12. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

In memoriam


Snorri Páll Snorrason 
læknir 1919-2009

Hann var fæddur 22. maí 1919 og dáinn 16. maí 2009. Snorri Páll varð stúdent úr stærðfræðideild Menntaskólans á Akureyri árið 1940 og lauk kandídatsprófi í læknisfræði 1949. Viðurkenndur sérfræðingur í lyflækningum með sérstöku tilliti til hjartasjúkdóma 1955. 


Á uppvaxtarárum sínum á Breiðabólstað í Hörgslandshreppi í Vestur-Skaftafellssýslu stund-aði hann veiðar af ýmsu tagi og aflaði meðal annars fóðurs fyrir refi, sem faðir hans, Snorri Halldórsson héraðslæknir, ræktaði. Snorri eldri var einnig áhugamaður um ræktun nytjajurta og því vaknaði snemma áhugi Snorra Páls fyrir mann-
eldismálum.


Í skóla nyrðra var hann frækinn í íþróttum, enda hraustur og fylginn sér og hlaut hann þar auknefnið Snorri sterki. En umfram annað lagði hann stund á skáklistina, sem fylgdi honum alla tíð síðan. Skömmu eftir að hann lauk embættisprófi, þegar hann var við störf á Vífilsstaðaspítala, veiktist hann skyndilega. Var í byrjun álitið að berklar væru í miðtaugakerfi, en Snorri Páll kvað sjálfur upp úr um það af rökvísi sinni, að þetta hlyti að vera mænusótt og var farið eftir því við meðhöndlunina. Sjúkdómurinn setti mark sitt á Snorra. Hann var með spelku á á öðrum fæti og stakk aðeins við, fór ekki hratt yfir. Hann var beinn í baki og bar sig með reisn. 


Eftir kandídatsárið var Snorri aðstoðarlæknir borgarlæknisins í Reykjavík í eitt ár og næstu þrjú árin starfaði hann á lyflækninga-deild Landspítalans. Árið 1954 hélt hann ásamt eiginkonu sinni, Karólínu Kristínu Jónsdóttur, til Boston í framhaldsnám í hjartasjúkdómum á Massachusetts General Hospital. Þar komust þau í náin kynni við Paul Dudley White (1886-1973), sem varð upphafsmaður forvarna í hjartasjúkdómum. Þegar Paul Dudley lagðist sjálfur inn á spítalann, sem hann var enn tengdur, vildi hann engan láta hjúkra sér nema Karólínu Kristínu og mun hann í því skyni hafa útvegað henni hið bráðasta „græna kortið“, sem fól í sér starfsleyfi henni til handa. 


Eftir ársdvöl í Boston komu þau hjónin heim og Snorri Páll hvarf aftur á lyfjadeild Landspítalans, sem varð vinnustaður hans upp frá því, deildarlæknir frá 1959 og yfirlæknir frá 1970. Hann var kennari í lyflækningum og lyfjafræði í Hjúkrunarskóla Íslands 1950-60 og síðar við námsbrautir HÍ í hjúkrun og í sjúkraþjálfun, lektor við læknadeild HÍ frá 1959, dósent frá 1966, settur prófessor 1975-76 og skipaður prófessor 1983-89.


Snorri Páll var afbragðsfræðari, en umfram allt annað var hann fyrirmynd í rökvísri sjúkdómsgreiningu og meðferð og hann minnti okkur nemendur sína á að hafa jafnan mið af siðrænum horfum í læknisstarfinu. Hann var skipaður árið 1976 í nefnd til þess að endurskoða siðareglur Læknafélags Íslands. 


Snorri Páll var snemma valinn til forystu í ýmsum félagasamtökum, svo sem í Styrktarfélagi lamaðra við stofnun 1952, Hjartavernd frá stofnun 1964 til 1998, Læknafélaginu Eir 1959-60, Bandalagi háskólamanna 1967-71 og er þá fátt eitt talið. Hann var í Manneldisráði 1974-77 og formaður ráðsins 1978-80. Snorri Páll var ritari stjórnar Læknafélags Reykjavíkur 1958-64 og formaður Læknafélags Íslands 1971-74. Hann var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslenzku fálkaorðu árið 1980 og sex árum síðar var hann kjörinn heiðursfélagi Læknafélags Reykjavíkur. 


Kynni okkar Snorra Páls hófust fyrir hálfri öld, þegar ég var að ljúka fyrsta hluta prófi í læknisfræði. Þá bjuggum við í sama húsinu í Hvassaleitinu, þar sem þau Karólína og Snorri bjuggu kjörbörnum sínum, Snorra Páli og Kristínu, heimili. 


Um þetta leyti voru læknar að reyna að koma á endurbótum á skipun læknisþjónustu í borginni. Sú kvöð var á mörgum sérfræðingum, að þeir urðu samkvæmt samningum, að sinna heimilislækningum hjá ákveðnum fjölda fólks á vegum Sjúkrasamlags Reykjavíkur. Laun þeirra sem unnu á sjúkrahúsunum voru skorin við nögl, enda til þess ætlast að menn færu upp úr hádeginu út í bæ til þess að vinna fyrir sér. Læknafélag Reykjavíkur hóf þá undirbúning að því að ná fram betri kjörum, svo sem að greitt yrði fyrir vaktir á spítölunum. Að sjálfsögðu náðist ekkert samkomulag og þetta leiddi til hópuppsagna lækna og málinu var síðan vísað til Kjaradóms (Læknablaðið 1986; 72: 120-1).


Þegar úrskurður dómsins lá fyrir á miðju ári 1963, kom í ljós, að kröfur lækna höfðu ekki verið ástæðulausar, því mér er minnisstætt að laun okkar unglæknanna fimm- og sexfölduðust. Ég veit að á engan er hallað, þegar ég fullyrði að Snorri Páll var öðrum fremur hugmyndafræðing-ur þeirrar kjarabaráttu, sem þarna fór fram. 


Þegar Snorri Páll var kjörinn formaður Lækna-félags Íslands árið 1971, var í vinnslu frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu. Læknar völdu Snorra Pál Snorrason til forystu, vegna þess að þeir treystu honum manna bezt til þess að marka rétta stefnu og ná samkomulagi við ráðherra og alþingi. Þetta tókst Snorra Páli og kom það mjög vel fram í ágætu viðtali við hann fyrir ári síðan (í Læknablaðinu 2008; 94: 616-7). 


Læknar heiðra þá félaga, sem fremstir eru meðal jafningja, hver á sínu sviði. Mér er ljúft að rækja þessa skyldu og jafnframt vil ég þakka Snorra Páli Snorrasyni leiðsögnina í fræðunum.


ornbjarnason@live.com

Hávar Sigurjónsson tók myndina af Snorra Páli á öldrunarheimilinu Droplaugarstöðum við Snorrabraut vorið 2008. Myndin var birt með viðtali Hávars við hann í tilefni 90 ára afmælis Læknafélags Íslands (Læknir í 60 ár. Læknablaðið 2008; 94: 616-7).




Þetta vefsvæði byggir á Eplica