12. tbl 92. árg. 2006

Umræða og fréttir

Leikin fræðslumynd um heilabilun

Hugarhvarf lífið heldur áfram með heilabilun

Fyrr á árinu var gefin út á mynddiski fræðslumyndin Hugarhvarf - lífið heldur áfram með heilabilun. Höfundar handrits myndarinnar eru þær Berglind Magnúsdóttir sálfræðingur á öldrunarsviði Landspítala, Guðrún Hildur Ragnarsdóttir hjúkrunarfræðingur og kennslustjóri sjúkraliðaskóla heilbrigðisskóla FÁ og Þórunn Bára Björnsdóttir sjúkraþjálfari á öldrunarsviði Landspítala.

Leikarar í myndinni eru Kristbjörg Kjeld og Gísli Alfreðsson, leikstjóri Lárus Ýmir Óskarsson, kvikmyndatöku önnuðust Friðþjófur Helgason og Jón Karl Helgason og framleiðandi er Kvik. Myndin er 55 mínútur að lengd og fjöldi fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka styrkti gerð hennar og gáfu allir vinnu sína sem komu að gerð myndarinnar.

Í kynningu með myndinni segir að fræðsla til ættingja og umönnunaraðila sé mikilvæg til að þess að viðhalda lífsgæðum þeirra sem greinast með heilabilun. „Aukin þekking minnkar fordóma og eykur hæfni fólks til þess að sinna heilabiluðum. Myndin er ætluð bæði leikum og lærðum til að auka skilning á umönnun heilabilaðra, styrkja þá og gefa hugmynd um góð og árangursrík samskipti við ástvin sinn eða skjólstæðing.“

Pálmi V. Jónsson sviðstjóri lækninga á öldrunardeild Landspítala segir meðal annars um myndina: „Myndin er í senn raunsönn, fagleg og listræn. Hún sýnir glögglega að bæði sjúklingar og aðstandendur geta sótt margvíslegan stuðning en hún höfðar einnig til starfsfólks. Myndin getur hjálpað starfsfólki að leiðrétta fyrirfram gefnar hugmyndir og gefur ýmis ráð um það hvernig best er að vinna með sjúklingum svo að báðum líði vel. Allir þeir sem hafa unnið að gerð þessarar myndar eiga þakkir skildar fyrir frábært framlag.”



Þetta vefsvæði byggir á Eplica