11. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Gegnsæjar siðareglur skipta höfuðmáli. Viðtal við Jakob Fal Garðarsson

„Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðanda og að þeim standa 18 fyrirtæki, 17 erlend og eitt íslenskt, Íslensk erfðagreining. Erlendu fyrirtækin eru hin stóru alþjóðlegu lyfjafyrirtæki sem flestir þekkja. ÍE er þarna inni þrátt fyrir að það sé ekki lyfjaframleiðandi í þeim skilningi en á þarna heima þar sem samtökin eru félag fyrirtækja sem öll byggja starfsemi sína á vísinda- og þróunargrunni,“ segir Jakob Falur Garðarsson framkvæmdastjóri Frumtaka.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í grunninn er tilgangur samtakanna tvíþættur að sögn Jakobs Fals. „Annars vegar að verja sameiginlega hagsmuni fyrirtækjanna gagnvart stjórnvöldum og koma fram fyrir hönd þeirra og hins vegar að tala máli fyrirtækjanna gagnvart almenningi. Þar er ímyndarsköpun mjög mikilvæg en einnig er viðbúið að upplýsingagjöf til almennings verði sífellt mikilvægari, til dæmis að upplýsa fólk um hættur af lyfjafölsunum og síðast en ekki síst að viðhalda og auka skilning á gildi rannsókna og þróunar lyfja fyrir samfélagið.“

Í vor kynntu Frumtök nýjar siðareglur samtakanna sem snúa fyrst og fremst að samskiptum lyfjafyrirtækjanna við lækna.

„Samskipti lækna og lyfjafyrirtækja eru í senn mjög mikilvæg og viðkvæm. Þær siðareglur sem farið hefur verið eftir eru frá árinu 2004 og byggja á sameiginlegum grunni samkomulags Evrópskra læknasamtaka og lyfjaframleiðenda. Lyfjafyrirtækin stigu síðan einu skrefi lengra upp á sitt eindæmi núna í vor með því að herða enn frekar á siðareglunum. Þetta er því viðbót við þann grunn sem fyrir var.“

 

Aukinn þrýstingur um gegnsæi samskiptanna

 

Voru einhverjar ástæður fyrir því að fyrirtækin stigu þetta skref?

„Það má alltaf gera betur og þrýstingur frá samfélaginu hefur farið vaxandi um að þessi samskipti séu algerlega gegnsæ og uppi á borðinu. Okkur finnst þessi krafa sjálfsögð og viljum að samskiptin séu hafin yfir allan vafa. Leiðarljósið í siðareglunum er hins vegar mjög einfalt; að það stangist ekki á við heilbrigða skynsemi hvernig samskiptum lækna og lyfjafyrirtækja er háttað.“

Jakob segir að vissulega hafi ýmislegt orðið til þess í samskiptum lækna og lyfjafyrirtækja á árum áður sem hvatti til setningar skýrra reglna. „Það vita það allir sem starfað hafa í þessari grein að það er ýmislegt í fortíðinni sem enginn er sérstaklega hreykinn af. Það er hins vegar að baki og þessar reglur eru mjög gott dæmi um að samskiptin eru orðin það góð að ekki hafa komið upp ágreiningsmál eða valdið neikvæðri umræðu undanfarin misseri.“

Um hvað snúast þessar siðareglur?

„Þær snúast í grunninn um hvað teljast verður eðlilegt í samskiptum lækna og lyfjafyrirtækja; hversu langt er eðlilegt að lyfjafyrirtæki gangi í að kosta lækna á ráðstefnur og fundi og hvað telst við hæfi og hvað ekki. Í dag greiðir lyfjafyrirtæki gjarnan ferða- og gistikostnað fyrir lækni á alþjóðlega ráðstefnu í hans sérfagi en greiðslur fyrir maka eru óviðeigandi. Það sem skiptir máli er að lyfjafyrirtækin vilja stuðla að því að læknar hafi tækifæri til að fylgjast með því nýjasta í sínum greinum og fyrir nokkrum misserum vogaði ég mér að kalla þetta stuðning við endurmenntun lækna. Ritstjóri Morgunblaðsins taldi óeðlilegt að lyfjafyrirtækin væru að styðja við endurmenntun lækna. Siðareglurnar tiltaka mjög nákvæmlega hvernig þessi stuðningur má vera og í hverju hann er fólginn. Það er ekkert óeðlilegt við þetta.“

Samskipti lyfjafyrirtækja og lækna er ekki eingöngu fólgin í þessu. Lyfjakynningar hafa haft orð á sér fyrir að vera glæsiveislur þar sem lyfin eru nánast í aukahlutverki.

„Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir lyfjafyrirtækin að hafa góðan aðgang að starfsfólki heilbrigðiskerfisins til að kynna það nýjasta og besta í lyfjarannsóknum og framleiðslu. Um þetta þarf hins vegar að vera viðurkennd og samþykkt umgjörð og það hefur vissulega verið gagnrýnt og haft í flimtingum að glæsiveislur lyfjafyrirtækjanna séu notaðar sem yfirvarp fyrir lyfjakynningar. Þetta er bara hluti af þessari fortíð sem við nefndum áðan. Grundvallarreglan er sú að vísindalegt innihald viðburðar og dagskrá má aldrei vera ofurliði borin, ef svo má segja, af umgjörðinni. Á grunni siðareglnanna er ekki blandað saman óviðeigandi íburði í veitingum og staðsetningum við kynningar á lyfjum. Rauði þráðurinn í þessu er heilbrigð skynsemi og hvað telst viðeigandi og hvað ekki.“

Mikilvægt er að koma því skýrt til skila að Frumtök eiga engan beinan þátt í sölu lyfja eða kynningum á þeim. Siðareglurnar snúast hins vegar um að allir aðilar fari eftir þeim þannig að öllum sé ljóst hvernig að slíku skuli staðið. Jakob Falur nefnir Læknadaga sem gott dæmi um hvernig þessi mál hafa þróast. „Læknadagarnir eru ein stærsta ráðstefna sinnar tegundar á Íslandi og þar er alveg skýrt hvað fyrirtækin mega gefa læknum og hvað ekki. Reglurnar kveða á um að allar gjafir verði að nýtast lækninum í starfi hans en ekki snúast um hugsanleg áhugamál eða hégóma. Það hefur margt breyst í þessum samskiptum á stuttum tíma og það er vel.“

 

Ranghugmynd að lyfjaverð sé hátt

Jakob segir að samskipti Frumtaka við stjórnvöld snúist eilíflega um það sama. „Við þurfum sífellt að vera að hamra á því að hér ríki skilningur á því að til að stöðugt og gott framboð sé á góðum lyfjum þarf umhverfið að vera lyfjafyrirtækjunum hagstætt. Lyfjaverðið þarf að vera sanngjarnt og það er reyndar ein lífseigasta ranghugmyndin hjá almenningi sem stjórnvöld virðast hafa alið á að hér á Íslandi sé lyfjaverð gríðarlega hátt. Það er einfaldlega rangt. Staðreyndin er sú að hér er heildsöluverð lyfja ýmist lægra eða jafnhátt og í löndunum í kringum okkur. Það er stórundarlegt að ekki skuli hafa tekist að koma þeirri staðreynd á framfæri við almenning. Ef við skoðum þróun lyfjaverðs og kostnað hins opinbera frá árinu 1998 til ársins 2007, á föstu verðlagi ársins 2007, kemur í ljós að krónutalan hefur ekkert hækkað sem þýðir að lyfjaverð hefur lækkað umtalsvert þar sem lyfjanotkun hefur aukist verulega á þessu tímabili. Á sama tímabili hafa heildarútgjöld til heilbrigðismála vaxið gríðarlega. Hlutfall lyfjakostnaðar hefur því lækkað umtalsvert. Stjórnvöld hafa alltaf þrýst á lyfjafyrirtækin um lægra heildsöluverð og það eru hreinlega takmörk fyrir því hvað fyrirtækin geta gengið langt í þessum efnum því markaðurinn hér er mjög lítill og satt best að segja er eftir sífellt minna að slægjast fyrir lyfjafyrirtækin. Það kæmi mér satt að segja ekki á óvart ef einhver þeirra fyrirtækja sem eru nú innan Frumtaka myndu draga sig út af íslenska lyfjamarkaðnum á næstu mánuðum eða misserum.“

Í starfi sínu hefur Jakob Falur átt fundi með stjórnvöldum og starfsfólki í heilbrigðiskerfinu og segir að meginhlutverk sitt sé að koma á sterkum og góðum samskiptum milli umbjóðenda sinna og allra þeirra sem starfa að heilbrigðismálum. „Við höfum gengið lengra og valið að sýna samfélagslega ábyrgð okkar með því að taka þátt í forvarnaverkefnum ýmiss konar. Við erum núna að undirbúa verkefni með Reykjalundi og nokkrum læknum á Landspítala sem beinist að offituvanda barna. Þetta er mjög mikilvægt í okkar huga. Við viljum leggja okkar af mörkum til að stuðla að auknu heilbrigði þjóðarinnar og góð lyf eru í mörgum tilfellum lykillinn að bættu heilbrigði, aukinni atvinnuþátttöku og lengri starfsævi og lífaldri þjóðarinnar. Í þeim skilningi eru allir sem að koma að vinna að sameiginlegu markmiði.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica