D - flokkur - ágrip

D - ágrip: Hjúkrunar-, ljósmóður- og sálfræði

D1. Verðlaun til ungs vísindamanns Landspítala 2017

Útkoma fyrirfram ákveðinna heimafæðinga og sjúkrahúsfæðinga á Íslandi 2005-2009

Berglind Hálfdánsdóttir1, Alexander Kr. Smárason2, Ólöf Á. Ólafsdóttir1, Ingegerd Hildingsson3, Herdís Sveinsdóttir1

1Háskóla Íslands, 2Háskólanum á Akureyri, 3Mid Sweden University

berghal@landspitali.is

Inngangur: Tíðni heimafæðinga á Íslandi var 2,2% árið 2012. Tíðnin er sú hæsta á Norðurlöndunum og hefur aukist hratt frá aldamótum. Útkoma heimafæðinga á Íslandi hefur ekki verið rannsökuð áður.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að bera saman útkomu fyrirfram ákveðinna heimafæðinga og sjúkrahúsfæðinga á Íslandi í sambærilegum hópum kvenna án áhættuþátta. Tilgangur rannsóknarinnar var að styðja við upplýst val kvenna á fæðingarstað og frekari þróun barneignarþjónustu á Íslandi.

Aðferðir: Rannsóknin er afturvirk ferilrannsókn þar sem allt þýði 307 fyrirfram ákveðinna heimafæðinga sem sinnt var af ljósmóður á Íslandi 2005-2009 var borið saman við parað markmiðsúrtak 921 fyrirfram ákveðinnar sjúkrahúsfæðingar hjá sambærilegum hópi kvenna (hlutfall 1:3, n=1228). Gagna var aflað úr mæðraskrám. Aðhvarfsgreining þar sem leiðrétt var fyrir áhrifaþáttum var gerð á helstu útkomubreytum.

Niðurstöður: Tíðni hríðaörvunar með lyfjum (8,8%, OR 0.37, 95% CI 0.23-0.59), mænurótardeyfinga (8,5%, OR 0.47, 95% CI 0.29-0.74) og blæðinga eftir fæðingu yfir 500 ml (12,9%, OR 0.55, 95% CI 0.36-0.85) var marktækt lægri þegar fæðing hófst sem fyrirfram ákveðin heimafæðing. Rannsóknina skorti styrk til að greina mun á breytum með lága tíðni (keisara- og áhaldafæðingum, 3°-4° spangaráverkum, innlögnum á nýburagjörgæslu og 5 mínútna Apgar-stigum undir 7).

Ályktun: Niðurstöðurnar bæta við vaxandi alþjóðlega þekkingu á heimafæðingum. Niðurstöðurnar munu nýtast við upplýst val kvenna á fæðingarstað og þróun ljósmæðraþjónustu á Íslandi. Til að efla sjálfræði og upplýst val kvenna væri æskilegt að heilbrigðisstarfsmenn upplýstu konur á hlutlausan hátt um viðeigandi rannsóknir á útkomu fæðinga á ólíkum fæðingarstöðum.

 

D2 - Viðhorf til fæðinga, heimafæðinga og inngripa og áhrif þeirra á útkomu fæðinga á Íslandi

Berglind Hálfdánsdóttir1, Ólöf Á. Ólafsdóttir1, Ingegerd Hildingsson2, Alexander Kr. Smárason3, Herdís Sveinsdóttir1

1Háskóla Íslands, 2Mid Sweden University, 3Háskólanum á Akureyri

berghal@landspitali.is

Inngangur: Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að viðhorf kvenna sem velja heimafæðingu séu ólík viðhorfum kvenna sem velja að fæða á sjúkrahúsi. Bent hefur verið á að þeir sálrænu þættir sem val kvenna á fæðingarstað grundvallast á gætu haft áhrif á útkomu heimafæðinga.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að kanna sambandið milli viðhorfa kvenna til fæðinga, heimafæðinga og inngripa, og skoða tengsl viðhorfa við útkomu fæðinga. Tilgangurinn var að skapa þekkingu á því hlutverki sem viðhorf kvenna kunna að leika í samspili fæðingarstaðar og útkomu fæðinga.

Aðferðir: Rannsóknin var framvirk ferilrannsókn á spurningalistagögnum sem safnað var frá konum sem sóttu meðgönguvernd á íslenskum heilsugæslustöðvum, tóku þátt í rannsókninni Barneign og heilsa á árunum 2009-2011 og tjáðu ýmist jákvæð eða neikvæð viðhorf til heimafæðinga (n=809). Gögn voru greind með aðhvarfsgreiningu, t prófum, kí-kvaðrat prófum og Fisher's prófum.

Niðurstöður: Konur sem höfðu jákvætt viðhorf til heimafæðinga (20,3%, n=164) höfðu marktækt jákvæðari viðhorf til fæðinga, neikvæðari viðhorf til inngripa, og lægri tíðni hríðaörvunar með lyfjum og mænurótardeyfinga, auk þess sem börn þeirra voru marktækt síður lögð inn á nýburagjörgæslu en börn kvenna sem höfðu neikvætt viðhorf til heimafæðinga (79,7%, n=645). Viðhorf kvenna til fæðinga og inngripa höfðu áhrif á sambandið milli viðhorfa þeirra til heimafæðinga og útkomu fæðinga.

Ályktun: Lág tíðni inngripa og heilsufarsvandamála í heimafæðingum á Íslandi gæti að einhverju leyti skýrst af viðhorfum kvenna til fæðinga og inngripa. Notkun hraustra kvenna á fæðingarþjónustu utan sjúkrahúsa gæti aukist með auknu framboði á slíkri þjónustu, aukinni upplýsingu um öryggi heimafæðinga og minni sjúkdómsvæðingu í samfélagslegri umræðu um fæðingar.

 

D3 - Tengsl fæðingastellinga við útkomu spangar eftir innleiðingu á breyttu vinnulagi á öðru stigi fæðingar á Landspítala

Edda Sveinsdóttir1,2, Helga Gottfreðsdóttir1,2

1Kvenna- og barnasviði Landspítala, 2 Háskóla Íslands, Hjúkrunarfræðideild, námsbraut í ljósmóðurfræði

eddas@landspitali.is

Inngangur: Mikilvægt er að kona í fæðingu hafi val um fæðingarstellingu en það hefur bæði áhrif á framgang fæðingar og fæðingarreynslu konunnar. Rannsóknir eru misvísandi varðandi stellingar í fæðingu og spangaráverka. Um síðustu aldamót jókst tíðni 3° og 4°spangarrifa á Íslandi og náði 5,6% árið 2008. Ýmsar aðferðir hafa verið notaðar í fæðingarhjálp til að draga úr áverkum á spöng en líklegt er að sumar þeirra hafi áhrif á þá stellingu sem konan fæðir barn sitt í.

Markmið: Að skoða tengsl fæðingastellinga við útkomu spangar.

Aðferðir: Rannsóknin var hálfstöðluð íhlutunarrannsókn. Fæðingarstellingar voru skoðaðar í tengslum við nýtt vinnulag sem var innleitt 2011 til að draga úr tíðni alvarlegra spangaráverka á öðru stigi fæðingar. Allar konur sem fæddu um leggöng frá 2012-2014 (n=7242) voru þátttakendur. Horft var til ýmissa þátta varðandi fæðinguna og útkomu hennar s.s. fæðingarstærðar, tímalengdar fæðingar, notkunar oxytósíns auk fæðingarstellingar. Gögnum frá tímabilinu fyrir íhlutun var safnað afturvirkt. 

Niðurstöður: Fæðingarstelling var eingöngu skráð með markvissum hætti eftir innleiðingu á breyttu vinnulagi. Algengasta fæðingastellingin var hálfsitjandi staða (n=4207) með 3% tíðni alvarlegra spangaráverka. Hæsta tíðnin af alvarlegum spangaráverkum m.t.t. stellingar var 6% meðal kvenna sem fæddu á fæðingarkolli (n=18), í stoðum (n=640) eða annarri óskilgreindri stellingu (n=55). Eftir innleiðingu dró úr vatnsfæðingum.

Ályktanir: Vinnulagið virðist hafa áhrif á fæðarstellingar og ljósmæður gætu haft tilhneigingu til að stýra konunum meira eftir að nýtt vinnulag við verndum spangar var innleitt. Niðurstöðurnar hvetja til frekari rannsókna á upplifun ljósmæðra og kvenna á breyttu vinnulagi. 

 

D4 - Brjóstagjöf síðfyrirbura (late preterm infants)

Rakel B. Jónsdóttir1, Arna Skúladóttir1, Auðna Ágústsdóttir2

1Barnaspítala Hringsins, 2Menntadeild Landspítala

rakelbjo@landspitali.is

Inngangur: Síðfyrirburar (meðganga 340–366 vikur/dagar) eru ekki ósvipaðir fullburða börnum í útliti. Mörg vandamála sem síðfyrirburar og mæður þeirra glíma við fyrstu vikurnar eru tengd brjóstagjöf. Rannsóknir varðandi brjóstagjöf síðfyrirbura eru fáar en benda til að þeir séu síður og skemur á brjósti en fullburða börn. Ekki er ljóst hvaða þættir hafa helst áhrif á brjóstagjöf síðfyrirbura.

Markmið: Að kanna tíðni brjóstagjafar síðfyrirbura samanborið við fullburða börn eins og fjögurra mánaða. Skoða tíðni einkenna um þunglyndi móður og notkun hjálpartækja við brjóstagjöf.

Aðferð:  Rannsóknin er hluti af stærri framsýnni, langtímarannsókn varðandi næringu, svefn og grát síðfyrirbura og fullburða barna.  Gögnum var safnað með spurningalistunum var spurt um næringu, grát og svefn ungbarna og auk þess Einkenni þunglyndis hjá móður og notkun hjálpartækja við brjóstagjöf. Notuð var lýsandi tölfræði, samanburðar- og fylgni-greiningar. 

Niðurstöður:  Greind voru gögn frá 226 eins mánaða og 173 fjögurra mánaða börnum (þar af 68/49 síðfyrirburum). Tíðni eingöngu brjóstagjafar við eins mánaða og fjögurra mánaða aldur hjá síðfyrirburum var marktækt minni en hjá fullburða börnum. Við fjögurra mánaða aldur var tíðni eingöngu brjóstagjafar hjá síðfyrirburum 50%, samanborið við 71,2%% hjá fullburða börnum. Mæður síðfyrirbura notuðu frekar hjálpartæki en einkenni um þunglyndi voru meiri þó ekki tölfræðilega marktækt meiri en hjá mæðrum fullburða barna (20,6% vs 14,8% með EPDS>10).

Ályktun: Veita þarf brjóstagjöf síðfyrirbura aukna athygli og mæðrum þeirra meiri stuðning til að stuðla að því að fleiri síðfyrirburar verði nærðir eingöngu á brjósti, í ljósi aukins heilsufarslegs ávinnings brjóstamjólkur fyrir þennan hóp barna.

 

D5 - Samanburður á líðan mæðra síðfyrirbura og fullburða barna

Brynja Örlygsdóttir1, Arna Skúladóttir2, Rakel B. Jónsdóttir2, Auðna Ágústsdóttir3, Sesselja Guðmundsdóttir5 , Þórður Þórkelsson1

1Hjúkrunarfræðideild, Háskóla Íslands, 2 Barnaspítali Hringsins, 3Menntadeild Landspítala, 4Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Inngangur: Síðfyrirburar (LPT; meðganga 34 0/7 til 36 6/7) eru ekki ósvipaðir fullburða ungbörnum í útliti og oft heilsugóðir fyrstu dagana. Hins vegar benda nýlegar rannsóknir til að síðfyrirburar eigi frekar við vandamál að stríða sem kölluð eru sjálfsstýring og snúa að næringu, svefni og gráti heldur en fullburða börn. Rannsóknir varðandi áhrif þessara vandamála sjálfstjórnunar á líðan mæðra (þunglyndiseinkenni og streitu foreldra) eru fáar.

 Markmið: 1) Að lýsa þunglyndiseinkennum mæðra síðfyrirbura og fullburða ungbarna við eins og fjögurra mánaða aldur barnanna með mælitækinu EPDS (Edinburgh Postnatal Depression Scale). 2. Að lýsa streitu mæðra síðfyrirbura og fullburða ungbarna við eins og fjögurra mánaða aldur barnanna með mælitækinu PSI-SF-IV (parental stress index short form IV).

Aðferð: Rannsóknin er hluti af stærri framsýnni, langtímarannsókn varðandi næringu, svefn og grát síðfyrirbura og fullburða barna. Mæðurnar fengu rafrænan spurningalista við eins mánaða, fjögurra og átta mánaða aldur barnanna. Notuð verður lýsandi tölfræði, samanburðar- og fylgni-greiningar. 

Niðurstöður: Á vormánuðum 2017 verður væntanlega hægt að greina fyrstu gögn frá 80 mæðrum síðfyrirbura og 150 mæðrum fullburða barna.

Ályktanir: Ef greindur er tölfræðilega marktækur munur á líðan mæðra síðfyrirbura og fullburða barna, þarf heilbrigðisstarfsfólk við fæðingarþjónustu og ungbarnavernd að ígrunda hvaða þjónustu þarf að veita mæðrum síðfyrirbura til að stuðla að heilbrigðu lífi barna og mæðra.

 

D6 - Þunglyndiseinkenni mæðra og vandamál síðfyrirbura og fullburða nýbura

Arna Skúladóttir1, Rakel B. Jónsdóttir1, Hannah Rós Sigurðardóttir Tobin1, Brynja Örlygsdóttir2, Þórður Þórkelsson1, Sesselja Guðmundsdóttir3, Auðna Ágústsdóttir4

1Barnaspítali Hringsins, 2Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 3Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, 4Menntadeild Landspítala

arnasku@landspitali.is

Inngangur: Nýlegar rannsóknir benda til að síðfyrirburar (meðganga 34 0/7til 36 6/7 vikur) séu frekar með vandamál sem snúa reglun (regulatory problems) heldur en fullburða börn. Einkenni slíkra vandamála er tengd gráti, svefni og næringu.

Markmið: Að kanna hvort það sé munur á milli síðfyrirbura og fullburða ungbarna varðandi grát, svefn og næringu, og þunglyndiseinkenna mæðra.

Aðferðir:Rannsóknin er hluti af stærri framsýnni, langtímarannsókn varðandi næringu, svefn og grát síðfyrirbura og fullburða barna.  Gögnum var safnað með spurningalistunum þar sem var spurt um næringu, grát og svefn ungbarna og auk þess einkenni þunglyndis hjá móður og áhyggjur. Notuð var lýsandi tölfræði og samanburðargreiningar

Niðurstöður: Í svörum frá 180 mæðrum eins mánaða barna og 123 mæðrum fjögurra mánaða barna kom fram að síðfyrirburar (u.þ.b. 1/3 af þátttakendum)  voru síður á brjósti en fullburar. Hins vegar voru síðfyrirburar á brjósti líkegri til að drekka oftar en 9 sinnum á sólahring. Mæður síðfyrirbura voru líklegri til að hafa áhyggjur af gráti og næringu þeirra en mæður fjögurra mánaða fullbura höfðu frekar áhyggjur af svefni.

 Ályktun: Veita þarf síðfyrirburum aukna athygli og mæðrum þeirra aukinn stuðning til að stuðla að heilbrigði. Aukinn fjöldi þátttakenda í rannsókninni mun hugsanlega leiða í ljós fylgni milli meðgöngulengdar og vandamála tengdum reglun (regulation) ungra barna.

 

D7 - Mat hjúkrunarfræðinga á bráðadeild Landspítala á eigin hæfni

Dóra Björnsdóttir1, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,2, Hrund Sch. Thorsteinsson3

1Bráðadeild Landspítala, 2Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 3Menntadeild Landspítala

dorabj@landspitali.is

Inngangur: Hæfni hjúkrunarfræðinga er einn af lykilþáttum sem hafa áhrif á gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga. Til að tryggja megi gæði þjónustunnar þarf hæfni hjúkrunarfræðinga ávallt að vera í takt við þarfir sjúklinga og þær kröfur sem gerðar eru til hjúkrunarfræðinga á hverjum tíma. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna og lýsa hvernig íslenskir hjúkrunarfræðingar meta hæfni sína.

Markmið: Að afla upplýsinga sem nýta megi við starfsþróun, aðlögun, kennslu og fræðslu.

Aðferðir: Aðferðin var megindleg lýsandi þversniðsathugun sem gerð var í febrúar til apríl 2015. Þátttakendur voru 76 hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Landspítala, svarhlutfall var 81%. Notað var viðurkennt finnskt mælitæki, Nurse Competence Scale (NCS), og var það þýtt og staðfært fyrir íslenskar aðstæður. Mælitækið er sjálfsmat sem inniheldur 73 spurningar sem skiptast í sjö hæfniþætti, sem mældir voru á VAS skala 0-10. Gögnin voru greind með lýsandi tölfræði og aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Marktækur munur var á mati hjúkrunarfræðinga á eigin hæfni eftir starfsaldri í fjórum hæfniþáttum. Voru það hæfniþættirnir kennsluhlutverk (p=0,010), hjúkrunaríhlutanir (p=0,030), starfshlutverk (p=0,048) og heildarhæfni (p=0,040). Oftast voru það hjúkrunarfræðingar með 10-15 ára starfsreynslu sem mátu hæfni sína mesta eða í fjórum hæfniþáttum af sjö, stjórnun í aðstæðum, hjúkrunaríhlutanir, trygging gæða og starfshlutverk. Aðeins í einum hæfniþætti, umönnun, voru það þátttakendur með lengstan starfsaldur eða yfir 20 ára starfsreynslu sem mátu hæfni sína mesta.

Ályktun: Mat hjúkrunarfræðinga á eigin hæfni óx mest á milli fimm og tíu ára starfsaldurs en náði eftir það ákveðnu jafnvægi og fór í sumum tilfellum dalandi. Mismunandi hæfniþættir eru ríkjandi eftir starfsaldri hjúkrunarfræðinga og má draga þá ályktun að starfsþróun þurfi að vera virk allan starfsferilinn og þurfi að taka mið af starfsreynslu. Á þann hátt má hugsanlega draga úr brottfalli hjúkrunarfræðinga úr starfi og auka öryggi í þjónustu bráðamóttökunnar.

 

D8 - Komuskimun aldraðra (InterRAI ED-screener) á bráðamóttöku Landspítala

Elfa Þöll Grétarsdottir1,2, Gunnar Tómasson2, Anna Björg Jónsdóttir1, Ester Eir Guðmundsdóttir1, Ingibjörg Hjaltadóttir1,2, Ingibjörg Sigurþórsdóttir1, Lovísa A. Jónsdóttir1, Íris Björk Jakobsdóttir2, Pálmi V. Jónsson1,2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,2

1Landspítali, 2Háskóli Íslands

elfag@landspitali.is

Inngangur: InterRAI skimun á bráðamóttöku (Komuskimun aldraðra) er nýtt skimunartæki sem tekur til mats á færni og félagslegum þáttum til að greina betur þá aldraða sem gætu verið í áhættu á slæmum afdrifum eftir komur á bráðamóttökur. Komuskimun aldraðra er á rafrænu formi, hannað með það fyrir augum að vera fljótlegt og hentugt til notkunar í erilsömu umhverfi. Mest notuðu skimtækin fram til þessa eru Triage Risk Screening Tool (TRST) og Identification of Seniors At Risk (ISAR). Þau hafa bæði verið þýdd á íslensku og TRST hefur verið notað á bráðamóttöku frá 2013. Hagkvæmni og réttmæti Komuskimun aldraðra hefur verið lítið prófuð.

Markmið: Að meta forspárgildi Komuskimunar aldraðra fyrir afdrifum eftir komu á bráðamóttöku Landspítala og fylgni niðurstaðna þess við eldri skimunartæki..

Aðferðir: Gagna var aflað í þægindaúrtaki 67 ára og eldri sjúklinga sem leituðu á bráðamóttöku Landspítala í febrúar til mars 2016. Komuskimun aldraðra, TRST og ISAR voru lagðir fyrir úrtakið munnlega og niðurstöður skráðar. Fylgnistuðlar milli útkomu Komuskimunar aldraðra og hinna tveggja skimunartækjanna voru reiknaðir.

Niðurstöður: Af þeim 237 sjúklingum sem leitað var til samþykktu 200 fulla þátttöku. Meðalaldur var 78,5 ár (bil 67-97 ár, SF 7,4), 44% þátttakenda voru karlkyns. Meirihluti (85%) bjuggu á eigin heimili, 43% bjuggu einir og 53 % fengu aðstoð heim. Meðalstigafjöldi voru 3,19 (SF 1,53), 2,22 (SF 1,43) og 2,16 (SF 1,36) úr Komuskimun aldraðra, ISAR og TRST. Fylgni útkomu úr Komuskimun aldraðra við ISAR var 0,57 en 0,40 við TRST.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna ásættanlegt réttmæti og styðja þar með notkun Komuskimunar aldraðra á bráðamóttöku Landspítala til að greina eldri einstaklinga sem þurfa sértæk úrræði eftir komu á bráðamóttöku.

 

D9 - Algengi, andleg líðan og meðferð sjúklinga með óskilgreinda brjóstverki á bráðadeildum Landspítala

Erla Svansdóttir1, Sesselja Hreggviðsdóttir2, Elísabet Benedikz1, Björg Sigurðardóttir3, Karl Andersen3, Hróbjartur Darri Karlsson4

1Gæða- og sýkingarvarnadeild Landspítala, 2Sálfræðideild Háskóla Íslands, 3Hjartagátt Landspítala, 4Dunedin-sjúkrahúss, Dunedin, Nýja Sjálandi

erlasvan@landspitali.is

Inngangur: Sjúklingar með óskilgreinda brjóstverki (brjóstverki sem ekki stafa af kransæðasjúkdómum) skapa talsvert álag á bráðadeildum, en virðast hins vegar sjaldan fá meðferð við hæfi og sitja oft uppi með viðvarandi vanda.

Markmið: Að meta algengi óskilgreindra brjóstverkja á bráðadeildum og tengsl þeirra við áframhaldandi verkjaupplifun, andlega líðan og upplýsingagjöf.

Aðferðir: Þátttakendur voru 390 sjúklingar (18-65 ára) sem komu á hjartagátt (236) eða bráðamóttöku (155) vegna brjóstverkja frá október 2015-maí 2016. Þeir svöruðu stöðluðum listum um líkamleg einkenni, andlega líðan og lífsgæði, auk spurninga um áframhaldandi verki og upplýsingagjöf, 1-8 mánuði eftir útskrift.

Niðurstöður: Alls 72% sjúklinga voru með óskilgreinda brjóstverki (282) og 24% sjúklinga (92) með hjartasjúkdóm, en 4% hlutu aðrar greiningar. Meðalaldur hjartasjúklinga (58 ár) var hærri en sjúklinga með óskilgreinda brjóstverki (49 ár, p<0,001), en hlutfall kvenna lægra (23% miðað við 44%, p<0,001). Sjúklingar með óskilgreinda brjóstverki höfðu svipaða byrði líkamlegra einkenna, þunglyndi, kvíða, og streitu og hjartasjúklingar. Meirihluti þátttakenda (60% beggja hópa) fundu fyrir brjóstverkjum eftir útskrift. Áframhaldandi brjóstverkir voru tengdir við meiri kvíða (β=0,18, p<0,001) og þunglyndi (β=0,18, p<0,003) meðal sjúklinga með óskilgreinda brjóstverki (óháð aldri, kyni, og lengd frá útskrift), en ekki hjá hjartasjúklingum. Þrjátíu prósent sjúklinga með óskilgreinda brjóstverki fengu ekki leiðbeiningar um viðbrögð við áframhaldandi verkjum (samanborið við 19% hjartasjúklinga, p<0,05) og einungis 40% fengu upplýsingar um aðrar mögulegar orsakir brjóstverkja.

Ályktun: Óskilgreindir brjóstverkir eru algengir meðal sjúklinga á bráðadeildum. Meirihluti þessara sjúklinga höfðu áframhaldandi brjóstverki sem tengdir voru við andlega vanlíðan og margir upplifðu upplýsingaleysi varðandi viðbrögð við frekari brjóstverkjum eða hvað gæti orsakað þá. Með bættri upplýsingagjöf og þróun þverfaglegrar meðferðar mætti veitta þessum sjúklingahóp mikilvægan stuðning.

 

D10 - Áhrif hjúkrunarstýrðrar eftirgæslu á sálræna líðan sjúklinga eftir útskrift af gjörgæsludeild

Rannveig J. Jónasdóttir1,2, Helga Jónsdóttir1, Berglind Guðmundsdóttir1,3, Gísli H. Sigurðsson1,4

1Háskóli Íslands, 2Gjörgæsludeild Landspítala Fossvogi, 3Geðsvið Landspítala, 4Gjörgæsludeild Landspítala Hringbraut

rannveij@landspitali.is

Inngangur: Bráð og alvarleg veikindi og lega á gjörgæsludeild geta haft sálræn áhrif á sjúklinga og framkallað einkenni kvíða, þunglyndis og áfallastreituröskunar.

Markmið: Að mæla sálræn áhrif hjúkrunarstýrðrar eftirgæslu á sjúklinga eftir legu á gjörgæsludeild.

Aðferðir: Framsýn samanburðarrannsókn á sjúklingum eftir útskrift af gjörgæsludeild þar sem rannsóknarhópur (N=68) fékk skipulagða, hjúkrunarstýrða eftirgæslu sem fólst í eftirliti með klínísku ástandi á legudeild, símatali fyrstu viku eftir útskrift heim af legudeild og viðtali þremur mánuðum eftir útskrift af gjörgæsludeild. Samanburðarhópur (N=75) fékk hefðbundna þjónustu. Kvíði og þunglyndi voru mæld á fjórum tímapunktum og áfallastreituröskun á þremur tímapunktum að 12 mánuðum eftir útskrift af gjörgæsludeild auk truflandi minninga frá gjörgæslulegu og sálrænum viðbrögðum við þeim (taldi mig vera í lífshættu, líkama mínum misboðið/vanvirtur, hjálparvana, hryllingur, skelfingu lostinn). Munur á hópunum var mældur yfir tíma með aðhvarfsgreiningu og línuleg aðhvarfsgreining spáði fyrir um áfallastreituröskun við þrjá mánuði.

Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn hafði marktækt meiri einkenni áfallastreituröskunar og kvíða yfir tíma. Alvarleg einkenni áfallastreituröskunar höfðu 27% sjúklinga. Sjúklingar með áfallastreituröskun við þrjá mánuði höfðu truflandi minningar frá gjörgæslulegu og fundu fyrir sálrænum viðbrögðum.

Ályktun: Skipulögð, hjúkrunarstýrð eftirgæsla gjörgæslusjúklinga virðist ekki koma í veg fyrir kvíða og einkenni áfallasteituröskunar. Hátt hlutfall sjúklinga með alvarleg einkenni áfallstreituröskunar er áhyggjuefni. Við þróun hjúkrunarstýrðar eftirgæslu gjörgæslusjúklinga verður að gera ráð fyrir truflandi minningum frá gjörgæslulegu og sálrænum viðbrögð við þeim.

 

D11- Notkun Ottawa gátlistans við mat á ökklaáverkum á bráðamóttöku Landspítala

Sólveig Wium1, Bryndís Guðjónsdóttir1, Guðbjörg Pálsdóttir1,2, Guðrún Lísbet Nielsdóttir1, Hilmar Kjartansson1, Pétur Hannesson4, Brynjólfur Mogensen1,2,3, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir2,5

1Bráðamóttöku Landspítala, 2Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum, 3læknadeild HÍ, 4röntgendeild Landspítala, 5hjúkrunarfræðideild HÍ

thordith@landspitali.is

Inngangur: Árið 2015 leituðu 3148 manns á bráðamóttöku Landspítala vegna ökklaáverka, myndgreiningakostnaðurinn var um 14 milljónir. Samkvæmt umfangsmiklum erlendum rannsóknum má draga úr myndgreiningarannsóknum með því að meta ökklaáverka samkvæmt Ottawa-gátlistanum, auk þess að flýta fyrir þjónustu án áhættu fyrir sjúklinginn.

Markmið: Að kanna öryggi mats samkvæmt Ottawa-gátlistanum meðal einstaklinga sem komu til meðferðar á bráðamóttöku Landspítala með ökklaáverka á árinu 2016.

Aðferðir: Gerð var framskyggn samanburðarrannsókn á úrtaki sjúklinga 12 ára og eldri. Íhlutun rannsóknarinnar var mat hjúkrunarfræðinga samkvæmt Ottawa-gátlista á ökkla- og/eða fótaáverkum. Samræmi við niðurstöður greiningar lækna og röntgengreiningar var reiknað. Einnig var skoðuð kyn- og aldursdreifing áverka.

Niðurstöður: Gögn voru greind frá 288 einstaklingum, konur voru fleiri (53,5%) og eldri að meðaltali, 32 ára miðað við 26 ára (p<0,05). Samkvæmt Ottawa voru 239 (80%) grunaðir um brot, 271 (94%) fóru í röntgenmyndatöku, 51 þeirra reyndust brotnir samkvæmt röntgenmynd. Ekki reyndist munur á hlutfalli kvenna og karla sem voru með brot. Tölfræðileg næmni mats með Ottawa fyrir niðurstöðu röntgenmyndatöku var 92,2% og sértækni 19,0%, PPV 19,7% og NPV 92,3%.

Ályktun: Öryggi sjúklinga sem leita bráðamóttöku Landspítala með ökklaáverka var ekki ógnað ef niðurstöðum Ottawa-gátlista var fylgt. Í samræmi við alþjóðlegar rannsóknir gæti notkun gátlistans gæti enn fremur aukið skilvirkni og dregið úr kostnaði við mat á ökklaáverkum.

 

D12 - Slysadauði barna á Íslandi frá 1980 til 2010

Steinunn Anna Eiríksdóttir1, Arna Hauksdóttir1, Brynjólfur Mogensen2,3, Þórdís K. Þorsteinsdóttir2

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands, 2Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum, flæðisviði Landspítala, 3Læknadeild Háskóla Íslands, 4Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

thordith@landspitali.is

Inngangur: Dregið hefur úr algengi áverka sem dánarorsakar barna í heiminum. Erlendis virðist slysadauði vera algengari meðal drengja, höfuðáverkar algengasta orsökin en einnig að dánartíðnin sé mismunandi eftir aldri, félagslegri stöðu og landfræðilegri staðsetningu slyss.

Markmið: Að kanna og lýsa slysadauða íslenskra barna, 0-17 ára, frá 1980 til 2010.

Aðferðir: Rannsóknin byggði á gögnum dánarmeinaskrár og Hagstofu Íslands. Greind voru tilvik yfir tímabilið, áverkaflokkur, aldur, kyn, slysstaður (dreifbýli/þéttbýli) auk fjölda fullorðinna og systkina á heimilinu. Algengi, þróun yfir tíma og hlutföll eftir bakgrunnsþáttum voru reiknuð með Poisson-aðhvarfsgreiningu, kí-kvaðrat prófi og líkindahlutfalls prófi eftir því sem við átti.

Niðurstöður: Á tímabilinu voru 304 börn skráð hafa látist vegna áverka samkvæmt sjúkdómsflokkunarkerfi. Fjórir voru útilokaðir frá rannsókn þar sem áverki reyndist ekki raunverulegt dánarmein, 25 vegna sjálfskaða, 9 þar sem óljóst var hvort um slys eða sjálfskaða var að ræða og 3 þar sem um ofbeldisverk var að ræða. Af þeim 263 börnum sem létust af völdum slysaáverka á tímabilinu voru 69,2% drengir. Algengustu dánarorsakir voru höfuðáverkar (41,1%), drukknanir (17,5%), fjöláverkar (14,1%), áverkar á brjóstholi (7,6%) og köfnun (6,8%). Flestir voru 15-17 ára (41,1%). Fleiri dauðsföll áttu sér stað í dreifbýli (58,5%), og meirihluti bjó með tveimur fullorðnum (77,2%) og tveimur eða færri systkinum (89,4%). Nýgengi slysadauða lækkaði á tímabilinu, marktækt fyrir drengi.

Ályktanir: Niðurstöðurnar eru góðs viti en stefna mætti enn frekar að því að draga úr áverkadauðsföllum barna með sértækum forvörnum og viðeigandi bráðaþjónustu.

 

D13 - ADHD hjá fullorðnum sem vísað er til ADHD teymis Landspítala: yfirlitsgrein

Bára Sif Ómarsdóttir1, Sigurlín Hrund Kjartansdóttir2, Jón Friðrik Sigurðsson1,2, Páll Magnússon

1Háskólans í Reykjavík, 2geðsviði Landspítala

barasom@landspitali.is

Inngangur: Rannsóknir hafa sýnt að ADHD einkenni hafa neikvæð áhrif á daglegt líf og lífsgæði fólks, meðal annars á sambönd, árangur í skóla, vinnu og líkamlega- og andlega vellíðan.

Markmið: Að skoða hvað einkennir þá sem sækja um í ADHD teymi Landspítala og að skoða hvort að munur væri á þeim sem að skimast neikvæðir fyrir ADHD, þeim sem skimast jákvæðir en uppfylla ekki greiningarviðmið og þeim sem uppfylla greiningarviðmið fyrir ADHD.

Aðferð: Afturskyggn rannsókn á einstaklingum sem skimaðir voru fyrir ADHD í ADHD teymi Landspítala árin 2013-2015. Þeir sem að uppfylltu skimunarviðmið fyrir ADHD (T-skor 65 og hærra á ADHD Rating Scale) fengu greiningarviðtal hjá sálfræðingum teymisins. Leitað var í sjúkraskrám eftir upplýsingum sem komu fram á tilvísunareyðublöðum, útkomum á spurningalistum, greiningum á MINI og ICD-10 greiningum.

Niðurstöður: Þeir sem að uppfylltu greiningarviðmið fyrir ADHD voru með lægra menntunarstig en hinir hóparnir (p<.001) og foreldrar eða kennarar höfðu meiri áhyggjur af hegðun þeirra og þroska í æsku (p = .006). Ekki var marktækur munur á lyfjanotkun, atvinnustöðu, né vímuefnanotkun. Marktækur munur var á fjölda fylgiraskana, þar sem þeir sem uppfylltu ekki greiningarviðmið fyrir ADHD voru með fleiri fylgiraskanir samanborið við þá sem uppfylltu greiningarviðmið fyrir ADHD   (p = .003). Ekki var marktækur munur á niðurstöðum sálfræðilegra prófa sem meta andlega líðan milli þeirra sem uppfylltu greiningarviðmið fyrir ADHD og þeirra sem uppfylltu ekki greiningarviðmið fyrir ADHD.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að ADHD hafi áhrif á lífsgæði fólks á mörgum sviðum. Einnig þarf að huga að þeim sem að skimast jákvæðir en uppfylla ekki greiningarviðmið fyrir ADHD þar sem að þeir virðast vera að upplifa mikla andlega vanlíðan.

 

D14 - Komur kvenna á Bráðamóttöku Landspítala vegna heimilisofbeldis

Drífa Jónasdóttir1,2, Sigrún Helga Lund1,4, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir2,5, Brynjólfur Mogensen1,2,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 3Bráðamóttöku Landspítala, 4Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands, 5Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

drj8@hi.is

Inngangur: Það er talið að 22% kvenna á Íslandi hafi búið við heimilisofbeldi. Niðurstöður eldri rannsókna sýndu að af konum sem búa við heimilisofbeldi, leituðu 17% á Bráðamóttöku Landspítala. Önnur rannsókn sýndi að 33% kvenna sem leituðu á Bráðamóttökuna höfðu verið beittar heimilisofbeldi. Líkamlegir áverkar voru oftast minniháttar, staðsettir á höfði og á efri hluta líkamans.

Markmið: Markmiðið hér er að rannsaka umfang og eðli heimilisofbeldis í garð kvenna sem komu á Bráðamóttöku eftir ofbeldi karla.

Aðferðir: Miðað var við að konan hafi verið 18 ára eða eldri þegar heimilisofbeldið átti sér stað og gerandi hafi þá eða áður verið  sambýlismaður/unnusti/eiginmaður eða barnsfaðir þolanda. Gögn um komur vegna ofbeldis á Bráðamóttökuna á tímabilinu 2005-2014 voru sótt í gegnum Nomesco skráningarkerfið um ytri orsakir áverka. Teknar voru saman upplýsingar um fjölda koma, greiningar, slysstað og aldur og tengsl gerenda og þolenda.

Niðurstöður: Alls voru 12.650 komur karla og kvenna 18 ára og eldri á Bráðamóttöku, þar af voru konur 3.655 (29%), komur kvenna vegna heimilisofbeldis voru 1284. Meðalaldur kvenna sem komu vegna heimilisofbeldis var 34 ár, hlutfall innlagna var 2,7%. Rúm 14% hafði komið a.m.k. einu sinni áður. Í 75% tilvika átti heimilisofbeldið sér stað á heimili þolanda eða geranda. Áverkar voru oftast staðsettir á höfði, á efri útlimum, hálsi, andliti og á brjóstkassa.

Ályktun: Heimilisofbeldi var 35% af öllu kvennaofbeldi. Alls höfðu 14% kvenna leitað ítrekað á Bráðamóttöku vegna heimilisofbeldis, sem er í samræmi við erlendar rannsóknir. Áverkarnir voru oftast minniháttar, staðsettir á höfði og efri hluta líkamans.

 

D15 - Félagsskilningur ungs fólks eftir geðrof

Ólína Viðarsdóttir1,2, Brynja B. Magnúsdóttir2,3, David Roberts4, Elizabeth W. Twamley5, Berglind Guðmundsdóttir1,2, Engilbert Sigurðsson1,2

1Háskóla Íslands, 2Landspítala Háskólasjúkrahúsi, 3Háskóla Reykjavíkur, 4The University of Texas Health Science Center at San Antonio, 5University of California, San Diego

vidarsdo@landspitali.is

Inngangur: Félagsskilningur skiptist upp tvo undirþætti, félagsskilningsvillu (social bias) og félagsskilningshæfni (social cognitive function) og er einn vitrænna þátta sem skertir eru í geðrofssjúkdómum. Mat og meðferð við félagsskilningsvanda hefur fengið meiri athygli síðustu ár því að rannsóknir benda til þess að félagsskilningur spái betur fyrir um færni í daglegu lífi heldur en aðrir vitrænir þættir.

Markmið: Að meta félagsskilning hjá einstaklingum með geðrofssjúkdóma og tengsl félagsskilnings við vitræna getu, færni í daglegu lífi, líðan og lífsgæði með það að markmiði að kanna þörfina á félagsskilningsþjálfun.           

Aðferðir: Öllum einstaklingum sem sóttu þjónustu á meðferðargeðdeild Landspítala fyrir geðrofssjúkdóma á tímabilinu september 2015 - desember 2016 var boðin þátttaka. Taugasálfræðileg próf, viðtöl og sjálfsmatskvarðar voru notuð og upplýsingar um sjúkdómsgang sóttar í sjúkrasögu. Niðurstöður úr taugasálfræðilegum prófum voru bornar saman við heilbrigðan samanburðarhóp og fylgni milli þátta var skoðuð.

Niðurstöður: Alls tóku 68 einstaklingar þátt (Meðalaldur: 24 ár (18-30 ára); 85% karlar). Vandi kom fram á báðum undirþáttum félagsskilnings. Fylgni var á milli félagsskilningsvillu og geðrofseinkenna (r= 0,5, p<0,01). Einnig kom fram fylgni á milli félagsskilningshæfni og neikvæðra einkenna í geðklofa (r = -0,3, p< 0,05) sem og vitrænna þátta. Lífsgæði höfðu fylgni við félagsskilningsvillu (r= -0,29- -0,32, p= 0,05) en ekki við aðra vitræna þætti. Færni í daglegu lífi hafði sterkari tengsl við félagsskilning heldur en aðra vitræna þætti. 

Ályktun: Niðurstöðurnar auka skilning á félagsskilningi og veita vísbendingar um gagnsemi þess að innleiða félagsskilningsþjálfun í þessum hópi þegar markmiðið er að auka lífsgæði og færni í daglegu lífi.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica