02. tbl. 95. árg. 2009

Umræða og fréttir

Margrét Oddsdóttir. Minningarorð við setningu Læknadaga 19. janúar 2009. Sigurður Guðmundsson

Margrét Oddsdóttir kollegi okkar lést á heimili sínu þann 9. janúar og var jarðsett á föstudaginn var, 16. janúar, að viðstöddu miklu fjölmenni. Við Margrét hittumst síðast skömmu fyrir jól á einum af göngum Landspítalans, drógum okkur út í horn og ræddum um ýmis mál, stór og smá, fagleg og persónuleg, af nógu var að taka. Við ákváðum að hittast í betra tómi strax eftir áramót. Það samtal verðum við að eiga í öðrum tíma og í öðru rúmi.

 

u07-fig1

 

Andlát Margrétar langt fyrir aldur fram var ekki alls kostar óvænt, hún hafði átt í höggi við brjóstakrabbamein lengi, í hartnær áratug, og gengið á ýmsu í þeirri styrjöld. Hún vann margar orrustur, en tapaði þeirri síðustu, sem við munum víst öll gera fyrr eða síðar. Þetta varð samt allsnöggt, enginn átti von á endalokum núna, hún að vinna fram á síðasta dag. Hún fékk öfluga meðferð eins við þekkjum hana best og var í góðum höndum góðra kollega, en allt kom fyrir ekki. Manni verður ósjálfrátt hugsað til þess ágæta manns Oscars Wilde sem fyrir 100 árum var að býsnast yfir miklum framförum í læknisfræði þeirra tíma. Hann sagði að „núorðið lifa menn allt af nema dauðann“. Það sannaðist hér. Reyndar er þessi setning Wildes svolítið Mögguleg líka.

Af viðhorfum Margrétar gagnvart sjúkdómi sínum getum við hin ýmislegt lært, hún sýndi þar æðruleysið og kraftinn sem einkenndi flest það sem hún tók sér fyrir hendur. Hvernig er félagi og kollegi sem fellur frá á miðju flugi lífsins best kvaddur? Við þeirri spurningu eru engin góð svör, okkur er orðs vant. Ekki er það síst í ljósi þess að Margrét missti mann sinn, Jón Ásgeir Sigurðsson, fyrir þremur misserum, einnig úr illvígum sjúkdómi. Einhvers staðar segir að silfurkerin sökkvi í sjó, en soðbollarnir fljóti, og það virðist enn sannast hér, prýðisfólkið verður stundum skammlíft. Án þess að verða um of mærðarfullur hér, það var ekki í anda Möggu, veltir maður samt fyrir sér heimsins réttlæti á svona stundu. Við heyrum stundum að okkur dauðlegum mönnum verði ekki ljós fyrr en á efsta degi eða við Ragnarök þessi djúpi skilningur á því hvers vegna sumum eru búin þau örlög sem Margrét og Jón Ásgeir hlutu. Ég vona að ég sé ekki að spilla barnatrú einhverra hér inni, en kannski verður maður að segja um þá góðu himnafeðga að stundum sé vont þeirra ranglæti en verra þeirra réttlæti.

Nokkuð langt er síðan ýmis okkar áttuðu sig á því hvað má prýða góðan lækni. Hann þarf að hafa faglega þekkingu byggða á vísindalegum grunni, góða þjálfun, og rétt viðbrögð við hvers kyns vanda á hraðbergi. Hann þarf ekki síður að geta sýnt sjúklingum sínum samhygð, ekki endilega samúð, geta talað við fólk án yfirlætis, geta tjáð sig um tilfinningar þess og sínar eigin, geta tekið ákvarðanir sem byggja á siðrænum grunni, og látið sjúklinga sína finna að honum er ekki sama um þá. Margrét sameinaði þetta tvennt, þekkinguna og húmanismann, flestum öðrum betur. Hún var sem sé góður læknir, svo einfalt er það.

Margrét var stúdent frá Ísafirði 1975, og lauk prófi frá læknadeild H.Í. 1982. Hún fór vestur um haf til framhaldsnáms á Yale 1985, og hóf þar störf við rannsóknir einkum á parietal frumum, en varð síðan námslæknir í skurðlækningum. Á Yale var hún til 1992 og fór þar í gegnum klassískt sérfræðinám í skurðlækningum, þar sem vaktir annan hvern sólarhring voru stundum reglan fremur en undantekning á þeim árum. Það var um slíkar vaktir á skurðdeildum sem ágætur og frægur hjartakirurg við Baylor í Houston, Michael DeBakey, sagði eitthvað á þá leið að „vandamálið við þessar tvískiptu vaktir er það að þá missa menn af helmingnum af tilfellunum“. Margrét fór síðan á Emory í Atlanta og fór þar í frekara sérfræðinám í kviðsjártækni með John Hunter hinum seinni, og tók þátt í þróun þeirrar tækni.

Hún kom svo heim árið 1994 og markaði sér fljótt spor. Hún kom eins og stormsveipur inn í íslenska læknisfræði og íslenska heilbrigðisþjónustu. Kraftur hennar, snerpa og áhugi varð okkur öllum ljós. Hún var frumkvöðull að kviðarholsspeglunum, sem, eins og menn þekkja, er beitt í sívaxandi mæli við flóknar aðgerðir í kvið, m.a. fyrir atbeina Margrétar. Síðasta greinin frá henni og félögum birtist í Surgical Endoscopy í mars sl. Þar lýsti hún reynslu sinni af adrenalectomium gegnum kviðsjá.

Margrét var ekki aðeins frumkvöðull á þessu sviði. Hún braut líka ákveðinn ís, stundum mjög þykkan, með því að vera kona og skurðlæknir. Sem slík var hún og er fyrirmynd margra ungra kvenna í stéttinni og reyndar er hún fyrirmynd beggja kynja í ljósi þekkingar sinnar og lækniskúnstar. Slíkar fyrirmyndir eru miklvægar og aldrei nógu margar. Ég held reyndar að Margrét hafi ekki séð sig sem neinn sérstakan talsmann stöðu kvenna, veit ekki hvort hún var í neinni kvennahreyfingu, en með geðhöfn sinni, framkomu og framgangi öllum var hún það. Margrét var nefnilega klár án þess að vita af því, sjaldgæfur eiginleiki.

Við sem áttum þess kost að vinna með henni að erfiðum klínískum vandamálum erum þakklát fyrir þá reynslu, þar kom íhygli hennar, skerpa, natni, innsæi og mannskilningur glögglega í ljós. Margrét átti mikinn þátt í þróun Læknadaga eins og þeir eru núna, var í mörg ár í undirbúningsnefnd þeirra með nokkrum nytsömum sakleysingjum. Birna Jónsdóttir formaður okkar segir að Margrét sé guðmóðir Læknadaga, það er titill sem Margrét ber með rentu.

Margrét varð dósent í almennum skurðlækningum við læknadeild 1985 og prófessor 2002. Í því hlutverki sómdi hún sér vel. Hún hafði mikinn áhuga á kennslu og þróun hennar, og vann þar ötullega. Þar nutu ályktunarhæfni, kraftur og greind hennar sín mjög vel. Það voru forréttindi að vinna með henni að þessum málum, ég minnist samstarfsins með eftirsjá og þakklæti, þetta voru góðar stundir.

Margrét setti ekki einungis spor á umhverfi sitt sín hér á landi, kollegar hennar á Yale hafa stofnað til fyrirlestraraðar við sjúkrahúsið þar henni til heiðurs. Þannig verður hennar ætíð minnst fyrir frábært framlag til skurðlækninga á Yale og í heiminum öllum, eins og Eugenia Vining kollegi Margrétar á Yale kemst að orði í minningargrein í Morgunblaðinu. Kannski er erfitt að sýna henni meiri heiður, en hann á hún skilið, margfaldlega. Eins og ég sagði, mörgum okkar er orðs vant á svona stundu.

Að lokum vottum við kollegar Margrétar ungum sonum hennar og Jóns Ásgeirs, foreldrum hennar og fjölskyldu allri djúpa samúð, okkar missir er mikill, þeirra missir er mestur. Ég vilja biðja ykkur að rísa úr sætum og votta Margréti virðingu okkar og lýsa söknuði okkar með stuttri þögn.Þetta vefsvæði byggir á Eplica