfjameðferð sem fyrsta meðferðarúrræði í stað áfallamiðaðrar samtalsmeðferðar og forðast skal að nota ávanabindandi lyf þar sem þau geta ýtt undir að einstaklingurinn forðist að vinna úr áfallinu á farsælan hátt. Óhætt er að segja að framfarir í gagnreyndri meðferð á sl. áratugum hafi verið margvíslegar en þrátt fyrir það hefur árangur meðferðar í mörgum tilvikum verið minni en meðferðaraðilar vilja sjá og margvíslegar áskoranir hafa verið skilgreindar. Þar vega þungt brottfall úr meðferð, erfiðleikar meðferðaraðila við að veita áfallameðferð og áskoranir tengdar aðgengi að meðferð.

Í erindinu verður fjallað um stöðu þekkingar á úrvinnslu áfalla og nýjungar í gagnreyndri meðferð við áfallastreituröskun. Þá verður farið yfir mikilvægar áskoranir hjá skjólstæðingum og meðferðaraðilum sem rannsóknir sýna að draga úr árangri meðferðar og hvaða leiðir hægt er að nota til að auka líkur á farsælli úrvinnslu.

 

Nýtt verklag í heilbrigðiskerfinu vegna ofbeldis í nánum samböndum

Agnes Björg Tryggvadóttir, Jóhanna Erla Guðjónsdóttir, Guðný Maja Riba

Geðþjónusta Landspítala

agnesbt@landspitali.is

Haustið 2022 fól Heilbrigðisráðuneytið Landspítala að samræma þjónustu fyrir þolendur heimilisofbeldis á öllu landinu. Markmið verkefnisins var að draga úr alvarlegum afleiðingum heimilisofbeldis, draga úr líkum á stigmögnun ofbeldis, lækka áverkaskor líkamlegra áverka, draga úr endurkomum og ítrekuðum komum, fækka innlögnum og stytta legutíma.

Upphaflega fengust þrjú stöðugildi í verkefnið, tvö stöðugildi félagsráðgjafa sem staðsettir eru á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi og eitt stöðugildi sálfræðings innan Áfallateymis Landspítala.

Frá upphafi verkefnisins hefur heimilisofbeldisteymið sinnt um 150 þolendum. Félagsráðgjafar koma fljótt inn í málin, ræða ýmist við þolendur á bráðamóttöku Landspítala eða hafa samband við þá símleiðis eftir komu á bráðamóttöku. Einnig geta aðrar heilbrigðisstofnanir á landinu vísað málum til heimilisofbeldisteymisins ef ekki er til viðeigandi þjónusta í nærumhverfinu. Félagsráðgjafar eru málastjórar þolenda og veita eftirfylgd inn í önnur úrræði innan og utan heilbrigðiskerfisins og aðstoða við kæruferli ef skjólstæðingur kýs svo. Félagsráðgjafar bjóða tilvísun í Áfallateymið sem flestir þiggja. Sálfræðingar Áfallateymis hafa samband við þolandann til að bjóða þjónustu í teyminu og enginn biðlisti er eftir þessari þjónustu. Þjónustan er fjölbreytt og einstaklingsmiðuð en alla jafna byrjar hún á áfallahjálp og sálrænum stuðningi, fræðslu um heimilisofbeldi, áhættumati og áhugahvetjandi samtali. Þegar lengra líður frá ofbeldinu er greining gerð og sérhæfð meðferð við áfallastreituröskun veitt ef þörf er á. Einnig hafa þolendur kost á að fá þjónustu iðjuþjálfa eða sjúkraþjálfara í teyminu.

Verkefnið hefur þegar sýnt góðan árangur, stöðugildum hefur verið fjölgað og er nú unnið að því að ráða í 3 stöðugildi til viðbótar. Enn er verið að vinna að verklagi og væntanlegt er samræmt skráningarform sem notað verður á öllum heilbrigðisstofnunum til að skrá allar komur tengdar ofbeldi. Þegar það er tilbúið verður verkefnið kynnt öllum heilbrigðisstofnunum landsins sem geta þá vísað málum í heimilisofbeldisteymi Landspítala sé viðeigandi þjónusta ekki í boði í nærumhverfi.

Eftir kynningu á verkefninu mun þolandi ofbeldis í nánu sambandi greina frá reynslu sinni af þessu nýja verklagi og muninum á þjónustunni fyrir og eftir að þetta verkefni hóf göngu sína.

 

Meðferðaróskir til notkunar í geðheilbrigðisþjónustu: Fræðileg umfjöllun

Ína Rós Jóhannesdóttir

Geðþjónusta Landspítala

inaros@landspitali.is

Bakgrunnur: Meðferðaróskir (advance directives) er inngrip sem er ætlað að draga úr þvingunum í meðferð og alvarlegum afleiðingum þeirra. Meðferðaróskir fela í sér að notandi, í sjúkdómshléi, leggur fram óskir um íhlutun sem er ætlað að vera vegvísir fyrir fagfólk ef geðræn veikindi taka sig upp að nýju. Niðurstöður rannsókna á notkun meðferðaróska gefa vísbendingar um að inngripið geti dregið úr þvingun í meðferð, bætt meðferðarheldni og fækkað ofbeldisatvikum. Þrátt fyrir mögulegan ávinning virðast meðferðaróskir ekki vera í almennri notkun í klínísku starfi. Þekking og viðhorf haghafa (notenda og fagaðila) virðast þar gegna mikilvægu hlutverki.

Markmið: Að auka þekkingu á meðferðaróskum til notkunar í geðheilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga sem glíma við alvarlega geðsjúkdóma með það að markmiði að liðka fyrir innleiðingu á íhlutuninni í geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Aðferð: Fræðileg umfjöllun um meðferðaróskir þar sem fjallað verður um bakgrunn og gagnsemi þeirra. Mismunandi tegundir meðferðaróska verða reifaðar og fjallað verður um niðurstöður erlendra rannsókna á viðhorfum haghafa til íhlutunarinnar. Þessi fræðilega umfjöllun er hluti af meistaraverkefni höfundar þar sem aðferðir rýnihóparannsókna voru notaðar til að skoða viðhorf haghafa á Íslandi til notkunar á meðferðaróskum í geðrænni meðferð.

Niðurstöður: Notendur og fagaðilar greina almennt frá jákvæðu viðhorfi í garð meðferðaróska. Hóparnir telja að meðferðaróskir styðji við meðferðarsamband og samvinnu. Fagaðilar og notendur eru sammála um að bæta þurfi þekkingu þeirra á meðferðaróskum og hæfni til að leggja fram slíkar óskir, hvort sem um er að ræða skráningu eigin óska eða stuðning fagaðila við verkefnið. Það sem notendur og fagaðila greindi helst á um er lagaleg binding við að fylgja innihaldi meðferðaróska eftir.

Ályktanir: Efla þarf þekkingu haghafa hérlendis á meðferðaróskum og skoða viðhorf þeirra til íhlutunarinnar. Þannig er hægt að greina tækifæri sem notkun á meðferðaróskum felur í sér ásamt því að koma auga á áskoranir sem takast þarf á við áður en til innleiðingar á íhlutuninni kemur í geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.

 

Er hægt að koma fólki með geðrofssjúkdóma á vinnumarkað?

Hlynur Jónasson1 , Soffía E. Einarsdóttir1 , Oddur Ingimarsson1,2 , Halldóra Jónsdóttir1,2 , Magnús Haraldsson1,2

1Geðsvið Landspítala, 2 Læknadeild Háskóla Íslands 

hlynurj@landspitali.is

Inngangur:  IPS (Individual Placement and Support) starfsendurhæfing sem felst í einstaklingsmiðuðum stuðningi til samkeppnishæfra starfa og byggir á teymisvinnu og fræðslu. Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið erlendis hafa sýnt góðan árangur. Haustið 2023 hófst rannsókn á IPS í geðrofs- og samfélagsgeðteymi geðþjónustu og á Laugarási. Um 600 skjólstæðingar eru nú í þjónustu þessara teyma og má ætla að um helmingur þeirra geti nýtt sér IPS. 

Aðferðir: Rannsakað er hve margir fá starf, hvert starfshlutfall þeirra er og hversu vel þeim gengur að halda starfi. Auk lýðfræðilegra upplýsinga er safnað upplýsingum úr sjúkraskrá um sjúkdómsgreiningar þ.á.m. fíknivanda. Einnig er kannað hvað einkennir þá sem ekki komast í vinnu og hverjar helstu hindranir þeirra eru.  Skoðað er hvers konar störf skjólstæðingar fá, hver afstaða yfirmanna á vinnustöðum er til þessara starfa og hvaða áhrif þeir telja að IPS hafi haft á vinnustaðinn.  

Niðurstöður:  Nú hafa 87 einstaklingar verið teknir inn í IPS og af þeim hafa 56 hafið störf. Í dag eru 33 í virkri vinnu og 21 bíður eftir að komast í starf. 59 einstaklingar eru í virkum IPS stuðningi.  Störfin eru mjög fjölbreytt, t.d. lagerstörf, tæknistörf og störf í iðnaði.  Meðalaldur þátttakenda er 35 ár (26-60) og 76% eru karlkyns.  Starfshlutfall er að meðaltali 50%. Algengasta sjúkdómsgreiningin er geðklofi (60%) og næstalgengasta greiningin er geðhvarfasýki (11%). Tæpur helmingur hópsins (45%) glímir við fíknivanda.  

Ályktanir: Innleiðing IPS á geðrofseiningum geðsviðs hefur gengið vel frá því að hún hófst haustið 2021. Flestir þeirra 87 sem hefur verið beint í IPS hafa fengið starf (64%) og er ríflega helmingur þeirra í vinnu í dag. Unnið er að því að innleiða sérhæfðan stuðning við nám með svipaðar áherslur og IPS á næstu mánuðum en víða í heiminum er aukinn áherslu á samtvinnun náms- og starfsendurhæfingar.

 

Atferlisvirkjun við þunglyndi í geðhvörfum: tilfelli

Halla Ósk Ólafsdóttir1, 2, Dr. Brynja Björk Magnúsdóttir1,2,Dr. Kim Wright3, Engilbert Sigurðsson1,4

1Geðþjónustu Landspítala, 2Háskólanum í Reykjavík, 3University of Exeter, 4Háskóla Íslands.

hallaosh@landspitali.is

Geðhvörf eru alvarleg geðröskun sem hefst oftast snemma á lífsleiðinni og er ein meginorsök örorku hjá ungu fólki. Þunglyndi í geðhvörfum er yfirleitt langvinnt og hamlandi og hafa rannsóknir leitt í ljós að fólk með alvarleg geðhvörf ver allt að einum þriðja til helming tímans með truflandi þunglyndiseinkenni. Rannsóknir benda til að sálfræðileg meðferð geti gagnast við að draga úr líkum á nýjum veikindalotum og stytt þann tíma sem varið er í veikindalotu. Fáar rannsóknir hafa hins vegar kannað hvort sálfræðileg meðferð geti verið gagnleg við yfirstandandi þunglyndi í geðhvörfum. Atferlisvirkjun er gagnreynd sálfræðimeðferð við einskauta þunglyndi og eru vísbendingar um að meðferðin sé hentug við geðhvarfaþunglyndi. Nýverið hófst meðferðarrannsókn á árangri atferlisvirkjunar við geðhvarfaþunglyndi í Geðhvarfateymi Landspítala. Í þessu erindi verður sagt frá því hvernig meðferðin hefur verið aðlöguð fyrir fólk með geðhvörf og hvaða áskoranir kunna að koma upp í meðferð meðal þessa skjólstæðingahóps. Í því samhengi verður tekið fyrir tilfelli skjólstæðings með geðhvörf I sem fór í gegnum 20 skipta atferlisvirkjun við þunglyndi í geðhvörfum þar sem notast var við einliðasnið, með tveggja vikna grunnlínuskeiði og vikulegum mælingum á líðan, við mat á árangri. Á meðan meðferð stóð komu fram örlyndis- og geðrofseinkenni. Sagt verður frá því hvernig meðferðin var nýtt til að takast á við meginvandann þunglyndi ásamt örlyndis- og geðrofseinkenni, auk þess hvernig var stuðlað að lyfjameðferð. Mælingar fyrir og eftir benda til þess að verulega hafi dregið úr alvarleika þunglyndiseinkenna og lífsgæði aukist. Niðurstöður gefa til kynna að atferlisvirkjun geti verið hentug meðferð við þunglyndi í geðhvörfum.

 

Geðrof og maníur hjá einstaklingum á ADHD lyfjum á Íslandi 

Ragna Kristín Guðbrandsdóttir1, Þorsteinn Ívar Albertsson1, Halldóra Jónsdóttir1,2, Engilbert Sigurðsson1,2, Oddur Ingimarsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Geðþjónustu Landspítala

ragnakristin00@gmail.com

Inngangur: Lyfjameðferð með örvandi lyfjum er talin áhrifaríkasta meðferðin við athyglisbresti með ofvirkni (ADHD). Gríðarleg aukning hefur verið í ávísunum á örvandi lyfjum til meðhöndlunar á ADHD á síðustu árum á Íslandi og var aukningin 150% frá 2012-2022. Geðrof og maníur eru sjaldgæfar en alvarlegar aukaverkanir ADHD-lyfjameðferðar sem vert er að læknar og almenningur viti af í ljósi þess að tæplega 5% fullorðinna eru nú á slíkri meðferð hér á landi. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja tíðni geðrofs og manía meðal fullorðinna sem fá ávísað slíkum lyfjum á Íslandi.

Efni og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn lýðgrunduð rannsókn á geðrofum og maníum í kjölfar ADHD-lyfjanotkunar hjá einstaklingum 18 ára og eldri á Íslandi frá 2010-2022. Rannsóknarúrtakið samanstendur af þeim sem hófu meðferð með ADHD-lyfjum (örvandi lyfjum eða atomoxetine) á rannsóknartímabilinu og lögðust inn á geðdeild vegna fyrsta geðrofs eða maníu innan árs frá upphafi meðferðar með ADHD-lyfi. Einstaklingarnar í rannsóknarúrtakinu voru fundnir með samkeyrslu Lyfjagagnagrunns og Vistunargrunns Landlæknis. Öðrum upplýsingum um einstaklingana í úrtakinu var safnað úr sjúkraskrá.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu hófu 16.125 fullorðnir einstaklingar meðferð með ADHD-lyfjum. Af þeim lögðust 48 inn á geðdeild vegna geðrofs og 13 vegna maníu. Metýlfenidat var algengasta ADHD lyfið meðal þeirra sem lögðust inn (25; 41,0%), þá amfetamín afleiður (21; 34,4%) og atomoxetine (15; 24,6%). Af þeim sem lögðust inn fengu um 70% ADHD-lyfjum aftur ávísað innan árs frá útskrift.

Ályktanir og umræður: Einn af hverjum 264 (0,38%) fullorðnum einstaklingum sem hófu meðferð með ADHD-lyfjum á rannsóknartímabilinu lagðist inn á geðdeild innan árs frá upphafi meðferðar vegna fyrsta geðrofs eða maníu. Er þetta hærra hlutfall en áður hefur verið lýst í rannsóknum á efninu.

 

 

Clozapine klíník - nýjung í þjónustu göngudeildar geðrofssjúkdóma

Rannveig Þöll Þórsdóttir

Geðþjónusta Landspítala

rannveth@landspitali.is

Bakgrunnur: Clozapine er geðrofslyf sem notað er í meðferð við meðferðarþráum geðklofa. Lyfið hefur góð áhrif á geðrofseinkenni en getur valdið ýmsum aukaverkunum og sumar þeirra geta verið lífshættulegar. Alvarlegar en sjaldgæfar aukaverkanir eru hvítkornafæð og hjartabólga. Lyfið getur einnig valdið alvarlegri hægðatregðu en algengustu aukaverkanir eru tengdar þyngdaraukningu og efnaskiptavillu sem getur skert lífslíkur. Því er afar mikilvægt að nýta staðlað verklag til að hafa eftirlit með líkamlegu ástandi. Einfalt staðlað verklag með geðrofslyfjavöktun var þróað í geðþjónustu Landspítala fyrir nokkrum árum og hefur verið stuðst við það síðan. Clozapine klíníkur hafa lengi verið starfandi með góðum árangri erlendis en úrræðið var fyrst stofnað á Íslandi árið 2023.

Markmið: Að auka gæði þjónustu og öryggi einstaklinga á clozapine meðferð.

Aðferð: Þverfaglegur vinnuhópur á göngudeild geðrofssjúkdóma hefur unnið að gerð staðlaðs verklags fyrir clozapine klíník á göngudeild geðrofssjúkdóma á Kleppi. Þjónustuþegar hitta hjúkrunarfræðing á þriggja mánaða fresti þar sem mæld eru lífsmörk, gerðar líkamsmælingar og lagður fyrir GASS spurningarlisti um aukaverkanir. Einnig er veitt lífstílsfræðsla. Fylgst er með blóðprufum sem taka á mánaðarlega. Þjónustuþegar hitta lækni reglulega og klínískur lyfjafræðingur yfirfer lyfjameðferð eftir þörfum.

Niðurstöður: Starfsemi hófst í febrúar 2023 og eru 96 skráðir í þjónustu. Helstu vandamál eru frávik frá mætingum í blóðsýnatökur, frávik í lífsmarkamælingum, ofþyngd og vandamál tengd lífsstíl. Mætingar í reglubundnar blóðsýnatökur hafa batnað. Tæplega 60% þjónustuþega eru með BMI yfir 30 og um 30% með háþrýsting. Mikilvægt er að hafa verklag þegar áhættuþættir koma fram. Tengsl við heilsugæslu eru mikilvæg en eru oft lítil eða engin. Þá þarf að finna aðrar leiðir til þess að takast á við vandann.

Ályktanir: Helstu niðurstöður eftir fyrsta árið eru að þjónustuþegar í clozapine klíník hafa margvíslegar og flóknar þjónustuþarfir en starfsemin fer vel af stað. Efla og bæta þarf samstarf við heilsugæslu og þróa staðlað verklag um viðbrögð við frávikum og áhættuþáttum. Unnið er að þróun hjúkrunarmeðferðar sem felur í sér lífsstílshópa til þess að draga úr áhættuþáttum, bæta líkamlega heilsu og lífsgæði. Þróun rafrænna lausna fyrir þjónustuna eru einnig fyrirhuguð, bæði til að halda utan um klíníska þjónustu og einnig lausnir fyrir þjónustuþegana sjálfa.

 

Innleiðing jafningjastuðnings og upplifun starfsfólks

Nína Eck

Geðþjónusta Landspítala

ninaa@landspitali.is

Bakgrunnur: Frá árslokum 2021 hefur jafningjastuðningur verið veittur í Geðþjónustu Landspítala. Hlutverk jafningja er bæði að vera í tengslum við notendur þjónustunnar, en líka að vera málsvari notenda innan stofnunarinnar og taka þátt í umbótastarfi í þágu þeirra. Með sjónarhorn notenda að vopni og einlægan vilja til að vinna í þeirra þágu horfa jafningjar björtum augum til framtíðar. 

Markmið: Að hrósa einingum og starfsfólki Geðþjónustu fyrir góðar viðtökur og stuðning við innleiðingu jafningjastuðnings og framgöngu málefna notenda. 

Aðferð: Haustið 2023 vann undirrituð meistararannsókn til starfsréttinda í félagsráðgjöf á upplifun starfsfólks og stjórnenda Geðþjónustu Landspítala af innleiðingu jafningjastuðnings. Þá hafa jafningjar tekið virkan þátt í framþróun starfsins og komið með tillögur að úrbótum í þágu notenda. Vinnustofa stjórnenda var haldin í mars 2024 í þeim tilgangi að eiga samtal um ábendingar frá notendum. 

Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknarinnar voru að starfsfólk og stjórnendur eru einróma hlynntir innleiðingu jafningjastuðnings. Þó mátti enn greina tilhneigingu til læknisfræðilega módelsins í umræðu starfsfólksins, sem bendir til þess að fræðslu til starfsfólks um batamiðaða hugmyndafræði og sjónarhorn notenda er ábótavant.  

Ályktanir: Framtíð geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi liggur í þróun jafningjastarfsins. Deildir sem ekki hafa fengið að njóta þess að vera með starfandi jafningja hafa óskað eftir að ráða til sín jafningja. Nýting jafningja hefur færst í aukana og sífellt koma í ljós ný tækifæri fyrir jafningja að láta til sín taka. Framtíðaráskoranir í innleiðingu jafningjastuðnings hafa aldrei verið færri. 

 

Fjölskylduinngrip hjá DAM-teymi Landspítala og framtíðarsýn 

Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman, Gunnhildur Gunnarsdóttir  

Geðþjónusta Landspítala

ragnheei@landspitali.is

DAM-teymi Landspítala er sérhæft þverfaglegt meðferðarteymi sem þjónustar einstaklinga með alvarlegan tilfinningavanda. DAM meðferðin (díalektísk atferlismeðferð) var þróuð af Dr. Marsha Linehan fyrir fólk með persónuröskun með óstöðugum geðbrigðum í langvarandi sjálfsvígshættu, en hefur síðar verið gagnreynd fyrir meðferð fólks með tilfinningavanda sem rekja má til annarra geðraskana svo sem ADHD, átraskana, geðhvarfa af flokki II, áfallastreituröskunar og meðferðarþrás þunglyndis. Tilfinningavandi birtist í óstöðugleika tilfinninga, sjálfsmyndar, hegðunar, hugsunar og samskipta. Álag á fjölskyldur vegna tilfinningavanda getur verið mikið, en einn fjögurra meginþátta DAM-meðferðar er efling samskiptafærni sem styður við bætt samskipti. Í mörgum tilfellum þarf meira til að brjóta óhjálpleg samskiptamynstur upp innan fjölskyldna. Fjölskyldumeðferðarfræðingur innan teymisins hefur tekið að sér brýnustu málin og aðrir unnið eftir þörfum að upplýsingagjöf til fjölskyldna með styttri inngripum.  

DAM-teymið veitir árlega um 130 einstaklingum DAM-meðferð og löngu er ljóst að sú fjölskylduvinna sem teymið hefur annað dugar hvergi nærri. Því var ákveðið að innleiða gagnreynt fjölskyldunámskeið, Family Connections, sem þróað var 2004 í Bandaríkjunum en hefur verið tekið í notkun víða um heim. Námskeiðið samanstendur af 12 hlutum og áhersla er á geðfræðslu, núvitund, færni innan fjölskyldna, viðurkennandi samskipti og samvinnu um lausn vandamála. Í rannsóknum á árangri af námskeiðinu hafa komið fram marktæk jákvæð áhrif á líðan þátttakenda. Dregið hefur úr einkennum þunglyndis, tilfinningu um álag og sorg ásamt því að tilfinning um valdeflingu hefur aukist.  

Þrír meðlimir DAM-teymis hafa fengið þjálfun hjá National Allience for Borderline Personality Disorder. Búið er að keyra eitt námskeið í janúar og febrúar 2024 og er stefnt á að halda annað námskeið í maí 2024. Árangursmælingar voru gerðar með EFFQ-mælitæki Eydísar Kr. Sveinbjarnardóttur o.fl. (2012) um fjölskylduvirkni, DASS-21 og QOL sem lagðir voru fyrir þátttakendur fyrir og eftir námskeið. Auk þess var lögð fyrir þjónustukönnun. Helstu niðurstöður mælinga verða birtar á geðdeginum og rætt um framtíðarsýn DAM teymisins. 

 

Unglingar með óstöðug geðbrigði

Birna Eiríksdóttir

Barna- og unglingageðdeild Landspítala

birnaei@landspitali.is

Bakgrunnur: Borderline personality disorder (BPD) eða persónuleikaröskun með óstöðugum geðbrigðum er alvarleg geðröskun með háa sjálfsvígstíðni og ein verstu lífsgæðin borið saman við aðrar geðraskanir. Mikilvægt er að vanda vel til verka þegar kemur að greiningu, ákveðin einkenni þurfa að vera til staðar á öllum vígstöðum lífsins í eitt til tvö ár. Tímabær greining er mikilvæg til að veita þessum einstaklingum viðeigandi stuðning og meðferð.

Markmið: Að kanna hvort eigi að nota greininguna persónuleikaröskun með óstöðugum geðbrigðum hjá unglingum undir 18 ára aldri.

Aðferð: Gerð var leit á PubMed með leitarorðunum: ”borderline personality disorder” AND ”adolescent”. Viðeigandi greinar, bækur og viðtöl við vísindafólk voru fundnar í þeim greinum sem og frá ábendingum samstarfsfólks á BUGL.

Niðurstöður: Það ríkir alþjóðleg samstaða um að greining á BPD er áreiðanleg og gild hjá unglingum. BPD er bæði algengt og hægt að meðhöndla þannig að bati náist. ​Hikið við að setja greininguna er oft vegna þess að einkennin geta endurspeglað eðlilegt þroskaferli unglinga frekar en röskun á persónuleikanum.​ Þó sýna rannsóknir fram á að þroskaferlið varir alveg til 25 ára aldurs og mikilvægt er að grípa inn fyr en seinna til að styðja við þroskaferli hvers og eins í átt frá BPD.

Ályktanir: Samkvæmt rannsóknum og því vísindafólki úti í heimi sem sérhæfir sig í óstöðugum geðbrigðum hjá unglingum er réttmætt að setja greininguna BPD þegar greiningarskilmerki eru uppfyllt hjá unglingum undir 18 ára aldri.

 

 

Stutt inngrip fyrir fólk sem stundar sjálfsskaða – nýir möguleikar í þjónustu

Ragnheiður Haralds Eiríksdóttir Bjarman

Geðþjónusta Landspítala

ragnheei@landspitali.is

Bakgrunnur: Persónuröskun með óstöðugum geðbrigðum, einnig kölluð jaðarpersónuleikaröskun (e. Borderline personality disorder (BPD), Emotionally unstable personality disorder (EUPD)), einkennist af óstöðugleika í mannlegum samskiptum, sjálfskennd og skapi, og hvatvísi í hegðun. Einnig af hröðum sveiflum í líðan milli öryggiskenndar og örvæntingar, ótta við að verða yfirgefin/n/ð eða hafnað og sterkri tilhneigingu til sjálfsvígshugsana og sjálfsskaða. Skammvinn einkenni geðrofs geta einnig verið til staðar. Röskunin tengist einnig verulegri skerðingu á virkni á ýmsum sviðum lífsins svo sem félagslegri, hugrænni og atvinnutengdri, ásamt skerðingu á lífsgæðum. Sjálfsvígshætta er verulega aukin meðal hópsins en um 60-70% einstaklinga með greininguna persónuröskun með óstöðugum geðbrigðum reyna sjálfsvíg einhvern tíma á ævinni og hættan á sjálfsvígi er meira en tíu sinnum hærri en hjá heilbrigðum samanburðarhópum.

Fólk með persónuleikaraskanir úr klasa B (persónuröskun með óstöðugum geðbrigðum, geðhrifapersónuröskun, andfélagslega persónuröskun og sjálfsdýrkunarpersónuröskun) hefur lægri lífslíkur sem nemur 13 árum fyrir karlmenn og 9 árum fyrir konur. Kjörmeðferð við persónuröskun með óstöðugum geðbrigðum er díalektísk atferlismeðferð sem veitt er af sérhæfðu meðferðarteymi á göngudeild lyndisraskana. Meðferðin tekur 6-8 mánuði og biðtími um þessar mundir eru 3-4 mánuðir. 

Markmið: Biðtími eftir réttri meðferð getur reynst erfiður á margan hátt og vanlíðan vegna tilfinningalegs óstöðugleika haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir einstaklinginn og hans nærumhverfi. Að auki eru bráðar innlagnir kostnaðarsamar og leiða yfirleitt ekki til rénunar einkenna. Í ljósi þess var ákveðið að skoða hvort stutt inngrip hefðu reynst gagnleg í að draga úr tíðni sjálfsskaða meðal einstaklinga með persónuröskun með óstöðugum geðbrigðum. 

Aðferð: Gerð var leit að heimildum í þremur gagnagrunnum og fræðigreinar metnar með kerfisbundnum hætti. 

Niðurstöður: Til eru inngrip sem vert væri að skoða frekar með það í huga að innleiða í geðþjónustu Landspítala. Þannig mætti mögulega draga úr tíðni koma á bráðaþjónustur spítalans og bráðra innlagna í kjölfar sjálfsskaða hjá einstaklingum með tilfinningalegan óstöðugleika.

Ályktanir: Mikil tækifæri gætu falist í frekari skoðun á styttri inngripum sem skilað hafa árangri fyrir hópinn sem um ræðir. Slík innleiðing gæti skilað sér í bættri þjónustu fyrir viðkvæman hóp og verið eflandi fyrir fagfólk sem veitir honum geðþjónustu.

 

Kulnun í starfi: Viðhaldandi þættir

Berglind Stefánsdóttir1,2, Guðrún Rakel Eiríksdóttir1,2, Linda Bára Lýðsdóttir2, Brynja Björk Magnúsdóttir2, Margrét Ólafía Tómasdóttir3,4, Engilbert Sigurðsson4, 5

1 Virk starfsendurhæfingarsjóður, 2 Háskólinn í Reykjavík, 3 Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, 4 Háskóli Íslands, 5 Geðþjónusta Landspítala

berglind@virk.is

Kulnun (e. burnout) hefur verið talsvert í umræðunni síðastliðin ár en skilgreiningin á hugtakinu þó verið nokkuð á reki. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreinir kulnun í uppfærðu flokkunarkerfi sínu ICD-11 sem kom út 2019, en á sama tíma undirstrikar stofnunin að ekki sé um röskun eða sjúkdóm að ræða. Líkan Wilmar Shaufeli og félaga á kulnun hefur verið áhrifamikið í rannsóknum síðustu ár og byggir það á tveimur af sömu kjarnaeinkennum og skilgreining WHO auk tveggja til viðbótar. Kjarnaeinkennin þeirra eru; örmögnun, aftenging, hugræn skerðing og tilfinningaleg skerðing/óstöðugleiki.

Í fræðunum hefur verið lögð aukin áhersla á að gera greinarmun milli umkvartana um kulnun (e. burnout complaints) og klínískrar kulnunar (e. clinical burnout). Er þar vísað til þess að mögulega sé ekki um línulega þróun að ræða, heldur gæti verið um sitthvort ástandið að ræða. Umkvartanir um kulnun vísa þá til vægari einkenna sem einstaklingur upplifir en viðheldur á sama tíma eðlilegri virkni sinni og er vinnufær. Um klíníska kulnun gilda önnur viðmið, þar kemur fram skerðing á virkni og færni og vinnugeta er skert að einhverju leiti.

Í þessu erindi verður nánar farið yfir þennan greinarmun, hvernig önnur lönd hafa nálgast heilkennið, hvernig staðan er á Íslandi út frá þessum forsendum og mikilvægi frekari rannsókna. Sérstaklega verður litið til rannsókna á viðhaldandi þáttum kulnunar og hvort kortlagning á þeim þáttum geti varpað ljósi á hvað aðgreinir þá sem upplifa vægari einkenni kulnunar en jafna sig og þeirra sem jafna sig ekki og þróa með sér klíníska kulnun.

 

Kulnun í starfi: Taugasálfræðilegir þættir og ákvörðunartré

Guðrún Rakel Eiríksdóttir1,2, Berglind Stefánsdóttir1,2, Brynja Björk Magnúsdóttir2, Linda Bára Lýðsdóttir2, Margrét Ólafía Tómasdóttir3,4, Engilbert Sigurðsson4,5

1 Virk starfsendurhæfingarsjóður, 2 Háskólinn í Reykjavík, 3 Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, 4 Háskóli Íslands, 5 Geðþjónusta Landspítala

gudrunrakel@virk.is

Mikil fjölgun hefur verið meðal þeirra sem fara í veikindaleyfi vegna langvarandi afleiðinga kulnunar á síðustu árum og ef veita á þeim hópi árangursríka meðferð er mikilvægt að mismunagreina vandann og leggja upp meðferðaráætlun samhliða því. Ýmsar leiðir hafa verið farnar þegar kemur að inngripum fyrir þá sem uppfylla viðmið um klíníska kulnun (e.clinical burnout). Inngripin eru meðal annars mismunandi eftir löndum en þó eru ekki til klínísk viðmið eða leiðbeiningar.

Klínísk birtingamynd meðal þeirra sem eru í langtíma veikindaleyfi vegna kulnunar sýnir sig fyrst og fremst í örmögnun (e. exhaustion) sem allar rannsóknar styðja að sé eitt helsta einkenni kulnunar. Örmögnun kemur þó fram meðal margra annarra hópa og því er mikilvægt að mismunagreina og þar með líta til frekari einkennamyndar. Dæmi um önnur algeng einkenni eru tilfinningalegur óstöðugleiki og hugræn skerðing (e. cognitive impairment) sem nýjustu rannsóknir sýna að greini hvað helst á milli þeirra sem jafna sig af einkennum kulnunar á skemmri tíma og þeirra sem tekur lengri tíma að ná bata.

Í þessu erindi verður ákvörðunartré kynnt sem hefur það að markmiði að auðvelda fagfólki greiningu á klínískri kulnun. Mikilvægt er að aðrir sjúkdómar og/eða raskanir sem skýra skert álagsþol einstaklinga eða þau einkenni sem hindra hvað helst séu sett í forgrunn í meðferð. Ef ekki er um líkamlega sjúkdóma og/eða geðraskanir að ræða og viðmiðum um þær ekki náð eru álagsþættir og einkenni vel kortlögð með tilliti til viðeigandi inngripa.

Unnið hefur verið eftir ákvörðunartrénu síðastliðin ár hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði til að stuðla að réttri þjónustu á réttum tíma og kynntar verða tölulegar upplýsingar út frá þeirri vinnu fyrir árið 2023.

 

 

Á tómstunda- og félagsmálafræði erindi í geðþjónustu?

Anna Valdís Guðmundsdóttir

Landspítali háskólasjúkrahús

annav@landspitali.is

Það er almenn þekking að það að hafa eitthvað fyrir stafni í frítíma okkar er gott. Við erum dugleg að pósta á samfélagsmiðla þegar við göngum á fjöll, prjónum peysu eða hvað annað það er sem við tökum okkur fyrir hendur eftir að vinnutíma okkar lýkur. Það er reyndin að frítími fólks í nútímasamfélagi er að aukast og það sem við gerum í frítímanum skipar stöðugt viðameira hlutverk.

Með breyttum samfélagsháttum hefur orðið til ný fræðigrein þar sem frítími okkar er rannsakaður og með stöðugt meiri þekkingu hefur fræðigreinin öðlast veigameiri sess í faglegu umhverfi. Fræðigreinin er tómstunda- og félagsmálafræði og veitir hún heildarsýn á þá starfsemi sem fram fer í frítíma fólks á öllum aldri og sérhæfir nemendur í því að skipuleggja tómstundastarf og skapa vettvang þar sem kjarni tómstunda, sem samkvæmt þeirri skilgreiningu sem mest er notuð hér á landi, er vellíðan og aukning lífgæða þess er þær stunda, er útgangspunkturinn.

Því miður er það svo að margir nýta frítíma sinn á neikvæðan hátt og við sjáum glögg merki þess í geðþjónustu Landspítala. Á degi hverjum tökum við á móti fólki sem t.d. nýtir frítíma sinn til fíkniefnaneyslu eða stundar annan óhollan lífsstíl, hefur einangrað sig frá fjölskyldu og vinum og misst getuna til að taka þátt í samfélaginu. Þá hafa rannsóknir sýnt að fólk sem glímir við geðrænar áskoranir er ólíklegra en aðrir að nýta sér tómstundir sem jákvæð bjargráð.

Vegna þessa er það mikilvægur hluti af bataferli fólks að beina sjónum að frítíma þess. Tómstunda- og félagsmálafræðingar nota tómstundamenntun (e. leisure education) til þess að kenna einstaklingum að nota frítíma sinn á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Tómstundir eiga ekki bara að vera í boði til þess að sjúklingum leiðist ekki í innlögn á geðdeild. Tómstundir eiga að vera í boði m.a. vegna þess að þar byggir fólk upp sjálfstraust, þjálfar getu til ákvörðunartöku, lærir að takast á við mistök og yfirvinna hindranir, þjálfar félagsleg samskipti og oftar en ekki lærir fólk nýja hæfni og kemur sjálfu sér á óvart.

Í Virknisetrinu í geðþjónustunni á Hringbraut veitum við þessa þjónustu og sjáum daglega framfarir hjá okkar þjónustuþegum. Tómstunda- og félagsmálafræði á erindi í geðþjónustu!

Geðhjúkrunarfræðilegur stuðningur og fræðsla fyrir aðstandendur fólks sem tekst á við alvarlega eða langvinna geðsjúkróma (SMI)

Margrét Eiríksdóttir

Geðþjónusta Landspítala

margeiri@landspitali.is

Bakgrunnur: Rannsóknir leiða í ljós að langvinnir eða endurteknir geðrofssjúkdómar (SMI) hafa í för með sér óvissu og streitu hjá sjúklingum og nánustu aðstandendum þeirra. Einnig að misbrestur getur orðið á að aðstandendur fái þá aðstoð og stuðning sem þeir þarfnast frá heilbrigðisstarfsmönnum. Margt bendir til að ef aðstandendur eru í góðu samstarfi við heilbrigðisstarfsmenn við að veita sjúklingunum langtíma stuðning og meðferð fækki veikindaköstum og innlögnum á sjúkrahús og lífsgæði sjúklinga aukast. Í Geðþjónustu Landspítala hafa í sumum tilfellum komið upp erfiðleikar við að veita aðstandendum stuðning og fræðslu, ýmist vegna afstöðu sjúklinganna eða vegna tímaskorts og álags. Til að bregðast við þessu hefur sérfræðingur í geðhjúkrun skipulagt ramma fyrir viðtalsmeðferð fyrir aðstandendur þar sem áhersla er lögð á að veita einstaklingshæfðan stuðning og fræðslu á forsendum aðstandenda þeirra sjúklinga sem takast á við SMI.

Markmið: Að auka líkur á að aðstandendur séu færir um að veita sjúklingum með SMI tilfinningalegan stuðning með því að tryggja aðstandendum tímabundinn faglegan stuðning og fræðslu.

Aðferð: Þegar málastjóri eða meðferðaraðili sjúklings á erfitt með að veita aðstandanda viðeigandi stuðning og fræðslu getur heilbrigðisstarfsmaðurinn boðið aðstandanda fjölskyldustuðning og fræðsla hjá geðhjúkrunarfræðingi, ótengt meðferð sjúklings, í allt að 6 viðtölum. Tíðni og innihald viðtala er samkvæmt þörfum og á forsendum aðstandenda. Áhersla er lögð á fræðslu, sjálfsstyrkingu og að draga úr fordómum.

Niðurstöður: Á árinu 2023 bárust 22 beiðnir um fjölskyldustuðning og fræðslu þar sem aðstandendur nýttu sér tilboðið að einhverju eða öllu leyti. Geðhjúkrunarfræðingur lagði áherslu á að vera til staðar fyrir aðstandendur og efla traust í samskiptum. Fræðsla, ráðgjöf og valdefling voru meginþemu viðtalanna.

Ályktanir: Traust og samvinna aðstandenda og heilbrigðisstarfsmanna er mikilvægt fyrir bata og velferð SMI sjúklinga. Stuðning við aðstandendur á þeirra forsendum eins og hér er lýst getur aukið möguleika á að slík samvinna náist og komi sjúklingum til góða. Því væri til hagsbóta fyrir SMI sjúklinga að efla samvinnu við aðstandendur á forsendum þeirra.

 

Langvinnur nýrnasjúkdómur í tengslum við notkun litíums á Íslandi

Gísli Gíslason1,2, Ólafur Skúli Indriðason3, Engilbert Sigurðsson1,4, Runólfur Pálsson1,3


1Læknadeild Háskóla Íslands; 2Sjúkrahúsið á Akureyri, 3Nýrnalækningaeining Lyflækningaþjónustu og 4Geðþjónusta Landspítala.

gisli95@gmail.com


Inngangur: Áhrif meðferðar með litíum á þróun langvinns nýrnasjúkdóms (LNS) hafa verið misvísandi í fyrri rannsóknum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tengsl litíummeðferðar við algengi LNS að teknu tilliti til annarra áhættuþátta.


Efniviður og aðferðir: Þetta var afturvirk rannsókn. Þátttakendur voru allir sjúklingar sem fengu meðferð með litíum á árunum 2008-2018. Til samanburðar voru einstaklingar sem leituðu þjónustu göngudeildar Geðþjónustu Landspítala á árunum 2014-2016 vegna lyndisraskana (ICD-10 greiningar F30-F39) og höfðu ekki fengið litíum. Skoðaður var LNS á stigi 3-5, skilgreindur sem gaukulsíunarhraði <60 ml/mín./1,73 m2 í meira en þrjá mánuði samkvæmt KDIGO-leiðbeiningum frá 2012. Gaukulsíunarhraði var reiknaður með CKD-EPI-jöfnunni út frá kreatínínmælingum í sermi (SKr). Einstaklingar með LSN fyrir 2008 og/eða færri en tvær SKr-mælingar eftir 2008 voru útilokaðir frá rannsókninni. Lifunargreining með tímaháðum breytum var notuð til að meta tengsl við LNS.


Niðurstöður: 2046 einstaklingar voru útsettir fyrir litíum á tímabilinu og af þeim uppfyllti 221 (10,8%) skilmerki fyrir LNS á stigi 3-5. Viðmiðahópurinn samanstóð af 1220 einstaklingum og 39 (3,2%) uppfylltu skilmerki fyrir LNS á stigi 3-5. Notkun litíum var tengd við tilkomu LNS eftir að leiðrétt var fyrir þekktum áhættuþáttum fyrir LNS, hættuhlutfall [HH] 1,93 (95% öryggisbil [ÖB] 1,37–2,74). Þegar litíumhópnum var skipt upp eftir meðal litíumstyrk og borinn saman við viðmiðunarhópinn í undirhópagreiningu þá virtist áhættan háð meðalstyrknum, HH 1,24 (95% ÖB 0,81–1,89), 2,88 (95% ÖB 1,97–4,20) og 5,23 (95% CI 3,31-8,26) fyrir meðalstyrki 0,3-0,59, 0,6-0,79 og 0,8 til 0,99.


Ályktanir: Niðurstöðurnar styðja að litíumstyrkur tengist þróun LNS hjá sjúklingum með lyndisraskanir.

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica