10. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Tóbaksvarnarþing. Langhættulegasta fíkniefnið

Það var greinilegur baráttuandi í fundarsal Læknafélagsins þegar saman voru komnir yfir 70 manns víða að úr heilbrigðis- og menntakerfinu og atvinnulífinu til að sitja tóbaksvarnaþing Læknafélags Íslands. Fyrir þingið hafði undirbúningsnefnd sent frá sér tæpitungulausa yfirlýsingu um drápseðli tóbaksins og kostnað heilbrigðiskerfisins og fjölmiðlar gripu þetta á lofti og gerði Morgunblaðið þetta að aðalfrétt á forsíðu daginn fyrir þingið. Líklega var áhrifamesta nálgun tóbaksvarnaþingsins fólgin í skýrum skilaboðum byggðum á beinhörðum staðreyndum. Sá tími er löngu liðinn að ræða þurfi hversu skaðlegar reykingar séu og hvort ástæða sé til að takmarka þær enn frekar. Staðreyndirnar tala sínu máli. Það er ekki eftir neinu að bíða.

 

Ögmundur ávarpar tóbaksvarnaþingið.

 

Fram hafði komið að kostnaður samfélagsins vegna reykinga nemur um 30 milljörðum árlega en tekjur af sölu tóbaks eru 7 milljarðar. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra flutti opnunarræðu þingsins og vitnaði í frétt Morgunblaðsins og rakti tölfræði sem fram hafði komið. Hann kvaðst vilja taka undir orð Læknafélags Íslands um skaðsemi reykinga og tíundaði að á ári hverju deyja um 400 manns af völdum reykinga, tífalt fleiri en deyja samanlagt af slysförum á landinu árlega. Hann kvaðst ekki vilja vera jafnróttækur og Læknafélagið og banna reykingar alfarið en minnti á að tillögur um bann við reykingum á veitingastöðum hafi þótt róttækar á sínum tíma. „Ég held að fáir deili um það núna að það hafi verið jákvætt skref.“

Ögmundur varpaði fram þeirri spurningu hvað sígarettupakkinn þyrfti að kosta til að salan stæði alfarið undir kostnaði heilbrigðiskerfisins við sjúkdóma af völdum reykinga. Þeirri spurningu var svarað af síðari ræðumönnum og raunverð sígarettupakkans sagt þurfa að vera 3000 krónur.

„Þætti það vera fölsun á neysluvísitölunni ef ég legði til að áður en tóbakið yrði hækkað í verði þá yrði því kippt útúr vísitölugrunninum. Þetta þarf samfélagið að ræða, þetta þarf Alþingi að ræða og þetta þarf ríkisstjórnin að ræða og ég ætla að sjá til þess að svo verði gert,“ sagði Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra.

Í kjölfar ráðherrans sigldu síðan fimm læknar með sameiginlegt erindi þar sem útlistað var á sláandi hátt hvernig reykingatengdir sjúkdómar snerta allar sérgreinar læknisfræðinnar. Fyrstur lýsti Sigurður Böðvarsson krabbameinslæknir áhrifum reykinga á hin ýmsu krabbamein og benti á að reykingar orsaki yfir 90% af lungnakrabbameinum. „Þó er ekki nema einn af hverjum fjórum reykingamönnum sem deyja úr lungnakrabbameini. Þrír af hverjum fjórum deyja úr öðrum sjúkdómum sem reykingarnar valda.“ Sigurður vísaði í rannsóknir í Bandaríkjunum sem umreiknaðar fyrir íslenskar aðstæður benda til þess að nær 40 manns deyi árlega vegna óbeinna reykinga. „Hvers eiga þeir að gjalda?“

Stefán Þorvaldsson lungnalæknir ræddi um langvinna lungnasjúkdóma sem reykingar valda og hvernig reykingar eyðileggja berkjur og pípur í lungunum og valda því að loftskipti verða hægari en ella og geta hreinlega endað með því að reykingamaðurinn kafnar úr súrefnisleysi. Ekki glæsilegar horfur það.

 

Heimilislækningafrömuðirnir Sigurbjörn Sveinsson og Jóhann Ágúst Sigurðsson.

 

Karl Andersen hjartalæknir var ómyrkur í máli og benti á að um þriðjungur þeirra sem deyja úr reykingum deyr ótímabærum dauða, fyrir aldur fram. Hann sagði ennfremur að um 80% þeirra sem kæmu í hjartaþræðingu væri fólk sem annaðhvort reykti eða hefði reykt. „Þó er ekki nema fimmti hluti þjóðarinnar sem reykir. Í Bandaríkjunum deyja þrefalt fleiri úr reykingum en allur sá fjöldi sem deyr af öðrum ástæðum en sjúkdómum (non-medical). Það eru dauðsföll vegna glæpa, slysa, náttúruhamfara, eldsvoða og þess háttar.“

Karl sagði tölfræðina skýra. „Þrjátíu og fimm ára gamall maður sem reykir ekki á 81% möguleika á að ná 75 ára aldri. Sá sem reykir á 58% möguleika á að ná sama aldri. Þeir sem hætta eiga hins vegar möguleika á að vinna þennan mun upp og ná sömu lífslíkum,“ sagði Karl.

Eflaust léttir einhverjum reykingamanni við það og hugsar með sér að málinu sé bjargað með því að hætta að reykja tímanlega. Þar stendur hins vegar hnífurinn í kúnni því í máli Magnúsar Jóhannssonar prófessors kom nefnilega fram að líkurnar á því að geta hætt reykingum eru hverfandi; aðeins 2-4% þeirra sem hætta að reykja eru enn reyklausir ári síðar. Þetta eru reyndar þeir sem hætta af eigin rammleik því líkurnar á árangri aukast eftir því sem meiri aðstoðar við að hætta er leitað. Magnús færði sterk rök fyrir því að nikótín ætti að flokka sem lyf og/eða fíkniefni þar sem það væri meira vanabindandi en heróín, kókaín og áfengi, einnig meira bráðdrepandi en þessi þrjú efni og líkurnar á að geta hætt notkun þess væru umtalsvert minni en hjá þeim sem háðir eru heróíni, kókaíni eða áfengi. „Ef nikótín kæmi fram í dag yrði það umsvifalaust bannað bæði sem eitur og ávanabindandi efni.“ Magnús benti ennfremur á að miðað við veikindi og dauðsföll kæmist ekkert fíkniefni með tærnar þar sem nikótín hefði hælana. „Nikótín er langhættulegasta fíkniefni sem við þekkjum.“

 

Enginn er frjáls fíkill

Valgerður Rúnarsdóttir, sérfræðingur í fíknsjúkdómum, tók upp þennan þráð og rakti hversu erfitt væri fyrir nikótínista að hætta. „Reykingar eru stærsta mögulega fyrirbyggjandi ástæða fyrir dauðsföllum á Vesturlöndum. Fyrir utan peningaaustur tóbaksframleiðenda í markaðssetningu er það fíknin sjálf sem viðheldur reykingum. Hún er undirrótin að þeim gríðarlega félagslega, efnahagslega og heilsufarslega vanda sem stafar af reykingum.“ Valgerður vitnaði í ungan dreng sem vissi upp á hár hvað væri verst við reykingar: það væri svo erfitt að hætta. „Þetta er aðalatriðið. En það er samt ekki nóg að vita þetta því unga fólkið byrjar samt að reykja og einnig þrátt fyrir alla tölfræði um hversu margir deyja fyrir sjötugt vegna reykinga. Sá sem byrjar að reykja 15 ára er ekki með áætlun í kollinum um að reykja næstu 30 árin. Það sem er mikilvægast er að gera tóbak dýrt og sjaldgæft. Það er öruggasta leiðin til að koma í veg fyrir að ungt fólk byrji að reykja. Fíknin er svo yfirþyrmandi að öll fögur fyrirheit falla í skuggann af henni.“

 

Jón Steinar Jónsson heimilislæknir Garðabæ, Sigurður Böðvarsson krabbameinslæknir og Mikael Clausen barnalæknir voru í hópi þeirra lækna sem ræddu um áhrif reykinga á allar sérgreinar læknisfræðinnar.

 

Það kom skýrt fram í máli Valgerðar að tóbaksfíkn stenst öll viðmið fíknfræðanna og enginn þarf að velkjast í vafa um að nikótín er vanabindandi fíkniefni.

Ástríður Stefánsdóttir flutti í lokin fyrirlestur á heimspekilegum nótum þar sem hún fjallaði um hinn frjálsa vilja og hvort einstaklingurinn væri ekki frjáls að því að velja hvort hann reykti eða ekki. Það væri hans mál hvort hann kysi að eyðileggja heilsu sína og einskis annars. Hún kvað hins vegar vel mega setja spurningamerki við þá fullyrðingu að sá sem er á valdi nikótínfíknar sé frjáls. Á sama hátt megi spyrja hvort unglingur í grunnskóla sé fyllilega frjáls að því að ákveða hvort hann byrji að reykja eða ekki ef hann upplifir mikinn þrýsting frá vinum og umhverfi.

Að loknum frábærlega fróðlegum og skeleggum fyrirlestrum var þingfulltrúum skipt í fjóra vinnuhópa sem fínpússuðu ályktanir þingsins sem undirbúningsnefnd tók að sér að ganga frá til birtingar. Þær verða ekki raktar hér en er að finna í heild sinni á heimasíðu Læknafélagsins, www.lis.is

Þess má að lokum geta að efnt var til tókbaksvarnaþingsins þar sem aðalfundur Læknafélags Íslands 2008 fól stjórn félagsins að standa að tóbaksvarnaþingi. Undirbúningsnefndin var að mestu skipuð meðlimum úr stjórn LÍ en ýmsir fleiri lögðu verkefninu lið. Haft var á orði í lok þingsins að vel mætti hugsa sér að halda annað þing innan fárra ára til að meta árangurinn.

 

 

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica