12. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Öflug samtök og mikilvæg. Viðtal við Ólöfu Sigurðardóttur

Ólöf Sigurðardóttir sérfræðingur í klínískri lífefnafræði og trúnaðarlæknir Landspítala var kjörin forseti Norður-Evrópusamtaka kvenna í læknastétt á 27. alheimsþingi MWIA sem haldið var í Accra, höfuðborg Gana í Vestur-Afríku 31. júlí- 4. ágúst 2007

Ólöf Sigurðardóttir

Alþjóðasamtökunum (Medical Women Inter-national Association, MWIA) er skipt í 8 heimssvæði. Hvert svæði hefur sinn forseta sem situr í alþjóðastjórn samtakanna. Evrópa skiptist í þrjú svæði, Norður-, Mið- og Suður-Evrópu, síðan eru Suður-Ameríka og Norður-Ameríka, Austurlönd nær, Mið- Asía og Vestur-Kyrrahafssvæðið og Afríka. Norður-Evrópusvæðinu sem Ólöf veitir forsæti tilheyra Norðurlöndin auk Bretlands og Hollands.

Að sögn Ólafar standa Alþjóðasamtökin á gömlum merg, því þau voru stofnuð árið 1919 og eru því eitt af elstu félögum læknastéttarinnar á alþjóðavísu. ?Samtökin eru algerlega óháð stjórnvöldum, ( non-governmental organization, NGO) og eru skipuð af konum í læknastétt frá 90 löndum úr fimm heimsálfum. Samtökin hafa verið í virku samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar sem NGO frá því á 6. áratugnum. Einnig eru samtökin í samvinnu við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO) svo eitthvað sé nefnt, ? segir Ólöf. Þetta má sjá nánar á heimasíðu samtakanna www.mwia.net

Ólöf segir að margt hafi vitanlega breyst frá því samtökin voru stofnuð. "Þegar þau voru upphaflega stofnuð voru konur mjög fáar í læknastétt og því var nauðsynlegt að skapa vettvang fyrir skoðanaskipti þeirra. Í dag eru konur orðnar fjölmennar í læknastétt víða um lönd og sækja verulega á og t.d. er ekki óalgengt á Vesturlöndum að konur séu um 50% nema í læknadeildum og áherslur samtakanna hafa breyst í samræmi við þetta."

Meðal þeirra baráttumála sem samtökin hafa aðallega beitt sér fyrir á alþjóðavísu er bætt heilsa og staða barna og kvenna, þau hafa unnið gegn ofbeldi af öllu tagi eins og umskurði barna, kynlífsþrælkun kvenna og barna auk ýmissa annarra verkefna. Þá hafa samtökin tekið virkan þátt í því að framleiða ýmiss konar kennsluefni eins og t.d um Gender Mainstreaming sem Félag kvenna í læknastétt á Íslandi kynnti á íslenskum Læknadögum fyrir nokkrum árum.

Auk Ólafar sóttu þær Helga Hannesdóttir geðlæknir og Margrét Árnadóttir lyflæknir alþjóðaþingið í Accra í sumar og var það mikil og ný reynsla. "Enginn er samur eftir ferð til Afríku," segir Ólöf. "Eftirminnilegast er að sjálfsögðu sjálft landið og fólkið. Fátæktin er það sem stingur hvað mest í augun í þessu fallega landi með hitabeltisveðráttu og yndislegum gróðri. Þarna virðist manni sem hægt sé að lifa góðu lífi af því sem landið gefur af sér og ýmsir verðmætir málmar eru í jörð en þarna er misskipting auðsins gríðarleg og spilling landlæg. Fólkið er elskulegt og friðsamlegt og Gana er að sögn eitt öruggasta landið að heimsækja í Afríku og þrátt fyrir allt er það einnig eitt af þróuðustu lýðræðisríkjum álfunnar. En það þarf mikið að breytast í opinberum innviðum þess ef kjör fólksins eiga að batna."

Ólöf segir á að á þinginu hafi umræða um umskurð stúlkubarna í Afríku verið það sem hafði mest áhrif á hana og fulltrúana frá Vesturlöndum. "Það er reyndar rangt að kalla þetta umskurð á íslensku því það segir alls ekki hvað þetta er hræðilegur verknaður, enda er þetta kallað female genital mutilation á ensku og ætti því með réttu að kallast limlestingar á kynfærum kvenna. Það kom fram að fylgikvillar þessa eru fjölmargir og mjög alvarlegir eins og gefur að skilja. Yfirleitt er þetta framkvæmt við mjög frumstæðar aðstæður, engar deyfingar og haldið er fyrir vit stúlknanna meðan þetta er framkvæmt. Afleiðingarnar eru oft á tíðum skelfilegar, örvefur og samgróningar myndast og geta valdið því síðar að börn þessara kvenna verða fyrir súrefnsskorti í fæðingu með oft á tíðum mjög alvarlegum afleiðingum. Kynlífsánægja kvennanna verður lítil sem engin enda er það tilgangur aðgerðarinnar að miklu leyti.

Á þinginu var sýnd heimildarkvikmyndin, The Secret Pain, sem Danir gerðu á síðasta ári í samstarfi við konu frá Afríkuríkinu Sierra Leone. Þar er sögð saga hennar þegar hún var tekin í fóstur barnung af dönskum foreldrum en líffræðilegur faðir hennar fékk forræði yfir henni sextán ára. Hann tók hana með sér til Sierra Leone og lét umskera hana. Þetta er hræðileg saga og fékk mjög á mann að horfa á myndina."

Myndin hefur vakið mikla athygli og hlaut m.a. verðlaun Amnesty International Sjá www.thesecretpain.com

Á þinginu var samþykkt að veita konum í læknanámi aukaaðild að samtökunum og segir Ólöf það mjög ánægjulegt að þetta skref hafi verið stigið. "Það skiptir máli að fá konur fljótt inn í samtökin og gera þær virkar um leið og þær hefja starfsferil sinn sem læknar. Þannig eflast samtökin og geta haft meiri áhrif til góðra verka og vakið umræðu um margt sem betur má fara í heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu kvenna og barna."

"Kanta" ómenntaðar konur (sjálfar umskornar) sem framkvæma limlestingar á kynfærum á stúlkubarna. Konurnar eru málaðar hvítar og eru með hvítt höfuðfat við verknaðinn. Börnin eru einnig máluð hvít áður en þau eru limlest. Verknaðurinn er framinn á leynistöðum inn í skógi. Bæði börnum og foreldrum er hótað með ógæfu alla ævi ef þau þegi ekki um atburðinn. Hár trumbusláttur og söngur meðan á verknaði stendur er m.a. til að yfirgnæfa sársauka- og skelfingaróp fórnarlambanna.

Margrét Árnadóttir, Ólöf Sigurðardóttir og Helga Hannesdóttir á alheimsþingi í Gana í júlí 2007.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica