07/08. tbl. 95.árg. 2009

Umræða og fréttir

Fjölskylduhjúkrun í fremstu röð. Viðtal við Lorraine Wright

Níunda alþjóðlega fjölskylduhjúkrunarráðstefnan „Frá innsæi til inngripa: Fjölskylduhjúkrun í fremstu röð“ var haldin á Hilton Nordica hótelinu dagana 2.-5. júní síðastliðinn. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni var dr. Lorraine Wright sem getið hefur sér alþjóðlega viðurkenningu fyrir störf sín, rannsóknir og fyrirlestra á sviði fjölskylduhjúkrunar, með sérstakri áherslu á aðstandendur sjúklinga og áhrif alvarlegra veikinda á fjölskyldur sjúklinganna.

 

Lorraine Wright hélt fyrirlestur á ráðstefnu um hjúkrun.

 

Ráðstefnan var haldin á vegum hjúkrunar-fræðideildar Háskóla Íslands, heilbrigðissviðs Háskólans á Akureyri, Landspítala, Heilsugæsl-unnar á höfuðborgarsvæðinu og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Ráðstefnan hefur verið haldin undanfarna tvo áratugi í Norður- og Suður-Ameríku og í Asíu en var nú í fyrsta sinn í Evrópu.

Lorraine Wright var upphafsmaður þessara ráðstefna og segir að hugmyndin hafi kviknað þar sem henni hafi fundist skorta vettvang fyrir hjúkrunarfræðinga sem vildu sérhæfa sig og deila reynslu sinni og þekkingu á fjölskylduhjúkrun. „Fyrsta ráðstefnan var haldin í Tælandi og síðan í Japan og það er ekki skrýtið því þar er áherslan á fjölskylduna gríðarlega sterk og allir vilja geta séð fyrir foreldrum sínum þegar þeir eldast,“ segir Lorraine Wright í samtali við Læknablaðið.

Hún segir augu sín hafa opnast þegar hún fékk leiðbeiningu frá ítölskum geðlækni, dr. M. Palinzoli, sem hafði sérhæft sig í fjölskyldumeðferð sjúklinga. „Hún sagði við mig: „Veikindi snúast alltaf um tengsl sjúklings við aðra. Ef þú vilt fá upplýsingar um fjölskyldu sjúklings skaltu spyrja hann um áhrif veikindanna á tengsl hans við sína nánustu. Það er reyndar augljóst þegar maður veltir því augnablik fyrir sér að veikindi hafa áhrif á öll tengsl og samskipti sjúkingsins við þá sem að honum standa. Veikindin hafa áhrif á hjónaband, tengsl við börn, foreldra, vinnu og alla þætti daglegs lífs. Það er því eðlilegt að horfa á þessa hluti í samhengi og sem hluta af heild þegar fjallað er um veikindi. Í starfi mínu sem kennari lækna- og hjúkrunarfræðinema kenni ég þeim að spyrja sjúklinginn spurninga um áhrif veikindanna á líf hans og fjölskyldu og þá átta nemarnir sig mjög fljótt á samspilinu þarna á milli.“

Lorraine Wright segir viðhorf lækna til fjölskylduhjúkrunar vera bæði einstaklingsbundið og nokkuð breytilegt eftir sérgreinum þeirra. „Það er í rauninni mjög eðlilegt. Sérhæfðir skurðlæknar hafa kannski lítið með fjölskyldu sjúklings að gera en heimilislæknar, barnalæknar, geðlæknar, lyflæknar í mörgum greinum, öldrunarlæknar og fleiri, hafa fullan skilning á þessu og taka þátt í því starfi sem fjölskylduhjúkrun kallar á.“

Megintilgangur ráðstefnunnar er að skapa aðstæður fyrir fjölskylduhjúkrunarfræðinga á alþjóðlegum vettvangi til að deila þekkingu, rannsóknarniðurstöðum og klínískri færni sín á milli. Einnig er hún mikilvægur vettvangur fyrir myndun og þróun alþjóðlegs rannsóknasamstarfs, en alþjóðlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að markviss stuðningur við fjölskyldur einstaklinga með bráð eða langvinn veikindi getur meðal annars skilað sér í bættri líðan, minnkuðu óöryggi og minni kvíða sjúklings og fjölskyldu hans.

Auk Lorraine Wright fjölluðu fyrirlesararnir Madrean Schober, alþjóðlegur ráðgjafi frá Bandaríkjunum, um þróun sérfræðingsþjónustu í fjölskylduhjúkrun á tímum hagræðingar í heil-brigðiskerfinu og Dr. Janice Bell frá Calgary í Kanada um áhrif hjúkrunarmeðferða fyrir fjölskyldur einstaklinga með bráða eða langvinna sjúkdóma. Auk þeirra héldu 15 gestafyrirlesarar erindi um nýjar áherslur í fjölskylduhjúkrun á sviði erfðaráðgjafar, áhrifa sjúkdóma á fjölskyldur, stuðning við fjölskyldur í sorg og í kreppu, yfirfærslu og hagnýtingu þekkingar í kennslu og innan heilbrigðiskerfisins, og fjallað var um fjölskylduhjúkrun og stuðning við einstaklinga til sjálfshjálpar. Í sérstakri dagskrá voru kynntar niðurstöður rannsókna á innleiðingu fjölskylduhjúkrunar á Landspítala sem hófst í ársbyrjun 2007 á öllum starfseiningum hjúkrunar á spítalanum.

„Mér sýnist að hugur fylgi máli hér á Landspítalanum en spítalar í Bandaríkjunum eru mjög misjafnir hvað þetta varðar. Reyndar eru þeir allir með velferð fjölskyldunnar í fyrirrúmi í yfirlýstri stefnu sinni en víða fer lítið fyrir henni í raunverulegri starfsemi. Ég hef hins vegar fulla trú á því að hér sé verið að gera mjög góða hluti,“ segir Lorraine Wright að lokum.

Ráðstefnuna sóttu um 460 þátttakendur frá 39 löndum og öllum heimsálfum. Flutt voru 231 erindi og kynnt 165 veggspjöld.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica