Ávarp

Ávarp

VELKOMIN!

Heiðruðu þinggestir og samstarfsfólk

Verið velkomin á sameiginlegt vísindaþing skurðlækna, svæfinga- og gjörgæslulækna, fæðinga- kvensjúkdómalækna, og hjúkrunarfræðinga í sömu greinum, 8. og 9. apríl 2016 í Hörpu.

Þetta þing telst vera hið 18. í röðinni en lengi vel stóðu skurðlæknar og svæfingalæknar einir að því. Þátttaka Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna sem og fagdeilda svæfinga- og skurðhjúkrunarfræðinga hefur aukist og eflst á undanförnum árum og í ár taka þessi félög í fyrsta sinn fullan þátt og bera jafna ábyrgð á við hin, bæði faglega og fjárhagslega.

Dagskráin hefst með málþingi um líffæraígræðslur, sem sameinar áhuga okkar allra. Þá taka við innsend erindi og kynningar á veggspjöldum, um 50 talsins.  Aðalfundir læknafélaganna verða settir í lok fyrri dagsins og þar er vænst góðrar þátttöku líka.

Síðari daginn verða haldin sérhæfðari málþing hvers faghóps. Aftur sameinumst við í lokin og hlýðum á heiðursfyrirlestur, þar sem ferðasaga frá einstakri heimsreisu verður sögð, og síðan verður keppni um besta erindi unglæknis eða læknanema en þar keppa til verðlauna þau 5 erindi sem talin voru best af sérstakri dómnefnd.

Á gamalgrónum menningarstað og öldurhúsi, Hótel Borg, fögnum við svo um kvöldið og gerum vel við okkur í mat, drykk og skemmtun.

Við höfum fengið til liðs við okkur nokkra færa erlenda fyrirlesara og tökum vel á móti þeim. Erlendir gestir hleypa kostnaði við þinghaldið auðvitað upp en þeir eru vel valdir og mikils virði. Vísindaþing sem þetta verður ekki haldið nema með stuðningi fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Við þökkum þeim stuðninginn og hvetjum þinggesti til að kynna sér það sem þau hafa að bjóða.

Yfirskrift þingsins með upptalningu á öllum aðildarfélögum er óneitanlega óþjál í munni. Hér með er lýst eftir hugmynd að hentugu nafni til að nota um þennan viðburð og samvinnuverkefni, sem vonandi verður lengi enn við lýði.

Megið þið eiga góða og gagnlega daga í Hörpu á þessu vori.

Fyrir hönd undirbúningsnefndarinnar,

Þóra Steingrímsdóttir

 

Stjórn Skurðlæknafélags Íslands                                 Stjórn Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags

Helgi Kjartan Sigurðsson, formaður                               Kári Hreinsson, formaður

Kristín Huld Haraldsdóttir, varaformaður                      Sigurbjörg Skarphéðinsdóttir, ritari

Björn Pétur Sigurðsson, gjaldkeri                                    Ívar Gunnarsson, gjaldkeri

Tómas Guðbjartsson, ritari                                               Sveinn Geir Einarsson, meðstjórnandi

Halla Fróðadóttir, meðstjórnandi

 

Fulltrúar Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna

Helga Medek

Snorri Einarsson

Þóra Steingrímsdóttir

 

Fulltrúar fagdeildar skurðhjúkrunar í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga

Helga Guðrún Hallgrímsdóttir

Kristín Hlín Pétursdóttir Bernhöft

 

Fulltrúar fagdeildar svæfingahjúkrunar í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga

Anna Izabela Górska

Hrafnhildur Brynjarsdóttir

Lára Borg Ásmundsdóttir




Þetta vefsvæði byggir á Eplica