Fylgirit 118 - þing Geðlæknafélags Íslands 2023

Ágripin

Nýir áhættuþættir geðrofs, örlyndis og efnaskiptavillu

Engilbert Sigurðsson1,2

1Geðþjónustu Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

Nýir áhættuþættir geðrofs og örlyndis hafa í vaxandi mæli komið við sögu í geðþjónustu Landspítala síðustu 5 ár. Stundum hjá einstaklingum með enga fyrri sögu um slík veikindi sem voru greindir með ADHD og settir á ADHD-lyfjameðferð. Annar hópur eru einstaklingar með sögu um langvinnt alvarlegt þunglyndi sem hafa ekki fengið ásættanlega bata við endurteknar meðferðartilraunir með þunglyndislyfjum, og hafa í kjölfar mikillar umfjöllunar um ofskynjunarefni fundið aðila, stundum heilbrigðisstarfsmenn, sem hafa látið þeim slík efni í té og stundum fylgt þeim í gegnum ofskynjunarmeðferð. Loks má nefna einstaklinga með sögu um fíkn eða tímabundna ofnotkun vímugjafa sem verða sér úti um ADHD-lyf eða ofskynjunarefni eða fá ADHD-lyf útskrifuð frá læknum, og veikjast af geðrofi eða örlyndi í kjölfar notkunar til að komast í vímu. Þessi síðastnefndu nota þessi efni þá stundum samhliða kannabisefnum, kókaíni eða öðrum vímugjöfum þannig að erfitt getur verið að vera viss um hvað sé meðvirkandi orsök og hvað meginorsök veikinda sem leiddu til komu á bráðamóttöku og stundum innlagnar. Sumir sem veikjast með þessum hætti eftir ADHD-greiningu hætta tímabundið eða alveg töku lyfjanna og fá meðferð með geðrofslyfi hjá læknum.

Af þeim sem voru greind með ADHD hér á landi 1997-2018, voru þau sem fóru á ADHD-lyfjameðferð, metýlfenídat eða atomoxetín, marktækt líklegri en þau sem ekki fengu ADHD-lyfjum ávísað til að fá geðrofslyfjum ávísað innan tveggja ára frá greiningu ADHD. Langtímameðferð með geðrofslyfjum eykur hættu á efnaskiptavillu og því er afar mikilvægt að hún byggist á traustum ábendingum.

 

Geðrof og maníur hjá einstaklingum á ADHD lyfjum á Íslandi

Lýðgrunduð rannsókn á innlögnum vegna geðrofa og manía í kjölfar ADHD lyfjameðferðar hjá fullorðnum árin 2010-2022

Ragna Kristín Guðbrandsdóttir1, Þorsteinn Ívar Albertsson1, Halldóra Jónsdóttir1,2, Engilbert Sigurðsson1,2, Oddur Ingimarsson1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Geðþjónustu Landspítala

Inngangur: Lyfjameðferð með örvandi lyfjum er talin áhrifaríkasta meðferðin við athyglisbresti með ofvirkni (ADHD). Gríðarleg aukning hefur verið í ávísunum á örvandi lyfjum til meðhöndlunar á ADHD á síðustu árum á Íslandi og var aukningin 150% frá 2012-2022. Geðrof og maníur eru sjaldgæfar en alvarlegar aukaverkanir ADHD-lyfjameðferðar sem vert er að læknar og almenningur viti af í ljósi þess að tæplega 5% fullorðinna eru nú á slíkri meðferð hér á landi. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja tíðni geðrofs og manía meðal fullorðinna sem fá ávísað slíkum lyfjum á Íslandi.

Efni og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn lýðgrunduð rannsókn á geðrofum og maníum í kjölfar ADHD-lyfjanotkunar hjá einstaklingum 18 ára og eldri á Íslandi frá 2010-2022. Rannsóknarúrtakið samanstendur af þeim sem hófu meðferð með ADHD-lyfjum (örvandi lyfjum eða atomoxetine) á rannsóknartímabilinu og lögðust inn á geðdeild vegna fyrsta geðrofs eða maníu innan árs frá upphafi meðferðar með ADHD-lyfi. Einstaklingarnar í rannsóknarúrtakinu voru fundnir með samkeyrslu Lyfjagagnagrunns og Vistunargrunns Landlæknis. Öðrum upplýsingum um einstaklingana í úrtakinu var safnað úr sjúkraskrá.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu hófu 16.125 fullorðnir einstaklingar meðferð með ADHD-lyfjum. Af þeim lögðust 48 inn á geðdeild vegna geðrofs og 13 vegna maníu. Metýlfenidat var algengasta ADHD lyfið meðal þeirra sem lögðust inn (25; 41,0%), þá amfetamín afleiður (21; 34,4%) og atomoxetine (15; 24,6%). Af þeim sem lögðust inn fengu um 70% ADHD-lyfjum aftur ávísað innan árs frá útskrift.

Ályktanir og umræður: Einn af hverjum 264 (0,38%) fullorðnum einstaklingum sem hófu meðferð með ADHD-lyfjum á rannsóknartímabilinu lagðist inn á geðdeild innan árs frá upphafi meðferðar vegna fyrsta geðrofs eða maníu. Er þetta hærra hlutfall en áður hefur verið lýst í rannsóknum á efninu.

 

Er hægt að koma fólki með geðrofssjúkdóm á vinnumarkað?

Hlynur Jónasson1, Soffía E. Einarsdóttir1, Oddur Ingimarsson1,2, Halldóra Jónsdóttir1,2, Magnús Haraldsson1,2

1Geðsviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: IPS (Individual Placement and Support) starfsendurhæfing á uppruna sinn í Dartmouth háskóla í lok 20. aldar en Robert Drake geðlæknir sá miklar framfarir hjá skjólstæðingum sem höfðu komist í samkeppnishæf störf. Hugmyndafræði IPS felst í einstaklingsmiðuðum stuðningi til samkeppnishæfra starfa og byggir á teymisvinnu og fræðslu. Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið erlendis hafa sýnt góðan árangur. Haustið 2023 fór af stað í geðrofs-, samfélagsgeðteymi og Laugarási rannsókn á IPS. Um 600 skjólstæðingar eru í þjónustu þessara teymi og má ætla að um helmingur þeirra geti nýtt sér IPS.

Aðferðir: Rannsakað verður hve margir fá starf og hversu vel þeim gengur að halda starfi. Auk lýðfræðilegra upplýsinga verður safnað upplýsingum úr sjúkraskrá um sjúkdómgreiningar þ.á.m. fíknivanda. Einnig verða kannað hvað einkennir þá sem ekki komast í vinnu og hverjar helstu hindranir þeirra eru. Einnig verður skoðað hvers konar störf skjólstæðingar fá og hver afstaða yfirmanna á vinnustað eru til þessara starfa og hvaða áhrif þeir telji að IPS hafi á vinnustaðinn.

Niðurstöður: Á þessari stundu hafa 72 verið teknir inn í IPS og af þeim hafa 51 hafið störf. 34 eru enn með starf og 16 bíða eftir að komast í starf. Störfin eru mjög fjölbreytileg t.d. lagerstörf, tæknistörf og iðnaðarstörf. Meðalaldur þátttakenda er 35 ár (26-60). 46% hópsins glímir við fíknivanda.

Ályktanir: Fram að þessu hefur IPS starfsendurhæfing aðeins verið til boða fyrir skjólstæðinga Laugaráss en frá 2021 hafa geðrofs- og samfélagsgeðteymi bæst við. Líklega munu fleiri einingar innan geðsviðs bætast við á næstu misserum. Vel hefur gengið að útvega þeim sem eru metnir vinnufærir störf og hafa yfir 50 af rúmlega 70 skjólstæðingum þegar fengið vinnu.

 

 

Mikilvægi Clozapine í meðferð við meðferðarþráum geðklofa

Halldóra Jónsdóttir1,2

Geðþjónustu Landspítala1, læknadeild Háskóla Íslands2

Rannsóknir hafa sýnt að 30% sjúklinga með geðklofa eru með meðferðarþráan sjúkdóm. Clozapine er 2. kynslóðar geðrofslyf sem hefur sýnt góða virkni við meðferðarþráum geðklofasjúkdómi. Lyfið sýnir verkun á bæði jákvæð og neikvæð einkenni sjúkdómsins, ásamt verkun á þunglyndiseinkenni. Clozapine dregur einnig úr tíðni sjálfsvíga, notkun fíkniefna, eykur meðferðarheldni og fækkar endurinnlögnum. Þá lækkar dánartíðni sjúklinga sem taka lyfið meira en hjá sjúklingum sem taka önnur geðrofslyf. Lyfið eykur lífsgæði einstaklinga með erfiðan geðklofasjúkdóm og færri hætta að taka Clozapine en önnur geðrofslyf, þrátt fyrir háa tíðni aukaverkana. Notkun lyfsins eru þó minni en ætla mætti og virðast geðlæknar tregir til að nota það vegna áhyggna af öryggi þess og aukaverkunum. Aukaverkanir lyfsins eru vissulega margar og beinast áhyggjur ekki síst að hvítkornafæð sem getur orðið alvarleg og leitt til lífshótandi sýkinga. Geðlæknar virðast ofmeta algengi þessarar aukaverkunar sem er sárasjaldgæf. Þá virðist þekkingu ábótavant á því hvenær tímabært er að hefja meðferð með lyfinu og einnig hvað varðar eftirlit með aukaverkunum. Í stað þess að hefja meðferð með Clozapine eru önnur lyf þrautreynd og sjúklingar gjarnan settir á fjöllyfjameðferð án mikils meðferðarárangurs. Í meðferð með Clozapine er eftirlit nauðsynlegt bæði til að gæta öryggis í meðferð og til að hámarka verkun lyfsins og árangur meðferðarinnar. Það er mikilvægt að fylgjast með aukaverkunum og bregðast við þeim þegar þarf. Fylgjast þarf með hvítum blóðkornum, þyngdaraukningu, áhrifum á efnaskipti og hjarta, meðal annars. Þá er mikilvægt að mæla blóðgildi lyfsins reglulega, bæði til að varast ofskömmtun og vanskömmtun.

 

Clozapine klíník - nýjung í þjónustu á göngudeild geðrofssjúkdóma

Rannveig Þöll Þórsdóttir

Geðþjónustu Landspítala

Bakgrunnur: Eftirlit með líkamlegu ástandi einstaklinga á clozapine meðferð er mikilvæg til þess að tryggja árangursríka og örugga meðferð. Einfalt staðlað verklag með geðroflyfjavöktun var þróað á geðsviði Landspítala fyrir nokkrum árum og hefur verið stuðst við það fram að þessu. Clozapine klíníkur hafa verið starfandi með góðum árangri erlendis um árabil en ekki á Íslandi.

Markmið: Að auka gæði þjónustu og öryggi einstaklinga á clozapine meðferð.

Aðferð: Þverfaglegur vinnuhópur á göngudeild geðrofssjúkdóma hefur unnið að gerð staðlaðs verklags fyrir clozapine klíník. Þjónustuþegar fá viðtöl við hjúkrunarfræðing á 3ja mánaða fresti þar sem mæld eru lífsmörk, gerðar líkamsmælingar og lagður fyrir GASS spurningalisti um aukaverkanir clozapines. Einnig er veitt stutt lífstílsfræðsla. Fylgst er reglulega með blóðprufum sem taka á mánaðarlega. Þjónustuþegar hitta lækni reglulega og klínískur lyfjafræðingur yfirfer lyfjameðferð eftir þörfum.

Niðurstöður: Starfsemi hófst 14. febrúar 2023 og nú eru skráðir þjónustuþegar 92. Hjúkrunarviðtöl hafa verið um 140 talsins en mikið var um afbókanir í upphafi (30% bókana). Helstu vandamál eru frávik frá mætingum í blóðprufur en þó hafa mætingar í mánaðarlegar blóðprufur batnað um 16% og þá stendur til að kaupa tæki sem mælir blóðhag á deildinni á einfaldari hátt. Þá eru einnig frávik í lífsmarkamælingum og ofþyngd algeng en 58% þjónustuþega eru með BMI yfir 30. Mikilvægt er að hafa verklag þegar áhættuþættir koma fram og eru tengsl við heilsugæslu mikilvæg en þau eru oft lítil eða engin.

Ályktanir: Ekki er enn hægt að kynna marktækar niðurstöður en við teljum að starfsemin fari vel af stað. Efla þarf samstarf við heilsugæslu og þróa staðlað verklag um viðbrögð við frávikum og áhættuþáttum. Sömuleiðis þarf að auka stuðning við að breyta lífsstíl og bæta fræðslu til þjónustuþega, aðstandenda og þeirra sem sinna þjónustu þeirra.

 

20 ára reynsla af Lyfjameðferð við Ópíóíðafíkn (LOF)

Sigrún Lilja Sigurgeirsdóttir1, Ragnheiður Friðriksdóttir1, Erna Gunnþórsdóttir1, Lára G. Sigurðardóttir1, Julia Aspelund1, Ingunn Hansdóttir1, Þóra Björnsdóttir1 , Valgerður Rúnarsdóttir1

1SÁÁ – Sjúkrahúsið Vogur

Inngangur: Ópíóíðafíkn er alvarlegur sjúkdómur, sem hefur aukist á Íslandi undanfarin ár. SÁÁ hefur boðið upp á Lyfjameðferð við Ópíóíðafíkn (LOF) frá árinu 1999, og sinnir nú meirihluta þeirra sem þurfa á meðferð að halda.

Að veita sjúklingum með ópíóíðafíkn lífsnauðsynlega lyfjameðferð með Buprenorphine (og sjaldnar Metadon), dregur úr hættu á dauðsföllum, ofskömmtum og öðrum alvarlegum afleiðingum fíknsjúkdómsins, auk þess að stuðla að bata og bættum lífsgæðum.

Efniviður og aðferðir: Gagnagrunnur SÁÁ heldur utan um tölulegar upplýsingar og gögn varðandi greiningar og meðferð þeirra sem þangað leita. Sóttar voru upplýsingar úr sjúkraskrám SÁÁ frá árunum 2000-2023 m.t.t. algengi ópíóíðafíknar. Meðferðarheldni á LOF og dauðsföllum var einnig fylgt eftir yfir 8 ára tímabil.

Niðurstöður: Fjöldi einstaklinga sem leituðu á Vog með ópíóíðafíkn hefur þrefaldast frá seinustu aldamótum. Sjúklingum á LOF var fylgt eftir í 8 ár, sem sýndi 65% meðferðarheldni, en dánartíðni var 11%, af öllum orsökum.

Ályktanir: Ljóst er að vaxandi þörf er á LOF vegna ört stækkandi sjúklingahóps. Þjónustusamningur Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) við SÁÁ vegna LOF hefur ekki verið uppfærður frá 2014, og greiðir SÍ einungis lyfjameðferð fyrir tæplega 25% þeirra sem á henni þurfa að halda. Þrátt fyrir það stendur LOF þessum hópi til boða, en breytingar á skipulagi meðferðarinnar hafa verið nauðsynlegar til að mæta aukinni þörf. - Nýtt meðferðarform með langvinnu Buprenorphine í sprautuformi hefur aukið gæði meðferðarinnar, samhliða öðrum breytingum á meðferðarfyrirkomulaginu til að tryggja sem besta þjónustu við þennan hóp.

 

Endurtekin segulörvun á heila við meðferðarþráu þunglyndi

Uppgjör á árangri meðferðarinnar fyrstu 15 mánuðina á Heilaörvunarmiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 2022-2023

Elín María Árnadóttir1, Dagur Bjarnason2, Jón Gauti Jónsson2, Nicolas Pétur Blin2, Engilbert Sigurðsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Heilaörvunarmiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og 3Geðsviði Landspítala

Bakgrunnur: Þunglyndi er algengur, alvarlegur og oft langvinnur sjúkdómur og leiðandi orsök heilsubrests í heiminum. Ársalgengi þunglyndis er 5-10%, tvöfalt hærra hjá konum en körlum, og lífstíðaralgengi um 20%. Allt að þriðjungur þunglyndra fær litla eða enga svörun af þunglyndislyfjameðferð og þjáist af meðferðarþráu þunglyndi. Síðustu áratugi hefur meðferð með segulörvun komið fram á sjónarsviðið sem meðferðarúrræði við meðferðarþráu þunglyndi. Frá því í janúar 2022 hefur Heilaörvunarmiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins boðið upp á segulörvunarmeðferð fyrir fullorðna sem þjást af meðferðarþráu þunglyndi, í fyrsta skipti hér á landi.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að meta árangur meðferðarinnar.

Aðferð: Rannsóknin var afturskyggn ferilrannsókn. Þátttakendur voru einstaklingar sem fengu segulörvunarmeðferð hjá Heilaörvunarmiðstöðinni frá 26. janúar 2022 til 30. apríl 2023. Rannsóknin byggði á svörum þátttakenda fyrir og eftir meðferð við sjálfsmatskvörðunum PHQ-9 og BDI-II til að meta þunglyndi, GAD-7 til að meta kvíða, auk lífsgæðakvarða, QoL, og heildarmats á breytingu, PGIC. Upplýsingum var einnig safnað úr sjúkraskrám þátttakenda.

Niðurstöður: Á tímabilinu fengu 57 einstaklingar segulörvunarmeðferð hjá Heilaörvunarmiðstöðinni. Hlutfall þátttakenda sem svaraði meðferðinni (≥50% lækkun á PHQ-9 eða BDI-II) samkvæmt PHQ-9 og BDI-II var 34,5% og 42,0%, og hlutfall þeirra sem fóru í fullt sjúkdómshlé samkvæmt PHQ-9 (<5) og BDI-II (<14) var 14,5% og 32,0%. Brottfallshlutfall var 10,5%. Ekki komu fram neinar alvarlegar aukaverkanir við meðferðina.

Ályktanir: Árangur segulörvunarmeðferða Heilaörvunarmiðstöðvarinnar við meðferðarþráu þunglyndi er sambærilegur niðurstöðum erlendra rannsókna. Rannsóknin bendir til þess að segulörvunarmeðferðir Heilaörvunarmiðstöðvarinnar séu öruggt og virkt meðferðarúrræði við meðferð á meðferðarþráu þunglyndi.

 

Þróun depurðar og kvíða íslenskra grunnskólabarna og tengsl við ýmsa áhættu- og farsældarþætti

Ragný Þóra Guðjohnsen1 og Hans Haraldsson1

1 Íslenska æskulýðsrannsóknin

Inngangur: Í barnæsku og sér í lagi á unglingsárum takast einstaklingar á við ýmis konar breytingar og áskoranir í tengslum við líkamlegan þroska og andlega líðan. Athygli vekur að rannsóknir á líðan barna og ungmenna, bæði hér á landi og erlendis, gefa til kynna að geðheilsu þeirra fari almennt hrakandi. Að sama skapi beinast áhyggjur að því hvaða áhættuþættir tengist verri líðan unga fólksins og í framhaldi hvernig megi draga úr og fyrirbyggja slíka þróun. Tilgangur rannsóknarinnar er í fyrsta lagi að kortleggja þróun svara íslenskra grunnskólabarna í 6. - 10. bekk við spurningum um upplifun á kvíða og depurð. Í öðru lagi að kanna tengsl ýmissa forspárþátta við kvíða og depurð í æsku.

Efniviður og aðferðir: Notuð voru gögn úr spurningalistakönnun Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar sem lögð var fyrir í grunnskólum vorið 2023.

Niðurstöður: Niðurstöður gáfu til kynna að upplifun barna og ungmenna á kvíða og depurð tengist margs konar þáttum tengdum skólagöngu, tómstundaþátttöku, uppeldisaðstæðum, félagstengslum, áföllum, félagslegri stöðu og trú á eigin getu.

Ályktanir: Af niðurstöðum má ráða að mikilvægt er að grípa inn í og hlúa að betri líðan barna og ungs fólks hér á landi. Fjallað verður um margs konar leiðir sem eru til þess fallnar að styðja við aukna farsæld í æsku, sem bæði snúa að nærumhverfi grunnskólabarna en jafnframt samfélagslegri stefnumótun og úrræðum.

 

Sjálfsvíg á Íslandi á tímum COVID-19

Högni Óskarsson1, Engilbert Sigurðsson2,3, Sigurður Guðmundsson2, Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir4 , Sigurður Páll Pálsson3

1Humus ehf., 2læknadeild Háskóla Íslands, 3geðsviði Landspítala, 4Embætti landlæknis

INNGANGUR: Varnir gegn COVID-19 heimsfaraldrinum leiddu til mikilla samfélagslegra inngripa til að halda faraldrinum í skefjum. Þessi rannsókn er gerð til að kanna möguleg áhrif COVID-19 faraldursins og sóttvarnarinngripa á nýgengi sjálfsvíga árin 2020-21.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR: Gögn um sjálfsvíg á Íslandi eru fengin úr dánarmeinaskrá Embættis landlæknis (EL) frá árunum 2000-2021, flokkuð eftir kyni og aldri. Stuðst var við meðaltöl áranna 2020-21 og þau borin saman við meðaltöl 2000-19 og 2015-19. Við tölfræðilega úrvinnslu var notað Joinpoint Regression ( version 4.9.0.0), Poisson aðhvarfsgreining til að reikna breytingar yfir tímabilin fimm.

NIÐURSTÖÐUR: Nýgengi sjálfsvíga lækkaði um 15,5% hjá körlum en hækkaði hjá konum um 39,9% árin 2020-21. Mest varð hækkunin hjá 15-24 ára konum (175%), en minni hjá öðrum aldurshópum kvenna. Hjá körlum varð lækkunin mest á aldrinum 15-24 ára (28,4%) og 45-64 ára (24,2%). Engar breytingar náðu tölfræðilegri marktækni.

ÁLYKTUN: Nýgengi sjálfsvíga jókst hjá konum. Fækkun sjálfsvíga hjá körlum kom á óvart þar sem nýgengi í þremur eldri aldurshópunum hafði staðið í stað eða aukist undanfarandi áratug. Smæð þjóðarinnar og fátíð sjálfsvíg leiða til óreglulegra nýgengissveiflna milli ára. Því geta ofangreindar breytingar verið tilviljunarkenndar. Álag á hjálparlínuna 1717 jókst um 20% samanborið við tvö undanfarandi ár. Rannsóknin Líðan þjóðar sýndi vaxandi vanlíðan á Covid tímanum, meiri hjá konum en körlum og hjá yngri aldurshópi. Könnun Rannsóknar og greiningar á sama tíma sýndi fram á aukna vanlíðan ungmenna, meiri hjá stúlkum.

Þó svo að nýgengisbreytingar séu ekki tölfræðilega marktækar er mikilvægt að fylgjast með þeirri þróun sem kemur í kjölfar COVID-19.

 

Langvinnur nýrnasjúkdómur í tengslum við notkun litíums á Íslandi
Gísli Gíslason1,2, Ólafur Skúli Indriðason3, Engilbert Sigurðsson1,4, Runólfur Pálsson1,3
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Sjúkrahúsinu á Akureyri, 3nýrnalækningaeiningu lyflækningaþjónustu og 4geðþjónusta Landspítala

Inngangur: Áhrif meðferðar með litíum á þróun langvinns nýrnasjúkdóms (LNS) hafa verið misvísandi í fyrri rannsóknum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tengsl litíummeðferðar við algengi LNS að teknu tilliti til annarra áhættuþátta.
Efniviður og aðferðir: Þetta var afturvirk rannsókn. Þátttakendur voru allir sjúklingar sem fengu meðferð með litíum á árunum 2008-2018. Til samanburðar voru einstaklingar sem leituðu þjónustu göngudeildar Geðþjónustu Landspítala á árunum 2014-2016 vegna lyndisraskana (ICD-10 greiningar F30-F39) og höfðu ekki fengið litíum. Skoðaður var LNS á stigi 3-5, skilgreindur sem gaukulsíunarhraði <60 ml/mín./1,73 m2 í meira en þrjá mánuði samkvæmt KDIGO-leiðbeiningum frá 2012. Gaukulsíunarhraði var reiknaður með CKD-EPI-jöfnunni út frá kreatínínmælingum í sermi (SKr). Einstaklingar með LSN fyrir 2008 og/eða færri en tvær SKr-mælingar eftir 2008 voru útilokaðir frá rannsókninni. Lifunargreining með tímaháðum breytum var notuð til að meta tengsl við LNS.
Niðurstöður: 2046 einstaklingar voru útsettir fyrir litíum á tímabilinu og af þeim uppfyllti 221 (10,8%) skilmerki fyrir LNS á stigi 3-5. Viðmiðahópurinn samanstóð af 1220 einstaklingum og 39 (3,2%) uppfylltu skilmerki fyrir LNS á stigi 3-5. Notkun litíum var tengd við tilkomu LNS eftir að leiðrétt var fyrir þekktum áhættuþáttum fyrir LNS, hættuhlutfall [HH] 1,93 (95% öryggisbil [ÖB] 1,37–2,74). Þegar litíumhópnum var skipt upp eftir meðal litíumstyrk og borinn saman við viðmiðunarhópinn í undirhópagreiningu þá virtist áhættan háð meðalstyrknum, HH 1,24 (95% ÖB 0,81–1,89), 2,88 (95% ÖB 1,97–4,20) og 5,23 (95% CI 3,31-8,26) fyrir meðalstyrki 0,3-0,59, 0,6-0,79 og 0,8 til 0,99.
Ályktanir: Niðurstöðurnar styðja að litíumstyrkur tengist þróun LNS hjá sjúklingum með lyndisraskanir.

 

Tilfelli af geðgjörgæslu

Oddný Ómarsdóttir1, Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir1

1Geðsviði Landspítala

Undanfarin ár hefur ferðaþjónusta á Íslandi farið vaxandi með tilheyrandi áskorunum fyrir heilbrigðiskerfið. Hér verður farið yfir sjúkratilfelli ferðamanns frá Danmörku sem að kom í lögreglufylgd á Bráðaþjónustu geðsviðs í byrjun árs 2023 og lýsti þar ranghugmyndum af ofsóknartoga auk þess sem að hann var metinn ör og hugsanatruflaður. Hann lagðist í kjölfarið inn á geðgjörgæsludeild 32C og í þeirri legu kom í ljós flókið og áhugavert ranghugmyndakerfi. Hegðun viðkomandi og vilji til þess að þiggja ráðlagða meðferð litaðist mjög af ranghugmyndum hans, en jafnframt skoðunum hans á vestrænni læknisfræði. Í því samhengi sagðist hann stunda „urine therapy“ („þvagmeðferð“) til að vinna bug á ýmsum líkamlegum kvillum en það kom snemma í ljós að í hans tilviki fólst sú meðferð meðal annars í því að drekka eigið þvag, bera það á sig, safna því og fleira. Í tilfellinu verður farið yfir fjölda áskorana og krefjandi aðstæðna sem komu upp við uppvinnslu og meðferð viðkomandi í innlögninni, auk þess sem geðrofseinkenni hans verða nánar útskýrð og sett í samhengi við atferli hans.

 

Nauðungarlyfjagjafir á geðdeildum Landspítalans árin 2014-2018

Eyrún Thorstensen1, Brynjólfur Gauti Jónsson2,3, Helga Bragadóttir4,5

1Geðþjónustu Landspítala, 2Hjartavernd, 3verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands, 4hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og 5Landspítala

Inngangur: Nauðungarlyfjagjöf er ein tegund þvingaðrar meðferðar en umfang þeirra á Íslandi er lítið þekkt. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna umfang nauðungarlyfjagjafa á Landspítala, hvenær þær eru helst notaðar og hvort sé munur milli sjúklinga sem fá nauðungarlyfjagjafir og þeirra sem ekki fá slíka meðferð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og nýtir gögn úr sjúkraskrám með úrtaki allra inniliggjandi sjúklinga á geðdeildum Landspítala árin 2014-2018 með 4053 þátttakendum. Þátttakendum var skipt í tvo hópa, hóp 1 með sjúklingum sem fengu nauðungarlyf (n=400, 9,9%) og hóp 2 með sjúklingum sem ekki fengu nauðungarlyf (n=3653, 90,1%).

Niðurstöður: Heildarfjöldi nauðungarlyfjagjafa var 2438 talsins og um 1% heildarúrtaks fékk um helming allra nauðungarlyfja. Nauðungarlyfjagjafir voru helst gefnar yfir daginn á virkum dögum og seint um kvöld en ekki sást afgerandi munur milli mánaða. Þegar hóparnir voru skoðaðir sást að hlutfallslega fleiri karlar og sjúklingar með erlent ríkisfang voru í hópi 1 en hópi 2, en ekki sást afgerandi munur á aldursdreifingu milli hópanna. Þeir sem voru í hópi 1 voru með fleiri komur á Landspítala, og fleiri innlagnir og legudaga á geðdeildum Landspítala á sjúkling, en þeir í hópi 2. Hjá sjúklingum í hópi 1 voru geðrofsgreiningar (F20-29) og lyndisraskanir (F30-39) algengastar en í hópi 2 voru það fíknisjúkdómar (F10-19) og lyndisraskanir (F30-39).

Ályktun: Niðurstöður benda til ákveðinna áhættuþátta nauðungarlyfjagjafa varðandi lýðfræðilegar breytur sjúklinga, sjúkdómsgreiningar, nýtingu þjónustunnar og tímasetningum nauðungarlyfjagjafa. Nánari greining gæti nýst til þess að draga úr þvingaðri meðferð. Frekari rannsókna er þörf um þvingaða meðferð á geðdeildum á Íslandi.

 

Algengi og nýgengi notkunar geðrofslyfa hjá sjúklingum sem leggjast lyflækningadeildir Landspítala og tengsl við fjöllyfjanotkun

Freyja Jónsdóttir1,2 og Martin I. Sigurðsson 3,4

1Lyfjafræðideild, Háskóla Íslands, 2Lyfjaþjónustu Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands,4svæfinga- og gjörgæslulækningum Landspítala

Inngangur: Notkun geðrofslyfja hefur aukist undanfarin ár og meðal annars verið í auknum mæli ávísað við kvíða, þunglyndi og svefnvanda. Markmið rannsóknar var að skoða algengi og nýgengi notkunar geðrofslyfa hjá sjúklingum sem leggjast lyflækningadeildir Landspítala. Auk þess að skoða tengsl notkunar við fjöllyfjameðferð.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarsnið var aftursýn lýsandi rannsókn meðal sjúkling ≥18 ára sem lögðust inn á Landspítala á vegum sérgreina lyflækna á tímabilinu 2010–2020. Gögn voru fengin úr íslenska lyflækningagagnagrunninum. Gagnagrunnurinn inniheldur upplýsingar um sjúklinga sem lögðust inn á lyflækningardeildir Landspítala auk upplýsinga um útleyst lyf úr lyfjagagnagrunni landlæknis. Þátttakendur voru flokkaðir eftir fjölda lyfja sem þeir tóku árið fyrir innlögn, ekki fjöllyfjameðferð (<5), fjöllyfjameðferð og ofur fjöllyfjameðferð (>10).

Niðurstöður: Af 85942 innlögnum (51% karlar), meðalaldur 73 [60-83] ár, var algengi notkunar geðrofslyfja 14.2%. Sjúklingar á geðrofslyfjum voru líklegri til að vera konur (50.8% á móti 49.2%), nýta sér lyfjaskömmtun (75.1% á móti 51.2%), taka fleiri lyf fyrir innlögn (16 lyf á móti 11 lyf), vera greindir með heilabilun (3.5% á móti 3.0%) og hafa fengið greiningu um aukaverkun lyfs (20.0% á móti 9.5%). Algengi notkunar geðrofslyfja var hærra meðal sjúklinga á fjöllyfjameðferð (9.3%) og ofur-fjöllyfjameðferð (18.7%) samanborið við sjúklinga sem ekki voru á fjöllyfjameðferð (2.8%, p<0.001). Nýgengi notkunar geðrofslyfja eftir innlögn á spítala var 6.1%.

Ályktun: Þörf er á rannsókn á notkun geðrofslyfja í ljósi hás algengis og nýgengis meðal sjúklinga á lyflækningadeildum Landspítala.

 

 

MDMA sem þáttur í meðferð áfallastreituröskunar

Helga Þórarinsdóttir1 og Engilbert Sigurðsson1,2

1Geðþjónustu Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

Bakgrunnur: MDMA er amfetamín afleiða, náskylt ofskynjunarefninu meskalíni. Það hefur verið rannsakað undanfarin ár sem þáttur í samtalsmeðferð við áfallastreituröskun, geðröskun þar sem fáar lyfjameðferðir hafa sýnt fram á virkni.
Markmið: Tilgangur greinarinnar er að fara yfir stöðu þekkingar á MDMA, virkni þess og öryggi í samsettri meðferð áfallastreituröskunar.
Aðferð: Gerð var leit á PubMed, Web of Science og Google Scholar og farið yfir heimildir í birtum rannsóknar- og yfirlitsgreinum.
Niðurstöður: Meðferð með MDMA er lýst sem viðbótarmeðferð samhliða samtalsmeðferð. Meðferðin felst í tveimur til þremur skiptum af nokkurra klukkustunda samtalsmeðferð þar sem sjúklingur fær 1-2 skammta af MDMA samhliða samtölum. Slík notkun MDMA er talin minnka tilfinningalegt uppnám og geta þannig gert úrvinnslu áfalla greiðari í sumum tilvikum. Algengar aukaverkanir við þessa notkun MDMA eru gnístran tanna, kvíði, taugaspenna, höfuðverkur og ógleði. Nýleg safngreining sýndi að samtalsmeðferð samhliða MDMA-gjöf dró meira úr einkennum áfallastreitu en sama samtalsmeðferð án MDMA-gjafar og að fleiri sem fengu samtalsmeðferð samhliða MDMA uppfylltu ekki lengur greiningarskilmerki áfallastreituröskunar við lok meðferðar.
Ályktanir: Niðurstöður úr rannsóknum benda til þess að gjöf MDMA samhliða samtalsmeðferð dragi úr áfallastreitueinkennum og þolist almennt vel. Beðið er birtingar frekari fasa III rannsókna sem munu leiða í ljós hvort MDMA hljóti markaðsleyfi sem þáttur í áfallastreitumeðferð á næstu árum. Brýn þörf er á fleiri og öflugri meðferðarúrræðum við áfallastreituröskun.

 

Íslendingar undir áhrifum amfetamíns – lyf eða lögbrot?

Adam Erik Bauer1, Kristín Ólafsdóttir1

1Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, heilbrigðisvísindasviði HÍ

Inngangur: Notkun amfetamíns við meðhöndlun á ADHD á Íslendingum hefur aukist hratt síðustu fimm ár. Lögregla og félagsmálastofnanir þurfa reglulega að leita til Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði (RLE) við Háskóla Íslands til að greina hvort amfetamín sem mælist í lífsýnum sé eftir lyfjanotkun eða ólöglega notkun. Þróuð var aðferð til að aðgreina handhverfur amfetamíns í blóði og þvagi. Kannað var hvort marktækur munur væri á amfetamínstyrk í blóði ökumanna árið 2022 eftir því hvort lyfjaform (d-handhverfa) eða ólöglegt form (l- og d-handhverfa) amfetamíns mældist.

Aðferðir: Skoðuð voru lífsýni frá árinu 2022 úr ökumönnum grunuðum um akstur undir áhrifum fíkniefna og höfðu mælst með amfetamín í blóði yfir greiningarmörkum(n=564). Blóðsýnin voru endurmæld með sértæktri handhverfuaðferð á vökvaskilju tengdri við tvígildan massagreini (HPLC-MS/MS). Tölfræðilegur samanburður á blóðstyrk amfetamíns var gerður milli þeirra lífsýna sem flokkuðust í lyfjaform eða ólöglegt form.

Niðurstöður: Árið 2022 voru 516 blóðsýni með báðar handhverfur amfetamíns greinilegar í blóði og miðgildi amfetamínstyrks var 200 ng/mL (bil 20 – 2770 ng/mL). Hin 48 blóðsýnin greindust eingöngu með d-amfetamín greinilegt og miðgildi amfetamínstyrks í blóði var 51 ng/mL (bil 20-480 ng/mL). Marktækur tölfræðilegur munur er á milli þessara tveggja hópa (p<0,05).

Ályktun: Þróuð hefur verið einföld og skilvirk mæliaðferð til að aðgreina handhverfur amfetamíns í lífsýnum og auðvelda túlkun niðurstaða með tilliti til lagalegra spurninga þegar amfetamín greinist í lífsýnum. Marktækur munur er á amfetamínstyrk í blóði milli þeirra ökumanna sem greinast með lyfjaform amfetamíns annars vegar og ólöglegt form amfetamíns hins vegar.

 

Vímuefnaneysla í æð: Rannsókn á notuðum sprautunálum í Reykjavík

Hjördís Tinna Pálmadóttir1, Kristín Ólafsdóttir1,2, Valþór Ásgrímsson2, Ingibjörg Snorradóttir2, Guðrún Dóra Bjarnadóttir1

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði

Inngangur: Notkun vímuefna í æð er umfangsmikið vandamál á heimsvísu. Fáar rannsóknir um misnotkun vímuefna í æð hafa verið gerðar hérlendis og byggja flestar þeirra á frásögnum einstaklinga á meðferðarstofnunum. Draga má úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu í æð og bæta skaðaminnkandi þjónustu með aukinni vitneskju um hvaða vímuefni eru í notkun hverju sinni. Markmið rannsóknarinnar var að nýta efnafræðilega greiningu til að skoða nákvæmlega hvaða vímuefni finnast í notuðum sprautubúnaði sem skilað er til förgunar. Einnig hvort fleiri en eitt efni sé notað í hverja sprautu.

Efniviður og aðferðir: Alls var safnað 203 sýnum í Reykjavík frá október 2021 fram í mars 2022 frá þeim stöðum sem tóku við notuðum sprautubúnaði til förgunar. Sýnin voru meðhöndluð og efnin greind með gasgreini sem tengdur var við massaskynjara (GC/MS). Í framhaldi voru niðurstöður metnar með Masshunter hugbúnaði með aðstoð staðalefna helstu vímuefna á svörtum markaði.

Niðurstöður: Tíu mismunandi vímuefni fundust, þar af var metýlfenídat algengast og fannst í 105 sprautum (51,7%). Önnur örvandi efni fundust í um 42% sprauta og þar á eftir fundust ópíóíðar í um þriðjungi sprauta. Af þeim fjóru virku íblöndunarefnum sem fundust var koffín algengast og fannst í 86 sprautum (42,4%). Rúmlega helmingur sprauta (54,2%) innihélt tvö eða fleiri vímuefni eða vímuefni ásamt íblöndunarefni. Engin efni fundust í þremur sprautum.

Ályktanir: Metýlfenídat virðist algengara til neyslu í æð í Reykjavík samanber önnur lönd þar sem sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar. Tæplega þriðjungur sprauta í rannsókninni innihélt tvö vímuefni eða fleiri og virðist neysla einstaklinga blönduð. Algengt var að sjá að örvandi vímuefni og ópíóíða í sömu sprautunni en einnig blöndu örvandi vímuefna. Einnig voru íblöndunarefni algeng og ekki víst hvort neytandinn hafi orðið þess áskynja.

 

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica