Leiðari

Langhlaupið fyrir sjúklingana

Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir vísindadeildar

Erfitt er að sýna fram á framfarir með trúverðugum hætti án hlutlægra mælikvarða. Hlutlægar breytur varða því oftast veginn í rannsóknum og gæðaverkefnum. Það sem er mælt hefur áhrif. Við þurfum því að vanda valið á mælikvörðum og velja þá sem skipta máli. Margoft hefur verið sýnt fram á að gæði klíniskrar þjónustu og iðkun vísindastarfs haldast í hendur. Afkasta- og gæðamælingar eru hins vegar ekki einfaldar í vísindum. Tíminn sem líður frá því að rannsóknarspurning kviknar þar til að rannsókn hefur verið skipulögð, fjármögnuð, framkvæmd og birt getur verið æði langur. Engu að síður er einn algengasti mælikvarðinn sem notaður er til að meta vísindavirkni fjöldi greina sem birtist í ritrýndum fræðitímaritum. Á síðasta ári fækkaði lítillega birtum greinum með aðild spítalans, bæði hvað varðar birtingar á erlendum og innlendum vettvangi, en segja má að árin 2016-2018 hafi fjöldi birtinga samt haldist nokkuð svipaður (mynd 1).

                                 

Mikilvægt er þó að hafa í huga að fjöldatölur einar og sér segja ekki alla söguna, enda eru vísindagreinar oft fjölhöfundaverk með aðild margra rannsakenda og stofnana. Með tilkomu öflugrar nýrrar aðferðafræði þar sem rýnt er í stór gagnasöfn hafa opnast möguleikar á annars konar gæðaviðmiðum, sem felast í því að meta gæði eða áhrif (impact) birtra vísindagreina og hefur hópur á vegum NordForsk m.a. notað slíka aðferðafræði við að skoða norræna háskóla og háskólasjúkrahús, þ.m.t. Landspítala og nýlega kynnt niðurstöðurnar. Gallinn við þessa aðferðafræði er að hún er flókin og allnokkur töf getur orðið á að niðurstöður verði ljósar, og er töfin oft talin í nokkrum árum eftir birtingarár viðkomandi vísindagreina. Annar mælikvarði sem nota má til að leggja mat á vísindalega virkni er fjöldi umsókna um leyfi til siðanefnda. Þar varð á síðasta ári veruleg aukning frá fyrri árum til siðanefndar heilbrigðisrannsókna á spítalanum, en fjöldi umsókna til vísindasiðanefndar stóð í stað (mynd 2).

                                 

Segja má að þarna komi fram vísbending um áhuga og áform rannsakenda sem lofa góðu.

Af fjölmörgum forsendum árangursríkra rannsókna ber hæst hæfa vísindamenn, fjármögnun og aðstöðu. Spítalinn býr að miklum mannauði, en engar upplýsingar eru tiltækar um það hversu miklum tíma er varið til rannsókna. Fyrri athuganir sem gerðar hafa verið benda til að oft sé þessu lögbundna hlutverki spítalans sinnt að miklu leyti utan hefðbundins vinnutíma. Það kann að vera ósjálfbært fyrirkomulag, að treysta á sjálfboðavinnu áhugasamra rannsakenda þegar ljóst er að gildismat og forgangsröðun nýrra kynslóða er að breytast. Fjármögnun er auðveldara að mæla, en samantekt á styrkveitingum sem rannsakendur spítalans hlutu á síðasta ári má sjá á mynd 3.

                                  

Þar má sjá að erlendir styrkir hafa sveiflast á milli ára, en nokkra aukningu mátti greina á síðasta ári saman borið við 2017, en á móti drógust innlendir styrkir saman. Gögn frá Rannís sýna að undanfarin ár hefur umsóknum vísindamanna fækkað frá spítalanum í Rannsóknasjóð, stærsta samkeppnissjóð til vísindarannsókna hér á landi. Á sama tíma reyndist árangurshlutfall rannsakenda heilbrigðisvísindasviðs fyrir ný verkefni við síðustu úthlutun aðeins 9%, sem þýðir að 91% umsókna hlutu ekki brautargengi, oft þrátt fyrir afar jákvæðar umsagnir málsmetandi sérfræðinga. Úthlutunarhlutfall Rannsóknasjóðs náði þarna sögulegu lágmarki eftir því sem ég kemst næst og var jafnframt lægra en meðal margra erlendra öflugra samkeppnissjóða, t.d. hjá Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna (NIH). Mikilvægt er að þessari þróun verði snúið við: Fjármögnun samkeppnissjóða þarf að efla svo um munar, ella ógnar það framþróun í heilbrigðisvísindum hér á landi og letur ungt fólk með góðar hugmyndir til að velja sér þennan starfsvettvang. Jafnframt glatast tækifæri til sköpunar nýrrar þekkingar og bættrar þjónustu við landsmenn.

Uppbygging rannsóknainnviða er langtímaverkefni. Jákvæð teikn eru nú á lofti hér á spítalanum um að slík sókn sé að hefjast. Framkvæmdastjórn Landspítala samþykkti í janúar 2019 að tillögu vísindaráðs nýja vísindastefnu fyrir spítalann og vænta má að aðgerðaáætlun og fjármögnun stefnunnar verði jafnframt tryggð. Einnig hefur á þessu ári verið bætt nokkuð í vísindasjóð spítalans fá fyrra ári, um 12 milljónir króna (13,6% hækkun). Þá hefur verið ákveðið að nýta fjármagn sem spítalinn fékk við sölu á hlutbréfum í nýsköpunarfyrirtækinu Oculis sem Einar Stefánsson prófessor og yfirlæknir stofnaði til að veita þeim starfsmönnum hvatningu, sem birta ritrýndar vísindagreinar sem merktar eru Landspítala í öflugum fagtímaritum. Allt eru þetta mikilvæg skref fram á við, sjúklinga okkar vegna.

Leiðari 2019




Þetta vefsvæði byggir á Eplica