05. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Foreldrastyrkur felldur niður. Viðtal við Ástríði Jóhannesdóttur

Það varð talsvert uppnám þegar stjórn Fjölskyldu- og styrktarsjóðs lækna tilkynnti 23. mars að hætt yrði að veita styrki til foreldra sem tækju sér launalaust orlof vegna barna yngri en 8 ára. Margir foreldrar í læknastétt brugðust illa við enda höfðu þeir gert ráð fyrir þessu í áætlunum sínum og sumir þegar búnir að semja við vinnuveitendur sína um launalaust orlof þó umsókn um styrkinn væri enn ófrágengin. Töldu flestir að þar væri um formsatriði að ræða og því kom ákvörðun stjórnar sjóðsins mjög flatt upp á þá. Hafa verið hvassar umræður á vef LÍ um þetta mál og ýmsar hugmyndir reifaðar um hvernig þessi aðgerð hefði mátt verða sársaukaminni fyrir þá sem urðu fyrir henni.

„Greiðslur vegna foreldraorlof komnar langt framúr greiðslugetu sjóðsins,“ segir Ástríður Jóhannesdóttir formaður Fjölskyldu- og styrktarsjóðs lækna.

Þrátt fyrir vangaveltur, óskir og vonir þá stendur ákvörðun sjóðstjórnarinnar óhögguð og Læknablaðið fékk formann sjóðsins, Ástríði Jóhannesdóttur, til að gera grein fyrir ákvörðuninni og skýra hlutverk sjóðsins.

 

Ekki lögbundin skylda

„Það er alltaf slæmt þegar felldir eru niður styrkir sem stofnað hefur verið til og viðbrögð félagsmanna eru mjög skiljanleg í því ljósi,“ segir Ástríður í upphafi. Hún bendir á að þessi styrkur, sem kallaður hefur verið foreldrastyrkur til aðgreiningar frá fæðingarstyrk sem nýbakaðir foreldrar í læknastétt fá frá sjóðnum, hefur aðeins verið veittur frá árinu 2007. „Fæðingarstyrkir og útfararstyrkir hafa verið veittir frá 2005 og frá 2002 hafa verið veittir styrkir til jöfnunar réttinda í fæðingarorlofi miðað við fyrri lög frá 1997. Það er jafnframt eina lögbundna skylda sjóðsins, en frá 2002 hafa einnig verið veittir styrkir til félags-manna við óvænt tekjutap vegna eigin veikinda, veikinda maka eða barna. Við höfum lagt áherslu á slíka styrki og ekki farið út í að greiða styrki vegna gleraugnakaupa eða íþróttaiðkunar eins og sum stéttarfélög hafa gert.“

Fjölskyldu- og styrktarsjóðurinn varð til við kjarasamning sjúkrahús- og heilsugæslulækna árið 2001 og hefur tekjur sínar af iðgjaldagreiðslum vinnuveitanda lækna, og var fyrstu árin 0,33% af heildarlaunum starfsmanns en hækkaði árið 2006 í 0,41%. Ástríður segir það algengan misskilning hjá félagsmönnum að telja greiðslur í sjóðinn dregnar af launum þeirra en svo er ekki; vinnuveitandinn greiðir iðgjaldið. „Annar misskilningur sem við höfum oft þurft að leiðrétta er að félagsaðild að Læknafélagi Íslands veitir ekki sjálfkrafa aðild að Fjölskyldu- og styrktarsjóði lækna því frá upphafi hefur aðeins einn vinnuveitandi greitt í sjóðinn. En frá árinu 2006 hefur sjálfstætt starfandi læknum staðið aðild til boða og sækja þeir um það sérstaklega og greiða iðgjöld sem miðast við reiknað endurgjald. Hugmyndin að stofnun sjóðsins kom upphaflega frá samninganefnd ríkisins og skýringarinnar er að leita í því sem nefnt er hér um einu lögbundnu skyldu sjóðsins, að jafna réttindi í fæðingarorlofi miðað við fyrri lög. En síðan má segja að sjóðurinn hafi vaxið svo og dafnað í góðærinu undanfarin ár að stjórn sjóðsins hafi séð möguleika á að veita aðra styrki umfram það. Eitt af því sem stjórnin skoðaði á sínum tíma var að greiða þau 20% sem vantaði upp á fæðingarorlofsgreiðslur til að konur fengju full laun í fæðingarorlofi. Það var fallið frá því enda ljóst að sjóðurinn hefði tæmst á skömmum tíma ef þetta hefði verið gert. En við veltum því áfram fyrir okkur hvort ekki væri eitthvað sem hægt væri að gera fyrir nýbakaða foreldra og árið 2005 var tekin ákvörðun um að hafa þetta eingreiðslu í formi fæðingarstyrks til barnslækni. Það er rétt að taka skýrt fram að stjórnin hefur algjörlega frjálsar hendur um ráðstöfun fjár sjóðsins að öðru leyti en því sem lögbundin skylda segir til um. En það er gaman að segja frá því að stóru stéttarfélögin hafa frá árinu 2007 tekið upp sams konar eingreiðslufyrirkomulag á fæðingarstyrk og bæði til kvenna og karla,“ segir Ástríður. Rétt er að geta þess að fæðingarstyrkur FOSL er ríflega helmingi hærri en sambærilegur styrkur annarra stéttarfélaga.

Staða sjóðsins 2007 var svo góð að tekin var ákvörðun um að hefja greiðslur útfarastyrkja og styrkja til foreldra barna yngri en 8 ára sem vildu taka launalaust leyfi. Réttur til slíks leyfis er bundinn í lög og þegar FOSL hóf að greiða styrk sem nam 80% af dagvinnulaunum var ekki að undra þó margir foreldrar í læknastétt sæju möguleika á að annaðhvort lengja fæðingarorlof sitt eða taka launalaust leyfi til að hafa meiri tíma með ungum börnum sínum. Sannarlega frábær hugmynd og mæltist mjög vel fyrir. „Við vorum mjög stolt af þessari ákvörðun og þetta var algjört einsdæmi. Það er ekkert annað stéttarfélag sem hefur boðið upp á slíkan styrk,“ segir Ástríður.

 

Misreiknuðu dæmið í upphafi

Síðan má segja að það hafi tekið nokkurn tíma fyrir lækna almennt að átta sig á þessum möguleika og umsóknir í sjóðinn fóru vaxandi á síðasta ári en í ár stefndi að sögn Ástríðar í margföldun umsókna svo við blasti sjóðþurrð ef ekkert yrði að gert. „Stjórnin var reyndar búin að taka ákvörðun um að sleppa árlegri vísitöluhækkun á alla styrki um síðustu áramót en það dugði ekki til, við urðum að taka þessa ákvörðun til að verja sjóðinn og þá var eðlilegast að afnema þau réttindi sem verið hafa skemmst í gildi.“

Ástríður segir að þegar upphaflega var ákveðið að hefja greiðslu styrks til foreldraorlofs hafi verið reiknað út frá ákveðnum forsendum. „Viðmiðunin var 80% af dagvinnulaunum. Það er alls ekki það sama og 80% af heildarlaunum. Við gerðum því ráð fyrir að foreldrar sem vildu nýta þennan rétt yrðu að gera ýmsar ráðstafanir því þetta myndi þýða tekjutap á orlofstímanum og einhverjir myndu hreinlega ekki treysta sér til að taka þetta orlof á þessum kjörum. Við misreiknuðum dæmið algjörlega. Okkur datt ekki í hug að foreldrarnir myndu halda áfram að ganga vaktir og jafnvel vera í annarri launaðri vinnu en taka einungis launalaust leyfi frá dagvinnu og halda þó 80% af þeim launum líka. Það er varla hægt að tala um skertar tekjur í slíku dæmi. Þetta þýddi það að ásóknin í þennan styrk varð margfalt meiri en gert var ráð fyrir. Í sjálfu sér er ekkert um þetta að segja og ástæðulaust að gagnrýna það. Fólk áttaði sig bara á þessum möguleikum og nýtti sér þá. Ég er reyndar alls ekki viss um að við hefðum farið út í þetta á sínum tíma ef við hefðum áttað okkur á hvernig þetta myndi þróast. Þetta varð svo til þess að útstreymið úr sjóðnum varð miklu meira en gert var ráð fyrir og þegar við bætist tekjutap sjóðsins vegna bankahrunsins þá varð að grípa í taumana. Árið 2007 var útstreymið þegar orðið meira en innstreymið en þá voru vaxtatekjur sjóðsins það góðar að við töldum okkur borgið. Þegar vaxtatekjurnar brugðust hefði það verið hreint ábyrgðarleysi af stjórn sjóðsins að grípa ekki til ráðstafana. Ástandið í þjóðfélaginu hefur einnig fjölþættari áhrif á tekjur sjóðsins því þegar dregið er úr vinnu hjá fólki, minnkuð starfsprósenta og fækkað vöktum verður ein afleiðingin minnkandi innstreymi í sjóðinn. Hugsanlega þurfum við að grípa til frekari ráðstafana en vonandi kemur ekki til þess,“ segir Ástríður Jóhannesdóttir, formaður Fjölskyldu- og styrktarsjóðs lækna.Þetta vefsvæði byggir á Eplica