Öll ágrip
1. Flutningur veikra með þyrlu Landhelgisgæslu Íslands 2001-2012
Auður Elva Vignisdóttir1,2,4, Sigrún Helga Lund2,3, Viðar Magnússon5, Auðunn Kristinsson4, Brynjólfur Mogensen1,2,5
1Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum, 2Læknadeild Háskóla Íslands, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands, 4Landhelgisgæslunni, 5Bráðamóttöku Landspítala
Bakgrunnur: Landspítali Háskólasjúkrahús (LSH) meðhöndlar flesta alvarlega veika sjúklinga á Íslandi. Þeir sem veikjast brátt utan höfuðborgarsvæðisins, sérstaklega í dreifbýli, á afskekktum svæðum, hálendi og á sjó, eru oft fluttir með sjúkraþyrlu Landhelgisgæslunnar (LHG). Þannig má stytta biðtíma eftir sérhæfðri þjónustu, en áhrif þess hafa ekki verið metin í rannsóknum hér á landi.
Markmið: Að meta hversu stór hluti sjúkraflutninga þyrlu LHG var vegna aðkallandi veikinda á árunum 2001-2015, hversu alvarlega veikir sjúklingarnir voru og hvaða inngrip voru framkvæmd í þyrlunni á meðan á flutningi stóð.
Aðferðir: Þýði rannsóknarinnar voru allir sjúklingar sem fluttir voru með þyrlu LHG árin 2001-2015. Hér voru teknir fyrir veikir sjúklingar sem fluttir voru árin 2001-2012. Gögn voru fengin frá sjúkraskrám LSH, öðrum heilbrigðisstofnunum og frá Landhelgisgæslunni. Modified Early Warning Score (MEWS) og National Advisory Committee for Aeronautics score (NACA score) voru notuð til að meta alvarleika veikinda og orsakir skráðar eftir ICD-10 greiningarflokkum.
Niðurstöður: Í heild voru 704 sjúklingar fluttir með þyrlu LHG á árunum 2001-2012. Þar af voru 223 einstaklingar fluttir vegna veikinda. Meðalaldur reyndist 48,8 ár. Karlar voru 165 (74%) en konur 58 (26%). Algengasta orsök flutninga voru sjúkdómar í blóðrásarkerfi (38%) og sjúkdómar í meltingarfærum (15%). MEWS stig voru að meðaltali 1,5 en 21% sjúklinga voru með hámark stiga eða 10 stig. NACA stigun veikra var oftast 4 (41%) og að meðaltali 3,8. Inngrip voru framkvæmd í 82% flutninga, oftast súrefnisgjöf (46%) eða vökvagjöf (25%). Endurlífgun var framkvæmd 7 sinnum og barkaþræðing 16 sinnum. Af sjúkraflugum þyrlunnar voru 20% útkalla í óbyggðum og 22% á sjó vegna veikinda
Ályktanir: Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti á rannsóknartímabilinu fjölda alvarlega veikra sjúklinga og þurfti í mörgum tilvikum að framkvæma lífsbjargandi inngrip á meðan á flutningi stóð. Mikilvægt er að rannsaka betur horfur og afdrif sjúklinganna.
2. Sár vetrarins. Faraldsfræði áverka á norðurslóðum
Guðrún Björg Steingrímsdóttir1,2,5, Sigrún Helga Lund2,3, Unnur Valdimarsdóttir2,3,Guðrún Kr. Guðfinnsdóttir4, Brynjólfur Árni Mogensen1,2,5
1Bráðamóttöku Landspítala, 2læknadeild HÍ, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands, 4Embætti Landlæknis,5Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum
Bakgrunnur: Alvarlegir áverkar og áverkadauði af völdum slysa, ofbeldis og sjálfsskaða eru algeng og alvarleg lýðheilsuvandamál í öllum löndum. Íbúar í dreifbýli, þar sem miklar fjarlægðir eru milli staða og veður eru válynd, búa við minni lífslíkur ef þeir slasast alvarlega en þeir sem búa í þéttbýli. Á þessu hafa verið gerðar rannsóknir m.a. í Norður Ameríku og í norður Finnlandi en fáar rannsóknir hafa verið gerðar á áverkadauða og á alvarlegum áverkum á Norðurlöndum.
Markmið: Að rannsaka hvað einkenndi þá sem létust vegna slysa, sjálfsvíga og manndrápa. Sérstaklega var skoðað hvort munur væri tengdur kyni, tíðni og afdrifum eftir því hvort áverki varð í dreifbýli eða þéttbýli. Rannsóknin er hluti af samnorrænni rannsókn á Íslandi, norður Finnlandi og norður Noregi og norður Svíþjóð.
Aðferð: Þýði rannsóknarinnar voru allir þeir er létust áverkadauða á Íslandi á árunum 2007 til 2011. Dánarmeinaskrá Landlæknis var notuð til þess að nálgast eftirfarandi breytur um þá einstaklinga sem létust; aldur, kyn, dánartíma, tegund áverka og hvað viðkomandi var að gera, hvar viðkomandi lést, tími andláts miðað við tíma áverkans, orsök andláts, áverkaskor og niðurstaða úr krufningu, viðeigandi ICD kóðar og hlutfall krufninga. Í þeim tilfellum sem upplýsingar var ekki að finna í dánarmeinaskrá var notast við sjúkraskrárkerfi Landspítalans og krufningarskýrslur.
Niðurstöður: Á þessu 5 ára tímabili létust 513 einstaklingar áverkadauða sem uppfylltu skilyrði rannsóknarinnar; þ.e. létust innan 90 daga frá áverka og voru annaðhvort fluttir á sjúkrahús eða krufnir. Meðalaldur þeirra var 53 ára og marktækt fleiri voru karlkyns (68%). 45% einstaklinga létust af slysförum (64% karlar), 33% af völdum sjálfsvíga (79% karlar), 1,3% af völdum manndrápa (86% karlar) en í 20% tilvika var óljóst hvernig andlát bar að (56% karlar). Algengustu orsakir áverkadauða af slysförum voru umferðarslys og föll. Í dreifbýli, eða þar sem þéttni byggðar var 76,9 einstaklingar/km2 eða færri og lengra en 30 km voru frá Landspítalanum, létust 23% einstaklinganna. Marktæk jákvæð fylgni var milli hærra áverkaskors (ISS) og lengri vegalengdar frá Landspítalanum við áverka (Fylgnistuðull 0.231).
Ályktanir: Niðurstöður sýna að karlmenn eru í meirihluta þeirra er látast vegna slysa, sjálfsvíga og manndrápa. Það er fylgni milli hærra áverkaskors og lengri vegalengdar frá sjúkrahúsi. Til stendur að auka tímabil rannsóknarinnar úr 5 í 10 ár og bæta við þeim er hljóta alvarlega áverka og lifa af.
3. NotkunOttawa gátlistans við mat á ökklaáverkum á bráðamóttöku Landspítala
Sólveig
Wium1, Bryndís Guðjónsdóttir1, Guðbjörg
Pálsdóttir1,2, Guðrún Lísbet Nielsdóttir1,
Hilmar Kjartansson1, Pétur Hannesson4, Brynjólfur
Mogensen1,2,3, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir2,3
1Bráðamóttöku Landspítala, 2Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum, 3læknadeild HÍ, 4röntgendeild Landspítala, 5hjúkrunarfræðideild HÍ
Bakgrunnur: Það er hægt að auka skilvirkni í þjónustu einstaklinga með áverka á ökkla og fæti án þess að skerða gæði eða öryggi. Árið 2015 leituðu 3148 manns á bráðamóttöku Landspítala vegna ökklaáverka. Bara myndgreiningakostnaðurinn var um 14 milljónir. Með því að meta ökklaáverka samkvæmt Ottawa ökkla gátlistanum geta hjúkrunarfræðingar eða læknar samkvæmt umfangsmiklum erlendum rannsóknum dregið úr myndgreiningarannsóknum, flýtt fyrir afgreiðslu án áhættu fyrir sjúklinginn.
Markmið: Að kanna öryggi í framkvæmd mats á ökklaáverkum samkvæmt Ottawa-gátlistanum með samanburði við hefðbundna þjónustu meðal einstaklinga sem komu til meðferðar á bráðamóttöku Landspítala með þessa áverka á árinu 2016.
Aðferðir: Gerð var framsæ samanburðarrannsókn á úrtaki 300 sjúklinga 12 ára og eldri. Íhlutun rannsóknarinnar var mat hjúkrunarfræðinga samkvæmt Ottawa gátlista á ökkla- og/eða fótaáverkum. Samræmi við niðurstöður greiningar lækna og röntgengreiningar var reiknað. Einnig var skoðuð kyn- og aldursdreifing áverka.
Niðurstöður: Gögn voru greind frá 288 einstaklingum, konur voru fleiri (53,5%) og eldri að meðaltali, 32 ára miðað við 26 ára (p<0,05). Samkvæmt Ottawa voru 229 (80%) grunaðir um brot, 273 (94%) fóru í röntgenmyndatöku, 52 þeirra reyndust brotnir samkvæmt röntgenmynd. Ekki reyndist munur á hlutfalli kvenna og karla sem voru með brot. Tölfræðileg næmni mats með Ottawa fyrir niðurstöðu röntgenmyndatöku var 90,4% (vikmörk 80,0-96,8%) og sértækni 17,3% (vikmörk 12,5-22,9%), PPV 20,5% (18,8-22,3%) og NPV 88,4% (75,9-94,8%).
Ályktun:Rannsóknin sýnir að öryggi sjúklinga sem leita bráðamóttöku Landspítala með ökklaáverka er ekki ógnað ef niðurstöðum Ottawa ökklagátlistans er fylgt við mat á áverka. Þessar niðurstöður er í samræmi við alþjóðlegar rannsóknir. Notkun gátlistans gæti enn fremur aukið skilvirkni og dregið úr kostnaði við mat á ökklaáverkum.
4. Komur kvenna á Bráðamóttöku Landspítala vegna heimilisofbeldis
Drífa Jónasdóttir 1,2, Sigrún Helga Lund 4, Brynjólfur Mogensen1,2,3
1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 Rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 3 Bráðamóttöku Landspítala, 4 Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands
drj8@hi.is
Bakgrunnur: Það er talið að um þriðjungur kvenna í heiminum búi við heimilisofbeldi. Samkvæmt rannsókn frá 2010 var hlutfallið á Íslandi áætlað 22%. Niðurstöður rannsóknar frá 1997 sýndu að af konum sem búa við heimilisofbeldi leituðu 17% á Bráðamóttöku Landspítala og önnur íslensk rannsókn frá 2007 leiddi í ljós að 33% kvenna sem leituðu á Bráðamóttökuna höfðu verið beittar heimilisofbeldi. Líkamlegir áverkar voru oftast minniháttar, staðsettir á höfði og á efri hluta líkamans.
Markmið: Að rannsaka umfang og eðli heimilisofbeldis í garð kvenna sem komu á Bráðamóttöku eftir ofbeldi karla.
Aðferð: Miðað var við að konan hafi verið 18 ára eða eldri þegar heimilisofbeldið átti sér stað og gerandi núverandi eða fyrrverandi sambýlismaður/unnusti/eiginmaður eða barnsfaðir þolanda. Gögn um komur vegna ofbeldis á Bráðamóttökuna á tímabilinu 2005-2014 voru sótt í gegnum Nomesco skráningarkerfið um ytri orsakir áverka. Teknar voru saman upplýsingar um fjölda koma, greiningar, slysstað og aldur og tengsl gerenda og þolenda.
Niðurstöður: Alls voru 12.650 komur karla og kvenna 18 ára og eldri á Bráðamóttöku vegna ofbeldis á tímabilinu, þar af voru konur 3.655 (29%). Komur kvenna vegna heimilisofbeldis voru 1.284. Meðalaldur kvenna sem komu vegna annars konar ofbeldis en heimilisofbeldis var 31,5 ár og 2% voru lagðar inn. Meðalaldur kvenna sem komu vegna heimilisofbeldis var 34 ár (á bilinu 18-74 ára). Hlutfall innlagna var 2,7%. Af konum sem komu vegna heimilisofbeldis höfðu 14% komið a.m.k. einu sinni áður á Bráðamóttöku af sömu ástæðu. Í 75% tilvika átti heimilisofbeldið sér stað á heimili þolanda eða geranda. Áverkar voru oftast staðsettir á höfði, á efri útlimum, hálsi, andliti og á brjóstkassa.
Ályktanir: Heimilisofbeldi var 10% af öllu ofbeldi á Bráðamóttöku og 35% af öllu ofbeldi gegn konum. Alls höfðu 14% kvenna leitað ítrekað á Bráðamóttöku vegna heimilisofbeldis, sem er í samræmi við erlendar rannsóknir. Áverkarnir voru oftast á höfði og efri hluta líkamans. Konur sem komu á bráðmóttöku vegna heimilisofbeldis voru oftast lítið líkamlega slasaðar.
5. Algengi óskilgreindra brjóstverkja á hjartagátt og bráðamóttöku Landspítala: Tengsl við áframhaldandi verkjaupplifun, andlega líðan og ánægju með veitta meðferð
Erla Svansdóttir1, Sesselja Hreggviðsdóttir2, Elísabet Benedikz1, Björg Sigurðardóttir3, Karl Andersen3, Hróbjartur Darri Karlsson4
1Gæða- og sýkingarvarnadeild Landspítala, 2Háskóli Íslands, 3Hjartagátt-Landspítala, 4Dunedin sjúkrahús, Dunedin, Nýja Sjálandi
Bakgrunnur: Óskilgreindir brjóstverkir eru endurteknir verkir fyrir brjósti sem ekki eru vegna kransæðasjúkdóma. Sjúklingar með óskilgreinda brjóstverki skapa talsvert álag og kostnað á hjartabráðamóttökum, en 50-75% innlagna eru vegna þeirra. Þeir fá hins vegar sjaldan viðeigandi meðferð og sitja oft uppi með áframhaldandi verki, lyfjanotkun og skert lífsgæði.
Markmið: Að skoða algengi óskilgreinda brjóstverkja meðal sjúklinga sem leituðu til bráðaþjónustu Landspítala, og tengsl þeirra við áframhaldandi verkjaupplifun, lyfjanotkun, andlega líðan og veitta meðferð.
Aðferð: Þátttakendur voru 390 sjúklingar (18-65 ára) sem leituðu á hjartagátt (236) eða bráðamóttöku (155) vegna brjóstverkja frá október 2015-maí 2016. Upplýsingar um einstaklinga sem uppfylltu inntökuskilyrði voru sóttar í sjúkraskrá og þeim boðin þátttaka símleiðis 1-8 mánuðum eftir útskrift (meðaltal 156 dögum). Þátttakendur svöruðu stöðluðum spurningalistum um líkamlega byrði einkenna, kvíða, þunglyndi, streitu og lífsgæði, auk spurninga um áframhaldandi brjóstverki og veitta meðferð.
Niðurstöður: Alls 72% sjúklinga voru með óskilgreinda brjóstverki (282) og 24% sjúklingar (92) með hjartasjúkdóm, en 4% hlutu aðrar greiningar. Meðalaldur sjúklinga með óskilgreinda brjóstverki (49 ár) var lægri en hjartasjúklinga (58 ár, p<0,001) og hlutfall kvenna meðal þeirra var hærra (44% miðað við 23% hjartasjúklinga, p<0,001). Sjúklingar með óskilgreinda brjóstverki höfðu svipaða byrði líkamlegra einkenna, kvíða, þunglyndi, og upplifaðri streitu samanborið við hjartasjúklinga. Alls 44% sjúklinga með óskilgreinda brjóstverki höfðu áður leitað til hjartabráðaþjónustu vegna brjóstverka og 12-16% tóku inn lyf vegna brjóstverkja. Meirihluti þátttakenda (60% hjartasjúklinga og sjúklinga með óskilgreinda brjóstverki) fundu fyrir brjóstverkjum eftir útskrift. Upplifun á áframhaldandi brjóstverkjum var tengd við meiri kvíða (β=0.18, p<0.001) og þunglyndi (β=0.18, p<0.003) meðal sjúklinga með óskilgreinda brjóstverki (óháð aldri, kyni, og tímalengd frá útskrift), en ekki meðal hjartasjúklinga. Þrjátíu prósent sjúklinga með óskilgreinda brjóstverki fengu ekki skýrar leiðbeiningar um viðbrögð við áframhaldandi verkjum (samanborið við 19% hjartasjúklinga, p<0.05), og einungis 40% þeirra fengu upplýsingar um aðrar mögulegar orsakir brjóstverkja.
Ályktun: Óskilgreindir brjóstverkir eru algengir meðal sjúklinga á bráðadeildum Landspítala. Meirihluti þessara sjúklinga höfðu áframhaldandi brjóstverki, sem aftur voru tengdir við andlega vanlíðan, og þriðjungur þeirra upplifði upplýsingaleysi varðandi hvernig bregðast skyldi við frekari brjóstverkjum eða hvað gæti mögulega orsakað brjóstverkina. Með bættri upplýsingagjöf og þróun þverfaglegrar meðferðar mætti veita sjúklingum með óskilgreinda brjóstverki mikilvægan stuðning.
6. Áfallahjálp – tískufyrirbæri eða nauðsynlegt forvarnarstarf?
Rudolf Adolfsson
Flæðisviði Landspítala
Áfallahjálp hefur verið hluti af hjúkrunarþjónustu bráðamóttöku Landspítala frá því1995. Í gegnum árin hefur áfallahjálp stundum fengið þann stimpil að vera “tilfinningakjaftæði og kerlingavæll “. Þess vegna er mikilvægt að varpa ljósi á hvað áfallahjálp er og hvað hún er ekki.
Á tímum stöðugrar endurskipulagningar og forgangsröðunar í heilbrigðisþjónustu, ónógrar mönnunar, umræðu um öryggi sjúklinga, gæðavísa og árangur er mikilvægt að huga að mannlegum þáttum í samskiptum hjúkrunarfræðinga við sjúklinga og aðstandendur. Áfallahjálp þar á meðal. Mikilvægt er að greina hvað felst í góðri áfallahjálp og hvort meðferðasamband hjúkrunarfræðinga og sjúklinga sé á undanhaldi í hröðu tækniumhverfi sjúkrahúsa.
Einkunnarorð bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi er “ Við fyrir þig “. Hvað þýðir það og hvernig birtist það sjúklingum? Hvernig getum við komið í veg fyrir að sálfélagslegir þættir gleymist á tímum vaxandi álags, hraða og tækni í starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku?
7. Slysadauði barna á Íslandi á árunum 1980-2010
Steinunn Anna Eiríksdóttir1, Þórdís K. Þorsteinsdóttir2,3, Arna Hauksdóttir1, Brynjólfur Mogensen3,4
1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, 2Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 3Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum, 4læknadeild Háskóla Íslands
Bakgrunnur: Áverkar hafa verið ein aðaldánarorsök barna í heiminum en dregið hefur úr algengi. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að tíðnin sé algengari meðal drengja, höfuðáverkar algengasti áverkinn og tíðni sé mismunandi eftir aldri, lýðfræðilegri stöðu og landfræðilegri staðsetningu slyss.
Markmið Að rannsaka faraldsfræði slysadauða íslenskra barna, á aldrinum 0-17 ára, frá 1980 til 2010.
Aðferðir: Rannsóknin var lýsandi og lýðgrunduð og byggði á gögnum dánarmeinaskrár og Hagstofu Íslands. Greind voru tilvik yfir tímabilið, áverkaflokkur, aldur, kyn, slysstaður (dreifbýli/þéttbýli) auk fjölda fullorðinna og systkina á heimilinu. Algengi, þróun yfir tíma og hlutföll eftir bakgrunnsþáttum voru reiknuð með Poisson aðhvarfsgreiningu, kí-kvaðrat prófi og líkindahlutfalls prófi eftir því sem við átti.
Niðurstöður: Á tímabilinu voru 304 börn skráð hafa látist vegna áverka samkvæmt sjúkdómsflokkunarkerfi. Fjórir voru útilokaðir frá rannsókn þar sem áverki reyndist ekki raunverulegt dánarmein, 25 vegna sjálfskaða, 9 þar sem óljóst var hvort um slys eða sjálfskaða var að ræða og 3 þar sem um ofbeldisverk var að ræða. Þau 263 börn sem sannarlega létust á tímabilinu af völdum slysaáverka voru skoðuð frekar. Drengir voru 69,2%. Algengustu dánarorsakir voru höfuðáverkar (41,1%), drukknanir (17,5%), fjöláverkar (14,1%), áverkar á brjóstholi (7,6%) og köfnun (6,8%). Flestir voru 15-17 ára (41,1%). Fleiri dauðsföll áttu sér stað í dreifbýli (58,5%), og meirihluti bjó með tveimur fullorðnum (77,2%) og tveimur eða færri systkinum (89,4%). Það dró úr nýgengi yfir rannsóknartímabilið þar sem hlutfall fyrir drengi fyrir hverja 100.000 íbúa á ári lækkaði úr 1,9 á fyrsta þriðjungi rannsóknartímabilsins í 0,5 á seinasta þriðjungi (p<0,05). Fækkun á nýgengi var ekki tölfræðilega marktæk fyrir stúlkur. Frá 2001 til 2010 voru drengir 55% og stúlkur 45%.
Ályktanir: Áverkadauðsföllum meðal barna á Íslandi fækkaði yfir rannsóknartímabilið, sérstaklega á meðal drengja. Þessar niðurstöður eru góðs viti en stefna mætti enn frekar að því að draga úr áverkadauðsföllum barna með sértækum forvörnum og bráðaþjónustu.
8. Af því að ég vil gera rétt! Viðhorf hjúkrunarfræðinga á Bráðamóttökunni í Fossvogi til starfsþróunar sinnar
Hildur Björk Sigurðardóttir¹, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson¹, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir¹˒²
¹Háskóla Íslands, ²Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum
Bakgrunnur: Rannsóknarefni þessa verkefnis var að kanna viðhorf hjúkrunarfræðinga á Bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi til starfsþróunar sinnar. Eitt af mikilvægum hlutverkum hjúkrunarfræðinga er að þróa sig í starfi og er það talið vera eitt af undirstöðuatriðum til þess að veita örugga og árangursríka heilbrigðisþjónustu. Það er sífellt verið að gera auknar kröfur um gæði og öryggi í þjónustu við sjúklinga og því mikilvægt að starfsþróun hjúkrunarfræðinga sé stöðug yfir allan starfsferilinn. Hæfniviðmið (e. competence standards) eru talin setja ákveðinn ramma utan um þá hæfni sem krafist er hverju sinni og auka líkur á markvissri og stöðugri þróun hjúkrunarfræðinga í starfi. Mikilvægt er að mat á hæfni fari fram til þess að meta árangur þjálfunar, mæla frammistöðu og veita endurgjöf. Markvisst mat á starfsþróun stuðlar að auknu öryggi og starfsánægju hjúkrunarfræðinga.
Markmið: Að skoða viðhorf hjúkrunarfræðinganna til þróunar sinnar í starfi og álit þeirra á notkun hæfniviðmiða og mats á Bráðamóttökunni þar sem stefnt er að því að innleiða slík viðmið.
Aðferðir: Rannsóknin
byggðist á eigindlegri aðferðarfræði og voru tekin hálfopin djúpviðtöl (e.
semistructured interviews) í gegnum samskiptaforritið „Skype“. Farið var yfir
hæfniviðmið sem á að innleiða á Bráðamóttökunni með viðmælendum og staðlaðar
spurningar hafðar til stuðnings. Fyrirbærafræði var notuð við greiningu og
úrvinnslu gagna.
Niðurstöður: Þátttakendur rannsóknarinnar voru sjö hjúkrunarfræðingar sem störfuðu á Bráðamóttökunni í Fossvogi. Aldur þeirra var á bilinu 27 til 41 árs og flokkuðust þeir í byrjendur í starfi og reynda hjúkrunarfræðinga. Rannsóknin leiddi í ljós að öllum nema einum hjúkrunarfræðingi fannst starfsþróun sín ganga vel og voru allir mjög jákvæðir gagnvart því að þróast í starfi og bæta sig. Reyndir hjúkrunarfræðingar settu sér frekar markviss markmið um þróun í starfi heldur en byrjendur. Þeir voru sammála um að meðal annars kennsla og þjálfun á Bráðamóttökunni hafði jákvæð áhrif á þróun þeirra í starfi sem og að leita stuðnings og ráðgjafar hjá samstarfsfólki sínu. Álag, mannekla og tímaskortur höfðu neikvæð áhrif á starfsþróun þeirra allra og hægði á markvissri þróun í starfi. Óformlegur lærdómur gagnaðist þeim best en munur var á notkun lærdómsaðferða milli byrjenda og reyndra hjúkrunarfræðinga.
Ályktun: Viðmælendur voru
jákvæðir fyrir innleiðingu hæfniviðmiða og mats og fannst margvíslegur
ávinningur geta skapast við notkun þess. Þar á meðal aukið utanumhald um
starfsþróun þeirra, aukin endurgjöf og stuðningur og síðast en ekki síst
árangursrík starfsþróun sem myndi leiða af sér aukið öryggi sjúklinga sem og
bætt öryggi og starfsánægja hjúkrunarfræðinganna.
9. Sjálfsmat á hæfni hjúkrunarfræðinga sem sjá um bráðatilvik á landsbyggðinni:
Lýsandi þversniðsrannsókn
Íris Kristjánsdóttir1, Herdís Sveinsdóttir2
1Slysa- og bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, 2Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Skurðlækningasvið Landspítala
Bakgrunnur: Bráðamóttökum landsbyggðarinnar er ætlað að veita skammtíma bráðaþjónustu fyrir sjúklinga sem hafa slasast eða veikst alvarlega og þurfa á hátæknimeðferð að halda sem ekki er hægt að veita á minni stöðum. Oft getur liðið langur tími á milli þess að starfsfólk bráðamóttaka á landsbyggðinni fái sjúklinga í lífsógnandi ástandi sem gerir það að verkum að nauðsynlegt er að þróa og viðhalda hæfni þeirra. Tilgangur og markmið rannsóknarinnar er að kanna hvernig hjúkrunarfræðingar landsbyggðarinnar, sem taka á móti og sinna bráðveikum og slösuðum sjúklingum, meta hæfni sína.
Aðferðir: Rannsóknin er lýsandi þversniðsrannsókn sem gerð var vorið 2016. Notast var við íslenska þýðingu finnska mælitækisins Nurse Competence Scale (IS-NCS) sem mælir mat á eigin hæfni. Það inniheldur 73 spurningar sem er skipt niður í sjö hæfnisflokka. Spurningalisti var sendur til 87 hjúkrunarfræðinga sem vinna á bráðamóttökum og öðrum deildum landsbyggðarinnar og taka á móti og sinna að minnsta kosti 10 bráðveikum eða slösuðum sjúklingum á mánuði. Svörun var 60%. Gögnin voru greind með lýsandi tölfræði.
Niðurstöður: Hjúkrunarfræðingar með minni en 5 ára starfsaldur mátu hæfni sína lægsta í öllum hæfniflokkunum. Hjúkrunarfræðingar með yfir 20 ára starfsaldur í hjúkrun mátu hæfni sína hæsta í fimm flokkum. Marktækur munur var á heildarhæfni hjúkrunarfræðinga með yfir 10 ára starfsaldur í hjúkrun miðað við hjúkrunarfræðinga með styttri starfsaldur. Ekki var marktækur munur eftir starfsaldri á núverandi deild. Hjúkrunarfræðingar sem höfðu lokið viðbótarnámi í hjúkrun mátu sig marktækt hærra í heildarhæfni en hjúkrunarfræðingar með grunn háskólapróf. Hjúkrunarfræðingar sem höfðu lokið Basic Trauma Life Support og/eða European Paediatric Life Support námskeiðum, mátu sig marktækt hærra í heildarhæfni miðað við hjúkrunarfræðinga sem ekki höfðu lokið þeim námskeiðum.
Ályktun: Heildarhæfni hjúkrunarfræðinga hækkar með hækkandi starfsaldri og aukinni menntun. Því er ekki síður mikilvægt að halda í starfandi hjúkrunarfræðinga en að ráða inn nýja. Þegar hjúkrunarfræðingar á landsbyggðinni fá ekki reglulega reynslu miðað við hjúkrunarfræðinga á bráðamóttökum í borgum, þá skiptir regluleg þjálfun þess meira máli. Enda sýnir þessi rannsókn að reynslumeiri hjúkrunarfræðingar með hærra menntunarstig telja sig hafa meiri hæfni.
10. Komur 67 ára og eldri með krabbameinsgreiningu á Bráðamóttöku 2013-2015
Elísabet Brynjarsdóttir1, Hrefna Rún Magnúsdóttir1, Ingibjörg Sigurþórsdóttir2, Kristín Sigurðardóttir3 og Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,2
1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum, 3almenn göngudeild Landspítala
Bakgrunnur: Aldraðir einstaklingar með krabbamein sem glíma við veikindi eru samkvæmt erlendum rannsóknum líklegri til að sækja þjónustu á bráðamóttökur. Umhverfi bráðamóttökunnar getur verið óæskilegt fyrir þessa sjúklinga. Aldraðir einstaklingar með krabbamein virðast samkvæmt rannsóknum frá Kanada eiga erfitt með að komast í samband við heilbrigðisstarfsfólk þegar þörf er á. Það er þekkt að sjúklingar með krabbamein hafi viss bjargráð en lítið er vitað um samhengi, ástæður og þætti sem tengdir eru komum aldraðra með krabbamein á bráðamóttöku.
Markmið: Að kanna ástæður komu krabbameinssjúklinga 67 ára og eldri á bráðamóttöku Landspítala á árunum 2013-15 og hver afdrif þeirra urðu.
Aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og leitað var í sjúkraskrárkerfi Landspítala að komum allra 67 ára og eldri sem höfðu C-greiningu samkvæmt ICD-10 á bráðamóttöku. Skráð var: fjöldi koma, forgangsflokkun, komuástæða (ICPC), lengd bráðamóttökudvalar, innritunartími, aldur, kyn, hjúskaparstaða, póstnúmer, kóði sjúkdómsgreiningar (ICD-10), heiti sjúkdóms.
Niðurstöður: Á tímabilinu komu 627 einstaklingar 67 ára og eldri á bráðamóttöku með krabbameinsgreiningu. Komur þessara einstaklinga voru í heild 889. Af þessum 889 komum voru 643 (72.3%) einstaklingar lagðir inn á deild og 211 útskrifaðir heim. Karlar komu oftar en konur, þeir eiga 506 komur á þremur árum á móti 383 komum hjá konum. Árið 2013 var dvalartími á bráðamóttöku 8,7 klukkustundir, árið 2014, 9,6 klukkustundir og árið 2015 12,3 klukkustundir. Komuástæður voru einkenni frá öndunarfærum, nýrnum- og þvagfærum og meltingafærum.
Ályktun: Fleiri karlar en konur með krabbameinsgreiningu 67 ára og eldri leituðu á bráðamóttökuna 2013-2015. Flestir einstaklingar sem leituðu á bráðamóttökuna þörfnuðust innlagnar á deild. Dvalartími á bráðamóttöku jókst með árunum og er því hægt að draga þá ályktun að bið eftir innlögn á deild hafi lengst.
11. Hvernig nýta þekkingarstarfsmenn tímann í vinnunni?
Guðmundur Valur Oddsson1, Helga María Jónsdóttir1
1Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands
Bakgrunnur: Framleiðni þekkingarstarfsmanna (e. knowledge worker) er eitthvað sem væntanlega er hægt að stórbæta en þekkingarstarf er yfirleitt skilgreint sem menntunarþungt og með töluverða sköpunarnálgun. Áður en lagt er í slíka umbótavinnu þarf að skilja betur hvernig þekkingarstarfsmenn nota tímann. Með því að hugsa um vinnu sem safn af verkum þar sem hvert verk er metið á tveimur ásum, menntunarásnum (hve mikla menntun þarf í verkið) og endurtekningarásnum (er verkið endurtekningarhæft eða þarf ákveðna sköpunarnálgun (e. creativity) við það) er hægt að kortleggja hve þekkingarþungt starfið er.
Markmið: Markmið þessarar
rannsóknar var að þróa og prófa leiðir til að mæla þekkingarþunga starfs og
skiptingu þess.
Aðferðir: Rannsóknin er tilfellisrannsókn þar sem fjórum þekkingarstarfsmönnum var fylgt eftir í heilan starfsdag og öll verk sem þeir unnu skráð og tímaskráð. Upp úr skráningu voru unnir verklistar, skiptingar, hlé og þrjár mælistikur (tvær sem mæla þekkingartímanotkun og ein vinnutímanotkun). Önnur þekkingarmælistikan var þróuð af höfundum.
Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að meðalvinnutímanotkun var yfir 90% á meðan þekkingartímanotkun var á bilinu 45% til 72% af tímanum. Nokkur munur var á milli starfsmanna en allir notuðu yfir 20% af tímanum í annað en þekkingarvinnu. Sérfræðilæknir var með heildarvinnutímanotkun upp á 96%, vann 106 verk og hafði þekkingarvinnutíma upp á 64%. Verkefnastjóri var með heildarvinnutímanotkun upp á 93%, vann 90 verk og hafði þekkingarvinnutíma upp á 63%. Hjúkrunarfræðingur var með heildarvinnutímanotkun upp á 86%, vann 380 verk og hafði þekkingarvinnutíma upp á 59%. Vaktstjóri var með heildarvinnutímanotkun upp á 92%, vann 521 verk og hafði þekkingarvinnutíma upp á 45%.
Ályktun: Heildarvinnutímanotkun starfsmanna er há, þ.e. yfir 90% af viðverutíma og bendir til mikils álags! Þekkingartímanotkun var eins og við var að búast mun lægri en heildarvinnutímanotkun sem bendir til þess að nokkuð af vinnu þekkingarstarfsmanna sé ekki þekkingarvinna. Fjöldi verka sem unnin er á einum degi er mjög mikill hjá sumum og þar af leiðandi mikið um skiptingar. Mæla þarf fleiri starfsmenn til að kanna hvort niðurstöðu séu lýsandi. Samhengi heildarvinnutímanotkunar, fjölda verka og álags/streitu væri einnig vert að kanna.
12. Ráðgefandi hjúkrunarfræðingur aldraðra á bráðamóttöku
Ingibjörg Sigurþórsdóttir¹, Brynhildur Ingimundardóttir¹, Edda Ýr Þórsdóttir¹, Gunnhildur Peiser², Hlíf Guðmundsdóttir², Sigurlaug Þorsteinsdóttir¹
¹Bráðamóttöku Landspítala, ²flæðisviði
Bakgrunnur: Með auknu langlífi fjölgar öldruðum sem þurfa á þjónustu bráðamóttöku að halda, það er reyndin hér á landi eins og meðal annarra vestrænna þjóða. Komið hefur fram að meirihluti aldraðra kýs að búa sem lengst í sjálfstæðri búsetu. Aldraðir eru oft langveikir og hrumir og þurfa aukna aðstoð til að geta sinnt athöfnum daglegs lífs. Minniháttar veikindi eða óhöpp raska auðveldlega viðkvæmu ástandi þeirra. Leita þarf nýrra leiða í bráðaþjónustu við mat og umönnun aldraðra sem sækir þjónustu á bráðadeild. Ein viðleitni í þá átt er ráðgefandi hjúkrunarfræðingur aldraðra á Bráðamóttöku Landspítala. Líkan að slíkri þjónustu kemur frá Kanada og byggir á þeirri hugmyndafræði að heima sé best og að veita þjónustu á ódýrara stigum heilbrigðiskerfisins. Markmið þjónustunnar er að tryggja öruggar útskriftir af bráðamóttökunni, koma í veg fyrir ótímabærar endurkomur og innlagnir og að síðustu að gera öldruðum kleift að dvelja heima.
Markmið: Að skoða hverjir fengu þjónustu ráðgefandi hjúkrunarfræðings aldraðra á bráðamóttöku Landspítala frá nóvember 2016 út janúar 2017, komuástæðu, búsetu og afdrif.
Aðferðir: Gögn voru sótt í Vöruhús gagna og í rafræna sjúkraskrá og greind með lýsandi tölfræði.
Niðurstöður: Fyrstu þrjá mánuði verkefnisins sáu ráðgefandi hjúkrunarfræðingar 199 sjúklinga eða að jafnaði þrjá á dag, 17 sjúklingar fóru í kjölfarið í nánara mat á Greiningarmóttöku á Landakoti, 82% útskrifuðust heim og 18% lögðust inn. Eftirfylgd með símtölum voru 126. Flestir skjólstæðingar bjuggu í póstnúmeri 108. Meirihlutinn voru konur eða 61%. Konur voru að meðaltali eldri, voru fleiri í aldursflokknum 85 til 89 ára en karlar voru fleiri í aldursflokknum 80 til 84 ára. Hlutfallslega fleiri konur (74%) bjuggu einar en karlar (54%). Algengustu komuástæður voru slappleiki, byltur, verkir í stoðkerfi og kviðverkir. Algengustu sjúkdómsgreiningar við komu á bráðamóttöku voru einkennagreiningar og þar voru lasleiki og þreyta algengastar.
Ályktanir: Sá hópur sem ráðgefandi hjúkrunarfræðingur aldraðra á bráðamótöku sinnir er háaldraður og hrumur. Mikilvægt er að huga að þjónustuþörfum hans strax á bráðamóttöku og vanda til útskrifta í því augnamiði að fyrirbyggja endurkomur og óþarfa innlagnir.
13. Greiningarmóttaka fyrir aldraða – nýtt bráðaúrræði
Anna Björg Jónsdóttir1, Ingibjörg Hjaltadóttir1,2, Karitas Ólafsdóttir1, Sigrún B. Bergmundsdóttir1
1Öldrunarlækningar Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands
Bakgrunnur: Alls staðar í heiminum er fólk að eldast og hlutfall aldraða eykst. Á Íslandi gera spár ráð fyrir að 67 ára og eldri verði um 15% þjóðarinnar á næstu tíu árum. Þeim sem eru 85 ára og eldri fjölgar hraðast. Þetta hefur haft í för með sér að bæði einstaklingum með langvinna sjúkdóma hefur fjölgað og komum aldraðra, bráðveikra og hrumra einstaklinga með langvinna sjúkdóma hefur fjölgað á bráðamóttökum. Greiningarmóttaka aldraðra á Landspítala var sett af stað sem tilraunaverkefni vorið 2016 til að reyna að koma til móts við þetta. Hugmyndin kom eftir vinnustofu sem haldin var með starfsfólki Landspítala.
Markmið: Að fækka komum hrumra, 75 ára og eldri með langvinna sjúkdóma á bráðamóttöku Landspítala.
Aðferð: Einstaklingum var vísað á greiningarmóttöku frá bráðamóttöku að uppfylltum ákveðnum skilyrðum: hrumir aldraðir, með heilsufarsvanda sem féll undir lyflækningar, fjölvanda sem þarfnaðist uppvinnslu, endurtekin föll, stoðkerfisvanda og verki eða mikla ógreinda verki. Þessir einstaklingar komu á greiningarmóttöku innan viku eftir að þeir voru á bráðamóttöku.
Niðurstöður: Frá 18. febrúar 2016
til 31. desember 2016 komu 40 einstaklingur á greiningarmóttökuna. Af þeim voru
28 konur (70%) og 12 karlar (30%). Meðalaldur var 84,3 ár (miðgildi 85,5). 30
dögum fyrir komu á greiningarmóttöku áttu þessir 40 einstaklingar 51 komu á
BMT, þar af voru flestir (26) sem áttu eina komu. 30 dögum eftir komu á
greiningarmóttöku voru 7 komur úr þessum hópi á BMT, þar af er einn
einstaklingur sem kom þrisvar sinnum af þessum sjö.
Ályktanir: Út frá þessu er það mat höfunda að markmiðinu að fækka komum á bráðamóttöku, hafi verið náð. Þetta eru ekki margir einstaklingar vegna þess að það var bara hægt að bjóða upp á þessa þjónustu einu sinni í viku og yfir sumartímann var lokað. Þeim sem komu var beint í meira viðeigandi farveg og þeirra heilsufarsvandi greindur og viðeigandi úrræði notuð. Það er mat okkar að með meiri fjármunum sé hægt að nýta þetta úrræði enn betur og jafnvel víkka þjónustuna út.
14. Hagkvæmni og réttmæti Komuskimunar aldraðra á bráðamóttöku
Elfa Þöll Grétarsdottir1,2,, Gunnar Tómasson2, Anna Björg Jónsdóttir1,, Ester Eir Guðmundsdóttir1,, Ingibjörg Hjaltadóttir1,2,, Ingibjörg Sigurþórsdóttir1,, Lovísa A. Jónsdóttir1, Íris Björk Jakobsdóttir,, Pálmi V. Jónsson1,2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,2
1Landspítali, 2Háskóli Íslands
Bakgrunnur: InterRAI skimun á bráðamóttöku (Komuskimun aldraðra) er nýtt skimunartæki sem tekur til mats á færni og félagslegum þáttum til að greina betur þá aldraða sem gætu verið í áhættu á slæmum afdrifum eftir komur á bráðamóttökur. Komuskimun aldraðra er á rafrænu formi, hannað með það fyrir augum að vera fljótlegt og hentugt til notkunar í erilsömu umhverfi. Mest notuðu skimtækin fram til þessa eru Triage Risk Screening Tool (TRST) og Identification of Seniors At Risk (ISAR) Þau hafa bæði verið þýdd á íslensku og TRST hefur verið notað á bráðamóttöku frá 2013. Bæði skimtækin eru hönnuð til að spá fyrir um afdrif og endurkomur eldri einstaklinga sem leita á bráðamóttökur. Hingað til hefur hagkvæmni og réttmæti Komuskimun aldraðra verið lítið prófuð og þá sérstaklega í samanburði við þessi eldri skimunartæki .
Markmið: Að meta hagkvæmni notkunar Komuskimun aldraðra á bráðamóttöku Landspítala og innihaldsréttmæti þess miðað við eldri skimunartæki.
Aðferðir: Gagna var aflað í þægindaúrtaki 67 ára og eldri sjúklinga sem leituðu á bráðamóttöku Landspítala í febrúar til mars 2016. Komuskimun aldraðra, TRST og ISAR voru lagðir fyrir úrtakið munnlega og niðurstöður skráðar. Fylgnistuðlar milli útkomu Komuskimunar aldraðra og hinna tveggja skimunartækjanna voru reiknaðir.
Niðurstöður: Af þeim 237 sjúklingum sem leitað var til samþykktu 200 fulla þátttöku. Meðalaldur var 78,5 ár (bil 67-97 ár, SF 7,4), 44% þátttakenda voru karlkyns. Meirihluti (85%) bjuggu á eigin heimili, 43% bjuggu einir og 53 % fengu aðstoð heim. Meðalstigafjöldi voru 3,19 (SF 1[ÞKÞ2] ,53), 2,22 (SF 1,43) og 2,16 (SF 1,36) úr Komuskimun aldraðra, ISAR og TRST. Fylgni útkomu úr Komuskimun aldraðra við ISAR var 0,57 en 0,40 við TRST.
Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna ásættanlegt réttmæti og styðja þar með notkun Komuskimunar aldraðra á bráðamóttöku Landspítala til að greina eldri einstaklinga sem þurfa sértæk úrræði eftir komu á bráðamóttöku.
15. Endurlífgun aldraðra
Berglind Libungan1, Jonny Lindqvist2, Anneli Strömsöe3, Per Nordberg MD4, Jacob Hollenberg5, Per Albertsson2, Johan Herlitz5
1Landspítala, 2Department of Molecular and Clinical Medicine, Institute of Medicine, Sahlgrenska University Hospital, Gothenburg, Sweden, 3School of Health and Social Sciences, University of Dalarna, Falun, Sweden, 4Center for Resuscitation Science, Karolinska Institutet, Department of Medicine, Solna, Stockholm, Sweden, 5Sahlgrenska University Hospital and Center for Pre-hospital Research, Western Sweden University of Borås, Borås, Sweden
Bakgrunnur: Lítið er vitað um árangur endurlífgunar aldraða utan spítala og hefur verið talið að árangur sé slakur í þessum hópi.
Markmið: Að skoða hóp aldraða (yfir sjötugt) sem fékk
hjartastopp utanspítala og mæla m.a. 30 daga lifun og meta fjölda með
heilaskaða
Aðferðir: Sjúklingar með hjartastopp utan spítala ≥ 70 ára
sem eru með í sænsku Hjartastoppsskránni (Swedish Cardiopulmonary Resuscitation
Register) milli 1990 og 2013 var skipt upp í þrjá hópa (70‒79, 80‒89, and ≥ 90
ára). Ýmsir þættir, til dæmis
töf, meðferð og afdrif voru skoðaðir. Lýsandi tölfræðiaðferðir voru notaðar að
mestu við úrvinnslu gagna.
Niðurstöður: Alls voru 36.605 sjúklingar með í rannsókninni. Þrjátíu daga lifun var: 6.6% hjá sjúklingum 70‒79 ára, 4.0% hjá sjúklingum 80-89 ára, og 2.3% fyrir >90ára. Lifun var betri fyrir sjúklinga með stuðanlegan takt og ef einhver varð vitni að hjartastoppinu Ekki var marktækur munur á þessum 3 aldurshópum hvað varðar heilaskaða.
Ályktanir: Aukinn aldur hefur forspárgildi fyrir dauða eftir hjartastopp utan spítala. Hinsvegar, í hópi aldraðra sem lifa af hjartastopp, hefur aldur ekki forspárgildi fyrir heilaskaða.
16. Nákvæmni skimunarprófs fyrir öndunarfæraveirum og áhrif á dvalartíma á bráðamóttöku
Jón Magnús Kristjánsson1, Gunnhildur Peiser1
1Bráðamóttaka Landspítala
Bakgrunnur: Síðustu ár hefur verið stöðug aukning á komum sjúklinga á bráðamóttökur Landspítala (LSH). Samfara auknum fjölda sjúklinga hefur dvalartími þeirra sem leggjast inn af bráðadeild LSH (G-2) í Fossvogi aukist jafnt og þétt og var 16,5 klst. í september 2016 samanborið við 9,1 klst. sama mánuð 2011. Á hverju ári síðastliðin 4 ár hefur dvalartími þeirra sem leggjast inn af deildinni lengst um 2-4 klst. meðan á inflúensu -faraldri stendur. Hefðbundið kjarnsýrumögnunar greiningarpróf (PCR) fyrir öndunarfæraveirum á nef- eða nefkokssýnum tekur um 4 klst. í keyrslu auk tíma sem tekur að koma sýni á rannsóknastofu í veirufræði í Ármúla. Til að reyna að stytta greiningar- og dvalartíma sjúklinga með flensulík einkenni voru tekin í notkun skimunarpróf fyrir inflúensu A, B og RS-vírus á bráðadeild LSH um miðjan janúar 2017. Niðurstöður slíkrar skimunar liggja fyrir á um 15 mínútum. Samkvæmt framleiðenda er sértækni prófsins um 98% og næmi þess um 85%.
Markmið: Að leggja mat á nákvæmni skimunarprófsins fyrir inflúensu A, B og RS-vírus í notkun á bráðadeild LSH (G-2) og kanna mögulegan mun á tímalengd þar til niðurstaða liggur fyrir.
Aðferðir: Frá 27. janúar til 22. febrúar 2017 voru skráðar jafnóðum niðurstöður allra skimunarprófa fyrir inflúensu A, B og RS-vírus sem gerðar voru á sjúklingum með flensulík einkenni á bráðadeild LSH. Niðurstöður þeirra voru bornar saman við niðurstöður PCR greiningarprófa á nef- eða nefkokssýnum sömu sjúklinga og reiknað jákvætt og neikvætt forspárgildi. Einnig var kannaður tími frá töku sýnis þar til niðurstaða lá fyrir.
Niðurstöður: Á rannsóknartímanum voru gerð 114 greiningarpróf hjá 113 einstaklingum. Í 103 (90,4%) tilvikum voru sýni einnig send í PCR greiningarpróf. 38 (33%) skimunarpróf reyndust jákvæð fyrir inflúensu A, 6 (5,2%) voru jákvæð fyrir RS-vírus og 1 fyrir (0,9%) inflúensu B. Samkvæmt niðurstöðum PCR greiningarprófa voru samtals 14 skimunarpróf falskt neikvæð og 6 falskt jákvæð. Heildardvalartími sjúklinga sem sent var PCR greiningarpróf fyrir var 16 klst. 48 mín., 27 klst. 17 mín fyrir þá sem lögðust inn og 11 klst. 7 mín fyrir þá sem útskrifuðust heim.
Ályktun: Nákvæmni skyndiprófsins var minni en viðmiðunargildi framleiðenda gáfu til kynna. Einkum var hærra hlutfall falsk jákvæðra sýna. Ekki var hægt að sýna fram á styttri dvalartíma fyrir hópinn í heild með notkun prófsins sem líklega má rekja til langs biðtíma á bráðadeild (G-2) vegna skorts á einangrunarrúmum á LSH. Það er því ekki hægt að sjá að viðbót skimunarprófs fyrir öndunarfæraveirum bæti þjónustu fyrir sjúklinga sem leita á bráðamóttöku LSH við núverandi aðstæður.
VEGGSPJÖLD
V1. Flutningur slasaðra með þyrlu Landhelgisgæslu Íslands 2001-2012
Auður Elva Vignisdóttir1,2,4, Sigrún Helga Lund2,3, Viðar Magnússon5, Auðunn Kristinsson4, Brynjólfur Mogensen1,2,5
1Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum, 2Læknadeild Háskóla Íslands, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands, 4Landhelgisgæslunni, 5Bráðamóttöku Landspítala
Bakgrunnur: Landspítali Háskólasjúkrahús (LSH) gegnir veigamiklu hlutverki í heilbrigðisþjónustu Íslendinga þar sem flestir af þeim veikustu og mest slösuðu eru greindir og meðhöndlaðir. Sjúkraþyrla Landhelgisgæslunnar (LHG) er mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu á Íslandi fyrir bráðveika og slasaða á sjó, í dreifbýli, á afskekktari svæðum og hálendinu. Orsök útkalla þyrlunnar og afdrif sjúklinga sem fluttir eru hafa ekki verið skoðuð nema að litlu leyti síðastliðinn áratug.
Markmið: Að rannsaka sjúklingahópinn sem fluttur var með sjúkraþyrlu LHG á Íslandi vegna slysa árin 2001-2015. Að kanna hversu alvarlega slasaðir sjúklingarnir voru og hvaða inngrip voru framkvæmd í þyrlunni.
Aðferðir: Heildarþýði rannsóknarinnar voru allir sjúklingar sem fluttir voru með þyrlu LHG árin 2001-2015 en hér eru gerð nánari skil á slösuðum einstaklingum fluttum á árunum 2001-2012. Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám LSH og annarra heilbrigðisstofnana, auk gagna frá Landhelgisgæslunni. Alvarleiki slysa var metinn með Revised Trauma Score (RTS), Injury Severity Score (ISS), Trauma and Injury Severity Score (TRISS) og National Advisory Committee for Aeronautics score (NACA score).
Niðurstöður: Alls voru 704 sjúklingar fluttir með þyrlu LHG á árunum 2001-2012, þar af 466 slasaðir. Meðalaldur slasaðra sjúklinga var 36,6 ár. Karlar voru 326 (70%) en konur 140 (30%). Flestir sem slösuðust reyndust með mesta áverka á höfði (20%) eða mjaðmargrind og neðri útlim (20%), þar á eftir voru áverkar á hrygg (18%) og brjóstholi (17%). Af sjúkraflugum þyrlunnar voru 20% útkalla í óbyggðum og 22% á sjó. RTS slasaðra var að meðaltali 7,429 ± 1,321 og ISS að meðaltali 10,5 ± 13,8. Lífslíkur slasaðra (TRISS) voru að meðaltali 94,0% en 33 sjúklingar (8%) voru með lífslíkur undir 90%, fyrir utan þá sem reyndust látnir á vettvangi (2%). NACA stigun slasaðra var oftast 3 (50%) og að meðaltali 3,4. Meirihluti sjúklinga fékk inngrip í þyrlunni (85%), þar af var súrefnisgjöf algengust (39%). Endurlífgun var framkvæmd 10 sinnum og barkaþræðing í 21 skipti.
Ályktanir: Stór hluti þeirra sjúklinga sem sjúkraþyrla Landhelgisgæslunnar flytur eru ungir, mikið slasaðir einstaklingar og flestir sjúklinganna þurfa einhvers konar inngrip í flutningi á sérhæft sjúkrahús. Mikilvægt er að rannsaka betur horfur og afdrif sjúklinganna.
V2. Jafnvægisstjórnun og starfsemi skynkerfa hjá einstaklingum sem hlotið hafa úlnliðsbrot við byltu – Samanburðarrannsókn
Bergþóra Baldursdóttir1,2,3, Pálmi V. Jónsson1,2,3, Hannes Petersen2, Brynjólfur Mogensen2,3, Susan L. Whitney4, Ella K. Kristinsdóttir2
1Rannsóknastofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3flæðisviði Landspítala, 4University of Pittsburgh BNA
Bakgrunnur: Óstöðugleiki, byltur og beinbrot eru meðal meginvandamála sem tengjast hækkandi aldri. Úlnliðsbrot geta verið undanfari alvarlegri mjaðmarbrota sem valdið geta skertum lífsgæðum, auknum heilbrigðiskostnaði og dauða hjá öldruðum. Tengsl jafnvægisstjórnunar, starfsemi jafnvægiskerfis innra eyra og skyns í fótum við byltur og úlnliðsbrot eru ekki ljós.
Markmið: Að kanna hvort munur sé á jafnvægisstjórnun, starfsemi jafnvægiskerfis innra eyra og skyns í fótum hjá 50-75 ára einstaklingum sem hlotið hafa úlnliðsbrot við byltu og paraðs samanburðarhóps.
Aðferðir: Samanburðarrannsókn með 98 þátttakendum, 50-75 ára, sem leituðu á bráðamóttöku Landspítala í kjölfar byltu og greindust með úlnliðsbrot. Í samanburðarhópi voru 50 heilbrigðir einstaklingar án sögu um úlnliðsbrot. Pörun var gerð m.t.t. aldurs, kyns og líkamshreyfingar síðastliðna tólf mánuði. Starfsemi jafnvægiskerfis innra eyra var metin með Head-shake prófi (HSP). Þrýstingsskyn undir iljum var metið með Semmes-Weinstein monofilaments (MF), titringsskyn í fótum var metið með Biothesiometer og tónkvísl. Jafnvægisstjórnun var metin með skynúrvinnsluprófi (SOT). Öryggiskvarði jafnvægis (ABC) og svimakvarði (DHI) voru notaðir til að meta eigin upplifun á öryggi og svima í daglegu lífi.
Niðurstöður: Jákvætt HSP (> 3 hröð slög á augum) fannst hjá 57% í úlnliðsbrotahópnum og hjá 38% í viðmiðunarhópnum (p = 0.047) sem sýnir hærri tíðni ósamhverfrar starfsemi í jafnvægiskerfi innra eyra hjá þátttakendum með úlnliðsbrot. Þrýstingsskyn undir il var marktækt verra hjá úlnliðsbrotahópnum (p<0.001), ekki var marktækur munur á titringsskyni á milli hópanna. Samsett stig á SOT voru marktækt lægri hjá úlnliðsbrotahópnum sem sýnir verri jafnvægisstjórnun (p < 0.001). Stig á ABC (p<0.001) og DHI (p=0.007) kvörðum voru marktækt lægri hjá úlnliðsbrotahópnum.
Ályktanir: Fólk sem hefur úlnliðsbrotnað við byltu er með verri jafnvægisstjórnun, hærri tíðni ósamhverfrar starfsemi í jafnvægiskerfi innra eyra og minnkað þrýstingsskyn undir iljum, samanborið við fólk sem ekki hefur dottið og úlnliðsbrotnað. Skerðing á þrýstingsskyni undir iljum og ósamhverf starfsemi jafnvægiskerfis innra eyra geta verið mikilvægir undirliggjandi orsakaþættir bylta sem leiða af sér úlnliðsbrot. Mat á skyni í fótum, starfsemi jafnvægiskerfis innra eyra og jafnvægi ætti að vera hluti af skoðun einstaklinga sem hljóta úlnliðsbrot við byltu. Niðurstöður rannsóknarinnar benda á möguleika til þróunar skimunartækis til að meta áhættu fólks á því að detta og hljóta úlnliðsbrot.
V3. Intrathecal Baklofendælur – tvíeggjað sverð: Hvað ber að varast?
Helga María Grétarsdóttir1, Guðbjörg K. Ludvigsdóttir1,3, Ingvar Hákon Ólafsson2, Páll E. Ingvarsson1,3
1Endurhæfingardeild Landspítala að Grensási, 2Heila- og taugaskurðdeild Landspítala, 3Háskóla Íslands
Bakgrunnur: Í kjölfar sjúkdóma eða áverka á heila og/eða mænu fylgir oft mikil síspenna (e. spasticity), sem getur verið erfitt að meðhöndla. Eitt helsta lyfið gegn síspennu er Baklofen, sem er gefið um munn eða intrathecalt (inn í mænugöng) um lyfjadælu. Aukaverkanir, einkum syfja og höfgi, takmarka notagildi Baklofenmeðferðar í töfluformi. Við intrathecal gjöf er hægt að nota mun lægri skammta. Bilun getur komið upp í dælunni og er þá hætta á baklofenfráhvarfi sem getur verið banvænt.
Markmið: Tilgangur rannsóknarinnar er að taka saman faraldsfræði intrathecal Baklofenmeðferðar á Íslandi og kanna tíðni og alvarleika helstu aukaverkana meðferðarinnar. Mikilvægt er að starfsfólk bráðamóttöku þekki og viti hvernig eigi að bregðast við slíkum aukaverkunum, einkum bilun í lyfjadælum.
Aðferð: Tveimur sjúkratilfellum verður lýst sérstaklega á veggspjaldi.
Niðurstöður: Á Íslandi eru 32 einstaklingar (29 fullorðnir og 3 börn) með lyfjadælu vegna mænuskaða, MS, CP, heilaslags og CRPS. Allir þáttakendur telja að meðferðin dragi mikið eða mjög mikið úr síspennu og verkjum. 55% töldu líðan þeirra í heild mjög mikið betri og 39% mikið betri. 6% töldu áhrif meðferðarinnar miðlungs mikil. Allir nema 3 hafa fengið fylgikvilla og hafa 45 aukaverkanir verið skráðar, að meðaltali 1.4 á mann. Fylgikvillarnir voru misalvarlegir, en til alvarlegra fylgikvilla má telja 4 sýkingar, 6 tilfelli ofskömmtunar og 7 tilvik fráhvarfsheilkennis. Ofskömmtun veldur meðvitundarskerðingu og er meðhöndluð með því að lækka skammta í lyfjadælu. Við Baklofenfráhvörf þarf viðkomandi að leggjast inn á gjörgæslu. Propofol er kjörlyf gegn fráhvarfseinkennum en einnig er hægt að nota morfín. Finna þarf orsök bilunarinnar. Stundum er nóg að fylla á dæluna en ef dælan er óvirk þarf að græða nýja dælu í eins fljótt og hægt er.
Ályktanir: Baklofengjöf inn í mænugöng er gríðarlega öflug meðferð gegn síspennu, þegar önnur meðferðarform eru fullreynd og ófullnægjandi. En þetta er vandmeðfarin meðferð, bæði ofskömmtun og enn frekar skyndilegt fráhvarf, geta verið lífshættuleg. Mikilvægt er að starfsfólk bráðamótöku séu meðvituð um hættuna sem fylgir meðferðinni og að verkferlar séu skýrir þegar vandamál tengd dælu koma upp.
V4. Fjórhjólaslys: Komur á Bráðadeild Landspítala 2000-2015
Eva Karen Ivarsdottir3, Þorsteinn Jonsson1,3, Brynjolfur A. Mogensen2,3
1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2Læknadeild Háskóla Íslands, 3Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum
Bakgrunnur: Fjórhjól komu á markað uppúr 1970 og voru upphaflega ætluð bændum. Fljótlega þróaðist notkun fjórhjóla yfir í að vera leik- og faratæki. Víða erlendis eru fjórhjólaslys töluvert algeng en þau hafa lítið verið rannsökuð á Íslandi.
Markmið: Að kanna faraldsfræði slasaðra sem leituðu á Bráðamóttöku eftir fjórhjólaslys árin 2000-2015.
Aðferð: Rannsóknin var afturskyggn og náði til þeirra sem lentu í fjórhjólaslysi og leituðu á Bráðamóttöku á tímabilinu 1. janúar 2000 til og með 31. desember 2015. Unnið var með gögn úr sjúkraskrákerfi SÖGU og NOMESCO. Breytur sem unnið var með: Kyn, aldur, komutími, tími slyss, slysstaður, athöfn, orsök, ICD-10 greining, legutími, þjóðerni, ökumaður, farþegi. Við mat á áverkum var stuðst við áverkastigun AIS og ISS.
Niðurstoður: Alls leituðu 454 einstaklingar á Bráðamóttöku LSH eftir fjórhjólaslys. Meirihluti voru karlmenn (78%). Meðalaldur var 32 ár og börn voru 18% slasaðra. Að meðaltali voru 30 slys á ári og gerðust flest yfir sumarmánuðina. Flest slysin voru tengd frítíma (76%). Algengast var að slysin ættu sér stað í dreifbýli og var fall af fjórhjóli og velta algengustu orsakir slysa. Flestir hlutu minniháttar áverka og voru áverkar á útlimi algengastir. Hlutfall þeirra sem lögðust inn á spítala var 15% og einn lést eftir innlögn. Hlutfall erlendra ferðamanna jókst með árunum og voru þeir 9% allra þeirra sem lentu í fjórhjólaslysi á rannsóknartímabilinu.
Ályktun: Fræðsla um öryggisþætti og akstur fjórhjóla er mikilvæg, sérlega í tengslum við fjölgun erlendra ferðamanna. Niðurstöður rannsóknarinnar eru mikilvægur þáttur í að greina umfang fjórhjólaslysa á Íslandi.
V5. Notkun LEAN aðferðarfræði við
styttingu svartíma á niðurstöðu grunnblóðprufa á bráðamóttöku
Þórgunnur Jóhannsdóttir1, Sólrún Rúnarsdóttir1, Gunnhildur Peiser1, Jón Magnús Kristjánsson2
Flæðisviði1, Bráðamóttöku Landspítala2
Bakgrunnur: Komur á bráðamóttökur Landspítala (LSH) hafa aukist um 16,5% frá janúar 2015 til janúar 2016. Sívaxandi álag og innlagnarvandi skapar brýna þörf á nýrri hugsun þar sem hverjum steini er velt við í leit að lausnum. Komum í janúar á bráðadeild LSH í Fossvogi hefur fjölgað frá 5.611 í janúarmánuði 2015 í 6.542 árið 2016 og 5.591 í janúar 2017. Markmið bráðadeildar er að sjúklingar sem sækja bráðamóttökuna og útskrifast heim geri það innan 4 klst. Þrír af hverjum fjórum sem leita á bráðamóttöku í Fossvogi útskrifast heim samdægurs. Á bráðadeild G2 var meðaldvalartími þeirra sjúklinga sem útskrifast heim 6,5 klukkustund í desember 2015, en jókst í 8,1 klst. í desember 2016. Bið eftir algengustu blóðprufum er um 60 mínútur eða um fjórðungur af markmiðstímanum 4 klst. Meðaltími frá því að sjúklingur kemur deild þar til teknar eru blóðprufur eru gróflega áætlað 15-30 mín. (punktstaða janúar 2017).
Markmið: Að beita LEAN aðferðarfræðinni við ferlagreiningu, greiningu áskorana og lausna við að stytta þann tíma frá því að sjúklingur kemur á bráðamóttöku þar til að niðurstöður grunnblóðprufa liggja fyrir. Þannig mætti útrýma sóun í ferlinu og finna leið við blóðtöku sem skilar þeim niðurstöðum sem nauðsynlegar eru við greiningu á sem stystum tíma.
Aðferð: Í verkefninu verður ferli sjúklinga sem þarfnast blóðsýna en útskrifast heim, kortlagt og tímamælt. Greint hvar er að finna mismunandi tegundir sóunar, í þekkingu, verkum, flutningum, upplýsingum, ofvinnslu og göllum og úr þeim bætt. Áskorunum verður erfiðleikaskipt og þær leystar sem fela í sér mestan ávinning. Gerðar verða tilrauna innleiðingar með breyttu verklagi þar til bestun aðferðar hefur náðst fram. Að lokum verður það verklag sem stenst væntingar hópsins um útrýmingu sem mestrar sóunar fest í sessi.
Niðurstöður: Skoðaðar verða mismunandi aðferðir við blóðprufutöku og greiningu útfrá svartíma mismunandi aðferða sem skila áþekkum niðurstöðum í algengustu gildum . Þannig má stytta svartíma vegna algengustu blóðprufugilda um allt að 45 mín. með bættu verklagi og útrýmingu sóunar í ferlinu.
Ályktanir: Allar umbætur í flæði sjúklinga sem útskrifast heim hefur mögnunaráhrif á heildarálagi á bráðamóttöku og því eftir miklu að sækjast.