10. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Þarf að koma frá hjartanu. Viðtal við Guðmund Viggósson

„Ég byrjaði seint að læra á fiðlu miðað við það sem tíðkast í dag. Ég var ellefu ára. Ég var reyndar búinn að vera í Barnamúsíkskólanum og læra á blokkflautu og píanó og var því með ágætan undirbúning,“ segir Guðmundur Viggósson augnlæknir og forstöðumaður Sjónstöðvar Íslands þegar ég er sestur inn á stofu hans í húsi Blindrafélagsins við Hamrahlíð.

Guðmundur er tónlistarmaður fram í fingurgóma í bókstaflegri merkingu því hann hefur ávallt leikið á fiðlu sína og haft tónlistina allt um kring, hún er hans helsta ef ekki eina áhugamál. „Ég spila ekki golf og fer ekki í laxveiði, en ég hef gaman af folfi.“ Folf, eflaust hvá fleiri en blaðamaður við þetta orð. „Folf er íþrótt sem leikin er samkvæmt svipuðum reglum og golf en í stað kúlu er notaður frisbídiskur og endamarkið á hverri braut er karfa ekki ósvipuð körfuboltakörfu. Þetta er skemmtileg íþrótt. Það er ágætur völlur upp í Gufunesi.“

Varstu aldrei að hugsa um að verða atvinnutónlistarmaður?

„Það hvarflaði kannski að mér en innst inni vissi ég að ég var ekki nógu góður. Það var heilmikill samanburður og samkeppni í gangi á milli okkar nemendanna. Fyrsti kennarinn minn í Tónlistarskólanum var Einar Sveinbjörnsson og síðan fór ég til Björns Ólafssonar konsertmeistara og náfrænda míns en það voru nemendur með mér eins og Guðný Guðmundsdóttir sem voru í algjörum sérflokki og maður hafði því samanburðinn. Hún var uppáhaldsnemandi Björns og ég var alltaf í næsta tíma á eftir henni. Björn frændi hélt henni oft langt inn í minn tíma og þá sat ég bara og hlustaði, nokkurs konar masterclass. Það hjálpaði til við að taka ákvörðun um framtíðina. Ég fann líka á skrokknum á mér að ég hafði hreinlega ekki nægilega góða tækni til að hafa úthald í fiðluleikinn. Ég fór og hlustaði á rússneska einleikarann Repin leika fiðlukonsert Tsjækovskís með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum um daginn. Hann renndi sér í gegnum konsertinn án þess að sæist svitaperla á honum. Ef ég ætti að spila eina blaðsíðu af þessu væri ég algjörlega að niðurlotum kominn. Þetta er munurinn. Þeir sem eru flinkir í einhverju vinnst það svo áreynslulaust. Ég var farinn finna fyrir ýmsum álagseinkennum líkamlega, slæmur í hálsinum og bakinu og það var því niðurstaðan að ég lagði tónlistarnámið á hilluna við stúdentspróf og hóf nám í læknisfræði.“

Guðmundur segist alltaf hafa litið á sig sem handverksmann. „Karlmennirnir í minni fjölskyldu eru ýmist skurðlæknar eða úrsmiðir. Föðurbróðir minn og tveir synir hans eru úrsmiðir og þegar ég var strákur fékk ég ónýtar klukkur og gerði við þær eða smíðaði eitthvað annað úr þeim, upptrekkta bíla og þess háttar dót. Ég lagði síðan fyrir mig augnskurðlækningar og hef sérhæft mig í barnaaugnskurðlækningum. Ég hef stöðuga hönd og fínvinna hentar mér því vel.“

Enga dægurtónlist!

Á æskuheimili Guðmundar giltu strangar reglur um hvers konar tónlist var hlustað á.

„Pabbi var ansi strangur í tónlistaruppeldi okkar systkinanna. Hann leyfði okkur ekki að hlusta á hvað sem er. Ef Lög unga fólksins voru í útvarpinu þá var bara slökkt á tækinu. Hann var sanntrúaður á gildi æðri tónlistar og fannst það hreinlega mannskemmandi að hlusta á dægurlög. Ellefu ára gamall fékk ég í afmælisgjöf tvær rússneskar hljómplötur, með fiðluleik Davids Oystrachs. Á annarri plötunni var fiðlukonsert Dvoraks og á hinni fiðlukonsert Síbelíusar. Ég var mjög óánægður með þessa afmælisgjöf og fannst þetta ekki eiga við mig ellefu ára gamlan. Ég fór samt að hlusta og nú eru þetta uppáhaldsverkin mín og vissulega hef ég gert mér grein fyrir gildi þess að ala börn upp á þennan hátt. Þetta er eins konar prógrammering.“

Hefurðu verið svona strangur við þín eigin börn?

„Nei, það er langt frá því! En pabbi vildi okkur öllum vel og hann hafði ekki mikla peninga handa á milli en alltaf þegar stórir tónleikar voru í bænum þá keypti hann 20-30 miða og bauð allri stórfjölskyldunni. Það eru sérstakar minningar tengdar því að sitja sem barn og unglingur og hlusta á Mattheusarpassíuna í fjóra klukkutíma! Pabbi vildi frelsa fólk og stundaði eins konar trúboð í tónlistinni. Allir áttu að hlusta á góða tónlist. Hann var fastur áskrifandi að Kammermúsíkklúbbnum og ég fór með honum frá blautu barnsbeini og hlustaði á æðri músíkina. Auðvitað hefur þetta sitt að segja en ég segi nú sjálfur að músík er músík og það kemur oft ekki í ljós fyrr en síðar hvað endist og hvað ekki. Sjálfur er ég alæta á tónlist og hlusta mikið meðan ég er að vinna. Síbyljan er hins vegar mjög þreytandi og stundum er þögnin gulls ígildi.“

Faðir Guðmundar, Viggó Tryggvason, var bróðir Nínu myndlistarkonu og að Guðmundi standa sterkir stofnar listamanna í báðar ættir. Langamma hans var Theódóra Thoroddsen og fjölskyldan lifði og hrærðist í tónlist, myndlist og bókmenntum. „Við Einar Thoroddsen erum syst- kinasynir og hittumst stundum í byrjun sumars og spilum saman Vorsónötuna eftir Beethoven. Það finnst okkur tilheyra.“

„Pabbi var meðleikari minn en hann var ágætur píanóleikari. Við þræluðumst saman í gegnum allar tónbókmenntirnar. Hann gaf ekkert eftir. Það var ráðist á fiðlusónötur allra helstu snillinganna og konsertana líka, á hálfgerðu hundavaði auðvitað, en þetta var skemmtilegt en þrælerfitt stundum. Ef ég kvartaði og sagðist vera orðinn þreyttur lét hann mig syngja. Við fórum í gegnum alla ljóðasöngva Schuberts og þó ég hafi litla söngrödd þá var þetta góð æfing. Fiðlan og mannsröddin eru mjög lík því í báðum tilfellum býr maður til tóninn og tónlist snýst fyrst og síðast um túlkun tilfinninga og að koma þeim til skila. Það er engin músík nema hún komi frá hjartanu.

Þetta voru gagnlegar æfingar hjá okkur feðgunum. Við höfum reyndar spilað saman vikulega allar götur síðan, alltaf á laugardögum, þó núna spili faðir minn ekki lengur á píanóið vegna sjóndepru, orðinn 91 árs gamall.“

Túlkun mikilvægari tækninni

„Það var mikil vinna að stunda tónlistarnám með hefðbundinni skólagöngu þegar ég var krakki og unglingur. Ég bjó í Vesturbænum og sótti tíma daglega í Tónlistarskólann sem var í Skipholtinu, þar sem Tónabíó var síðar og nú er bingósalur; pabbi átti aldrei bíl og ég fór því ýmist gangandi eða í strætó. Svo þurfti ég að æfa mig á hljóðfærið þrjá klukkutíma á dag. Það fór allur tími manns í þetta og ég tók engan þátt í félagslífi í menntaskólanum (MR) af þessum sökum.“

Fannst þér þetta súrt í broti? Fannst þér þú vera að missa af einhverju?

„Nei, alls ekki. Þetta var bara allt annar heimur sem ég hrærðist í en skólafélagarnir í MR. Þeir töluðu um skemmtanir og mér fannst gaman að hlusta á þá en ég var bara í allt öðrum heimi. Mér gekk hins vegar ágætlega í skólanum og það er nú yfirleitt þannig að unglingar sem hafa mikið að gera standa sig yfirleitt vel í námi. Maður verður að temja sér aga og skipulögð vinnubrögð og það skilar sér.“

Guðmundur segist ekki efast um hversu gagnlegt tónlistarnám er ungu fólki. „Þetta krefst aga og úthalds og samspil með öðrum þjálfar mann í samvinnu við aðra. Þetta er á alla lund jákvætt og tónlistin er einfaldlega göfgandi og mannbætandi.

Eftir að ég hóf nám í læknisfræði héldum við nokkrir félagar úr Tónlistarskólanum hópinn og hittumst reglulega og spiluðum saman. Þarna voru auk mín Sigurður Steinþórsson, Páll Einarsson, Leifur Benediktsson og fleiri og við kölluðum okkur upphaflega Hljómsveit Reykjavíkur sem síðar varð að Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Við fengum margt ágætisfólk til liðs við okkur, dugnaðarfólk sem hefur komið sér vel áfram í lífinu og hefur ánægju af því að spila tónlist. Hljómsveitarstjórinn okkar lengst af var Ingvar Jónasson, sonur Jónasar Tómassonar tónskálds á Ísafirði, mikið menningarfólk.“

Guðmundur segir að stofnun hljómsveitarinnar hafi strax beinst að því að halda tónleika. „Maður æfir ekki án þess að hafa tónleika að markmiði. Það er ómögulegt. Maður þarf kannski að vera örlítill senufíkill til að endast í þessu. Tónleikar eru hápunkturinn og oft spilar maður betur á tónleikum en endranær. Það er dálítið gaman að velta fyrir sér uppruna orðsins „amateur“, sem oftast er þýtt sem „áhugamaður“, en þýðir bókstaflega sá sem hefur „ást á“. Ástin og umhyggjan fyrir tónlistinni er það sem rekur okkur áhugamennina áfram og bætir stundum upp skort á tækninni. Túlkunin er mér meira virði en tæknin og ég hef til dæmis oft meiri ánægju af því að hlusta á leikara syngja en marga óperusöngvara því þó rödd söngvaranna sé betri er túlkunin svo miklu betri hjá leikurunum. Gamli kennarinn minn, Einar Sveinbjörnsson, sagði að ef maður hefði ekkert að segja með tónlistinni væri betra að sleppa því að spila hana. Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að fara á nemendatónleika. Það er einhver háski í loftinu og maður finnur svo vel hvað mikið er í húfi. Maður situr fremst á sætisbrúninni og vonar að allt gangi upp. Þetta er miklu sterkari upplifun en að heyra atvinnumann spila frægan fiðlukon-sert í fimmtugasta skipti.“

 

Forskrift frá Guarneri

Nú dregur Guðmundur fram hljóðfærið sitt, dýrindisfiðlu sem smíðuð er eftir Guarneriusarfiðlu úr völdum viði frá Bosníu. „Þetta er ekki Guarnerius en nákvæm eftirlíking af fiðlunni sem er í eigu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Guðný Guðmundsdóttir hefur notað. Þetta er mjög gott hljóðfæri sem hljómar einstaklega vel og það er erfitt að heyra mun á þessari og fyrirmyndinni.“

Hann bregður fiðlunni undir hökuna og segir að þessi stelling sé orðin sér töm í gegnum árin. „Maður var kannski dálítið sérstakur sem krakki, óskaplega nærsýnn, með þykk gleraugu, smávaxinn með fiðlukassann undir hendinni. Nærsýnin var mér erfið og hafði örugglega áhrif á val mitt á sérgrein í læknisfræði. Ætli ég sé ekki nærsýnasti augnlæknir á Íslandi, komst í tveggja stafa tölu, mínus tíu, á öðru auganu. Það var ýmislegt sem ég gat ekki gert vegna nærsýninnar og eflaust hefur þetta haft einhver áhrif á persónuleikann hjá mér sex ára gömlum að byrja að ganga með gleraugu. Þetta er auðvitað efni í eineltismódel en það varð það aldrei í mínu tilfelli. Kannski beit það ekkert á mig.

Fyrir átta árum fór ég fyrstur augnlækna í laseraðgerð á augum sem tókst einstaklega vel og þá opnaðist mér bókstaflega nýr heimur. Ég get ekki lýst því hvað það er dásamleg upplifun að geta farið út í rigningu og látið rigna í augun á sér, eða farið í sund og séð eitthvað frá sér. Þegar ég var ungur langaði mig til að læra flug. Það var ekki hægt vegna nærsýninnar. Nú hef ég látið þennan draum rætast og verið að fljúga nokkur undan-farin ár. Það er rosalega gaman og gefur manni mikið að láta æskudraumana rætast á þennan hátt.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica