06. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

100 ár í heilbrigði

u07-fig1_opt[1]Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki hefur gefið út ritið 100 ár í heilbrigði. Eins og nafnið ber með sér er tilefnið að eitt hundrað ár eru frá stofnun Sjúkrahúss Skagfirðinga. Sjúkrahúsið við Aðalgötu var reist að mestu fyrir samskotafé frá almenningi.

Húnvetningar réðu Jósep Skaftason lækni til sín 1836 og fengu konungsstyrk til þess að hluta. Styrkurinn var veittur með konungsúrskurði, þar sem það skilyrði var sett, að læknirinn gegndi jafnframt kalli Skagfirðinga. Þessar sýslur voru gerðar að einu læknishéraði 1856 og var svo til 1876. Jósep Skaftason og síðar Þorvarður Kjerúlf, sem gegndu héraðinu bjuggu alla tíð í Húnavatnssýslum, lengst af á Hnausum í Sveinsstaðahreppi. Með nýrri læknaskipan 1876 fengu Skagfirðingar sinn eigin lækni, sem þeir deildu með Húnvetningum austan Blöndu (9. læknishérað). Bogi Pétursson settist að á Sjávarborg í Skarðshreppi og síðar kom Árni Jónsson og bjó á Sauðárkróki og á Sauðá en síðar í Glæsibæ. Þessi saga frá 1875 er rakin lauslega í ritinu og meðal annars þáttur þeirra Guðmundar Magnússonar og Guðmundar Hannessonar í þróun heilbrigðismála Skagfirðinga. Guðmundur Hannesson virðist hér eins og víðar hafa haft nokkur áhrif til byggingar hins nýja sjúkrahúss. Er þess sérstaklega getið að Guðmundur Hannesson hafi tvinnað sjúklingunum til hugarléttis við aðgerðir, því aðalatriði hafi verið að sýna ekki tilfinningaleysi. Mun hann hafa verið frændum sínum líkur.

Skemmtilegur fróðleikur um sögu sjúkrahússins er fenginn úr ritum Kristmundar á Sjávarborg um sögu Skagfirðinga og safnað hefur verið athyglisverðum myndum. Þá er sérstakur kafli um eftirminnilega samtímamenn, þá Friðrik Jens Friðriksson og Ólaf Sveinsson lækna og Sæmund Hermannsson sjúkrahúsráðsmann.

Ritið er hóflegt að stærð, fallega um brotið, 44 síður.

Það er fengur að öllu framtaki fyrir safn til sögu læknisfræðinnar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica