11. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Meistaranám í stjórnun heilbrigðisþjónustu. Viðtal við Ástu Dís Óladóttur á Bifröst

Háskólinn á Bifröst mun frá og með næstu áramótum bjóða upp á nýtt meistaranám í stjórnun heilbrigðisþjónustu. Umsjón með náminu hefur Ásta Dís Óladóttir dósent á Bifröst og framkvæmdastjóri InPro, og segir hún að stjórnendanámið hafi verið verið í undirbúningi í allnokkurn tíma. "Þessi hugmynd sem nú er orðin að veruleika kviknaði fyrir alvöru fyrir tveimur árum síðan. Hún þróaðist svo frekar þegar ég heimsótti Falck Health Care og CityAkuten í Stokkhólmi og hitti þar fólk sem hefur menntað sig í stjórnun heilbrigðisþjónustu," segir Ásta Dís.

 

Ásta Dís Óladóttir"Til þess að skilgreina nánar fyrirkomulag og námsframboð var skipað fagráð valinna einstaklinga sem þekkja vel til heilbrigðisþjónustu bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Þau eru Anna Birna Jensdóttir, hjúkrunarforstjóri Sóltúns, Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri í Heilbrigðisráðuneytinu, Birgir Jakobsson, forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi, Gísli Einarsson yfirlæknir og fv. framkvæmdastjóri kennslu, vísinda og fræða á Landspítala, María Ólafsdóttir, heilsugæslulæknir Miðbæ og jafnframt yfirlæknir InPro og Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans.

Námið er byggt upp með 12 námskeiðum, auk lokaverkefnis. ?Verkefnið getur bæði verið rannsóknarritgerð um tiltekið efni, sem og viðamikil viðskiptaáætlun um stofnun fyrirtækis á heilbrigðissviði og/eða að veita nýja heilbrigðisþjónustu á tilteknum markaði. Nemendur vinna verkefnið í samráði við leiðbeinanda sinn. Kennarar eru innlendir og erlendir sérfræðingar á sviði heilbrigðismála og viðskipta. Með góðu samstarfi við erlenda háskóla verður tryggt að námið standist fullkomlega alþjóðlegan samanburð."

Aðspurð um þörfina á slíku námi segir Ásta Dís að þjónusta á sviði heilbrigðismála sé ört vaxandi þáttur í nútíma samfélagi sem nái m.a. til hefðbundinna lækninga og umönnunar á sjúkrahúsum og stofnunum. "Margháttuð fyrirbyggjandi starfsemi er hluti af heilbrigðisþjónustu og til þess ætluð að bæta lífsgæði landsmanna. Fyrirséð er að einkarekin þjónustufyrirtæki á þessu sviði munu í vaxandi mæli hasla sér völl hér á landi, en einnig munu þau nýta þekkingu sína og reynslu og bjóða hliðstæða þjónustu í öðrum löndum. Heilbrigðisþjónusta verður hluti af alþjóðlegri þjónustustarfsemi og miðað við þá reynslu sem íslenskir aðilar hafa aflað sér á skyldum sviðum, s.s. á lyfja- og stoðtækjamarkaði, þá er mikið framundan á þessum vettvangi. Þörf fyrir vel menntað fólk til þess að stjórna þessum fyrirtækjum er því afar brýn."

Skemmtilegt er að rifja upp í þessu samhengi að tveir af fyrrverandi heilbrigðisráðherrum landsins hafa stundað nám við Samvinnuskólann á Bifröst þeir Guðmundur Bjarnason og Jón Kristjánsson og Ásta Dís segir að eflaust hafi fleiri ráðherrar stundað nám í Samvinnuskólanum forðum og það sé aldrei að vita nema einhverjir þeirra sem nú hefja nám munu taka það hlutverk að sér síðar meir.

Tengsl Ástu Dísar við læknisfræði og heilbrigðisþjónustu eiga sér í vissum skilningi rætur á Bifröst en afi hennar Þórður Oddsson var héraðslæknir í Borgarfirði á árunum 1955-65 og fyrsti læknir Bifrastar. "Hann var að mörgu leyti mín fyrirmynd og þegar ég var yngri þá langaði mig alltaf að verða læknir, en svo varð nú ekki. En líklega hefur þetta bara átt að fara svona því ég er nokkuð viss um að ég er á réttri hillu í dag sem dósent á Bifröst og framkvæmdastjóri InPro sem er að endurvekja gömlu Heilsuverndarstöðina á Barónsstíg sem forvarnar og endurhæfingarhús, nú 50 árum eftir vígslu hússins, 1957."

Námið hefur alþjóðlega skírskotun og miðar að sögn Ástu Dísar að því að uppfylla ört vaxandi eftirspurn eftir vel menntuðum stjórnendum með þekkingu á heilbrigðisþjónustu. "Nemendur geta stundað námið með vinnu sinni og lokið því á um einu og hálfu ári. Bifröst hentar einkar vel fyrir þetta nám þar sem boðið er upp á öflugt fjarnám. Þar með getur fólk sem er í mikilli vinnu, hvort sem það er dagvinna eða vaktavinna nálgast fyrirlestrana hvar og hvenær sem þeim hentar. Þetta er ávinningur bæði fyrir nemendur sem stunda námið og eins fyrir atvinnurekendur

Margir atvinnurekendur taka þátt í að greiða námið fyrir starfsmenn sína til þess að efla þá enn frekar í starfi og þeir líta margir hverjir á það sem kost að nemendur þurfa ekki að taka sér mikið frí frá vinnu til þess að sinna náminu á dagvinnutíma eins og er í flestu öðru meistaranámi sem er í boði hérlendis."

Að sögn Ástu verður stefnt að því að nemendahópurinn verði með fjölbreyttan bakgrunn en það muni skapa aukna víðsýni í náminu og styrkja samskiptanet þeirra í framtíðinni. "Nemendum ættu að bíða góð atvinnutækifæri og jafnframt möguleiki á að koma á fót eigin starfsemi í heilbrigðisþjónustu."

Nánari upplýsingar má finna á heimsíðu Háskólans á Bifröst www.bifrost.is

Ásta Dís Óladóttir dósent á Bifröst.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica