01. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Frétt frá stjórn Fjölskyldu- og styrktarsjóðs lækna

Á fundi stjórnar sjóðsins þann 6. desember sl. voru samþykktar nokkrar breytingar á reglum sjóðsins. Þær helstu eru:

1. Nafni sjóðsins var breytt til samræmis við nýjan kjarasamning sem gerður var á árinu 2006. Þá var í fyrsta sinn gerður samningur sem nær til bæði sjúkrahúslækna og heilsugæslulækna. Nokkrar lagfæringar eru gerðar vegna tilvitnana í nýjan samning.

2. Reglur sjóðsins hafa skv. 3. tl. 1. mgr. 3. gr. náð til lækna hverra launagreiðendur greiða iðgjöld til sjóðsins. Sú heimild hefur verið túlkuð þannig að sjálfstætt starfandi læknar geta átt aðild að sjóðnum ef þeir greiða sjálfir iðgjald launagreiðanda. Þessi heimild er áréttuð sérstaklega með nýrri 2. mgr. í 1. gr. þar sem segir berum orðum að reglurnar taki til sjálfstætt starfandi lækna sem hafa greitt iðgjald til sjóðsins. Í 5. gr., b. lið, er komið sérstakt ákvæði um hvernig iðgjald sjálfstætt starfandi lækna reiknast. Eins og fram kemur í 3. tl. 1. mgr. 3. gr. kemur fram að sjálfstætt starfandi læknar þurfa að sækja um aðild. Þær umsóknir berist skrifstofu félagsins. Iðgjald verður innheimt sérstaklega af skrifstofu félagsins.

3. Í 3. tl. 2. gr. er tekið fram sérstaklega að fæðingarstyrkur sé miðaður við að hann sé ætlaður til að mæta auknum kostnaði fjölskyldu vegna fæðingar barns. Þess vegna er ekki hróflað við því ákvæði að fjárhæð fæðingarstyrks breytist ekki þótt báðir foreldrar séu sjóðfélagar.

4. Í 4. tl. 2. gr. er komið nýtt ákvæði sem kveður á um að sjóðfélagar sem taka foreldraorlof skv. I. og VII. kafla laga nr. 95/2000 (heimildin er til 13 vikna fram að 8 ára aldri barns) fá styrk sem nemur 80% af þeim dagvinnulaunum sem niður falla hjá vinnuveitanda þann tíma sem foreldraorlof varir. Þessi styrkur er bundinn við foreldri þannig að ef báðir foreldrar eru sjóðfélagar eiga þeir báðir þennan rétt.

5. Í 5. tl. 2. gr. er komið nýtt ákvæði um útfararstyrki.

6. Í 1. tl. 1. mgr. 8. gr. er kveðið á um hvaða gögn þurfi að fylgja umsóknum vegna nýrra styrkmöguleika.

7. Í 2. tl. 1. mgr. 8. gr. kemur nýtt viðmið vegna dagpeningagreiðslna. Í stað fastrar fjárhæðar fyrir hvern virkan dag er nú komið viðmið sem nemur 80% af meðalmánaðarlaunum (heildarlaun, dagvinna + yfirvinnugreiðslur/vaktagreiðslur ofl.).

Athuga ber að í reglum þeim sem birtar eru með frétt þessari á eftir að uppfæra fjárhæðir þar sem það á við í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs, sbr. 2. mgr.8. gr.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica