11. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Haust í Nesi. Védís Skarphéðinsdóttir

Í svalri og grimmri haustbirtunni í lok september síðastliðnum fór stjórn Lækningaminjasafnsins á Seltjarnarnesi í vettvangsferð til að skoða nýbyggingu safnsins í Nesi. Þar er nú risin myndarleg hæð og gert er ráð fyrir að byggingin verði fullfrágengin í vor. Ef áætlun stenst og guð lofar verður safnið opnað í húsinu árið 2012.

 

Stjórn safnsins hittir arkitekta og samstarfsaðila. Frá hægri: Ólafur Melsteð framkvæmdastjóri tækja- og umhverfissviðs Seltjarnarnessbæjar, Sunneva Hafsteinsdóttir fulltrúi Seltjarnarness í stjórn safnsins, Margrét Hallgrímsdóttir fulltrúi Þjóðminjasafns í stjórn, Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir safnstjóri Lækningaminjasafnsins, Ellen Calmon, fræðslu- og menningarfulltrúi bæjarins, Sigurbjörn Sveinsson, Óttar Guðmundsson, Gunnar Lúðvíksson formaður stjórnar, og arkitektar safnsins Sólveig Berg og Ágústa Helga Ágústsdóttir.

 

Úr safni Níelsar Dungal sem er innan vébanda Lækningaminjasafnsins. Dæmi um holdsveiki á höndum og fæti, líklega frá Holdsveikispítalanum í Laugarnesi.

 

Hið eiginlega safn er geymt í húsi við Bygggarða og þar hitti stjórnin fyrir á fleti ýmsa aðila sem málið varðar. Í geymslu eru margvíslegir gripir fornir og nýir sem bíða átekta eftir að njóta sín í dagsljósinu í nýrri vistarveru, þarna eru bæði tól og tæki, húsgögn og bækur, heil skemma á tveimur hæðum, full af góssi. Í Nesi er Lyfjasafnið til húsa, þar mun jafnframt fara fram fornleifauppgröftur í samvinnu við HÍ og uppi eru ráðagerðir um að setja þar niður lækningajurtagarð með öllum helstu plöntum sem geta staðið undir því nafni að vera lækningajurt. Nú þegar er búið að skipa í nefnd sem hefur það hlutverk að raða niður í garðinn réttum grösum. Þetta er gert í samráði við Landlæknisembættið, sem fagnar þeim virðulega áfanga 18. mars næstkomandi að verða 250 ára gamalt, og Garðyrkjufélag Reykjavíkur sem verður 125 ára í vor. Þessi félög munu leiða þetta verkefni og Læknafélag Íslands hefur tilnefnt Örn Bjarnason formann nefndarinnar sem leiðir þetta.

 

 

Andstæður í sjón og raun, húsakostur 21. aldar er alls óskyldur húsagerðarlist frá 18. öld.Þetta vefsvæði byggir á Eplica