10. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Konur hafa ráðin í hendi sér. Viðtal við Sigrúnu Perlu Böðvarsdóttur

Sigrún Perla Böðvarsdóttir tók við formennsku í Félagi ungra lækna, FUL, í sumar er þáverandi formaður, Ragnar Freyr Ingvarsson, hvarf af landi brott til framhaldsnáms og brúaði hún bilið fram að nýafstöðnum aðalfundi 18. september sl. Nýr formaður var kjörin Hjördís Þórey Þorgeirsdóttir. Sigrún Perla segir að það hafi ekki komið til álita af sinni hálfu að gefa kost á sér til formennskunnar en hún hefur setið í samninganefnd Læknafélags Íslands fyrir hönd unglækna og er því öllum hnútum kunnug frá átökum sumarsins þegar samningar voru felldir í lok júlí.

Sigrún Perla segist ætla að sitja áfram í samninganefnd fyrir hönd unglækna enda mikilvægt að reynslan af samningaviðræðum sumarsins nýtist við samningagerð á næstu mánuðum.

„Ég er búin að vera í samninganefnd frá því í fyrravetur ásamt Bjarna Þór Eyvindssyni sem nú er farinn utan til framhaldsnáms og við tókum þátt í undirbúningsvinnu samninganefndar LÍ áður en sest var að borðinu með samninganefnd ríkisins. Þegar nefndin gaf okkur loks færi á að hittast á samningafundi var strax ljóst að það var ekki mikið í boði. Það voru fyrstu vonbrigðin en einnig dróst samningaferlið á langinn vegna þess að samninganefnd ríkisins vildi ekki hitta okkur fyrr en búið var að semja við ýmsa aðra hópa. Þetta varð til þess að erfitt reyndist að halda samninganefnd LÍ saman þar sem fólk var búið að gera alls kyns ráðstafanir í sambandi við sumarfrí og þegar loks kom að því að samningur lá á borðinu þá vorum við Bjarni bæði fjarverandi. Okkur var strax ljóst að þetta væri samningur sem unglæknar ættu erfitt með að sætta sig við en ég get ekki svarað því hvort ég hefði skrifað undir hann ef ég hefði verið á staðnum. En það var augljóst að unglæknar hefðu með þessum samningi fengið minna í sinn hlut en ríkið bauð strax í upphafi, en þar var boðið upp á fasta krónutöluhækkun sem hefði þýtt mesta prósentuhækkun fyrir þá sem eru með lægstu launin.”

Sigrún Perla Böðvarsdóttir deildarlæknir og í samninganefnd LÍ.

Laun lækna almennt ekki góð

Sigrún Perla segir mikilvægt að hafa í huga að við síðustu kjarasamningagerð hafi hlutur unglækna verið verulega bættur og samninganefnd LÍ hafi í undirbúningsvinnu sinni í vor lagt upp með að unglæknar héldu fengnum hlut. „Unglæknar voru hins vegar fljótir að sjá að þeir hefðu fengið töluvert minna út úr þeim samningi sem samninganefnd LÍ skrifaði undir í sumar en samninganefnd ríkisins bauð í vor. Það olli verulegri óánægju. Ég hef hins vegar ekki legið á þeirri skoðun minni á samningafundum að unglæknum finnast laun lækna almennt ekki góð miðað við þá menntun og vinnu sem liggur að baki. Unglæknar eru því ekki eingöngu að mótmæla launakjörum sínum í núverandi stöðu heldur einnig launakjörum sérfræðinga og horfa þá til þess að einhvern tíma verða flestir unglæknar sérfræðingar.”

Óánægja unglækna með samninginn fór ekki framhjá neinum sem fylgdist með í sumar og fjölmiðlar tóku málið óspart upp enda kannski á þeim árstíma þegar lítið er um „harðar” fréttir. „Eflaust hefur áhugi fjölmiðla ýtt enn frekar undir óánægju unglækna en ég er þó fullviss um að óánægjan var orðin það mikil að ekki hefði breytt neinu um niðurstöðu kosningarinnar þó minna hefði verið fjallað um málið í fjölmiðlum.“

Eflaust hafa einhverjir velt því fyrir sér hvort betur færi að unglæknar semdu sérstaklega við ríkisvaldið en þá er skemmst að minnast þess að fyrir sex árum klauf FUL sig frá Læknafélagi Íslands og óskaði eftir því að fá sérsamning við ríkið. „Það mál fór fyrir Félagsdóm og úrskurður hans var sá að það væri ekki leyfilegt að semja sérstaklega við unglækna og við gengum því aftur til samstarfs við LÍ árið 2003. Á þeim tíma sem liðinn er hefur unglæknasamfélagið breyst talsvert. Okkur hefur fjölgað í félaginu og það stafar fyrst og fremst af því að unglæknar eru lengur heima eftir læknanámið en áður enda geta þeir tekið fyrrihluta af ýmsum sérgreinum hér áður en farið er utan til að ljúka þeim og sumar greinar er hægt að taka að fullu heima. Árgangarnir eru einnig stærri, bæði úr læknadeild HÍ og unglæknar sem koma heim eftir grunnnám erlendis. Það hefur verið rætt hvort við ættum í ljósi þessarar fjölgunar að taka aftur upp þráðinn um að semja sér við ríkið. Þær umræður eru alls ekki komnar lengra en á hugmyndastigið og álit Gunnars Ármannssonar lögfræðings og framkvæmdastjóra LÍ er að það sé ekki skynsamlegt fyrir unglækna að semja sérstaklega.“

Má ráða af þessum vangaveltum að hagsmunir unglækna og sérfræðinga sem starfa á vegum ríkisins séu svo andstæðir að erfitt sé að semja fyrir báða hópa í einum samningi?

„Ég tel svo ekki vera enda eru mörg dæmi um heildarsamtök sem gera samninga fyrir ólíka hópa innan sinna vébanda. Okkar kjör eru í grunninn ekki svo ólík því sem sérfræðingarnir hafa en það nær aðeins aftur til síðustu samningagerðar. Fram að því voru unglæknar látnir sitja á hakanum og hugsunin var sú að þeir yrðu bara að þreyja þorrann þar til þeir yrðu sérfræðingar og þá myndu kjör þeirra batna. Þetta breyttist með síðasta kjarasamningi þar sem sérstök áhersla var lögð á að bæta kjör unglækna og nú viljum við einfaldlega halda okkar hlut og tryggja að hann sé ekki verri en annarra hópa innan LÍ.“ 

 

Samfélagið að breytast

Látum þetta nægja um samningamálin en veltum aðeins fyrir okkur þeim breytingum sem orðið hafa á starfsvettvangi unglækna með upptöku vinnutímatilskipunar Evrópusambandsins. Þar er kveðið á um að unglæknar þurfi að taka frí fyrir og eftir vaktir með tilheyrandi minni viðveru á dagvinnutíma á deildunum.

„Þetta fyrirkomulag er í rauninni ekki slæmt, það snýst um að læknar fái nauðsynlega hvíld en það þarf auðvitað að mæta þessu með því að fjölga stöðugildum fyrir unglækna og tryggja að hvíldartímaákvæðið dragi ekki úr klínískum námstækifærum okkar. Eflaust á eftir að finna betra jafnvægi í þessu en ég er sannfærð um að þetta fyrirkomulag er til bóta og því má ekki gleyma að kröfur fólks til frítíma með fjölskyldu hafa breyst og þá gildir einu hvort um er að ræða konur eða karla. Í mínum árgangi í læknadeild voru tveir þriðju hlutar konur en ég hef ekki fundið neinn mun eftir kynjum á kröfum til frítíma. Samfélagið er að breytast og þótt konum fjölgi í læknastétt hafa mennirnir okkar líka þetta viðhorf. Fyrirkomulagið sem nú er í gildi kemur ágætlega til móts við þessi sjónarmið en vandinn liggur í undirmönnun á spítalanum.“

Kynjahlutföll í læknastétt breytast hratt. Konur í læknanámi eru í meirihluta og starfandi læknar eru nokkurn veginn jafnmargir af báðum kynjum. Hefur þetta áhrif á stéttina, kjarabaráttu og hugsanlega val á sérgreinum?

„Ég vil svara þessu á mjög einfaldan hátt með því að segja nei við báðum spurningum. Það hefur stundum verið sagt konur velji sér frekar „þægilegra“ sérnám þar sem vaktabyrðin er tiltölulega lítil og hægt að að vera meira heima. Þetta er rangt og engar kannanir á vali kvenna á sérgreinum hafa sýnt að svo sé. Þetta eru órökstuddar vangaveltur sem eiga sér enga stoð í veruleikanum. Ég segi líka nei við því að fjölgun kvenna í læknastétt muni leiða til verri kjara. Við erum mjög meðvituð um að hindra þessa þróun. Við höfum öll tækifæri til þess. Formaður Læknafélags Íslands er kona, formaður heimilislæknafélags Íslands er kona. Nýr formaður FUL er kona. Konur geta því ráðið ferðinni á næstu árum að talsverðu leyti.“

 

Fjölskyldan í forgang

Stjórnendur í hópi lækna eru hins vegar í miklum meirihluta karlar. Það endurspeglar ekki kynjahlutfallið í stéttinni. Hefurðu velt því fyrir þér?

„Ég held að ástæðuna sé að einhverju leyti að finna í því að konur setja fjölskyldu sína yfir-leitt fremst í forgangsröðina. Þegar kona stendur frammi fyrir því að velja á milli krefjandi stjórnunarstöðu og tíma með fjölskyldunni þá verður fjölskyldan oftar ofan á hjá konum en körlum. Þetta er alls ekki einhlítt en hefur sitt að segja. Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort stjórnun sé gert nægilega hátt undir höfði í læknanáminu þannig að læknar séu færir um að stjórna þegar tækifærin til þess bjóðast. Aðrar heilbrigðisstéttir, sérstaklega hjúkrunarfræðingar, hafa lagt áherslu á að mennta sig í stjórnun eftir að grunnnámi lýkur. Unglæknar eiga hins vegar allt sérnámið eftir þegar grunnnámi lýkur og hugsa því ekki um að mennta sig í stjórnun þá. Það er alveg ljóst í mínum huga að þörfin fyrir stjórnunarmenntaða lækna er mikil og ekki bara innan heilbrigðiskerfisins heldur í samfélaginu almennt því raddir lækna þurfa að heyrast meira. Nú er til dæmis enginn læknir á þingi, sem er sannarlega skaði. Læknanámið er góður undirbúningur til þess að láta til sín taka á mörgum sviðum.”

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica