12. tbl 93. árg. 2007

Hugleiðing höfundar. Að fara hjá sér. Pétur Gunnarsson

Pétur GunnarssonÁn þess að ég hafi gert á því eina eða neina rannsókn, finnst mér blasa við að sumir áberandi sjúkdómar á okkar dögum séu "menningartengdir". Við sem á annað borð getum horft áratugi aftur í tímann, minnumst þess til að mynda ekki að fyrirbæri á borð við heilablóðföll, heilaæxli, Alzheimer... hafi verið jafn tíð og nú.

"Fólk verður eldra", er gjarnan viðkvæðið, sjúkdómar sem höfðu ekki tækifæri til að gera sig gildandi hafa fengið aukið svigrúm. Og samt. Þessi mein sem ég nefndi eru öll tengd heilanum og starfsemi hans. Og blasir ekki einmitt við að aldrei fyrr hefur heilinn búið við aðra eins áraun - mér liggur við að segja áníðslu - og nú. Menn líti í eigin barm: frá því að við vöknum dynja á skilningarvitum okkar áreitin: hljóðin sem hamra á hljóðhimnunni, textinn sem sjónin keppist við að innbyrða, rýnið og grínið í tölvuskjái og sjónvarpsskjái og símaskjái. Já, síminn, þessi virðulegi gripur sem í gær átti sinn fasta sess við spegilinn í forstofunni og meira að segja sérstakt borð og stól, nú er hann kominn í vasa hvers mannsbarns þar sem hann tístir og argar og minnir á sig í tíma og ótíma. "Hvar er í heimi hæli tryggt" var spurt í sálminum. Og gemsinn svarar: hvergi.

p02-fig2Hugsa sér annars hvað þessi fyrirbæri sem "í gær" voru ekki til hafa gert sig heimakomin og ráðrík. Maður sem svarar ekki tölvupósti samdægurs er varla marktækur. "Varstu með slökkt á símanum!" er orðið að meiriháttar yfirsjón, gott ef ekki synd (kannski eina syndin sem eftir er úr því að dauðasyndirnar sjö eru víst sumar hverjar orðnar að dygðum, t.a.m. græðgin sem frjálshyggjan hóf til skýjanna).

Jújú, auðvitað verður ekki horft fram hjá kostunum, hagræðinu... En hver er fórnarkostnaðurinn? Áraunin sem felst í því að tíminn hefur gufað upp, ráðrúmið, svigrúmið, umhugsunarfresturinn, ígrundunin. Gjaldið fyrir þessi ísmeygilegu tæki og tól sem enginn hafði heyrt um né saknað fyrir örfáum árum, en velta nú milljörðum í vasa framleiðenda sinna og forstjóra.

Hvað skyldi koma næst? Ætli til dæmis heimilisspegillinn eigi eftir að breytast í sjónvarspssendi? Að maður sem birtist í speglinum heima sé óðara kominn í umtalsvert áhorf? Hér var reyndar ætlunin að fara fram úr sér í villtri framtíðarsýn, en auðvitað er ég að lýsa orðnum hlut, "raunveruleikaþættirnir" sem gerðu garðinn frægan í hitteðfyrra og eru kannski við lýði enn, byggðu einmitt á þessu: að koma míkrófónum og myndavélum fyrir í hverju skoti og kima.

Já möguleikarnir til að herja á skilningarvitin hafa aldrei verið eins risavaxnir og nú. Og merkilegt að útkoman skuli vera gleymska. Eða hvernig á ég að innbyrða allt sem á mér dynur. Maðurinn er eins og ílát sem heldur áfram að renna í eftir að það er orðið fullt, það bætist ekkert við, þynnist bara út það sem fyrir var. Gleymskan er höfuðskepna okkar tíma.

Og þá erum við komin að ógninni stóru: Alzheimer (orðið hefur svo ískyggilegt inntak að Peter Sellers hefði áreiðanlega verið fenginn til að holdgera það í gervi brjálaðs þýsks prófessors með einglyrni). Alzheimer hefur tekið fyrrum sess krabbameinsins í vitund nútímamannsins, þessi sjúkdómur sem læðist að okkur eins og þjófur um nótt og engin ráð eru gegn, öfugt við krabbameinið sem róttækar lyfja- og geislameðferðir hafa þó unnið varnarsigra á. Bölvaldur sem rekur upp það sem okkur er dýrmætast og við höfum alla ævina verið að verða okkur út um: persónuleikann. Minningarnar, þetta sem gerir að verkum að við erum við, taka til við að hverfa. Viðkomandi smádeyr sjálfum sér í lifanda lífi. Um þetta fjalla dagblöð og tímarit, bækur eru skrifaðar og kvikmyndir framleiddar sem vottar hve fyrirbærið stríðir á Vesturlandabúann nú um stundir. Kannski af því Alzheimerinn kallast á við þetta sem ég nefndi hér að ofan: gleymskuna sem er innbyggð í lifnaðarhætti okkar. Stöðugt aðstreymi hins nýja sem skeflir yfir það sem fyrir var. Borgarlandslagið er farið að minna á sviðsmynd í leikhúsi sem með reglulegu bili víkur fyrir næstu uppfærslu. Verslunin þar sem þú keyptir græjuna er mjög líklega horfin þegar þú þarft á viðgerðarþjónustunni að halda. Eða þá að græjan úreldist í höndunum á þér í miðjum klíðum. Það er komin ný útgáfa með öðruvísi uppsetningu, breyttu tengi, öðru forriti... Muna að kaupa nýja í Fríhöfninni.

Leifsstöð! Hún er náttúrlega erkimynd þessa ástands. Bákn sem er stöðugt í smíðum til að anna sífellt stærri holskeflum af hálf-sofandi og illa vöknuðum Íslendingum sem draga á eftir sér hjólatöskur og er vísað á alltaf nýjar hjáleiðir til að komast leiðar sinnar.

"Hjáleið", nýtt einkennisorð fyrir líf okkar? Hjá hverju? Vonandi ekki hjá því sem skiptir máli.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica