09. tbl 93. árg. 2007

Íðorð 201. Hvás eða hvæs?

Wheezingp01-hofny

Þýðandi sendi fyrirspurn um hvernig þýða ætti orðið wheezing í læknisfræðilegum texta. Fyrirspyrjandi hafði rekist á íslenska nafnorðið önghljóð sem þýðingu á enska nafnorðinu wheeze, en átti erfitt með að samþykkja það. Orðrétt sagði viðkomandi svo: Fyrir mér sem málvísindamanni vísar orðið "önghljóð" til málvísindalegra eininga sem tákna málhljóð (eins og t. d. "f" og "v") og ég á mjög erfitt með að sjá nokkurt samhengi þarna á milli. Einnig hef ég rekist á orðin "hvæsiöndun" og "más" sem þýðingar á fyrirbærinu en mér datt í hug að athuga hvort þú hefðir eitthvað til málanna að leggja.

Önghljóð

Undirritaður svaraði að bragði með eftirfarandi útskýringu: "Öng" vísar í þrengslin sem koma fyrir í berkjugreinum við astma og berkjubólgu. Loftið, sem sogað er eða þrýst af krafti framhjá þessum miklu þrengslum, framkallar svonefnd önghljóð djúpt í berkjugreinum. Önghljóðum er gjarnan lýst sem hátóna flautuhljóðum (high-piched, musical) og þannig heyrast þau við lungnahlustun læknis. Á latínu nefnast þessi hljóð rhonchi sibilantes eða blísturshljóð samkvæmt Íðorðasafni lækna. Viðstaddir heyra þó frekar másið sem tengist erfiðri öndun og á uppruna ofar í loftvegum. Þess vegna dettur mér í hug að wheezing sé nú stundum látið tákna máshljóðið, frekar en flautuhljóðið, þó læknisfræðiorðabækur lýsi wheezing "yfirleitt sem flautuhljóði."

Önghljóð er viðurkennt heiti og er meðal annars notað í Handbók í lyflæknisfræði sem ég nefndi í síðasta pistli. Más og hvæs finnast mér ekki betri heiti til að tákna rhonchi sibilantes.

Tengslin við málvísindaleg önghljóð eru þannig að f- og v-hljóð eru auðvitað líka mynduð með því að þrýsta lofti framhjá þrengslum, þó að framleiddu hljóðin verði þar öðruvísi (fricative).

 

Uppruni

Það var svo skemmtilegt að sjá að hin mikla alfræðiorðabók Websters rekur uppruna ensku sagnarinnar to wheeze í gegnum miðaldaensku (whese) og fornensku (hwæsan) til íslensku (huæsa). Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs birtir nokkrar íslenskar þýðingar á sögninni wheeze: 1. anda með erfiðismunum og sog- eða blísturshljóði. 2. gefa frá sér slíkt hljóð; hvæsa; mása og blása. 3. segja (e-ð) með andköfum, stynja (e-u) upp. Loks er nafnorðið hvæs fletta í Íslenskri orðabók Eddu: hvás, blástur, más.

 

Merkingarleg tilfærsla

Undirritaður sannfærði sig um það með endurteknum uppflettingum í mismunandi læknisfræðiorðabókum að enska nafnorðið wheeze væri þar útskýrt sem hátóna flautu- eða blísturshljóð og væri þá samheiti við rhonchi sibilantes. Óformlegar fyrirspurnir til nokkurra lungna- og hjartalækna leiddu hins vegar í ljós að aðgreining væri nú oft gerð. Þetta kemur vel fram í eftirfarandi svari frá lungnalækni á LSH: Wheezing hefur venjulega verið notað um það sem sjúklingurinn (eða nærstaddir) heyra, rhonchi (önghljóð), um það sem heyrist við hlustun (með stethoscopy) - þetta er samkvæmt mínum málskilningi en getur verið flöktandi.

 

 

Niðurstaða

Undirritaður komst sem sagt að þeirri niðurstöðu að wheezing mætti þýða á tvo vegu: 1. önghljóð þegar vísað er til hátóna flautu- eða blísturshljóða sem heyrast við lungnahlustun og 2. hvæsandi eða másandi öndun þegar vísað er til öndunarhljóða sem sjúklingur eða nærstaddir heyra. Viðbótarinnlegg frá lesendum um þetta verkefni eru einnig velkomin.

 

 

Rannsóknaheiti

Af vissum ástæðum var óskað eftir samheiti til að tákna "rannsóknastofurannsóknir" og vísað til þess að í þeim flokki væru blóð-, þvag-, saur- og mænuvökvarannsóknir, þar með taldar sýklarannsóknir, veirurannsóknir og margt fleira. Undirritaður lagði til heitið sýnarannsóknir og gerði þá ráð fyrir aðgreiningu frá læknisfræðilegum rannsóknum sem framkvæmdar eru á sjúklingum án þess að sýni sé tekið. Ekki er þó víst að samheitið fyrir þær síðarnefndu yrði sjúklingarannsóknir og raunar er ekki alveg ljóst að slíks samheitis sé þörf. Heitið klínískar rannsóknir hefur oft verið notað til að aðgreina rannsóknir á sjúklingum frá "rannsóknastofurannsóknum". Nú er hins vegar svo komið að ýmsar rannsóknir á sjúklingum fara fram á sérstökum rannsóknastofum og að ýmsar rannsóknir á sýnum (point of care-testing) geta farið fram við sjúkrabeðinn, þannig að aðgreiningarmörk eru stöðugt að breytast.

 

Liðlöskun

Björn Guðbjörnsson, gigtarlæknir, bað um heiti á arthritis mutilans til að nota í tengslum við psoriasis. Í erlendum læknisfræðiorðabókum kemur fram að þetta heiti er notað um liðskemmdir sem einkennast af afmyndun liða með umtalsverðri brjósk- og beinskemmd. Eftir nokkra athugun stakk undirritaður upp á heitinu sóraliðlöskun og var því vel tekið. Lýst er eftir öðrum hugmyndum.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica