06. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Námskeið til að kenna kennurunum

Félag íslenskra heimilislækna stóð fyrir námskeiði í þjálfun kennara í framhaldsnámi í heimilislækningum á Flúðum dagana 22.-25. maí. Námskeiðið er haldið á vegum EURACT, (European Academy of Family Medicin) og WONCA (World Organisation of Family Doctors) og kennt við Leonardo menntaáætlun Evrópusambandsins. Að sögn Justin Allen sem skipulagt hefur námskeiðið og stýrt því undanfarin tvö ár er upphaf þess að rekja til Póllands þar sem læknar þar vildu nýta möguleika Leonardoáætlunarinnar til að þjálfa leiðbeinendur sérfræðinema í heimilislækningum. "Námskeiðið er því ætlað að kenna kennurum að kenna. Þetta er í fimmta skiptið sem námskeiðið er haldið og það fer þannig fram að eitthvert EURACT landanna býðst til að halda námskeiðið og EURACT leggur til kennarana."

u08-fig1

EURACT eru samtök lækna sem hafa lagt sig sérstaklega eftir kennslu og samtökin standa að umfangsmikilli starfsemi á þeim vettvangi í Evrópu. Leonardonámskeiðið er eitt þeirra.

Auk Allens frá Englandi eru fjórir kennarar hingað komnir en þau eru Egle Zebiene frá Litháen, Athanasios Simeonidis frá Grikklandi, Igor Svab frá Slóveníu og Yonah Yaphe frá Ísrael.

Allen segir að á námskeiðinu sé farið yfir fjölmarga þætti kennslu og kennslutækni. "Við byrjum á byrjuninni og kennum hvernig á að setja upp námskeið og skipuleggja kennsluna. Síðan er farið í kenningar og aðferðir og í allt eru þetta 23 klukkustundir af stífri yfirferð um flestar greinar kennslu og kennslufræða. Við leggjum mikla áherslu á að nemendur á námskeiðinu taki beinan þátt í því og því er aðeins lítill hluti þess byggður á fyrirlestrum; við notum myndbandstækni og aðrar aðferðir til að virkja þátttakendur. Það setur sérstakan svip á námskeiðið að það er alltaf á ensku og því eru þátttakendur misjafnlega í stakk búnir til að taka þátt. En þetta er ögrun sem allir takast á við og það hefur gengið mjög vel hingað til."

Egle Zebiene sem er núverandi forseti EURACT segir að námskeiðið hafi í raun margfeldisáhrif þar sem þeir sem setið hafa námskeiðið hafa síðan farið á milli læknadeilda í sínu heimalandi og kennt öðrum læknum. Þannig megi segja að námskeiðið hafi nú náð til um 1200 lækna víðsvegar um Evrópu þó EURACT hafi ekki staðið að nema fimm þeirra. "Þetta er til marks um hversu vel heppnað námskeiðið er og hversu margar læknadeildir hafa nýtt sér þetta námsefni með góðum árangri."

Igor Svab er forseti Evrópudeildar WONCA og hefur kennt á Leonardonámskeiðinu frá upphafi. Hann lýsir því að Evrópudeild WONCA sé öflugasta deild alheimssamtakanna og innan hennar séu um 40 Evrópulönd. "Stærsta verkefni okkar var ráðstefna í París í fyrra þar sem voru 4500 þátttakendur og í haust verður haldin svipuð ráðstefna í Istanbul í Tyrklandi. Við höldum uppi öflugu fræðslustarfi og eigum samstarf við önnur alþjóðleg samtök lækna um fjölmörg málefni sem snerta störf þeirra."

Athanasios Simeonidis gegndi til skamms tíma starfi gjaldkera EURACT og hann segir að Leonardonámskeiðið sé tvímælalaust besta fjárfesting sem félagið hafi ráðist í. "Það er ekki hægt að hugsa sér betri aðferð til að verja fjármunum samtakanna og það skilar sér margfalt þegar litið er til þess hversu margir njóta góðs af námskeiðinu."

Yonah Yaphe segir hugmyndafræðin að baki námskeiðinu vera einfalda. "Ef við viljum njóta góðrar læknisþjónustu þurfum við hafa vel þjálfaða lækna og til þess þarf að þjálfa leiðbeinendur sem geta leiðbeint áhugasömum unglæknum inn á braut sérfræðiþekkingar í heimilislækningum. Þetta námskeið er sérstaklega spennandi því þar er öllu því besta sem komið hefur fram í alþjóðlegri læknisfræði stefnt saman og þetta hefur líka þau áhrif að færa aðferðir og staðla nær hvert öðru því sannarlega eru þau ólík frá einu landinu til annars."

Að sögn Ölmu Eirar Svavarsdóttur sem er kennslustjóri í heimilislækningum og formaður sérfræðimenntunar hjá EURACT var mikilvægt að fá Leonardonámskeiðið hingað til Íslands. "Sem kennslustjóri ber ég ábyrgð á því að leiðbeinendur í sérnámi í heimilislækningum hafi kunnáttu og þekkingu á hinum ýmsu kennsluaðferðum við kennslu sérnámslækna. Ég heyrði af námskeiðinu fyrir tveimur árum og sat það ásamt Elínborgu Bárðardóttur formanni Félags íslenskra heimilislækna og við sannfærðumst um að það væri mikilsvert að fá það hingað."Þetta vefsvæði byggir á Eplica