02. tbl. 94. árg. 2008
Umræða og fréttir
Virkur þátttakandi í samfélaginu. Viðtal við Þorstein Jóhannesson
Þorsteinn Jóhannesson, lækningaforstjóri Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðar, man sannarlega tímana tvenna á ferli sínum sem læknir. Hann stundaði sérnám í hjartaskurðlækningum í Þýskalandi og var þar kominn í fremstu röð þegar óvænt slys setti honum stólinn fyrir dyrnar á þeim kröfuharða vettvangi. Hann sneri þá heim til Íslands og leitaði á æskustöðvarnar á Ísafirði og hafði ekki verið þar lengi þegar þrjú mannskæð snjóflóð féllu á byggðarlög á norðanverðum Vestfjörðum og líða ekki svo létt úr minni. Hann hefur tekið virkan þátt í samfélaginu á Ísafirði og sat í bæjarstjórn um átta ára skeið og kveðst jafnaðarmaður í hjarta sínu og í því sé engin mótsögn falin þó hann hafi setið í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þorsteinn er einnig mikill útivistar- og veiðimaður og stundar þau áhugamál eftir föngum bæði á sjó og landi.
"Ég er fæddur á Ísafirði í Mjallargötunni sem reyndar var alltaf kölluð Læknisgatan frá því Þorvaldur Jónsson var hér læknir og bjó í götunni. Foreldrar mínir er Sjöfn Magnúsdóttir og Jóhannes Þorsteinsson og ég ólst upp í fimm systkina hóp. Ég var á Ísafirði til 17 ára aldurs er ég fór suður í Menntaskólann í Reykjavík. Hér var þá ekki kominn menntaskóli en þó menntaskóladeild þar sem hægt var að taka 1. bekk. Ég kom síðan aðeins hingað vestur á sumrum eftir það þar til ég lauk læknisfræðináminu í Háskóla Íslands og fór til Þýskalands í framhaldsnám. Ég var síðan orðinn fertugur þegar ég fluttist hingað eftir tæplega 10 ára búsetu í Þýskalandi. Ég er kvæntur Margréti K. Hreinsdóttur, hjúkrunarfræðingi, saman eigum við tvö börn, Magnús Þóri 8 ára og Þuríði Kristínu 5 ára. Af fyrra hjónabandi á ég Jóhannes, 29 ára verkfræðing sem er búsettur og starfar í New York, hann er kvæntur Ágústu Þuríði Vigfúsdóttur og eiga þau eina dóttur, Sólveigu Júlíu tveggja ára."
Þorsteinn hóf sérnám sitt í skurðlækningum í Alen, borg austan við Stuttgart. "Þarna var 130 rúma skurðdeild, afskaplega góður skóli og mikil vinna þar sem ég var á skurðstofu fjóra daga í viku en einn dag vikunnar var ég á vakt. Þarna var ég í þrjú ár en fluttist síðan til háskólasjúkrahússins í Freiburg þar sem ég var í sex og hálft ár. Ég lauk þaðan prófi í almennum skurðlækningum og síðan doktorsprófi árið 1989 en þá hafði ég tveimur árum fyrr byrjað í hjarta- og brjóstholsskurðlækningum. Ég var í byrjun á Háskólasjúkrahúsinu en flutti mig þaðan yfir á einkasjúkrahús sem var eingöngu með hjartaaðgerðir, á kransæðum, hjartalokum og hjartaflutningum. Ég var kominn í teymi skurðlækna í hjartaflutningunum þegar ég kaus að fara heim 1989 eftir slæmt slys sem ég varð fyrir."
Slysið sem Þorsteinn talar um var líkamsárás sem hann varð fyrir er hann var ásamt fleiri læknum staddur á námskeiði í æðaskurðlækningum í Amsterdam í Hollandi.
"Við vorum fimm félagar á heimleið eitt kvöldið þegar ráðist er á okkur og við allir barðir illa. Ég lenti í því að missa vinstra augað í þessari árás og þó ég héldi áfram í átta mánuði að stunda hjartaskurðlækningarnar þá fannst mér það of erfitt og ekki réttlætanlegt að stunda svo flóknar og erfiðar aðgerðir með eitt auga. Ég flutti því heim og vann við almennar skurðlækningar á Landspítalanum í eitt ár en þegar staða skurðlæknis hér fyrir vestan var auglýst þá sótti ég um og hér hef ég verið síðan 1. nóvember 1990."
Kaflaskipti á ferlinum
Þetta hafa verið mikil umskipti á stuttum tíma?
"Já, en ég leit bara þannig á þetta að þarna væri einum kafla að ljúka og annar að hefjast. Fyrri kaflinn snerist um stærri og flóknari skurðlækningar, mikla sérhæfingu, en í síðari kaflanum er ég læknir í sem víðustum skilningi þess orðs. Ég framkvæmi þær almennu skurðaðgerðir sem hægt er að gera hér á sjúkrahúsinu en allar flóknari aðgerðir fara fram í Reykjavík en síðan snýst vinnan að miklu leyti um heimilislækningar í þessu samfélagi sem hér er. Hér eru auðvitað ekki sérfræðingar í öllum undirgreinum svo við sendum sjúklinga suður til hinna ýmsu sérfræðinga og oft erum við læknarnir hér í sambandi við sérfræðinga í Reykjavík og leitum ráða um greiningu og meðferð. Vissulega væri kostur ef hér væru fleiri sérfræðingar en það er tæplega raunhæft að ímynda sér það því fólksfjöldinn hér ber það ekki. Tilfellin eru það fá á hverju ári. Auðvitað vildi ég að við þyrftum að senda sem fæsta sjúklinga frá okkur en svona er heilbrigðiskerfið byggt upp."
Saknarðu fyrri kaflans?
"Ég kýs að líta þannig á þetta að menntun mín og reynsla nýtist afskaplega vel hér. Þekking mín á hjartaskurðlækningum hefur komið að mjög góðum notum við greiningu og meðferð við hjartasjúkdómum, sérstaklega meðan hér var ekki sérfræðingur í lyflækningum sem nú er kominn hingað sem betur fer. Þegar ég kom hingað var ég einn sérfræðingur og þurfti að sinna mjög víðu sviði. Ég var til dæmis í tvo mánuði á kvensjúkdóma- og fæðingardeildinni á Landspítalanum til að afla mér reynslu og hef borið ábyrgð á fæðingum hér sem voru þegar best lét 105 á ári. Þeim hefur farið fækkandi með fækkun íbúa. Í fyrra voru fæðingar hér 46 en á þessu ári verða þær líklega á milli 60 og 70."
Hvarflaði það að þér þar sem þú varst í Þýskalandi að hverfa heim til Íslands og gerast læknir á æskustöðvunum?
"Nei, það datt mér aldrei í hug. Ég ætlaði mér að gera hjarta- og brjóstholsskurðlækningar að ævistarfi mínu og hafði stefnt að því um árabil. En þarna tók semsagt önnur atburðarás af mér ráðin en mér finnst að úr þessu hafi spilast á mjög góðan hátt og er afskaplega sáttur við hlutskipti mitt í dag."
Þú nýtur þess að vera hér gjörkunnugur frá æskuárum?
"Já, vissulega og ég hef nýtt mér það ásamt fjölskyldu minni. Við stundum skíði saman og aðra útivist og ég hef einnig mikla ánægju af skotveiðum og stunda talsvert sjófugla- og rjúpnaveiði. Ég var ekki nema níu ára gamall þegar ég fór með föður mínum til veiða og er því alinn upp við slíkt að nokkru leyti. Ég tók þennan þráð upp aftur þegar ég kom hingað, hér er stutt í allar áttir til veiða, ég á lítinn bát og fer út á Djúpið og skýt eða dorga í soðið. Við hjónin eigum einnig jörðina Meiri-Hattardal hér inni í Djúpinu og þar hef ég gengið til rjúpna á haustin þó veiðin sé orðin svo rýr að líklega er þessu sjálfhætt núna. Ég veiddi sjö rjúpur í haust og það tók mig 50 klukkustundir svo ekki er þetta gert til að hagnast á því. En þetta er sannarlega góð og holl útivist."
Þrjú mannskæð snjóflóð
Svipur Þorsteins þyngist þegar ég færi snjóflóðin um miðjan síðasta áratug í tal.
"Þetta eru nú ekki minningar sem mann langar mikið til að rifja upp. Hér urðu þrjú mannskæð snjóflóð á 18 mánaða tímabili frá apríl 1994 og fram í október 1995. Í öllum þremur tilvikum þá fer ég með fyrstu hjálparsveitarmönnum og tek þátt í að leita að þeim sem lentu í flóðunum, hlúa að þeim sem björguðust og veita aðstandendum nauðsynlega hjálp. Þegar snjóflóðið féll á Flateyri þá var ekki búið að opna göngin en þau voru akfær og við fengum leyfi til að fara í gegn en þegar við vorum að koma út úr þeim Önundarfjarðarmegin þá féll snjóflóð á veginn rétt fyrir framan rútuna. Þar mátti ekki miklu muna."
Þorsteinn segir að þessi áföll hafi haft mikil og langvinn áhrif á samfélagið á norðanverðum Vestfjörðum og í starfi sínu sem læknir hafi hann orðið var við það á ýmsa vegu.
"Þetta varð til þess að fólk flutti burt af svæðinu og samfélagið breyttist eftir þessa atburði þó það megi teljast kraftaverki líkast hversu vel fólki hefur almennt tekist að lifa með þessa atburði í minningunni. Ég held að það hafi aldrei verið jafn hrikalegar og mannskæðar hamfarir á einum stað hérlendis á svo skömmum tíma. Þetta er á fjórða tug manna sem farast á 18 mánuðum og ég er enn að fást við eftirköstin í starfi mínu sem læknir. Þó var haldið mjög vel utan um fólkið sem átti um sárt að binda og því veitt aðstoð eftir föngum. En það getur aldrei grætt sárin að fullu."
Svæðið sem Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar sinnir nær frá Arnarfirði norðanverðum og norður eftir eins langt og byggð er og fólksfjöldinn á þessu svæði er um fimm þúsund manns. Starf læknis á landsbyggðinni hefur í gegnum tíðina einkennst af erfiðum samgöngum og erfiðleikum fólks í afskekktum byggðum að ná til læknis þegar á þarf að halda. Þorsteinn segir það hafa breyst á undanförnum áratug.
"Samgöngur innan svæðisins eru orðnar mjög góðar, og gjörbreyttust með tilkomu ganganna yfir í Súganda- og Önundarfjörð. Á Bolungarvík situr læknir og þangað er yfirleitt fært þó stundum sé veginum lokað vegna hættu á skriðuföllum. Það heyrir brátt sögunni til þegar Óshlíðargöng verða tilbúin. Það sem íbúunum hér finnst mest ábótavant eru samgöngur inn og útaf svæðinu og enn er ekki bundið slitlag alla leið frá Ísafirði til Reykjavíkur. Nýr vegur um Arnkötludal mun eflaust breyta miklu en Steingrímsfjarðarheiðin verður áfram farartálmi á vetrum."
Þorsteinn hefur látið sig sveitarstjórnarmál miklu varða og sat í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tvö kjörtímabil, frá 1994-2002. Hann segir að seta sín í bæjarstjórn hafi fært sig nær ýmsum málum í samfélaginu og hann hafi sannarlega ætlað sér að láta gott af sér leiða.
"Það tókst sannarlega í ákveðnum málum en maður uppgötvar líka að það tekur afskaplega langan tíma að koma málum í gegn, jafnvel málum sem allir eru sammála um, kerfið er einfaldlega þungt og hægt í vöfum. Ég hafði mikið gagn af setu minni í bæjarstjórn og það var dýrmæt reynsla en ég var líka feginn þegar ég tók þá ákvörðun að draga mig út úr pólitíkinni og beina kröftum utan vinnunnar að fjölskyldu og áhugamálum."
Og áhugamálin er af ýmsum toga því í ljós kemur, þegar samtali okkar er að ljúka, að Þorsteinn er að rjúka á söngæfingu hjá karlakórnum Örnum og biður konu sína að senda skilaboð á kórfélagana til að staðfesta æfingatímann. "Það er kosturinn við svona samfélag að maður getur verið virkur þátttakandi í svo mörgu," segir Þorsteinn að lokum.
Gamli spítalinn á Ísafirði sem nú er Safnahús.
Hávella á sundi í Ísafjarðarhöfn.
Úti fyrir Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar.