05. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Fögur fyrirheit í heilbrigðismálum - um pólitík á kosningavori

„Það er til skammar hvernig geðheilbrigðisþjónusta fyrir ungt fólk er á Íslandi, það er til skammar hvernig öldruðum er sinnt og það er til skammar hvernig farið hefur verið með Landspítalann þar sem aðbúnaður sjúklinga og starfsfólks er fyrir neðan allar hellur,“ sagði Ragnar Daníelssen hjartalæknir er hann steig í pontu á fundi sem Læknafélag Reykjavíkur og Félag kvenna í læknastétt efndu til með frambjóðendum allra flokka fimmtudagskvöldið 26. apríl til viðræðna um heilbrigðis- og jafnréttismál. Fleiri úr hópi lækna tóku í sama streng og lýstu niðurlægjandi aðstæðum og sífellt auknum kröfum sem heilbrigðisstarfsfólk reyndi að bregðast við með því einfaldlega að „hlaupa hraðar,“ einsog Hlynur Níels Grímsson krabbameinslæknir komst að orði.

Fyrir svörum sátu Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra fyrir Framsóknarflokkinn, Margrét Sverrisdóttir fyrir Íslandshreyfinguna, Magnús Þór Hafsteinsson fyrir frjálslynda flokkinn, Ásta R. Jóhannesdóttir fyrir Samfylkinguna, Álfheiður Ingadóttir fyrir Vinstri hreyfinguna grænt framboð, Pétur Blöndal og Ásta Möller fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Heilbrigðismálin hafa kannski ekki verið efst á blaði í umræðum í aðdraganda kosninganna þó sumir flokkar hafi viljað halda því fram að þessar kosningar snúist um velferðarmál og hvert þjóðin stefni í því efni. Vissulega hafa orðið breytingar á heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum, og sýnist þar sitt hverjum um hvort þær hafi orðið til hins betra eða verra. Stefnuyfirlýsingar flokkanna í heilbrigðismálum bera sannarlega góðum hug vitni og úr þeim má auðvitað lesa að allir vilja öllum vel og að heilbrigði þjóðarinnar skuli tryggt sem best en hvernig ná skuli þeim markmiðum er tekist á um. Allir eru flokkarnir sammála um að heilbrigðisþjónustan eigi að standa öllum til boða, óháð félagslegri stöðu eða efnahag. Hvernig þeim jöfnuði skuli náð eru skoðanir hinsvegar skiptar. Segja má að meginmunurinn í áherslum flokkanna felist í þvi hversu stórum hlut þeir telji að hið opinbera eigi að sinna við rekstur og umsjón þjónustunnar. Þá leggja flokkarnir mismunandi áherslur á vægi einkareksturs í heilbrigðisþjónustunni sem og hvort eða hversu stóran kostnaðarhlut sjúklingar eigi að bera sjálfir.

Best í heimi

Í máli Sivjar Friðleifsdóttur kom m.a. fram hún kvaðst telja heilbrigðisþjónustuna á Íslandi með því besta sem gerist. „Og þá er sama eftir hvaða mælikvarða er farið. Ekkert annað Norðurlandanna ver meiri fjármunum til heilbrigðisþjónustu en Ísland ef miðað er við verga landsframleiðslu. Þjónustugjöld er einnig afar lág, um 17%, og er með því lægsta sem gerist í OECD löndunum. Við höfum ekki viljað styðja hugmyndir um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar en við styðjum hugmyndir um einkarekstur á ákveðnum sviðum þar sem það á við.“ Siv nefndi einnig sérstaklega að biðlistar hefðu verið að styttast á undanförnum vikum og í öðrum tilvikum stæðu þeir í stað. Þetta væri jákvætt merki um að þjónustan væri eflast. Siv sagði ennfremur að ákveðnir biðlistar væru „falskir“ þar sem fólk setti sig á biðlista eftir sjúkrarýmum en vildi og gæti í rauninni verið heima ef sveitarfélögin stæðu sig betur í hlutverki sínu gagnvart skjólstæðingum sínum.

Félagslegur jöfnuður

„Íslenska heilbrigðisþjónustan er mjög góð. Hún er bara því miður ekki fyrir alla. Það er ekki sæmandi þjóð sem býr við annað eins ríkidæmi að við skulum útiloka heilu þjóðfélagshópana frá góðri þjónustu,“ sagði Álfheiður Ingadóttir frambjóðandi Vinstri grænna og nefndi bæði ungt fólk með geðsjúkdóma og aldraða til stuðnings máli sínu. Hún bætti því við að það væri heldur ekki sæmandi að reistir væru fjárhagslegir þröskuldar í heilbrigðisþjónustunni sem þeir sem minnst hefðu á milli handanna kæmust ekki yfir.

Álfheiður sagði stefnu Vinstri grænna kristallast í jafnaðarhugsjóninni, að allir ættu jafnan rétt til þjónustunnar. „Félagslegur jöfnuður er okkar grundvallarstefna og allir Íslendingar þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda einhvern tíma á lífsleiðinni.Við eigum að borga fyrir heilbrigðisþjónustuna á meðan við erum heilbrigð. Við eigum ekki að bíða eftir því að vera orðin veik og komin inn á gang á sjúkrahúsi og eiga þá að draga upp budduna. Við viljum samtryggingu í þessu kerfi. Ekki má gleymast að launakjör í umönnunarstéttum eru með hætti að ekki fæst fólk til starfa. Það þarf að endurreisa virðinguna í samfélaginu fyrir starfsfólkinu, börnunum, sjúklingnum, gamla fólkinu, fötluðum, geðsjúkum og það gerist ekki í einu vetfangi en það þarf að gerast. Við viljum ekki sjá tvöfalt kerfi og einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Vissa okkar er sú að það sé mögulegt að byggja upp góða samfélagsþjónustu og það þurfi ekki endilega hagnaðarvonina til að menn skili góðri vinnu.“

Markaðslausnir þar sem þær eiga við

„Við erum hlynnt markaðslausnum í heilbrigðiskerfinu þar sem hægt er að koma því við. Leitum fleiri slíkra lausna þar sem það getur gefist vel,“ sagði Margrét Sverrisdóttir frambjóðandi Íslandshreyfingarinnar. „Stóra spurningin varðandi framtíð heilbrigðismála er hvernig á að fjármagna þjónustuna.“ Margrét hampaði síðan nýju merki hreyfingar sinnar og vitnaði í stefnuyfirlýsingu flokksins en þar segir m.a.: Endurskoða almannatryggingakerfið í heild með það að markmiði að það verði einfaldara og skilvirkara. Hið opinbera sjái um rekstur heilbrigðisþjónustu en nýta ber kosti einkaframtaksins þar sem því verður við komið. Gjaldfrjálsa þjónustu fyrir börn, öryrkja og aldraða á heilsugæslustöðvar, til sérfræðinga og á göngudeildir. Tann- og augnlæknisþjónusta verði sjúkratryggð stefna að því að ráðuneyti heilbrigðis og félagsmála verði sameinuð í velferðarráðuneyti.

Áhersla á velferðarmál

„Samfylkingin leggur áherslu á velferðarmálin í þessum komandi kosningum og það er tveir hópar sem eru sérstaklega í sviðsljósinu hjá okkur,“ sagði Ásta R. Jóhannesdóttir. „Annar hópurinn eru börnin en við teljum að ríkistjórnin hafi ekki staðið nægilega vel að þjónustu við born. Hin hópurinn eru aldraðir. Þar erum við mjög ákveðnar tillögur sem snerta heilbrigðismálin. Við teljum ekki boðlegt að bjóða fólki sem er hjúkrunarþurfi að bíða eftir þjónustunni. Við teljum að heilbrigðiskerfið á Íslandi eigi alltaf að vera í fremstu röð og standa öllum jafnt til boða. Þarfir sjúklinganna eiga ávallt að vera í fyrirrúmi en ekki stofnana eða stétta. Gott aðgengi, gæði, öryggi og hagkvæmni eru kjörorð okkar um heilbrigðisþjónustuna,“ sagði Ásta Ragnheiður og vitnaði þar beint í ályktun landsfundar Samfylkingarinnar.

Hún vitnaði síðan í erindi Önnu Lilju Gunnarsdóttur framkvæmdastjóra fjárreiðna Landspítala frá ársfundi spítalans fyrr um daginn og kvað tímabært að endurskoða leiðir til fjármögnunar starfsemi spítalans en hann hefði verið rekinn fyrir sömu fjárhæð miðað við fast verðlag undanfarin sjö ár. „Við teljum tímabært að heilbrigðisstofnanir fái fjármuni í samræmi við þörf og fjölda verka sem þar eru unnin. Við viljum auka vægi útboða og þjónustusamninga þar sem það á við en það þarf alltaf að tryggja að aðgengi að þjónustunni sé óháð efnahag sjúklinganna. Það þarf líka að auka valfrelsi í þjónustunni og leggja ríkari áherslu á endurhæfingu.“

Ásta sagði það meira en lítið undarlegt að biðlistar sjúklinga eftir ýmiss konar þjónustu í tíð Framsóknarflokksins minnkuðu ekki fyrr en „korteri fyrir kosningar“ þó Framsókn hefði haft tólf ár í ríkisstjórn til að bæta úr þessu.

 

Fjöbreyttari rekstrarform

„Mér finnst nú bara fínt ef biðlistarnir eru að minnka rétt fyrir kosningar,“ sagði Ásta Möller þingmaður Sjálfstæðisflokksins. „Grunnurinn að góðri samfélagsþjónustu er gott efnahagslíf og uppgangur undafarin ár hefur tryggt okkur gott heilbrigðiskerfi. Við erum stolt af heilbrigðiskerfinu okkar og fólkinu sem starfar innan þess. Á undanförnum árum höfum við lagt mikla fjármuni til heilbrigðismála,“ sagði Ásta og nefndi ýmsar tölur máli sínu til stuðnings. „Við getum hins vegar spurt okkur hvort við séum að nýta peningana nægilega vel og við þurfum að staldra við og spyrja hvort við séum með réttar áherslur, hvort þjónustan sé á of háu stigi. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var mjög ítarleg og góð umræða um heilbrigðismálin og þar var áréttað að við viljum viðhalda almannatryggingakerfinu og að heilbrigðisþjónustan sé að mestu fjármögnuð af opinberu fé. Við viljum leggja meiri áherslu á fjölbreyttari rekstrarform og fara meira í samstarf við einkaaðila en þar sem það hefur verið gert hefur það tekist mjög vel. Við erum að vannýta okkar góða fagfólk og gætum gert miklu betur með því að leggja reksturinn í hendur þeirra líka. Við viljum auka aðgengi fólks að upplýsingum varðandi heilbrigðisþjónustuna, við viljum setja reglur um hámarksbið eftir þjónustunni og við styðjum áframhaldandi uppbyggingu Landspítalann í það þjóðarsjúkrahús sem því ber að vera.“

 

Mannfjöldaspár þarf að endurskoða

„Ég hef ekki skipt mér mikið af heilbrigðismálum þau fjögur ár sem ég hef setið á þingi,“ sagði Magnús Þór Hafsteinsson þingmaður Frjálslyndra og bætti því við að hann skammaðist sín ekkert fyrir það. „Maður getur ekki verið góður í öllu.“

„Flest okkar í stjórnmálunum erum í rauninni með svipaðar áherslur í velferðarmálum. Grundvallaratriði er að allir landsmenn hafi jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag. Við viljum efla heilsugæsluna sem grunnþátt heilbrigðisþjónustunnar, við viljum bæta aðgengi almennings að þjónustunni utan dagvinnutíma og að gjaldtöku sé ætíð haldið í lágmarki. Við viljum endurskoða innheimtu þjónustugjalda en við teljum greiðsluþáttaka sjúklinga hafi aukist. Við viljum nýta kosti einkaframtaksins og auka útboð og þjónustusamninga og miða greiðslur við veitta þjónustu og tryggja eftirlit með gæðum þjónustunnar. Við viljum auka þjónustu við aldraða og höfum lagt til að tekin verði í notkun 1000 ný rými fyrir aldraða á næstu 4-6 árum. Það þarf að eyða fjölbýlum á öldrunarstofnunum og eyða biðlistum. Við þurfum að undirbúa okkur fyrir þá stóru árganga aldraðra sem eru að koma upp á næstu árum. Við viljum koma á kerfi umönnunarbóta fyrir aðstandendur aldraðra sem vilja hugsa um þá í heimahúsum.“

Magnús sagði ennfremur nauðsynlegt að taka þá umræðu að allar mannfjöldaspár hagstofunnar til næstu áratuga yrði að endurskoða með tilliti til þess stóra fjölda innflytjenda sem streymt hefði til landsins á undanförnum árum. „Er íslenska heilbrigðiskerfið tilbúið til að taka á móti þessu fólki?“ spurði Magnús.

Álfheiður Ingadóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir hlýða á Sif Friðleifsdóttur mæra heilbrigðiskerfið.

u02-fig2

Fundarstjórinn Sigurður Böðvarsson skipti tímanum bróðurlega á milli frambjóðendanna. F.v: Margrét Sverrisdóttir, Ásta Möller, Pétur Blöndal, Magnús Þór Hafsteinsson, Álfheiður Ingadóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Siv Friðleifsdóttir.

Fundarmenn létu ekki sitt eftir liggja og lýstu skoðunum sínum á heilbrigðiskerfinu umbúðalaust.

Pétri Blöndal þykir ýmislegt við opinberan rekstur á heilbrigðiskerfinu spaugilegt.Þetta vefsvæði byggir á Eplica