Ágrip Bráðadagsins 2024
1. Skimun fyrir hrumleika hjá 65 ára og eldri á bráðamóttökum í Evrópu
Anna Björg Jónsdóttir1,2, Sigrún Sunna Skúladóttir1,2,, Ingibjörg Sigurþórsdóttir1,, Ingibjörg Hjaltadóttir1,2,, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,2
1Landspítala, 2Háskóla Íslands
Bakgrunnur: Lífslíkur halda áfram að aukast með tæknilegum og félagslegum framförum og það hefur meðal annars í för með sér að fleiri einstaklingar lifa með hrumleika. Hrumleiki er tengdur, en alls ekki óumflýjanlegur, við hærri aldur og gerir einstaklinginn útsettari fyrir lélegri afdrifum vegna einhvers sem gæti verið tiltölulega lítill álagsvaldur.
Markmið: Að kortleggja algengi hrumleika hjá 65 ára og eldri sem leita á evrópskar bráðamóttökur.
Aðferðir: Gögnum var aflað um 65 ára og eldri sem leituðu á bráðamóttökur víðsvegar um Evrópu í einn sólarhring þann 4. júlí 2023. Notast var við hrumleikaskimun (Clinical Frailty Scale). Algengi hrumleika í Evrópu og á landsvísu var ákvarðað með hlutföllum fyrir hvert CFS stig og taldist CFS 5 eða meira vera hrumleiki.
Niðurstöður: Alls tóku 64 bráðamóttökur í 14 Evrópulöndum þátt. Reyndust 40% af 3479 öldruðum hafa að minnsta kosti vægan hrumleika, en útkomur mismunandi landa voru á bilinu 26-51%. Meðalaldur var 77 (IQR, 13) ár og 53% voru konur.
Ályktanir: 40% aldraðra sem notuðu evrópska bráðaþjónustu töldust með hrumleika. Algengi hrumleika var mjög mismunandi eftir umönnunarkerfum í Evrópu. Þessi þekking getur leitt til þess að hægt verði að skipuleggja heilbrigðisþjónustu, menntun og hæfni starfsfólks betur og í samræmi við þarfir þeirra sem eru að nota þjónustuna.
__________________________________________________________________________
2. Gæði útkalla með læknismannaðri sjúkraflugvél frá Akureyri
María Kristbjörg Árnadóttir1, Björn Gunnarsson1,2, Helge Haugland3
1Svæfinga- og gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri, 2Heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri, 3Department of Emergency Medicine and Pre-Hospital Services, St. Olavs University Hospital, Trondheim, Norway
mka1011@sak.is
Bakgrunnur: Sjúkraflug með flugvélum og björgunarþyrlum er mikilvægur hlekkur í bráðaþjónustu utan spítala á Íslandi þar sem oft er löng leið frá vettvangi slysa eða veikinda að viðeigandi sjúkrahúsi. Fyrri rannsóknir hafa lýst áhyggjum vegna langs flutningstíma og ófullnægjandi gæða í bráðaþjónustu utan spítala og því er þörf á frekari rannsóknum. Haugland og félagar í EQUIPE hópnum þróuðu gæðavísa fyrir læknismannaða bráðaþjónustu utan spítala sem voru síðar prófaðir í Skandinavíu og búin til viðmið fyrir framúrskarandi þjónustu sem aðrir geta borið sig saman við. Annars vegar er um að ræða gæðavísa fyrir útkall (response-specific) og hins vegar kerfi (system-specific).
Markmið: Að rannsaka gæði útkalla með læknismannaðri sjúkraflugvél frá Akureyri með EQUIPE gæðavísum.
Aðferð: Gögnum var safnað fyrir læknismönnuð sjúkraflug á tímabilinu 1. mars til 31. desember 2023. Læknar voru beðnir um að fylla út spurningalista á netinu (Formsite; Vroman Systems, Chicago, Illinois) að afloknu hverju sjúkraflugi. Listinn innihélt 15 gæðavísa sem mæla fyrirkomulag (fjórir), ferla (tíu) og útkomu (einn) útkalls.
Niðurstöður: Alls bárust 180 svör. Útkall læknismannaðrar sjúkraflugvélar náði ekki æskilegum viðmiðum fyrir 11 af 15 gæðavísum. Af þessum 11 bentu fjórir til framistöðu í meðallagi og sjö til slakrar frammistöðu. Öll fjögur tímaviðmið voru undir æskilegum viðmiðum og í 28,7% tilvika var ekki brugðist við tafarlaust. Algengusta ástæður þess (64,4%) voru að flugvélin var upptekin í öðru verkefni eða varavél ýmist ekki tiltæk eða ekki tiltæk tafarlaust. Aðrir gæðavísar sem bentu til slakrar frammistöðu voru atvik, skortur á klíniskum leiðbeiningum og engin þátttaka í öðrum vísindarannsóknum.
Ályktanir: Viðbragð með með læknismannaðri sjúkraflugvél frá Akureyri stenst ekki samanburð við sambærilega þjónustu í Skandinavíu. Aðeins er ein áhöfn á vakt flesta daga og því óhjákvæmilegt að ekki sé alltaf hægt að bregðast tafarlaust við beiðnum um sjúkraflug. Viðbragðstími (tími frá útkalli að komu áhafnar á vettvang) og flutningstími í sjúkraflugi er að jafnaði langur í samanburði við lönd sem við miðum okkur gjarnan við og því mikilvægt að leita leiða til að bæta þjónustuna í hvívetna. Stjórnvöld þurfa að hafa skýr markmið og mælanleg þjónustuviðmið fyrir sjúkraflug.
_______________________________________________________________________
3. Er aðgengi að tölvusneiðmyndatæki á Íslandi nægilega gott?
Arndís Heimisdóttir1, Björn Gunnarsson1,2
1Svæfinga- og gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri, 2Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri
Bakgrunnur: Blóðþurrðarslag í heila er þriðja algengasta ástæða fötlunar í heiminum. Líkur á heilaslagi hækka með aldri og því búast má við að tíðnin fari vaxandi. Heilaslag er tímanæmur heilsuvandi og töf á meðferð getur haft alvarlegar afleiðingar. Stundum er þörf á segabrottnámi til að koma á eðlilegu blóðflæði til heila, en oft nægir að gefa segaleysandi lyf, að undangenginni tölvusneiðmyndatöku, til að ganga úr skugga um að slag sé vegna blóðþurrðar en ekki heilablæðingar. Margar Evrópuþjóðir hafa sett sér það markmið að miðgildi tímalengdar, frá upphafi einkenna að gjöf segaleysandi lyfs, verði <120-mín. Forsenda þess er tímanlegt aðgengi að tölvusneiðmyndatæki.
Markmið: Að rannsaka hversu stór hluti þjóðar og landsvæða er innan tiltekins aksturstíma frá tölvusneiðmyndatatæki.
Aðferð: Útreikningarnir voru framkvæmdir í RStudio. Upplýsingar um sjúkrahús með tölvusneiðmyndatæki í lok árs 2023 fengust frá Geislavörnum ríkisins. hereR pakkinn (wrapper fyrir HERE technologies API) var notaður til að draga upp mynd af svæðum þar sem áætla má að aksturstími til sjúkrahúss sé skemmri en 45-mín og 90-mín (útreikningar framkvæmdir að morgni miðvikudagsins 14. desember 2023). st pakkinn var notaður til að reikna út stærð svæðanna (km2). Til að áætla fjölda íbúa innan þessara svæða voru notaðar upplýsingar frá Hagstofu um fjölda og dreifingu íbúa landsins í 1 km2 reitakerfi. 1.janúar 2022 bjuggu 376.230 manns á 3710 reitum landsins, en landið allt er 103.000 km2.
Niðurstöður: Á landinu eru 8 opinberar heilbrigðisstofnanir með tölvusneiðmyndatæki. Hlutfall íbúa og landsvæðis sem var innan 45-mín og 90-mín aksturstíma var reiknaður frá þeim. Svæði þar sem aksturstími var ≤ 45-mín voru alls 7,115 km2 (6,9%) og á þeim bjuggu 90,3% íbúa. Svæði með ≤ 90-mín voru alls 16,781 km2 (16,2%), á þeim bjuggu 94,4% íbúa.
Ályktanir: Stór, en fámenn svæði á landinu eru utan 90-mín tímaramma. Það er ekki hægt að veita sjúklingum staðsettum á þessu svæði bestu mögulegu þjónustu þegar um að ræða brátt heilaslag. Þetta mætti bæta með; fljótari flutningsleiðum (með notkun sjúkraflugs/sjúkraþyrlu), fleiri tölvusneiðmyndatækjum eða með notkun færanlegra tölvusneiðmyndatækja, staðsettum í flugvélum eða þyrlum, hugsanlega í náinni framtíð.
___________________________________________________________________
4. Verkferlar við hjúkrun fullorðinna í ketónblóðsýringu eða flæðispennudái á bráðamóttöku - fræðileg samantekt og rýni
Elna Ólöf Guðjónsdóttir 1,2, Særós Ásta Birgisdóttir 1,3, Berglind Þorsteinsdóttir 1,4, Dóra Björnsdóttir og Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir
1Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands, 2gjörgæsludeild Landspítala, 3bráðamóttöku í Fossvogi, 4hjarta-, lunga-, augnskurðdeild Landspítala
elnao@landspitali.is
Bakgrunnur: Algengi sykursýki fer hratt vaxandi í heiminum. Fylgikvillar og afleiðingar mikillar blóðsykurshækkunar hjá einstaklingum með sykursýki geta verið alvarlegir og þeir alvarlegustu eru ketónblóðsýring (DKA) og flæðispennudá (HHS). Bráðamóttökur gegna lykilhlutverki við greiningu og bráða meðferð þessara fylgikvilla. Alþjóðlega hafa verið settir fram verkferlar við meðhöndlun ketónblóðsýringar og flæðispennudás sem heilbrigðisstarfsfólk ætti að nota í auknum mæli.
Tilgangur: Að bera saman alþjóðlega verkferla og kanna þannig hvort munur væri á ráðlagðri meðferð við ketónblóðsýringu og flæðispennudái og hlutverki hjúkrunarfræðinga í ferlinu. Jafnframt kanna horfur og upplifun fullorðinna í ketónblóðsýringu eða flæðispennudái eftir veitta meðferð samkvæmt verkferlum ásamt upplifun hjúkrunarfræðinga af notkun þeirra.
Aðferð: Fræðileg samantekt á eigindlegum og megindlegum rannsóknum á árunum 2009 til 2023 auk rýni í verkferla eftir AGREE viðmiðunum. Leit fór fram á kerfisbundinn hátt og sex rannsóknir og átta verkferlar uppfylltu leitarskilyrði þar á meðal íslenskur verkferill frá 2023.
Niðurstöður: Engir verkferlar uppfylltu öll skilyrði gæðamats AGREE-gátlistans en verkferlarnir frá Bretlandi uppfylltu flest atriði. Helstu hjúkrunarmeðferðir reyndust vera vökvagjöf, gjöf insúlíns, kalíums og glúkósa ásamt nánu eftirliti á rannsóknarniðurstöðum. Jákvæðar breytingar á horfum sjúklinga áttu sér stað við notkun verkferla í meðferð ketónblóðsýringar, svo sem styttri legulengd á sjúkrahúsi, færri tilfelli blóðsykursfalla og alvarlegrar kalíumlækkunar. Fáar rannsóknir skoðuðu upplifun einstaklinga eftir meðferð við ketónblóðsýringu sem reyndist ýmist jákvæð eða neikvæð, eða upplifun hjúkrunarfræðinga sem töldu notkun verkferils bæta umönnun þessara einstaklinga. Engar rannsóknir fundust varðandi meðferð og upplifun einstaklinga af flæðispennudái.
Ályktun: Verkferlar nýtast vel við hjúkrun einstaklinga í ketónblóðsýringu eða flæðispennudái á bráðamóttökum. Verkferlar þurfa að vera aðgengilegir, hnitmiðaðir og auðveldir í notkun. Erfitt var að meta horfur og upplifun einstaklinga eftir meðferð við ketónblóðsýringu eða flæðispennudái vegna fárra rannsókna. Þörf er á rannsóknum um upplifun einstaklinga og jafnframt hjúkrunarfræðinga við meðferð ketónblóðsýringar eða flæðispennudás út frá verkferlum.
_________________________________________________________________
5. Alvarlegir höfuðáverkar á bráðamóttöku Landspítala á árunum 2019 og 2020
Kolfinna Ýr Karelsdóttir1, Sigurborg Arnardóttir2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir3, Ágústa Hjördís Kristinsdóttir3,4
1Hjarta-, lungna- og augnskurðdeild Landspítala, 2hjartadeild Landspítala, 3hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands, 4bráðamóttöku Landspítala
Bakgrunnur: Höfuðáverkar eru leiðandi orsök dauða og fötlunar um allan heim. Hjúkrunarfræðingar gegna lykilhlutverki í bráðri meðferð sjúklinga með höfuðáverka og bráðahjúkrunarfræðingar þurfa góða þekkingu og færni í að meta þarfir þeirra og horfur, sérstaklega hvað varðar miðlungs til alvarlega höfuðáverka. Algengasta matstækið á alvarleika höfuðáverka er Glasgow Coma Scale (GCS).
Markmið: Að kanna mat og ferli einstaklinga með höfuðáverka á bráðamóttöku Landspítala sem metnir voru í mestum forgangi fyrir þjónustu og afdrif þeirra. Markmiðið var einnig að skoða GCS og hvort matið segði til um afdrif einstaklinga til að bæta megi verklag og hjúkrun þessa hóps.
Aðferð: Gerð var megindleg afturskyggn gagnasöfnun úr rafrænni sjúkraskrá Landspítala um komur einstaklinga á bráðamóttöku Landspítala frá 2019 og 2020 með höfuðáverka samkvæmt skilgreindum ICD-10-greiningum á bráðamóttöku og forgangsraðað í ESI flokk 1 eða 2. Skoðaðar breytur voru kyn, aldur, ríkisfang, GCS skráning, ICD-10 sjúkdómsgreiningar, NEWS stigun, ESI, innlagnardeild, orsakir, dvalarlengd á bráðamóttöku og afdrif sjúklinga. GCS-skráningu var flett upp í sjúkraskrá bráðamóttöku. Niðurstöður voru settar fram með lýsandi tölfræði í Microsoft Excel.
Niðurstöður: Á tímabilinu voru 718 komur sem uppfylltu inntökuskilyrðin. Karlar voru hlutfallslega fleiri (61,1%) en konur (38,9%). Flestar komur voru í aldurshópi 20-29 ára (17,3%). Flestir höfðu íslenskt ríkisfang (85%). Flestir hlutu höfuðáverka vegna falls (42,4%), líkamsárásir skýrðu 9,4% en meirihluti hlutu mjúkpartaáverka (28,9%). Skráning GCS fannst ekki í sjúkraskrá frá bráðamóttöku í 79,5% tilfella en flestir voru með NEWS-stigun 0-3 (81,0%). Af úrtakinu voru 88,7% í ESI flokki 2. Meðaldvalartími kvenna var fjórar en karla fimm klukkustundir á bráðamóttöku. Alls lögðust 189 inn eftir komu á bráðamóttöku, flestir á gjörgæslu (n=64, 34%%).
Ályktanir: Undanfarin ár hefur orðið vitundarvakning um afleiðingar höfuðáverka og þörf er á hagkvæmu mati til að segja fyrir um horfur sjúklinga strax á bráðamóttöku. Í þessari rannsókn reyndist notkun GCS vera mjög ábótavant og taka þyrfti ákvörðun um hvort matstækið sé hagkvæmt við hjúkrun sjúklinga með höfuðáverka á bráðamóttöku. Rannsaka þarf betur mat hjúkrunarfræðinga á höfuðáverkum og hagkvæmni matstækja í bráðum aðstæðum.
_________________________________________________________
6. Bráðabúnaður og lyf á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni – Heildstæð úttekt
Kári Ingason1, Hjalti Már Björnsson1,2, Þóra Elísabet Kristjánsdóttir2,3
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2bráðamóttöku Landspítala, 2,3Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
kai9@hi.is
Bakgrunnur: Læknar á landsbyggðinni þurfa sérhæfðan búnað til að sinna bráðaþjónustu vegna slysa og veikinda. Enginn staðall er til þar sem aðgengilegur bráðabúnaður á heilu landi er metinn, hvorki hér á landi né erlendis.
Markmið: Gera tæmandi úttekt á stöðu bráðabúnaðar og bráðalyfja á öllum heilbrigðisstofnunum landsbyggðarinnar.
Aðferð: Saminn var staðlaður spurningalisti yfir búnað og lyf sem talin eru nauðsynleg í bráðaþjónustu. Þar sem engir alþjóðlegir staðlar eru til sem hægt var að notast við var stuðst við skýrslu Heilbrigðisráðuneytisins „Bráðaþjónusta á Íslandi. Núverandi staða og framtíðarsýn“ lyfjalista sjúkrabíla á landinu og sérþekkingu bráðalækna og heilsugæslulækna af landsbyggðinni við samsetningu listans. Í heild var spurt um 184 atriði á hverri starfsstöð. Gögnum var aflað með fjarfundarviðtölum við yfirlækna og yfirhjúkrunarfræðinga, heimsóknum og aðsendum lyfjalistum hverrar stöðvar.
Niðurstöður: Gerð var heildstæð úttekt á 50 starfsstöðvum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni þar sem svarhlutfall fyrir tiltækan bráðabúnað var 100% og svarhlutfall bráðalyfja 90%. Engir staðlar reyndust til innan læknishéraða um bráðabúnað eða lyf. Af tækjabúnaði sem skýrslan Bráðaþjónusta á Íslandi mælir með að sé til á öllum starfsstöðvum á landinu voru hjartastuðtæki til taks hjá 96% stöðva, en enn vantar upp á að hjartalínuritstæki séu til á öllum stöðvum (80%). Ómskoðunartæki vantaði víða, sérstaklega hjá heilsugæslustöðvum með/án vaktþjónustu. Mikill breytileiki var í aðgengi að tækjum til einfaldari blóðrannsókna. Skortur á einföldum öndunarvegabúnaði var áberandi þar sem 74% stöðva áttu kokrennur, meðan nefrennur fundust hjá 54% stöðva. Barkakýlissjár voru til hjá 54% stöðva og víða vantaði leiðara í barkarennur. Mikill breytileiki var á öndunarvegabúnaði ofan raddbanda. 22% stöðva höfðu búnað til barkaskurðar. Umtalsverður breytileiki var á tiltækum bráðalyfjum. Læknatöskur voru almennt ekki staðlaðar og breytilegt hvaða búnaður og lyf voru í þeim.
Ályktanir: Í þessari tæmandi rannsókn um stöðu bráðabúnaðar á landsbyggðinni reyndist vera mikill breytileiki á hvaða búnaður var til og líklegt er að nú sé útbúnaður heilbrigðisstofnana með tilliti til bráðabúnaðar á mörgum stöðum háður frumkvæði og áhuga ólíkra lækna. Víða reyndist vanta einfaldan og ódýran búnað og líklega er hægt að bæta bráðaþjónustu á landsbyggðinni marktækt með því að tryggja að staðlaður bráðabúnaður og lyf séu tiltæk á öllum starfsstöðvum og læknatöskum.
__________________________________________________________
7. Lengd dvalar eldri einstaklinga á bráðamóttöku Landspítala 2013-2021
Jara Kjartansdóttir¹, Karen Gígja Agnarsdóttir², Margrét Lilja Arnbergsdóttir¹, Ingibjörg Sigurþórsdóttir¹ og Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,3
¹Landspítali, ²Heilbrigðisstofnun Vesturlands Akranes, ³hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands
karen.gigja@gmail.com
Bakgrunnur: Álag og flæðisvandi á bráðamóttökum bæði á Íslandi og erlendis hefur verið áberandi síðustu ár. Þeim fjölgar sem dvelja lengur en ráðlögð viðmið um meðferðatíma segja til um, en oftast er miðað við sex klukkustundir. Eldri einstaklingar eru viðkvæmur hópur sem samkvæmt rannsóknum dvelja lengi á bráðamóttöku og eru útsettir fyrir atvikum. Rannsóknir á dvalartíma og áhrifaþáttum lengri dvalar gætu leitt til bættrar þjónustu fyrir þennan hóp.
Markmið: Að skoða hvaða þættir spáðu fyrir um lengri dvöl eldri einstaklinga á bráðamóttöku Landspítala.
Aðferðir: Afturskyggn lýsandi rannsókn á komum 67 ára og eldri á bráðamóttöku Landspítala frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2021. Gögn fengust úr Vöruhúsi gagna á Landspítala og voru síðan skilgreind, flokkuð og greind lýsandi í Excel. Komur voru skoðaðar út frá aldri, kyni, komuárum, hjúskaparstöðu, búsetu, komutíma, ICD-greiningum, ESI forgangsflokkun og afdrifum. Kí-kvaðrat (χ2) próf var notað til að kanna marktækni sambanda valinna breyta við útkomubreytuna dvalarlengd. Marktæknimörk við tölfræðigreiningu voru sett við alfa<0,05.
Niðurstöður: Komur voru 137.498 á rannsóknartímabilinu. Konur voru í meirihluta (53,5%) meirihluti þeirra bjó án maka (60,3%) en minnihluti karla (35,9%) sem endurspeglar lýðfræðilegar upplýsingar þýðis. Tíðni koma var hæst í aldursflokknum 71-75 ára (23,7%) og flestir sem komu á tímabilinu útskrifuðust heim (64,6%). Flestar komur voru árið 2017 (n=8034) en fæstar árið 2020 (n=6151). Meðaldvalarlengd karla var 10 klst og 39 mínútur en kvenna 11 klst og 5 mín (p<0,05). Sá aldurshópur sem dvaldi að meðaltali lengst var 91-95 ára í 14 klst og 23 mín (p<0,05) og lengst dvöldu þau að meðaltali sem lögðust inn á lyflækningadeildir í 19 klst og 24 mín (p<0,05). Dvöl karla var lengst í ICD-10 yfirflokknum D, blóð- og ónæmissjúkdómar, 16,8 klst (SF 14,3) en kvenna í flokki E innkirtlasjúkdóma, 18,2 klst (SF 16,5 klst).
Ályktun: Eldri einstaklingar dvöldu lengur á bráðamóttöku en alþjóðleg viðmið um dvöl á bráðamóttökur segja til um. Niðurstöður sýndu að ýmsir bakgrunnsþættir og sjúkdómsástand voru tengd dvalarlengd 67 ára og eldri á bráðamóttöku. Huga þarf að frekari greiningum á áhrifaþáttum og aðgerðum gegn langri dvöl eldri einstaklinga á bráðamóttöku. Byggja mætti upp frekari þjónustu fyrir þann sífellt vaxandi hóp sem dvelur lengi til að gæta að öryggi þeirra.
____________________________________________________
8. Höfuðáverkar barna: lýsandi rannsókn á nýgengi, komum, orsökum og ferli sjúklinga innan Landspítala á árunum 2010 til 2021
Svana Katla Þorsteinsdóttir1,2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir3, Karl Fannar Gunnarsson4,5
1Bráðamóttöku barna Landspítala, 2menntadeild Landspítala, 3hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands, 4námsbraut í sjúkraþjálfun Háskóla Íslands, 5öldrunar- og endurhæfingarsvið Landspítala
svanak@landspitali.is
Bakgrunnur: Höfuðáverkar barna eru algeng komuástæða á bráðamóttöku en fáar rannsóknir hafa verið gerðar á Íslandi um höfuðáverka barna á síðustu árum og er því fjöldi þeirra talinn vanmetin. Höfuðáverkar geta valdið langtímaafleiðingum á líkamlega-, vitsmunalega- og félagslega getu barna. Meðferð og eftirfylgnisþjónusta eftir höfuðáverka er margþætt en skortur er á þekkingu sambands á milli fyrsta mats barns, með höfuðáverka, og útkoma.
Markmið: Auka þekkingu á nýgengi, komum, orsökum og ferli barna með höfuðáverka á Íslandi.
Aðferð: Afturskyggð lýsandi rannsókn á sjúkrahúsgögnum var framkvæmd á 0-17 ára börnum sem komu á bráðamóttökur Landspítala vegna höfuðáverka, á árunum 2010-2021. Tilfelli voru byggð á skilgreindum ICD-10 greiningum. Upplýsingum um lýðfræðileg gögn ásamt gögnum um orsakir, forgangsflokkun, dvalarlengd, innlagnir og dauðsföll var aflað. Gögn voru greind með lýsandi tölfræði og sambönd á milli breyta skoðuð með krossaprófum.
Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu voru 30,014 komur vegna höfuðáverka á bráðamóttöku. Meirihluti þeirra voru drengir (61,21%) og börn undir 6 ára aldri (57,99%, M=5,98 ár). Komur stúlkna voru með marktækt lægri meðalaldur (5,75 ár á móti 6,13 ár, p<.001). Hæsta nýgengi var hjá eins árs börnum (729 á hvert 100,000) og meðalnýgengi hjá öllum aldursflokkum var 310 á hver 100,000 börn. Árlegum komum fækkaði á rannsóknartímabilinu (M=2,501). ESI=4 (50,77%) var algengast og voru 59,6% af ESI=1 tilfellum (n=89) lögð inn á spítala (p < .001). Meðaldvalarlengd var 2,2 klukkustundir en innlagnir voru 1,05%. Fall (43,62%) var algengasta orsökin fyrir höfuðáverka. Mjúkpartaáverkar (73,68%) voru algengustu áverkar, en innankúpuáverkar voru algengastir (42,57%) hjá börnum sem þurftu lengra eftirlit á Barnaspítalanum eða sem lögðust inn. Höfuðáverkar af völdum ofbeldis voru 2% tilfella (drengir 76,6%). Í heild voru 30 (0,10%) dauðsföll, þrjú innan viku frá áverka en 26,64% barna voru með að minnsta kosti eina endurkomu á bráðamóttöku vegna höfuðáverka.
Ályktun: Komur barna á bráðamóttöku vegna höfuðáverka eru tíðar en aðallega vegna mildra áverka. Fjórðungur kemur aftur vegna nýrra höfuðáverka. Hópur barna gæti þurft á sérhæfðri eftirfylgnisþjónustu og frekara mati að halda, til að greina og fyrirbyggja afleiðingar höfuðáverka. Hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku eru í lykilstöðu til að skima eftir börnum, sem þarfnast frekari þjónustu. Þörf er á rannsóknum til að auka þekkingu á afdrifum barna með höfuðáverka og hlutverki hjúkrunarfræðinga við umönnun barna með höfuðáverka.
_____________________________________________________
9. Sjúkraflug árið 2023
Björk Björnsdóttir1, Sveinbjörn Dúason2, Björn Gunnarsson1,3
1Svæfinga- og gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri, 2Sjúkraflug ehf, 3Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri
Bakgrunnur: Þegar um er að ræða mikið slasaða eða veika sjúklinga skiptir oft miklu máli að flytja þá sem fyrst á viðeigandi sjúkrahús. Rannsóknir hafa sýnt að flugvélar og þyrlur eru notaðar í vaxandi mæli til sjúkraflutninga á Íslandi, enda eru flutnings vegalengdir oft langar.
Markmið: Markmið þessarar rannsóknar er að gera grein fyrir sjúkraflugi innanlands árið 2023 með sjúkraflugvélum sem gerðar eru út frá Akureyri og bera saman við fyrri ár.
Aðferð: Í hvert sinn sem farið er í sjúkraflug er fyllt út sérstök flugskýrsla og upplýsingar úr henni svo færðar inn í rafrænan gagnagrunn sem var notaður í þessari lýsandi rannsókn. Siðanefnd Sjúkrahússins á Akureyri veitti leyfi fyrir rannsókninni.
Niðurstöður: Alls voru 974 sjúklingar fluttir með sjúkraflugvél á milli staða innanlands í 903 flugferðum á árinu 2023. Aldrei hafa fleiri sjúklingar verið fluttir á einu ári með sjúkraflugi og er aukningin 52% frá árinu 2015; mest hlutfallsleg aukning var á fjölda sjúklinga sem fluttir voru frá Norðfirði (167%), Ísafirði (103%) og Akureyri (91%). Flest útköll (40%) á árinu 2023 voru í lægsta forgangi (F4) og er það aukning um 78% frá árinu 2015. Notkunin er mest yfir sumarmánuðina. Viðbragstími (tími frá útkalli þar til komið er til sjúklings) í háum forgangi (F1 og F2) var 82 mínútur (miðgildi). Hlutfall útkalla þar sem flugvél var þá þegar upptekin í öðru verkefni var 28%. - Meðalaldur sjúklinga var 60 ár, spönn (0-99 ár). Karlar voru í meirihluta (55%). Í F1 og F2 sjúkraflugum var hjartasjúkdómur algengasta ástæða flutnings (29%). Áverkar voru ástæða flutnings í 11% tilfella og miðtaugakerfisvandi 11% tilfella.
Ályktanir: Sjúkraflugum fjölgar ár frá ári og er það aðallega vegna fjölgunar á flutningum í lægsta forgangi. Sjúkraflugvél er of oft upptekin þegar ný beiðni berst og viðbragðstími að jafnaði mun lengri en í Skandinavíu. Þörf er á frekari rannsóknum á þessu og leita leiða til að bæta þjónustuna.