04. tbl. 94. árg. 2008

Hugleiðing höfundar. Tak sæng þína og gakk. Guðrún Helgadóttir

Guðrún Helgadóttirsagði frelsarinn við lama manninn og sá reis upp alheill, sér að kostnaðarlausu. Þegar ég var barn fannst mér læknirinn okkar, hann Bjarni Snæbjörnsson, einmitt svona læknir. Hann læknaði bara öll okkar mein þegjandi og hljóðalaust og það kostaði aldrei neitt, enda áttu fæstir peninga. Fæstir fengu að vita hvað var að þeim, en mixtúrur Bjarna læknuðu flesta og Hafnfirðingar létust ekki fyrr en í hárri elli. Ef eitthvað alvarlegt steðjaði að, tóku systurnar á St. Jósefsspítala við og það kostaði heldur ekkert. Þar var botnlangi minn fjarlægður þegar ég var sjö ára og ber ég enn stórt og mikið ör á rennilegum kviðnum eftir þá lífgjöf. Bjarni leit eftir mér og systurnar hjúkruðu mér og mér fannst þetta heilagt fólk. Mér fannst hann Bjarni alveg jafngóður og Jesús. Og það fannst öllum, enda var hann kosinn á þing, en ekki er vitað til þess að hann hafi heldur talað þar. Honum var ekkert gefið um þvaður. Hann lét hins vegar verkin tala. Þegar umkomulaus stúlka ól barn á heimili hans og dó af barnsförum, tóku Bjarni og Helga kona hans barnið, sem var alvarlega fatlað, og ólu þau drenginn upp með sínum eigin stóra barnahópi. Hjá þeim var hann í hálfa öld og var allra hugljúfi í bænum.

En þó að verkafólkið í firðinum væri félítið, safnaðist afrakstur vinnu þess í digra sjóði sem fleyttu þjóðinni fram á veg til framfara og velsældar. Og umfram allt til betri heilsu, enda voru ótrúleg afrek unnin á því sviði, og nægir að nefna útrýmingu berklaveikinnar og stofnun almannatrygginga. Menn gerðu sér grein fyrir rétt eins og Járnkanslarinn Otto von Bismarck að lítið gagn væri að heilsulausri þjóð. Til þess að bæta líf og heilsu þyrftu sameiginlegir sjóðir að koma til. Ekkert væri arðvænlegra fyrir samfélagið en veikur maður sem gengi albata aftur út í lífið eftir dvöl á sjúkrahúsi eða aðra læknismeðferð. Enginn talaði um að slíkar stofnanir væru reknar með halla. Og árangurinn lét ekki á sér standa. Litla þjóðin okkar tók höfuðstökk úr eymd og örbirgð inn í öflugt samfélag velferðar og hagsældar. Og við komumst á blað með hinum ríkustu þjóðum.?

En nú sýnist heldur betur vera að harðna á dalnum. Öld skósólanna virðist vera að renna upp. Í gær mátti heyra útvarp allra landsmanna auglýsa marsípan-sálmabækur og það tók mig nokkra stund að skilja að þær átti að éta. Og Árni Magnússon hvergi nærri. Og í dagblöðum dagsins auglýsir heilbrigðisráðherrann örvinglaður eftir einhverju fólki sem nenni að taka við veikum gamalmennum og býður húsnæði Landakotsspítala til starfans. Það sárvantar samkeppni í umönnun hinna öldnu. St. Jósefssystur þurftu aldrei að keppa við neinn, hvorki á Landakotsspítala né í Hafnarfirði. Og hjá þeim talaði enginn um rekstrarhalla. Þær hjúkruðu bara sjúkum og unnu af elskusemi við hlið góðra og vandaðra lækna. Eini hallinn í rekstrinum varð þegar ekki tókst að bjarga lífi.

En systurnar þurftu heldur ekki að sitja fundi heilu og hálfu dagana, læknarnir ekki heldur. Þau voru bara að lækna fólk. Það var algjörlega ástæðulaust að eyða tímanum í að ræða um rekstur sjúkrahúsanna við fólk sem ekkert hefur til þess unnið annað að vera duglegt að sleikja frímerki á kosningaskrifstofum landsins. Nú sýnist mér að ómældur tími heilbrigðisstétta fari í að þvaðra um hallann í heilbrigðiskerfinu á svipuðu plani og tapið í laxeldinu eða refaræktinni. En kannski mætti ræða óheyrilegan verkjalyfjakostnað vegna langs biðtíma eftir aðgerðum og annað sem tengist heilsu landsmanna og læknisverkum.

En kosningasmalarnir vita lítið um svoleiðis tap. Þeir sitja bara í stjórn sjúkrahúsanna og í ráðuneytunum og horfa tileygir á aukinn kostnað vegna þeirra gífurlegu framfara sem orðið hafa í tækni og lyfjum, sem nú bjarga mannslífum sem áður var ógerlegt. Þessar framfarir heita á þeirra máli halli.

Er ekki kominn tími til að heilbrigðisstéttirnar hætti að láta bjóða sér þessa endileysu? Og fari aftur að vera læknar eins og hann Bjarni Snæbjörnsson og systurnar á St. Jósefs með öllum þeim möguleikum sem ekki voru til staðar í þeirra tíð? Að þeir reki hagfræðingana og hagræðingana heim til þess að lesa sér til um hvað sé arðbært í samfélaginu og hvað ekki? Þá kynnu þeir góðu fræðingar að komast að því að það getur aldrei orðið halli á heilbrigðisstofnunum. Öll sú vinna sem þar fer fram er hreinn gróði fyrir samfélagið allt. Sá eini sem máli skiptir þegar öllu er á botninn hvolft.

Um það held ég að þjóðin sé sammála. Eigum við ekki að sameinast um að leggja því frábæra fólki sem vinnur við lækningar og umönnun sjúkra í þessu landi það fé sem nauðsynlegt er að þess eigin mati til að veita sérhverju landsins barni þá læknisþjónustu sem talin er með þeirri bestu í heimi hér? Það fólk er aðeins í samkeppni um eitt: að berjast við sjúkdóma og þrautir, sem sækja að okkur öllum, og vinna sem flesta sigra. Eitt er að éta sálmabækur í hallæri, en að svelta heilbrigðiskerfið er heimskulegt.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica