Fylgirit 122 - Vísindi á vordögum 2024

Ávarp formanns - Vísindi á vordögum 2024

Formáli að birtingu ágripa veggspjalda sem kynnt verða á Vísindi á vordögum 2024 á Landspítala 23. apríl

Í ár hélt Vísindaráð Landspítalans úti sérstakri auglýsingaherferð til að minna starfsfólk spítalans á uppskeruhátíð vísinda á Landspítala. Að gefa sér tíma til að taka saman niðurstöður vísindaverkefna sinna og skrifa upp ágrip, sem undanfara veggspjaldakynningar á Vísindi á vordögum. Höfðað var sérstaklega til þeirra sem hafa þegið styrk úr Vísindasjóði Landspítala.

Það er því mikið ánægjuefni að auglýsingaherferðin í ár tókst vel og innsendur fjöldi ágripa varð rúmlega tvöfaldur samanborið við fjöldann í fyrra. Alls bárust 74 ágrip – hér birtast 73 þeirra eftir að hafa staðist ritrýni Vísindaráðs spítalans. Ágripin endurspegla vel vísindaflóruna á spítalanum. Vísindi eru stunduð á öllum sviðum spítalans og er það mikilvægur þáttur starfsfólks á háskólasjúkrahúsi að viðhalda þekkingu og fylgjast með nýjungum á sínu fagsviði. Án vafa eflir þátttaka í vísindaverkefnum starfsfólk í starfi, og stuðlar þannig að betri þjónustu við sjúklinga.

Fjöldi ágripa í ár er mikið gleðiefni, ekki síst vegna þess að vel gerð veggspjöld með kynningum á áhugaverðum niðurstöðum styrktra vísindaverkefna setja sterkan svip á Vísindi á vordögum. Veggspjöld munu því prýða veggi fyrir framan Hringsalinn í húsi Barnaspítalans, þar sem Vísindi á vordögum eru haldin. Þar fá þau að vera í nokkrar vikur eftir að hátíð lýkur. Mikill fjöldi starfsfólks fer þar um og einnig eiga þar leið um skjólstæðingar Barnaspítalans. Án efa munu margir staldra við og kynna sér innihald áhugaverðra veggspjalda.

Sterk hefð er fyrir því að veita verðlaun fyrir bestu ágripin á Vísindi á vordögum. Um er að ræða styrk til að kynna vísindaverkefnið og niðurstöður þess á ráðstefnu erlendis. Skilyrði fyrir vali er að niðurstöður séu kynntar í innsendu ágripi. Við matið er sérstaklega horft til vísindalegs gildis verkefnisins og nýnæmis. Vísindaráð Landspítala sér um valið. Í ár voru eftirfarandi verkefni verðlaunuð:

· Hálskirtlatökur eru tengdar auknum líkum á því að bera meningókokka – Íris Kristinsdóttir o.fl.

· Möguleg vanstarfsemi heiladinguls eftir heilahristing hjá íþróttakonum. Hverjar þarf að meta nánar? - Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen o.fl.

· The adjuvants CAF08b and mmCT enhance the antibody response and promote dose sparing to an influenza vaccine in a neonatal murine model – Jenny Lorena Molina Estupinan o.fl.

· Unveiling the protective role of androgens in CHD1 deficiency: observations in mice and humans – Kimberley Jade Anderson o.fl.

Það er stórt verkefni en ánægjulegt að standa að kynningu á vísindaverkefnum á hátíð eins og Vísindi á vordögum. Fyrir utan þau sem standa að innsendum ágripum þá eru margir sem leggja hönd á plóg við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar – allir eiga skilið miklar þakkir fyrir þeirra framlag. Sérstakar þakkir fá meðlimir Vísindaráðsins sem ritrýndu öll 74 ágripin – einkum Marianne E. Klinke og Jóna Freysdóttir sem sáu einnig um skipulagningu veggspjaldakynningarinnar, ásamt Valgerði M. Backman verkefnistjóra hjá Vísindaráði – sem á einnig miklar þakkir skildar fyrir umsjón með innköllun ágripa og undirbúningi á birtingu þeirra í fylgiriti Læknablaðsins.

Með sumarkveðju

Rósa Björk Barkardóttir, formaður Vísindaráðs Landspítala

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica