12. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Háfjallaveiki á Læknadögum 2008. Tómas Guðbjartsson, Gunnar Guðmundsson

Föstudaginn 25. janúar 2008 stendur Félag íslenskra fjallalækna (FÍFL) fyrir málþingi um háfjallaveiki. Málþingið er hluti af Læknadögum og hefst kl. 13. Það er opið öllum læknum og læknanemum.

Björn ÓlafssonFélagar FÍFL hafa lengi haft áhuga á háfjallaveiki. Ekki minnkaði áhuginn í september síðastliðnum þegar nokkrir félagsmanna fundu fyrir háfjallaveiki á tindi hæsta fjalls Afríku, Kilimanjaro (5895 mys).

Á málþinginu verður farið yfir helstu atriði í meingerð háfjallaveiki en einnig hagnýt atriði í meðferð og ráðleggingar til ferðamanna. Tveir heimsfrægir vísindamenn á sviði háfjallaveiki hafa þekkst boð Læknadaga og FÍFL og munu halda tvo 45 mínútna fyrirlestra um rannsóknir sínar. Annar þeirra er prófessor Oswald Oelz, lyflæknir frá Zürich í Sviss, og hinn svæfinga- og gjörgæslulæknirinn Dr. Michael Grocott frá London, báðir öflugir vísindamenn á sviði háfjallalækninga. Auk þess hafa þeir félagar báðir klifið mörg af hæstu fjöllum jarðar. Í fyrirlestri sínum mun Dr. Oelz leggja aðal áherslu á einkenni og lífeðlisfræði háfjallaveiki en Dr. Grocott á áhrif súrefnisskorts á mannslíkamann. Auk þess mun Dr. Grocott greina frá umfangsmiklu rannsóknarverkefni sem hann stýrði á Everest fyrr á þessu ári og að sérstakri beiðni FÍFL mun hann fjalla um tengsl þjálfunar og háfjallaveiki.

Haraldur Örn ÓlafssonEverestfararnir Björn Ólafsson og Haraldur Örn Ólafsson munu segja frá þeirri upplifun að standa á hæsta tindi jarðar og segja stuttlega frá kynnum sínum af háfjallaveiki. Geðlæknarnir Engilbert Sigurðsson og Andrés Magnússon munu greina í léttum dúr frá eigin hremmingum á Kilimanjaro. Loks mun Gunnar Guðmundsson lungnalæknir halda fyrirlestur um hagnýtar ráðleggingar til ferðamanna. Eftir erindin verður tími fyrir spurningar auk þess sem sýndar verða myndir úr fjallaferðum.

Dr. Michael Grocott starfar sem svæfinga- og gjörgæslulæknir við University of London. Hann er meðhöfundur rúmlega 50 vísindagreina um háfjallaveiki og vökvameðferð eftir skurðaðgerðir. Fyrr á þessu ári leiddi Dr. Grocott hóp vísindamanna, þar á meðal fjölda lækna, á tind Everestfjalls. Verkefnið sem kallast Caudwell Xtreme-Everest Research Project hefur fengið mikla athygli erlendis og hafa m.a. verið sýndir sjónvarpsþættir um leiðangurinn á BBC sem er einn stærsti leiðangur sinnar tegundar. Dr. Grocott hefur gengið á mörg af hæstu fjöllum jarðar og hefur rúmlega 40 sinnum komist yfir 5000 metra hæð.

Prófessor Oswald Oelz er lyflæknir og fyrrverandi yfirmaður lyflækningadeildar Triemlispital í Zürich. Hann á að baki langan feril sem vísindamaður og hefur skrifað fjölmargar greinar um háfjallaveiki, m.a. þekkta grein í New England Journal of Medicine um áhrif nifidipins á lungnabjúg sem tengist háfjallaveiki. Prófessor Oelz er eftirsóttur fyrirlesari og ferðast um allan heim sem slíkur. Hann hefur gengið á marga hæstu tinda heims, þar á meðal Everest og var sá þriðji í heiminum til klífa alla hæstu tinda heimsálfanna sjö.

Dagskrá málþings á Læknadögum um háfjallaveiki

    Föstudagur 25. janúar 2008, kl. 13-16

Fundarstjórar: Tómas Guðbjartsson og Gunnar Guðmundsson

Félag íslenskra fjallalækna (FÍFL)

  •  Inngangur - Tómas Guðbjartsson
  •  Að standa á hæsta tindi veraldar - Haraldur Örn Ólafsson og Björn Ólafsson Everestfarar
  •  A personal view of high altitude and its illnesses - Dr. Oswald Oelz, lyflæknir og Everestfari, Zurich, Sviss
  •  Umræður og myndir frá háfjallaferðum

    Kaffihlé

 

  • Persónuleg reynsla af háfjallaveiki á Kilimanjaro - Engilbert Sigurðsson og Andrés Magnússon
  •  Fitness and high altitude mountain sickness - The Caudwell Xtreme Everest Research Project  - Dr. Michael Grocott, svæfinga- og gjörgæslulæknir og Everestfari, London, Englandi
  •  Leiðbeiningar heimilislækna til ferðamanna um háfjallaveiki  Gunnar Guðmundsson
  •  Umræður og myndir frá háfjallaferðum


Þetta vefsvæði byggir á Eplica