10. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Inflúensufaraldur. Haraldur Briem

Heimsfaraldur inflúensu sem stafar af nýjum stofni inflúensuveirunnar er hafinn á þessu ári eftir rúmlega 40 ára hlé. Fólk hefur ekki mótefni gegn inflúensuveirunni, ólíkt árstíðabundinni inflúensu. Slíkur faraldur berst því greiðlega um heiminn og er sýkingartíðnin jafnan hærri en sést við árstíðabundna inflúensu (30-50% vs. 5%) og má því búast við fleiri veikum og fleiri dauðsföllum þótt ekki verði hann hlutfallslega skæðari en venjulega inflúensan.

Til eru nokkuð haldgóðar upplýsingar um fjóra heimsfaraldra inflúensu frá árinu 1890. Þessir faraldrar allir eiga það sammerkt að ganga í bylgjum. Oftast ganga stærstu bylgjurnar yfir á vetrartíma þótt fyrstu bylgjur geti komið upp á hvaða árstíma sem er. Ef litið er aftur til ársins 1918 hófst heimsfaraldur inflúensu í Bandaríkjunum í mars þá eins og nú. Hann barst til Evrópu og Íslands um vorið þá eins og nú og gekk hér undir nafninu júlíinflúensan sem þótti væg pest. Um haustið 1918 reið önnur bylgja faraldursins yfir heiminn og var þá orðin að mannskæðri drepsótt sem nefnd var spænska veikin. Önnur bylgjan barst til Íslands í október 1918. Þá var upphaflega reynt að gera lítið úr veikinni enda júlíinflúensan talin væg. Lítið var því um sóttvarnaráðstafanir á suðvesturhorni landsins, en afleiðingarnar urðu afdrifaríkar, einkum fyrir fólk á aldrinum 20-40 ára. Þetta var spænska veikin en henni hafa verið gerð góð skil í Læknablaðinu á þessu ári.

Heimsfaraldursins 2009 varð fyrst vart á Íslandi í maí. Einungis fá tilfelli greindust framan af sumri en frá því um miðjan júlí fór tilfellum fjölgandi. Við getum því talað um júlíflensuna 2009 eins og gert var 1918. Við getum líka sagt eins og 1918 að júlíflensan var tiltölulega væg. Ef vísbendingar ganga eftir er júlíinflúensan 2009 að hjaðna um þessar mundir.

Ef að líkum lætur ríður önnur bylgja heimsfaraldursins yfir síðar í haust eða komandi vetur. Ekkert verður fullyrt um umfang faraldursins eða hve skæður hann verður. Reynslan bendir þó til þess að hann verði mun umfangsmeiri en júlíinflúensan ef ekkert er að gert. Frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi berast þær fréttir að þótt almennt sé inflúensan tiltölulega væg þá er hún öðruvísi en árstíðarbundin inflúensa að því leyti að þeir sem veikjast mest er tiltölulega ungt fólk sem þarf á gjörgæslumeðferð að halda. Það hefur reynst sjúkrahúsum íþyngjandi.

Frá árinu 2005 hefur verið unnið kerfisbundið að því að búa heilbrigðisþjónustuna og þjóðfélagið undir heimsfaraldur inflúensu. Leitast hefur verið við að hafa í landinu viðbúnað innan skynsamlegra marka til að takast á við skæða farsótt. Keypt hafa verið meðal annars inflúensulyf fyrir hluta þjóðarinnar (35-40%) og gerður var framvirkur samningur um kaup á inflúensubóluefni gegn heimsfaraldri fyrir helming þjóðarinnar ef bólusetja þarf hvern og einn í tvígang. Ætlunin er að bjóða fólki með vissa undirliggjandi sjúkdóma bólusetningu sem þola inflúensu illa og jafnframt þunguðum konum, heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem mikilvægir eru fyrir öryggi samfélagsins. Fari svo að einn skammtur af bóluefni dugi til að öðlast vernd mun bóluefnið sem berst væntanlega til landsins í október til desember duga fyrir alla þegna samfélagsins.

Ef vel tekst til með að bólusetja þjóðina í tæka tíð fyrir næstu bylgju heimsfaraldursins verðum við í fyrsta skipti vel búin til að verjast heimsfaraldri. Það mun skipta heilsu fólksins í landinu, heilbrigðisþjónustuna og atvinnulífið miklu. Það er kunnara en frá þurfi að segja að til eru þeir sem tala gegn bólusetningum. Ýmsu er borið við. Hún er óþörf - en hver veit? Hún er skaðleg - engar rannsóknir benda þó til þess! Áratuga góð reynsla er af bólusetningum gegn inflúensu.

Það er afar mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn sinni bólusetningunni vel og láti bólusetja sig. Þeir gagnast sjúklingum sínum best ef þeir eru frískir. Minni líkur eru á að bólusettir heilbrigðisstarfsmenn smiti skjólstæðinga sína eða beri inflúensuna inn á heimili sín og smiti sína nánustu.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica