05. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Farinn í hundana. Áhugamál Torfa Fjalars Jónssonar

Torfi Fjalar Jónasson hjartalæknir er einn þeirra skotveiðimanna sem er farinn í hundana því hann fékk sér labradorsækinn Skugga fyrir tveimur árum og hefur varið drjúgum tíma í þjálfun hans síðan, sótt tvö ítarleg veiðiþjálfunarnámskeið og stendur nú uppi með vel þjálfaðan veiðihund, ómissandi félaga á veiðum og frábæran fjölskyldumeðlim þar fyrir utan.

Hundafólk tekur sumsé svona til orða um þá sem hafa ánetjast hundasportinu, að þeir séu farnir í hundana, og er það sannarlega vel meint og á ekkert skylt við uppruna orðtaksins.

„Ég hef stundað skotveiðar um árabil og það leið ekki langur tími frá því að fjölskyldan flutti heim frá Svíþjóð fyrir fjórum árum að við fengum okkur hundinn,“ segir Torfi.

Hann segir að aðstæður við þær veiðar sem hann stundi hafi beinlínis kallað á veiðihund; „Við eigum okkar fasta veiðistað á haustin við tjarnir þar sem er gljúpur leirbotn. Vatnið nær manni í hné og síðan sekkur maður annað eins í leirinn. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig er að eltast við særðar gæsir við þessar aðstæður, ekki síst eftir að farið er skyggja á kvöldin. Þetta eru hins vegar kjöraðstæður fyrir veiðihund enda sannaði Skuggi strax ágæti sitt í fyrrahaust en þá var hann í fyrsta sinn tekinn með í veiðitúr.”

Ýmsar tegundir veiðihunda

Þessi saga er samhljóða því sem margir skotveiðimenn hafa sagt er þeir eru spurðir hvers vegna þeir fengu sér veiðihund. Sumir taka dýpra í árinni og segjast hafa verið orðnir þreyttir á að „synda“ sjálfir á eftir bráðinni út í sjó eða vötn; aðrir nefna að þeim hafi þótt ótækt að finna ekki fallna bráð en særðar gæsir og endur eru glúrnar að fela sig og þá ekki nokkur leið að finna þær nema lyktarskynið sé því betra. Þar kemur hundurinn sterkur inn. Torfi er ekki einn um þá tilfinningu að finnast ótækt að vita af föllnum eða særðum fugli en finna hann ekki. „Það er í rauninni ekki verjandi að stunda fuglaveiðar að kvöldlagi á haustin án þess að vera með hund,“ segir hann með áherslu.

En nothæfur veiðihundur stekkur ekki alskapaður úr móðurkviði þó eðlið sé sterkt og þjálfunin gangi út að að beina því í réttan og jákvæðan farveg. Hefðbundið eðli veiðihunda er þríþætt og hafa tegundirnar ýmist verið ræktaðar með einn eða fleiri eðlisþætti í huga. Labradorinn er úr hópi sækjandi veiðihunda en þeir eru stundum kallaðir skothundar (gun-dogs) þar sem þeir fylgja veiðimanninum, nota sjónina til að staðsetja hvar bráðin fellur til jarðar við skot og beita síðan sjón og lyktarskyni til að finna hana og færa hana síðan í hendi veiðimannsins. Bendandi veiðihundar (pointing dogs) vinna á allt annan hátt, þeir hlaupa lausir og beita lyktarskyninu til að finna lifandi fugl og taka sér síðan stöðu og „benda“ með nefinu á fuglinn þar sem hann situr. Veiðimaðurinn kemur síðan að hundinum, gefur honum merki um að reka fuglinn upp, reisa hann, og þá er skotið og síðan sækir hundurinn fuglinn og færir veiðimanninum hann. Hér á landi er einungis hægt að stunda rjúpnaveiðar á þennan hátt þar sem aðrar fuglategundir sem kalla á þessa veiðiaðferð eru ekki til staðar hérlendis. Í Evrópu eru möguleikarnir mun fleiri þar sem fjölbreytnin í villtum hænsnfuglum er meiri. Þá má nefna í þriðja lagi hunda sem þefa uppi blóðslóð eftir særða bráð og koma þeir helst að gagni í skóglendi þar sem auðvelt er að missa sjónar á bráðinni.

Labradorinn varð fyrir valinu

„Ég var auðvitað búinn að velta fyrir mér ýmsum hundategundum og hafði augastað á einni tegund sem handleiðarinn minn í sérnáminu í Svíþjóð átti. Það var þýskur bendir, sem kallast Munsterlander, og er mjög skemmtilegur hundur en þeir eru ekki til hér á landi og ég held reyndar að þeir þoli mun síður bleytu og kulda en labradorinn. Það eru hins vegar til nokkrar tegundir af bendandi veiðihundum hér og menn hafa verið ná góðum árangri í ræktun og þjálfun þeirra en á endanum varð labradorinn fyrir valinu og við sjáum ekki eftir því. Það vó líka þungt að hundinum er líka ætlað að vera fjölskylduhundur og í því hlutverki blómstrar labradorinn algjörlega. Dóttirin stakk reyndar upp á því að við fengjum okkur Chiahua smáhund en ég tók það ekki í mál; ef fjölskyldan fengi sér hund þá yrði hann að geta uppfyllt væntingar okkar allra, veitt með mér og verið svo gæludýr þess utan.“

Það má nefnilega ekki gleyma því að þó veiðar séu stundaðar af kappi þá er talsvert drjúgur tími af árinu sem ekki er hægt að fara á veiðar og þá er eins gott að hundinum lyndi við fjölskylduna. „Við fjölskyldan stundum talsverða útivist bæði vetur og sumar, förum í gönguferðir og útilegur og Skuggi fylgir okkur auðvitað í allar slíkar ferðir. Hann fer létt með það.”

Torfi og Skuggi eru nýbúnir að ljúka síðara veiðiþjálfunarnámskeiðinu sem eigendum sækjandi veiðihunda býðst á vegum Hundaræktarfélags Íslands. „Þessu námskeiði lauk með prófi um daginn og Skuggi er núna útskrifaður sem veiðihundur þó margt sé ennþá ólært. Það kemur með stöðugri þjálfun og aukinni veiðireynslu.”

Frá því á vorin og fram eftir sumri stendur Hundaræktarfélagið fyrir veiðiprófum fyrir sækjandi veiðihunda þar sem keppt er í þremur styrkleikaflokkum, byrjendaflokki, opnum flokki og úrvalsflokki. Þetta hefur gefið mörgum aukið tækifæri og metnað til að viðhalda þjálfun hunda sinna og fá árangurinn metinn til einkunnar. Torfi kveðst stefna á þátttöku með Skugga í fyrsta veiðiprófinu í sumar en ýmislegt þurfi að snurfusa og laga áður en þeir félagarnir eru tilbúnir í þann slag.

Fjölbreytt þjálfun

Ekki var þó annað að sjá en Skuggi væri búinn að læra öll undirstöðuatriðin þegar þeir Torfi féllust á að hitta mig til myndatöku í Heiðmörkinni á dögunum. „Hann þarf að þekkja og hlýða nokkrum skipunum alveg skilyrðislaust. Hlýðniþjálfun er forsenda þess að veiðiþjálfunin geti hafist. Hann þarf að koma þegar kallað er á hann, standa og sitja kyrr og ganga við hæl eigandans. Veiðiþjálfunin gengur í sem stærstum dráttum útá að kenna honum að leita uppi, staðsetja og sækja bráðina. Við æfingarnar er notuð svokölluð gerfibráð, (dummies) sem eru þessar appelsínugulu rúllur sem sjást á myndunum. Hann þarf einnig að þekkja og hlýða bendingum til hægri og vinstri og áfram og afturábak, en það er kölluð stýrivinna þegar svo ber undir að veiðimaðurinn veit nákvæmlega hvar bráðin liggur og vill koma hundinum umsvifalaust að henni. Við þessa þjálfun er hundaflautan ómissandi þar sem ekki er alltaf hægt að beita röddinni vegna fjarlægðar við hundinn eða hróp og köll myndu fæla væntanlega bráð í burtu.“

Torfi segir að þjálfun hundsins sé ekki síður skemmtileg en veiðarnar sjálfar, þannig skapist nánari tengsl milli hunds og manns og svo sé líka ágætan félagsskap að hafa af öðrum veiðihundaeigendum þar sem þeir hittist gjarnan við þjálfunina og beri saman bækur sínar þess á milli. Hann tekur að lokum heilshugar undir kjörorð þeirra sem kynnst hafa veiðum með hundum: Engar veiðar án hunds.

Torfi Fjalar Jónasson ásamt labradorsæknum Skugga.

Torfi er óspar á hrósið þegar Skuggi færir honum fenginn.Þetta vefsvæði byggir á Eplica