11. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Þankabrot um spánsku veikina 1918-1919. Þorkell Jóhannesson

u05-fig0Inngangur

Í tímaritinu Sögu á þessu ári er grein um spánsku veikina á Íslandi sem er að stofni til BA-ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands (1). Ritgerðin er vel unnin og hefur meðal annars sér til ágætis, að vitnað er í samtöl við fólk sem mundi veikina, - ekki síst í Reykjavík þar sem hún var verst - en er nú gengið til feðra sinna. Höfundur getur þess að spánska veikin hafi lítið verið rannsökuð sagnfræðilega hér á landi. Við lestur þessara orða vaknaði sú spurning, hvort nokkru betur hefði verið staðið að læknisfræðilegum rannsóknum á spánsku veikinni. Eftir að hafa skoðað hvað hefði verið unnið í þessu efni fannst mér, að svarið væri fremur neikvætt en jákvætt. Mér rann á endanum blóðið til skyldunnar og ég ákvað að setja saman þennan pistil sem er vissulega engin heildarúttekt, heldur þankabrot um áhugavert efni.

Ég fjalla um störf þeirra tveggja lækna og tengdafeðga, Þórðar J. Thoroddsen og Steingríms Matthíassonar, sem öðrum læknum fremur hafa skrifað um spánsku veikina 1918-1919. Þá þykir mér hlýða að halda á loft framlagi tveggja ólæknislærðra manna, þeirra Lárusar H. Bjarnasonar, prófessors, og Thors Jensens, útgerðarmanns, til annars vegar hjúkrunar og skipulags lækninga og hins vegar matargjafa í spánsku veikinni. Ég hef velt nokkuð fyrir mér gagnsemi eða gagnsleysi lyfja, sem notuð voru gegn spánsku veikinni og er því kafli um þetta efni, þótt aðgengilegar heimildir séu allnokkuð í molum. Að síðustu er stutt umræða og ályktanir.

Mynd 1. Þórður Jónas Thoroddsen (1856-1939)

var sonur Jóns Thoroddsens, sýslumanns og brautryðjanda íslenskrar skáldsagnagerðar. Þórður lauk læknaprófi frá Læknaskólanum 1881. Kenndi í Möðruvallaskóla 1881-1882. Héraðslæknir í Keflavík 1883-1904. Fluttist þá til Reykjavíkur og var gjaldkeri nýstofnaðs Íslandsbanka 1904-1909, en sinnti samtímis læknisstarfi. Var eftir það læknir að aðalstarfi.

Hann var einnig um tíma alþingismaður og stórtemplar auk annars. Samdi reikningsbók, sem lengi var notuð í gagnfræðaskólum. Skrif hans um inflúensu, þar á meðal um spánsku veikina, birtust í þrennu lagi í Læknablaðinu 1919 (hér vísað til í einu lagi (8)).

 

Þórður J. Thoroddsen og inflúensuskrif hans

Inflúensufaraldurinn 1918-1919 var snemma nefndur spánska veikin: „ ... vegna þess, að hún var fyrst opinberlega tilkynnt frá Spáni“ (2). Miklar líkur eru á því að spánska veikin hafi átt upphaf sitt í fuglum, en hafi síðar aðlagast svo mönnum, að inflúensuveiran (af gerð A) gat einnig sýkt menn (3, 4). Með því að saman fór mikið sýkingarafl veirunnar í mönnum og lítið ónæmi vegna nýnæmis hennar, varð af sá heimsfaraldur inflúensu, sem verstur var á 20. öld. Á síðustu árum hafa menn í vaxandi mæli óttast nýjan heimsfaraldur inflúensu, sem líkt og spánska veikin gæti átt upphaf sitt í fuglum (5-7). Í ljósi þessa er ekki síst ástæða til þess að rifja upp sögu spánsku veikinnar.

Árið 1918 voru um 20 læknar búsettir í Reykjavík. Einn þeirra var landlæknir (Guð-mundur Björnsson), annar ritari landlæknis (Bjarni Jensson) og hinn þriðji háskólaritari (Jón Rósenkranz). Óvíst er hvort þeir stunduðu klínískar lækningar, en hinir hafa væntanlega gert það langflestir. Þórður Thoroddsen var næstelstur þessara manna og var 62 ára, þegar spánska veikin reið húsum í Reykjavík.

Í minningargrein um Þórð er sagt að hann hefði eiginlega einn Reykjavíkurlækna haft orku og framkvæmd til þess að skrifa um læknisstörf í spánsku veikinni (9). Þessu til skýringar er, að Þórður einn fárra lækna í Reykjavík, veiktist ekki af spánsku veikinni og var þekktur að því að stýra penna skýrt og skipulega. Þar að auki bendir vinnulag Þórðar í spánsku veikinni eindregið til þess, að hann hafi verið vel á sig kominn. Spánska veikin var ekki fyrsta inflúensufarsóttin, sem Þórður fékkst við, heldur sú fjórða.

Þótt Þórður Thoroddsen kunni efalítið að hafa haft óljósar hugmyndir um orsakir inflúensu, gerði hann sér glögga grein fyrir farsóttareðli inflúensu og mun á henni og kvefsóttum. Hann segir, að kvefsóttir séu innlendar að uppruna og séu lengi að fara um landið og fari oft ekki um nema nokkurn hluta þess. Um inflúensu gegni öðru máli sem fari eins og logi yfir akur, séu engar hömlur lagðar á hana. Inflúensufaraldrar gangi gjarnan yfir á 1-2 mánuðum. Hann bendir einnig á, að inflúensufarsóttir séu útlendar að uppruna og koma þeirra hingað tengist samgöngum við útlönd.

Þórður vísar í doktorsritgerð Schleisners (1818-1890) frá árinu 1849 um sjúkdóma á Íslandi. Schleisner taldi, að fram til 1845 hefðu inflúensu-farsóttir gengið sex sinnum yfir landið allt og sjö sinnum yfir hluta þess og í fyrsta sinn árið 1706. Með stoð í öðrum heimildum kemst Þórður samt að þeirri niðurstöðu, að inflúensufaraldrar hafi gengið yfir hér á landi þegar snemma á öldum.

Fyrsta inflúensufarsóttin, sem Þórður fjallar sérstaklega um, var sumarið 1855. Þessi farsótt byrjaði norðanlands, væntanlega á Akureyri. Farsóttin var alls staðar um garð gengin á rúmum tveimur mánuðum. Sóttin var talin væg og dó einkum gamalt fólk. Læknirinn í Norðlendingafjórðungi, Eggert Johnsen (1798-1855), dó í þessum faraldri.

Annar faraldur gekk sumarið 1862. Hann byrjaði í Reykjavík og fór hraðfari um landið. Farsóttin var talin mjög illkynjuð og henni fylgdi oft lungnabólga. Allir kvörtuðu um sárindi í hálsi og þrengsli fyrir brjósti. Mikið nefrennsli, hnerrar og þurr hósti og blóðnasir. Ung börn og gamalt fólk varð verst úti. Talið var, að um 1200 manns hefðu dáið í þessari farsótt.

Árið 1864 barst inflúensa víða um land frá Reykjavík. Hún byrjaði í júní, en var víðast um garð gengin um miðjan ágúst. Lungnabólga var sjaldséð og sóttin talin mun vægari en 1862.

Árið 1866 kom enn upp inflúensa í Reykjavík að vorlagi og barst um landið með vermönnum. Brjóstþyngsli voru algeng og einnig lungnabólga. Sóttin var talin mjög illkynjuð. Alls er talið, að 1290 manns hafi látist úr þessari farsótt á landinu öllu. Sagnir eru um, að allir íbúar í Reykjavík, 1500 að tölu, hefðu lagst á einni viku og 40 þeirra verið liðin lík á eftir.*

Þegar næsti inflúensufaraldur gekk árið 1890, var Þórður sestur að í Keflavík. Hann sagði þessa farsótt ekki mjög illkynjaða. Hún lagðist einkum á börn og gamalmenni og flestir, sem dóu, voru við aldur. Þórður sá 417 sjúklinga í þessari farsótt og af þeim höfðu 51 lungnabólgu. Af þeim dóu 13.

Eufemía Waage getur þess í minningum sínum, að hún hafi ung að árum dvalið öll sumur 1886-1897 hjá þeim hjónum Önnu og Þórði Thoroddsen í Keflavík, en Anna var móðursystir hennar. Hún lýsir inflúensufaraldri eitt árið (gæti hafa verið 1890 eða ef til vill fremur árið 1894), er lagði í rúmið allt heimilisfólkið, 10 að tölu, utan lækninn og hana sjálfa. Vinnumaður á heimilinu varð bráðdauður úr farsóttinni (10).

Sjötti faraldurinn, sem Þórður nefnir, gekk yfir árið 1894. Hann var að rekja til skipskomu til Seyðisfjarðar og þótti verri en faraldurinn 1890. Í Keflavík leituðu 817 sjúklingar til Þórðar og voru 95 með lungnabólgu. Af þeim dóu 12. Alls var talið, að um 900 manns hefðu dáið í þessum faraldri.

Næsta farsótt gekk árið 1900 og barst til landsins með skipi til Ísafjarðar. Var talið, að 90% Reykvíkinga hefðu verið veikir samtímis, þegar verst lét. Í Keflavík leituðu 414 sjúklingar til Þórðar. Fjörutíu og sjö voru með lungnabólgu og af þeim dóu 12. Talið er, að tala látinna hafi verið innan við 100 á landinu öllu.

Áttundi inflúensufaraldur í safni Þórðar og sá fjórði, sem hann barðist við, var spánska veikin 1918-1919.

Fyrsta bylgja spánsku veikinnar barst til Reykjavíkur snemma í júlí með togara frá Englandi og síðar í mánuðinum með farþegaskipi frá Danmörku (1). Þórður fór út í togarann og greindi níu manns sjúka af „reglulegri inflúensu“, en fleiri höfðu verið veikir á leiðinni til Íslands. Hann gerði landlækni Guðmundi Björnssyni viðvart, en héraðslæknirinn Jón Hjaltalín Sigurðsson var veikur. Landlæknir sá sér ekki fært að ráðast í nokkrar sóttvarnarráðstafanir. Í Læknatalinu er elsti læknir í Reykjavík, sem þá var (Davíð Scheving Thorsteinsson), nefndur sóttvarnarlæknir í Reykjavík 1918-1921. Hans er samt að engu getið og vekur það óneitanlega undrun. Þessi bylgja inflúensunnar var yfirleitt væg og enginn mun hafa dáið í fyrstu bylgjunni (1). Þórður var samt ekki í vafa um, að fyrsta bylgja veikinnar væri sama veikin og önnur bylgjan, þar eð að hans áliti veiktist enginn af þeim, sem urðu veikir í fyrstu bylgjunni, þegar farsóttin komst síðar í algleyming í annarri bylgjunni.

Önnur bylgja spánsku veikinnar, aðalveikin, sem Þórður nefnir svo og sumir nefna spánsku veikina í þrengri merkingu, barst til Reykjavíkur nær samtímis með skipum frá Danmörku, Englandi og Bandaríkjunum um 20. október (1). Þórður var sóttur til fyrsta sjúklingsins 29. október, en síðasta inflúensusjúklinginn sá hann 6. desember. Hæst bar farsóttina 11.-15. nóvember, en á því tímabili urðu inflúensusjúklingar Þórðar hátt í 400. Alls urðu inflúensusjúklingar hans þá 1232 talsins. Vinnuálag Þórðar var ómannlegt eða frá kl. 6-7 á morgnana og til kl. 2-3 á nóttunni. Hann lætur þess getið í þessu sambandi, að við slíkar aðstæður hafi skiljanlega ekki verið unnt að bókfæra alla þá sjúklinga, sem hann var kallaður til. Lungnabólgu greindi Þórður hjá 292 sjúklingum og allir 77 sem dóu af hans sjúklingum höfðu lungnabólgu í einhverjum mæli. Flestir, sem dóu voru á aldrinum 20-40 ára, en veikin var verst í þeim aldurshópi. Alls er talið að um 500 manns hafi dáið úr spánsku veikinni og þar af var hátt í helmingurinn úr Reykjavík (1).

Um aðra bylgju spánsku veikinnar farast Þórði svo orð: „En svo þungt lungnakvef, svo tíðar lungnabólgur sem í þessari sótt hef ég aldrei séð. Og þessar blæðingar. Blóðið streymdi ekki að eins úr nösum, stundum óstöðvandi, heldur og upp úr lungum, niður úr þörmum, upp úr maga og gegnum þvagrásina ... Þetta er það, sem gerði þessa inflúenzusótt svo einkennilega og ægilegri en aðrar inflúenzusóttir, sem ég hefi séð“. Þegar þessi orð voru skrifuð hafði Þórður verið starfandi læknir í þremur inflúensufaröldrum (1890, 1894 og 1900) áður en inflúensufaraldurinn 1918 kom til. Í þessum fjórum faröldrum hafði hann stundað samtals 2880 sjúklinga þannig að reynsla hans af inflúensu var mikil. Það er því ótvírætt, að inflúensan 1918-1919 hefur verið afar slæm*. Auk inflúensueinkenna frá efri öndunarvegi, beinverkja, sótthita o. l. skar inflúensan 1918 sig úr að því leyti, að lungnabólga og önnur einkenni frá neðri öndunarvegi voru mun algengari. Einkenni frá öðrum líffærum, sem alþekkt voru í spánsku veikinni, benda einnig til sýklasóttar (sepsis). Sýnir þetta að spánska veikin gat orðið fjölkerfa sjúkdómur líkt og þekkst hefur síðar um fuglainflúensutilfelli í mönnum (6).

Mynd 2. Steingrímur Matthíasson (1876-1948)

var sonur Matthíasar Jochumssonar, prests og skálds, og tengdasonur Þórðar Thoroddsen. Hann lauk læknaprófi við Hafnarháskóla 1902. Var héraðslæknir í Akureyrarhéraði 1907-1936. Annaðist einnig kennslu við gagnfræðaskólann á Akureyri. Sinnti talsvert skrifum í þágu skólafræðslu og almenningsfræðslu. Gaf út: Heilsufræði. Alþýðubók og skólabók (Akureyri, 1914). Skrifaði um spánsku veikina á dönsku 1920 (11).

 

Skrif Steingríms Matthíassonar um inflúensuna 1918-1919

Steingrímur og aðrir læknar á Norðurlandi urðu að því best verður séð brautryðjendur í marktækum sóttvörnum hér á landi. Að undirlagi þessara lækna og með atbeina Páls Einarssonar, sýslumanns á Akureyri (og fleiri sýslumanna), og fulltingi stjórnvalda tókst að varna annarri bylgju inflúensunnar 1918 að berast um Norðurland og Austurland. Var þetta gert með því að banna allar ferðir á landi og setja skip, er komu að landi, í átta daga sóttkví. Þessum sóttvörnum var við haldið í fjóra mánuði eða vel fram á árið 1919. Í Vestur-Skaftafellssýslu var annar dugandi sýslumaður, Gísli Sveinsson, er varði sitt svæði með líkum hætti.

Talið er að þriðja bylgja spánsku veikinnar hafi hafist í mars 1919. Var hún í fyrstu talin vera kvefsótt, en fékk fljótt á sig farsóttarbrag: „Auk þess skellur hún á samtímis því að þriðja bylgjan gekk yfir heiminn og lagðist harðast á þau héruð sem áður höfðu sloppið við spænsku veikina“ (1).

Um 20. mars, að sóttvarnartímabilinu loknu, var fyrsta farþegaskipinu leyft að koma til hafnar á Akureyri. Steingrímur fór um borð í skipið. Þar voru allir við góða heilsu nema tveggja ára gamalt barn, sem að dómi skipslæknis hafði verið kvefað með hósta og hita, en var að batna. Steingrím grunaði, að um inflúensu væri að ræða og íhugaði að setja farþegana í einangrun. Af ýmsum ástæðum (meðal annars vegna fjölda farþega og fullyrðingar skipstjórans þess efnis, að tafir á ferðum skipsins myndu kosta mikil fjárútlát) varð hann að hleypa farþegunum í land. Tveimur til þremur vikum síðar var inflúensufaraldur kominn á flug á Akureyri og veiktust nær öll börn þar af inflúensunni. Börnin náðu sér yfirleitt fljótt og einungis eitt barn dó. Ýmsir fullorðnir fengu einnig væg inflúensueinkenni. Í sveitum í Akureyrarhéraði veiktust allmargir fullorðnir og áberandi mismunandi illa eftir bæjum. Í heild var bylgjan þó mun mildari en sú á undan hafði verið haustið 1918.

Sagan sem Steingrímur Matthíasson segir er vel kunn úr læknisstarfi: Læknir er gegn betri vitund knúinn til undanláts af því, að hann skortir beinar sannanir máli sínu til stuðnings.

 

 

Mynd 3. Lárus H. Bjarnason (1866-1934)

lauk lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1891. Var skipaður sýslumaður Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu 1894 og prófessor 1911 (var í hópi fyrstu prófessora við H.Í.). Varð hæstaréttardómari 1919 (sömuleiðis í fyrstu röð dómara við réttinn). Lárus var einnig alþingismaður í allmörg ár. Embættisferill Lárusar var samkvæmt þessu óvenjulega glæsilegur. Lárus hafði forgöngu um stofnun hjúkrunarnefndarinnar í spánsku veikinni og var formaður hennar. Séra Árni Þórarinsson hefur í ævisögu sinni langan kafla um Lárus í starfi sýslumanns á Snæfellsnesi. Hann lofar röggsemi Lárusar og nefndi, að honum léti vel að stjórna fundum og það væri tekið til greina, sem hann segði (12).

(Mynd úr Ljósmyndasafni Reykjavíkur, tekin árið 1900, ljósmyndari óþekktur.)

 

Lárus H. Bjarnason og hjúkrunarnefndin 1918

Ekki er vitað hvað leiddi til þess að Lárus gekk á fund Jóns Magnússonar, forsætisráðherra, og stakk upp á stofnun hjúkrunarnefndarinnar. Má vera, að jafnröggsömum embættismanni og Lárus var, hafi runnið til rifja aðgerðarleysi stjórnvalda í þeirri miklu vá, sem spánska veikin var í Reykjavík, og það hafi rekið hann á fund ráðherrans. Hinu má þó ekki gleyma, að unnusta sonar hans tók spánsku veikina og var ein af þeim fyrstu, sem létust af hennar völdum (12). Annað er og, að kollegi Lárusar, Jón Kristjánsson lagaprófessor, lést úr spánsku veikinni 9. nóvember, aðeins 33 ára gamall. Lárusi kann því að hafa verið tilfinningamál að leggja sitt af mörkum í baráttunni við þennan vágest. Ráðherra skipaði svo Lárus formann, borgarstjóra Knud Zimsen og þriðja mann í nefndina 8. 11. 1918 og tók hún til starfa daginn eftir (1, 13). Skipunarbréfið hefur varðveist. Það er víðtækt og hefur nýlega verið birt, svo og áskorun frá nefndinni þar sem óskað er eftir sjálfboðaliðum til starfa. Þótt starf nefndarinnar hafi mjög byggst á sjálfboðaliðastarfi, ber áskorunin samt með sér, að nefndin hefur haft allnokkur fjárráð (14).

Starfi nefndarinnar eru gerð allgóð skil í Sögu-ritgerðinni (1). Skal því stiklað á stóru. Nefndin skipti bænum í 13 hverfi og setti eftirlitsmann yfir hvert þeirra. Gengu eftirlitsmennirnir í hús til þess að kanna, hvar mest væri þörf á hjálp. Sums staðar komu eftirlitsmennirnir í hús þar sem allt heimilisfólkið lá veikt og hafði ekki fengið neina næringu eða hjálp jafnvel svo sólarhringum skipti. Um þetta leyti var enn fremur orðinn verulegur skortur á ýmsum nauðsynjavörum vegna stríðsins, m.a. á kolum til húshitunar. Þá var frost mikið í Reykjavík þegar inflúensufaraldurinn var í hámarki. Fólki hafði og fjölgað mjög í bænum frá aldamótum og víða voru ófullnægjandi íbúðir og þröngt búið. Stuðlaði þetta allt án efa að meiri dreifingu og heift veikinnar en ella hefði verið.

Árið 1918 voru tveir spítalar í Reykjavík, franski spítalinn á Lindargötu og St. Jósepsspítali í Landakoti, og önnuðu ekki sjúklingafjöldanum. Tók nefndin því það ráð að koma upp farsóttarspítala í Miðbæjarskólanum og má svo skilja, að þar hefðu fyrst verið 50 rúm, en síðan 70. Indriði Einarsson segir í endurminningum sínum, að Garðar Gíslason (væntanlega stórkaupmaður), Fenger stórkaupmaður (væntanlega Nathan & Olsen) og kaupmennirnir Haraldur Árnason (Haraldarbúð) og Jensen-Bjerg (Vöruhúsið) hefðu gerst nefndinni stórtækar hjálparhellur („þeir komu upp rúmunum á liðugum sólarhring“). Yfirlæknir farsóttarspítalans var Þórður Sveinsson (1874-1946), læknir á Kleppsspítala. Yfirhjúkrunarfræðingur var C.M. Bjarnhéðinsson (1868-1943), yfirhjúkrunarfræðingur Holdsveikraspítalans í Laugarnesi (kona Sæmundar Bjarnhéðinssonar, yfirlæknis) (13).

Meginviðfangsefni hjúkrunarnefndarinnar voru þrenns konar: heimsóknir á heimili nauðstaddra, stofnun farsóttarspítala, svo og stofnun barnaheimilis í húsnæði barnaskólans. Nefndin kom einnig við sögu með ýmsum öðrum hætti á inflúensutímanum. Meðal slíkra starfa var að hafa bíla til taks til þess að flytja lækna í vitjanir og sjá um næturvörslu læknis í bænum. Næturlæknirinn var Maggi Júl. Magnús (1886-1941). Bílstjóri hans á nóttunni var Meyvant Sigurðsson á Eiði, vel þekkt persóna í Reykjavík og Seltjarnarnesi á sinni tíð. Um starfið farast honum m.a. svo orð: „Magnús hafði þann sið að laga heitt og sterkt koníakstoddí á hverju kvöldi og láta á hitabrúsa. Þetta höfðum við með okkur á næturvaktinni og dreyptum á því annað slagið“ (15).

Mynd 4. Thor Jensen (1863-1947)

var danskur að ætt og kom ungur að árum til Íslands að starfa við Borðeyrarverslun. Með ótrúlegum dugnaði og óbilandi stuðningi konu sinnar Margrétar Þorbjargar Kristjánsdóttur sem er með honum á myndinni, tókst Thor að brjótast áfram til mikilla efna. Hann var meðal fremstu brautryðjenda í togaraútgerð í byrjun 20. aldar og hann varð síðar ótvíræður forgöngumaður stórbúskapar á Íslandi. Valtýr Stefánsson hefur fært sögu Thors Jensens í letur eftir viðtölum við hann sjálfan. Thor var hins vegar ófáanlegur til þess að ræða framlag sitt í spánsku veikinni og sneri þá jafnan talinu annað. Eftirfarandi frásögn byggir því einfarið á viðtali Valtýs við forstöðumann hjálparstarfsins (16).

(Myndin var tekin 1911; úr bók Valtýs Stefánssonar.)

 

Maggi Júl. var einn af fáum læknum í Reykjavík sem ekki veiktist af spánsku veikinni. Er látið að því liggja að koníak hafi varið þá Meyvant fyrir veikinni. Endurspeglar þessi frásögn því þá trú, sem skotið hefur oft upp kollinum bæði fyrr og síðar, að sterkt áfengi, einkum koníak, varni því að menn sýkist af inflúensu.

Hjúkrunarnefndin hætti svo störfum í lok nóvember 1918. Indriði Einarsson gaf hjúkrunarnefndinni þau eftirmæli, sem voru að öllum líkindum alsönn, að nefndin hefði orðið að meira liði en menn gátu gert sér í hugarlund (13). Hér ber þess enn að minnast, að allt þetta starf var borið uppi af einstaklingum, flestum ólæknislærðum, með Lárus H. Bjarnason fremstan í flokki, þótt það nyti vissulega stuðnings opinberra aðila. Það var því ekki að ástæðulausu, að yfirvöld, og landlæknir þar með, yrðu síðan harkalega gagnrýnd fyrir úrræðaleysi og framkvæmdaleysi í spánsku veikinni. Sú varð og raunin, þótt það sé ekki rakið hér.

 

Lýðhjálp Thors Jensens í spánsku veikinni 1918

Maður var nefndur Runólfur Stefánsson frá Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi og kenndur við Holt við Skólavörðustíg. Thor kallaði Runólf á sinn fund (væntanlega nokkru eftir skipun hjúkrunarnefndarinnar) og fól honum: ..... „að ég tæki að mér að setja upp almenningseldhús þegar í stað og matreiða þar fyrir börn og gamalmenni og aðra, sem gætu dregist á matgjafastaðinn“. Undirskilið var að sjálfsögðu, að þetta yrði á kostnað Thors. Runólfur samdi síðan við Sláturfélag Suðurlands um lán á stórum suðupottum og öðrum áhöldum, sem ætluð voru til niðursuðu, svo og lán á borðum og bekkjum til þess, að fólk gæti matast á staðnum. Þarna var byrjað að matreiða kl. 6-7 á morgnana og haldið áfram fram á nótt. Hundruð manna, ekki síst börn, fengu þarna mat allt til ársloka, en þá gat Sláturfélagið ekki lengur séð af húsnæði og búnaði. Hafði þessi starfsemi þá staðið ekki skemur en 5-6 vikur. Það vekur og athygli, að eldhúsið afgreiddi mörg matarílát af hafragraut og mjólk handa þurfandi fólki. Líklegt er að hjúkrunarnefndin hafi séð um dreifingu á þessari næringu í hús í bænum.

Veigamikill hluti þess matar, sem í boði var, var fiskur. Thor og synir hans gerðu út þrjá togara árið 1918. Var þeim haldið til veiða eins lengi og auðið var og fiskur úr þeim notaður við matseldina. Eins var ósoðinn fiskur afgreiddur til sjúklinga samkvæmt læknisávísun. Að vísu veiktust áhafnir tveggja togaranna snemma af inflúensu, en áhöfnin á hinum þriðja þraukaði lengi þannig að ekki skorti fisk.

Runólfur segist hafa fengið þrjár valinkunnar konur, sem unnu í Sláturfélaginu, til liðs við sig auk fjölda sjálfboðaliða. Svo vel vildi til, að hvorki Runólfur né þessar traustu konur veiktust af inflúensunni. Mikið mannfall var aftur á móti meðal sjálfboðaliðanna og stundum með bráðum hætti, meðan máltíðir stóðu yfir. Svo vel var enn búið að Runólfi, að hann hafði flutningsbíl til umráða og gat því skotið veikum mönnum heim.

Lýðhjálp Thors Jensens í spánsku veikinni stóð óvenju breiðum fótum: Hann lét ekki aðeins veiða fisk og kaupa annan mat í eldhúsið, heldur og tilreiða og framreiða matinn á sinn kostnað. Það er erfitt að finna hliðstæðu við slíka rausn. Helst koma mér í hug sagnir um fyrirmenn í fortíð, sem settu skála um braut þvera og veittu öllum, heilum sem bágum, frjálsan beina.

 

Mynd 5. Reykjavíkurapótek í Thorvaldsensstræti 6.

Fyrsta lyfjabúð á Íslandi, sem síðar varð Reykjavíkurapótek, var í Nesi við Seltjörn og á rætur sínar í stofnun landlæknisembættisins árið 1760. Árið 1833 komst lyfjabúðin í einkaeign og var flutt í nýbyggt hús milli kirkjugarðsins og Austurvallar, á horni Thorvaldsensstrætis og Kirkjustrætis. Síðari lyfsalar settu kvist á húsið og byggðu veglega við það til norðurs (til hægri á myndinni). Árin 1911-1919 var danskur lyfsali í Reykjavíkurapóteki, Peter Oluf Christensen (17). Í spánsku veikinni var mikil örtröð í apótekinu daga sem nætur (1). Leiddi það svo til þess, að bæjarstjórn Reykjavíkur taldi í öryggisskyni nauðsyn bera til þess að stofna aðra lyfjabúð í bænum (18).

 (Myndin var tekin kringum 1905; Ljósmyndasafn Reykjavíkur.).

 

 

Lyf notuð gegn inflúensunni 1918-1919

Í Söguritgerðinni segir svo: „Afgreiðsla lyfjanna fór fram óslitið bæði dag og nótt. Í lyfjabúðinni og á götunni fyrir utan hana var mikil mannþröng allan sólarhringinn og oft varð fólk að bíða lengi eftir lyfjum til þess að lina þjáningar hinna sjúku“ (1). Orðið „þjáning“ er hér lykilorð. Öll aðgengileg lyf voru þá réttilega einungis „þjáningarlinandi“ þegar best lét, án þess að ráðast gegn orsökum veikinnar (eiginleg inflúensulyf þekktust að kalla ekki fyrr en um síðustu aldamót). En hver voru þessi lyf? Hér skal enn á það minnt, að aðgengilegar heimildir um notkun lyfja í spánsku veikinni eru talsvert í molum. Það er einkum Gunnlaugur Einarsson, sem í skrifum sínum (2) ræðir um notkun lyfja (í Osló!) gegn spánsku veikinni, svo og Aksel Kristensen, lyfsali, í minningum sínum úr Reykjavíkurapóteki (19, 20).

Sótthiti, verkir og sljóleiki eru vel þekkt sjúkkenni inflúensu. Hér við bætast svo hósti og hæsi, með eða án slímuppgangs, vegna sýkingar í öndunarfærum (4). Þau lyf, sem grípa mátti til voru því í fyrstu röð hitastillandi og verkjadeyfandi og hóstastillandi lyf, svo og lyf, sem hugsanlega gætu hamlað lungnabólgu.

Elsta hitastillandi lyfið er kínín. Kínínpillur voru notaðar í spánsku veikinni (19). Engin bein vitneskja er hins vegar um notkun fenacetíns (Antifebrin®). Það var vel þekkt verkjadeyfandi og hitastillandi lyf, sem hafði verið þekkt frá árinu 1887 og var gríðarlega mikið notað (21). Acetýlsalicýlsýra (Aspirin®) er lítið eitt yngra en fenacetín (sett á markað 1899 og fyrst notað í skammtaformi) (22) (mynd 6). Aspirín var notað í spánsku veikinni bæði í Osló (2) og Reykjavík (19). Kristensen vann í Reykjavíkurapóteki er þetta var, og lýsir því, að þeir hefðu þá nýlega fengið stóra sendingu af aspiríntöflum frá Ameríku (19). Notkun lyfja í töfluformi var þá óvanaleg.

Gunnlaugur Einarsson nefnir, hve gott sé að eiga aðgang að morfínstungulyfi (... „en morfín-sprauturnar verka þó allt af best“) (2). Morfín til innstungu var hér samkvæmt danskri forskrift (mynd 6). Morfín í blöndum til inntöku hefur og án efa verið notað til þess að stilla hósta. Eiginmaður Eufemíu Waage lagðist veikur í spánsku veikinni og læknirinn ráðlagði „ ... einhverja mixtúru með morfíni og átti að taka hana þrisvar eða fjórum sinnum á dag“. Seinna kom þó í ljós, að 10 sinnum meira morfín að minnsta kosti var í mixtúrunni en átti að vera (10).

Í Söguritgerðinni er því lýst samkvæmt munnlegri heimild, að apótekarinn hafi staðið stöðugt við að blanda kamfórumixtúru (án efa út frá mixtúrustofni, sbr. mynd 6) og aðstoðarfólk jós henni í glös. Heimildarmaðurinn var á þeirri skoðun, að mixtúran gerði lítið gagn annað en slá á hósta og vanlíðan (1). Meyvant á Eiði sagði að mixtúran hefði verið mikið notuð við lungnabólgu, en efaðist um að hún væri virk (15). Þetta er í samræmi við upplýsingar í vel þekktri kennslubók í lyfjafræði. Þar er kamfóra (unnin úr kamfórutrénu (Cinnamonum camphora) eða samtengd), flokkuð sem örvandi lyf og talin lítilvirk nema eftir innstungu (undir húð) í stórum skömmtum (23). Forskriftin fyrir kamfórumixtúruna (Mixtura camphorata) er í Pharmacopoea Danica 1907, en hún var löggilt hér á landi. Þar stendur m.a.: Tilberedes, hver Gang den skal udleveres?. Þetta skýrir hvers vegna apótekarinn þurfti stöðugt að standa við og blanda mixtúruna. Liturinn á þessari mixtúru var rauðfjólublár (rødviolet), sem margir myndu telja vera áverkandi (suggestiv).

Mynd 6. Ílát undan nokkrum lyfjum, sem notuð voru í spánsku veikinni.

1. Solutio Chloreti morphici pro injectione subcutanea (FncH) (um það bil 5% morfínstungulyf, sem fært var úr flöskunni í hettuglös handa læknum að nota (smitgát hefur líklega verið í lágmarki!)).

2. Aspirinum verum (acetýlsalicýlsýra frá frumframleiðanda (Bayer) ætluð í skammta).

3. Phenacetinum (fenacetín væntanlega í formi skammta; fenacetín var mjög notað hitastillandi og verkjadeyfandi lyf, en beinar sannanir vantar um notkun þess í spánsku veikinni hér á landi).

4. Corpus pro mixt. camphor. 1 + 4 (mixtúrustofn; Mixtura camphorata var framleidd jafnóðum með því að þynna mixtúrustofninn fjórum sinnum með vatni).

(Mynd tekin í Lyfjafræðisafninu í Nesi 2. október 2008.)

 

Í Reykjavíkurapóteki voru í nóvember 1918 sex lyfjafræðingar og veiktust þeir allir (og apótekarinn líka) nema Kristensen. Hann stóð einn vaktina í apótekinu daga og nætur í 12 sólarhringa. Í þessum þröngum fékk hann leyfi landlæknis til þess að afgreiða einungis þrenns konar lyfseðla: lyfseðla á kamfórumixtúru (300 g), Spiritus vini gallici („Gallabrennivín“; „fínt nafn“ á koníaki; ½ l) og Spiritus concentratus (96%; ¼ l, öðru nafni „hundaskammtar“) (19, 20).

Samkvæmt þessu hefur kamfórumixtúrunni verið ætlað mikið hlutverk gegn inflúensunni. Næst þar á eftir kom koníak (apótekið var svo heppið að hafa nýlega fengið stóra tunnu af því frá Ameríku!). Gunnlaugur Einarsson (2) víkur í skrifum sínum að inflúensu og koníaki. Hann slær nokkuð úr og í um skoðanir á gildi koníaks í Noregi og Danmörku, en segir jafnframt: „Það þykir því betra, því erfiðara sem er að fá það“ (í Reykjavík var til nóg af því!). Þá eru það „hundaskammtarnir“ svonefndu. Þeir hafa sennilega verið hugsaðir sem róandi og svefnframkallandi lyf. Sem betur fer voru aspirínskammtar seldir í lausasölu í apótekinu þannig að ekki girti fyrir notkun þeirra (20).

Því má svo bæta hér við að í Læknablaðinu 1920 er lýst alvarlegri kamfórueitrun hjá sjúklingi sem fékk kamfóru í olíulausn í stórum skömmtum með innstungu við kveflungnabólgu (24). Hvenær skyldu læknar hafa kvatt kamfóruna?

Svefnlyf og róandi lyf hafa án efa verið notuð handa sjúklingum í spánsku veikinni, þótt frásagnir um það séu mjög fáar. Á þessum árum voru barbitúrsýrusambönd orðin ríkjandi róandi lyf og svefnlyf. Fyrsta lyfið í þessum flokki, sem lengi var mikið notað, var díemal (Veronal®). Það kom fyrst á markað árið 1903 og með vissu var farið að nota það hér 1915 (25).

 

Umræða

Skrif Þórðar Thoroddsens um spánsku veikina og fyrri inflúensufaraldra eru merkilegt framlag til læknisfræðilegrar sögu á Íslandi. Hann var þar að auki óvanalega fjölvirkur eða breiðvirkur maður.

Af skrifum Steingríms Matthíassonar má ráða, að vel hafi tekist til að verja Norðurland og Austurland og einnig Skaftafellssýslur fyrir spánsku veikinni. Bæði á Akureyri og í Vík sátu atkvæðamiklir sýslumenn. Sennilega hefur sóttvörnin haldist vegna festu þeirra og framkvæmdavilja, þótt læknar legðu vissulega á ráðin um varnaraðgerðir.**

Í Reykjavík, þar sem spánska veikin var ótvírætt verst, má undrast hve yfirvöld voru sofandi og sein með aðgerðir gegn veikinni. Hverjar sem hvatir Lárusar H. Bjarnasonar kunna að hafa verið til þess að ganga fram fyrir skjöldu, er ljóst að það var hans einkaframtak, eins og nú kallast af bestu gerð. Ég skynja Lárus ákveðinn, stjórnsaman og þolgóðan embættismann, sem með hjálp einstaklinga og styrk stjórnvalda lyfti grettistaki á ögurstund.

Frumkvæði Lárusar að stofnun og starfi hjúkrunarnefndarinnar 1918 virðist vera einstætt. Á Íslandi er mikil ævisagnagerð og ævisögurnar renna á markað nær sem af færibandi. Engu að síður hefur enginn skrifað um ævistarf Lárusar H. Bjarnasonar og er það sannarlega miður.

Það hefur að mínu viti alltaf verið hljótt um óeigingjarnt starf Thors Jensens í spánsku veikinni 1918. Thor var athafnamaður af þeirri stærð, að hann hlaut að vera umdeildur og ýmsum því án efa lítt gefið um að halda góðverkum hans á loft. Sjálfur var hann sama sinnis eins og áður er að vikið. Engu að síður hefur verið hljóðara um þessar miklu matargjafir en sanngjarnt er. Því er málinu hreyft hér.

Ekki verður skilist við þetta efni án þess, að minnst sé á áfengislækningar, sem Kristensen gerir svo lifandi að umtalsefni í minningum sínum frá spánsku veikinni í Reykjavíkurapóteki (19, 20). Áfengi má vissulega nota til lækninga, en það er þá notað nær undantekningarlaust í litlu magni. Það sýnist vera alveg út í hött að ávísa ½ l af koníaki eða 250 ml af sterkum spíritus mikið veiku fólki. Sem betur fer eru áfengislækningar eins og tíðkaðar voru í spánsku veikinni nú löngu liðin tíð.

 

Þakkarorð

Samverkamanni mínum, dr. Kristínu Björgu Guðmundsdóttur, er þökkuð aðstoð við vinnslu textans. Cand. pharm. Erling Edwald og cand. pharm. Jóhannesi F. Skaftasyni er þökkuð útvegun lyfjasýnishorna í Lyfjafræðisafninu í Nesi. Óttari Kjartanssyni, kerfisfræðingi, er þökkuð endurtaka myndar 4 og taka myndar 6, og Kristínu Hauksdóttur, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, er þakkað fyrir útvegun tveggja mynda (myndir 3 og 5). Þá er Védísi Skarphéðinsdóttur, ritstjórnarfulltrúa, þakkað fyrir aðstoð við endanlegan frágang texta og útvegun tveggja mynda (myndir 1 og 2).

*Athyglisvert er hve inflúensan árin 1918 og 1866 var skæð.

**Þessar aðgerðir gætu að miklu skýrt að færri dóu 1918-1919 en í skæðum

inflúensufarsóttum á fyrri tíð.

Um persónuupplýsingar er einkum stuðst við Lækna á Íslandi (3.útg. 1984), Lögfræðingatal 1736-1950 og Alþingismannatal 1845- 1975.

 

Heimildir

1. Ásgeirsson V. „Engill dauðans“. Spænska veikin á Íslandi 1918-1919. Saga 2008; XLVI: 1: 76-114.
2. Einarsson G. Spanska veikin. Læknablaðið 1918; 4: 166-71. (Ritgerðin er dagsett í Osló 11.11.1918).
3. Taubenberger JK, Reid AH, Lourens RM, Wang R, Jin G, Fanning TG. Characterization of the 1918 influenza virus polymerase genes. Nature 2005; 437: 889-93.
4. Information från Läkemedelsverket 2007; 5: 12-30 (Behandling och profylax av influensa med antivirala medel - Uppdaterad behandlingsrekommendation).
5. Briem H. Hættan á heimsfaraldri af völdum inlúensu A og viðbúnaður við honum. Læknablaðið 2006; 92: 93.
6. Brytting M. Behandling och profylax av influensa med antivirala medel - Bakgrunns-dokumentation. Fågel-influensa (H5N1) - epidemiologi, klinik och antiviral behandling. Information från Läkemedelsverket 2007; 5: 31-8.
7. Guðmundsson S. Inflúensa, quo vadis? Læknablaðið 2008; 94: 9-11.
8. Thoroddsen ÞJ. Inflúensan fyrr og nú. Læknablaðið 1919; 5: 17-23, 33-36 og 74-79. (í síðasta hluta greinarinnar er haft „z“ í „inflúensa“).
9. JJ, GH. Þórður Jónas Thoroddsen. Læknablaðið 1940; 26: 28-30 (G. H. er án efa Guðmundur Hannesson, en um J. J. er verra að geta sér til).
10. Waage E. Lifað og leikið. Minningar. Bókfellsútgáfan hf., Reykjavík 1949: 52, 160-1, 228-9.
11. Matthíasson S. Den spanske syge paa Island. Epidemiens begrænsing, dens forspil samt dens efterdønninger. Hospitalstidende 1920; 63: 65-71.
12. Þórðarson Þ. Æfisaga Árna prófasts Þórarinssonar IV. Á Snæfellsnesi. Helgafell, Reykjavík 1948: 222-53. 
13. Einarsson I. Sjeð og lifað. Endurminningar. Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar, Reykjavík 1936: 426-49.
14. Ólafsson BÞ. Neyðarhjálp í spænsku veikinni 1918. Saga 2008; XLVI: I: 209-15.
15. Pétursson JB. Bóndinn og bílstjórinn Meyvant á Eiði. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., Reykjavík 1975: 39-44.
16. Stefánsson V. Thor Jensen. Framkvæmdaár. Minningar II. Bókfellsútgáfan hf., Reykjavík 1955: 196-8.
17. Stefánsson V. Menn og minningar. Fimmtíu þættir. Bókfellsútgáfan hf., Reykjavík 1959. (Úr sögu Reykjavíkur apóteks: 16-26).
18. Friðriksson G. Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar 1870-1940. Síðari hluti. Iðunn, Reykjavík 1994: 41-2.
19. Kristensen A. Nogle erindringer fra Reykjavíkur apótek under ?den spanske syge? i november ?18. Tímarit um lyfjafræði 1968; 3: 3-4. 
20. Kristensen A. Þá kostuðu 10 ml af Hoffmannsdropum 25 aura. Tímarit um lyfjafræði 1972; 7: 36-9.
21. Roberts II LJ, Morrow JD. Para-aminophenol derivatives: Acetaminophen. Í: Goodman & Gilman?s The Pharmacological Basis of Therapeutics (Eds. Hardman JG, Limbird L og Gilman AF). McGraw-Hill. New York 2001: 703-5. 
22. Jóhannesson Þ. Aspirín. Acetýlsalicýlsýra og önnur salílyf. Læknablaðið 2000; 86: 755-68.
23. Møller KO. Farmakologi. Det teoretiske grundlag for rationel farmakologi. Nyt nordisk forlag Arnold Busch. København 1958: 342-3.
24. S. Bj. Eitrun eftir stórar kamfóruinnspýtingar við lungnabólgu. Læknablaðið 1920; 6: 186. (Höfundur er án efa Sæmundur Bjarnhéðinsson, sem var yfirlæknir Holdsveikraspítalans í Laugarnesi).
25. Jóhannesson Þ, Stefánsson H, Bjarnason Ó. Dauðsföll af völdum barbitúrsýrusambanda. Læknablaðið 1973; 59: 133-43.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica